+Þorkell Gunnar Guðmundsson 1934-2021

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

Þorkell Gunnar Guðmundsson

1934-2021

Húsgagnahönnuður

Útför/bálför frá Fossvogskirkju

fimmtudaginn 5. ágúst 2021 kl. 15

[Kveðjur sem bárust eru ekki á hljóðupptökunni heldur neðst í textanum. Þær voru lesnar eftir belssunarorðin í lok athafnar.]

Sálmaskrá með myndum er neðst í færslunni.

HVAR ríkir fegurðin ein? Hvar er fullkomið réttlæti að finna, fullkominn sannleika? Hvaðan höfum við hugmyndir okkar um að eitthvað sé til sem er fullkomið?

Allar slíkar hugmyndir koma úr handanverunni, úr transcendensinum. Þannig rökræddi heimspekingurinn Platón sem lifði á 4. og 5. öld f. Krist. Frummyndakenning hans er alkunn.

Er til fullkomið húsgagn, fullkominn stóll?

Já, í handanverunni!

Og hlutverk listamanna er að skynja það í sálu sinni og íhuga það sem býr í handanverunni og færa það niður á hið jarðneska plan. Öll hönnunarvinna, allt starf listamanna, karla og kvenna, er í raun leitin að hinu fullkomna – réttu formi, réttum tóni. Listsköpun er í raun andleg iðja – trúarleg!

Mér kom þetta í hug þegar ég var beðinn um að jarðsyngja Þorkel Gunnar Guðmundsson. Hann var listmaður af lífi og sál og leitaði stöðugt að nýjum útfærslum í hönnum sinni og listsköpun.

Lífið er list. Það er list að vera smiður, leika á hljóðfæri, syngja, semja skáldverk, ræður, minningarorð, elda mat.

Lífið er list. Við erum kölluð til að leita leiða í lífinu, lifa því út frá æðri gildum og viðmiðum. Og leitin byrjar í handanverunni, í himninum. Páll postuli orðar þessi tengs svohljóðandi:

„En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.“ (Fil 3.20-21)

Hér vísar postulinn til upprisunnar, til eilífðarinnar þar sem Kristur ríkir.

Við söfnumst hér saman til að kveðja látinn ástvin sem er horfinn af þessari jarðvist á vit handanverunnar, þar sem lífið á sinn uppruna, mark og mið.

Þorkell Gunnar Guðmundsson fæddist 20. júni 1934 á Valdastöðum í Kjós . Hann lést 20. júlí 2021 á dvalarheimilinu Sóltúni 2, Reykjavík.

Foreldrar hans voru Guðmundur Þorkelsson, bóndi og verkamaður frá Valdastöðum í Kjós, f. 1909, d. 1969, og Guðrún Ágústa Halldórsdóttir, verkstjóri hjá Föt hf, úr Reykjavík, f. 1914, d. 1991. Systkini Þorkels eru: Aðalheiður fóstra, f. 1936, Arndís bókasafnsfræðingur, f. 1938, og Halldór stjórnarformaður, f. 1945, d. 2018.

Þorkell giftist Margréti Jónínu Guðmundsdóttur, innanhússarkitekt, f. 1936, þau skildu. Börn þeirra eru:

1) Ingveldur, sjúkraliði, f. 20. júní 1953. Maki, Gunnar Þorsteinsson, f. 1950, d. 2018. Barnsfaðir, Garðar Páll Brandsson, f. 1953, d. 1984. Dóttir Ingveldar ættleidd af Gunnari er Elva Dögg, f.1973. Maki hennar er Vagn Leví Sigurðsson, f.1974.

2) Rúna (Guðrún Ágústa), myndlistarmaður, f. 8. Júní 1954. Fyrrum maki og barnsfaðir, Hörður Sigurðarson, f. 1954. Sonur þeirra er Reynir, f. 1973. Maki hans er Þórhildur Ýr Valsdóttir, f. 1974. Seinni maki Rúnu er Kees Visser, f. 1948. Þau skildu.

3) Guðmundur Þorkelsson, kennari, f. 17. desember 1961, f. maki og barnsmóðir Guðrún S. Sigurðardóttir, f. 1962. Dætur þeirra eru Margrét Lára, f.1984. Elísabet María, f.1988. Fyrir átti Guðmundur soninn Sigurð Magnús, f.1982.

4) Sigurður Hrafn Þorkelsson, grafískur hönnuður, f. 23. nóvember 1967, f. maki og barnsmóðir, Kristín Helgadóttir, f. 1976. Börn þeirra eru Birta Eir, f.1999. Helgi hrafn, f. 2005. Gísli Freyr, f. 2007. Fyrir átti Sigurður börnin, Þorkel Örn, f. 1989. Svan, f.1992. Karen Ósk, f.1992.

Þorkell Gunnar hefur einnig eignast 12 langafabörn og tvö langalangafabörn.

Þorkell hóf langan feril sinn í húsgagnahönnun með prófi í húsgagnasmíði árið 1955, frá Iðnskólanum í Reykjavík. Árið 1957 fór Þorkell til Danmerkur og lauk námi frá Listiðnaðarskólanum í Kaupmannahöfn (Danmarks Designskole) árið 1960 í Innanhússarkitektúr. Á árunum 1960 – 1963 sótti Þorkell einnig námskeið í Höggmyndadeild undir leiðsögn Ásmundar Sveinssonar, við Myndlistaskólann í Reykjavík. Eftir 7 ára starf hjá Húsameistara Reykjavíkurborgar opnaði Þorkell eigin teikni- og hönnunarstofu árið 1967.

Þorkell hannaði fjölda húsgagna á teiknistofu sinni. Hans þekktustu verk eru SPIRA svefnbekkurinn sem var framleiddur í 20 ár og STUÐLA skilrúm sem var í framleiðslu í 17 ár. Þessa hluti má enn sjá í híbýlum fólks í dag.

Þorkell lauk prófi í uppeldis og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1986. Hann á að baki langan og farsælan feril sem kennari við Iðnskólann í Hafnarfirði og stuðlaði að stofnun Hönnunarbrautar á vegum skólans með það fyrir augum að undirbúa nemendur sem best fyrir umsóknir í viðurkennt hönnunarnám.

Ég spurði börnin hans: Hver var hann Þorkell? Hvað einkenndi persónu hans? Svörin létu ekki á sér standa.

Í honum var engin meðalmennska. Hann var skapmikill, elskaður og dáður af mörgum. Hann var í senn strangur og blíður sem faðir. Í honum var allt stórt og mikið. Hann gat svifið hátt í gleði sinni og orðið ógnar reiður ef svo bar undir. Hann var einskonar Zorba-týpa, sögðu þau, gat sungið og dansað af gleði en svo snúið við blaðinu. Hann var elskaður af nemendum sínum, og oft boðið í partý með þeim, þótt áratugir í aldri greindu hann frá þeim. Hann var bóhem, vinur vina sinna, fjölskyldumaður með ríkar tilfinningar, sem ræktaði tengslin við frændfólk og vini. Hann hafði gaman af að ögra og átti það til að skjóta á fólk til að kanna viðbrögð og koma lífi í samtölin. Hann var góður kokkur, las mikið fram á síðasta dag. Hann unni ljóðlist, hafði meðal annarra dálæti á Jónasi Hallgrímssyni og Tómasi Guðmundssyni svo dæmi séu tekin.

Hann var góður handverksmaður, listfengur á margan hátt og eftir hann liggja fögur húsgögn og margskonar listmunir úr ýmsu efni. Hann naut þess að komast út í náttúruna, átti land í Borgarfirði og þangað fór hann oft bara til að anda að sér gróðurilmi og íhuga fegurð lands og lofts.

Jónas Hallgrímsson var stórbrotið skáld og hafði næmt auga fyrir náttúrunni enda náttúrufræðingur að mennt, raunvísindamaður, en svo var hann líka trúmaður og skynjaði hið stóra samhengi alls sem er. Hann þýddi m.a. ljóðið Lofsöngur eftir norska skáldið Claus Frimann. Þar segir hann í 3. versi:

Líti’ eg liljum skrýdda jörð,

skoði eg skóg og strönd, skoði’ eg dali og fjöllin,

skoði’ eg bugðubreyttan fjörð,

breiðar elfur og vatnsbunuföllin,

skoði’ eg skepnufjöld ótal

allf frá þeim ormi sem undir duftinu skríður,

yfir féð í fögrum dal

fjær til himins þar beinfleyg örn líður.

:,: Þú ert mikill! hrópa eg hátt.

Heimsins guð! eg sé þinn mátt!

Lofið, himnar, haf og jörð,

hann hvurs mætti þið af eruð gjörð. :,:

(Svart á hvítu 1989, I Ljóð og lausamál s. 37)

Börnin minntust á að samband Þorkels og systkina hans hafi verið fagurt og gott en þau bjuggu um tíma öll við sömu götu, í Hrauntungunni í Kópavogi.

Og nú er hann horfinn af þessu jarðlífi.

Í ljóðinu um Anadyomene sem er samheiti gyðjunnar Venusar sem reis úr sæ segir Tómas Guðmundsson, er hann sá fagra konu stíga upp úr sjónum á suðrænni strönd:

Og það er á slíkum stundum, að maður getur gert sér
eins grein fyrir því og vert er,
að kynslóð vor hin eina kynslóð er,
sem nýtur þeirrar hamingju að hafa ekki dáið.
Svo hjartanlega náið
er lífið okkur enn, sem betur fer.

Og síðan er ég þakklátur fyrir að vera fæddur.

Ég finn hve raunanæddur

ég annars væri, ó, það millibil!

Og ekki get ég hugsað mér, hvernig lífið væri,

né hvernig um mig færi,

ef hvorugt okkar hefði verið til.

En þó að sólin ljómi og leiftri á þúsund bárum

að liðnum þúsund árum,

og önnur kynslóð komi hér um síð,

þá skiptir það mig engu og ánægður þá sef ég,

fyrst einu sinn hef ég

að minnsta kosti fæðzt í tæka tíð.

(Anadyomene, Stjörnur vorsins, 3., 4. og 5. erindi)

Tómas var gott skáld og góður húmoristi og í þessu ljóði gleðst hann yfir því að vera lifandi og tilheyra einu kynslóð veraldarsögunnar sem ekki var dáin. Og við sem nú lifum tilheyrum nú einu kynslóð veraldarsögunnar sem ekki er dáin. Allar aðrar kynslóðir í milljóna ára sögu heimsins eru horfnar, allar nema okkar kynslóð!

Og er þá ekki ástæða til að gleðjast og þakka?

Jú, við þökkum fyrir líf Þorkels Gunnars Guðmundssonar og kveðjum hann með virðingu og þökk og höldum svo út í sumarið í von og trú á, að ofar öllu, handan alls sé að finna hið fullkomna, eða eins og Nóbelsskáldið ritaði í verki sínu Sjálfstætt fólk:

„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“

(HKL, Sjálfstætt fólk)

Guð blessi minningu Þorkels Gunnars Guðmundssonar og Guð varðveiti okkur öll á lífsins vegi. Amen.

– – –

Kveðjur fluttar milli blessunarorða og eftirspils.

-Frá bróðursonum Þorkels, þeim Kristni Ágústi og Arnaldi Halldórssonum, sem eru við störf úti á landi. Þeir þakka frænda fyrir allt gott og segja að hann hafi verið algjör „snillingur“ til hugar og handa.

-Frá Kees Visser (Keis Fisser) fyrrverandi tengdasyni Þorkels, frá Hollandi

-Frá starfsfólki Hönnunarsafns Íslands: þeim Sigríði, Ingu og Þóru.

-Frá Jan og Hettí úr Bookie Wookie (Búkí Vúkí) í Amsterdam.

Þá vill fjölskylda Þorkels færa starfsfólks á hjúkrunarheimilinu Sóltúni alúðarþakkir fyrir umönnun hans og elskusemi alla.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.