Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju

Örn Bárður Jónsson

23. október 2020

Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju

Nú berast þær fréttir til almennings að nokkrir þingmenn standi saman að þingslyktunartillögu um aðskilnað ríkis og kirkju. Sjá nánar hér: https://www.althingi.is/altext/150/s/0128.html

Sagan

Árið 1907 gekkst biskup Íslands fyrir því að ná samningi við íslenska ríkið um að það tæki yfir nær allar jarðeignir kirkjunnar til forvöltunar sem merkir að ríkið skyldi reka þær og ávaxta. Gegn þeirri afhendingu var það tilskilið að ríkið greiddi tilteknum fjölda presta laun, sem kirkjan hafði til þess tíma séð um sjálf, en í reynd lifðu flestir prestar á þeim tíma af búskap á prestsetursjörðum. Biskup var orðinn þreyttur á því að standa í rekstri jarða og umsýslu eigna. Í 90 ár var þessi samningur í gildi, árin 1907-1997.

Ríkið, sem átti að gæta eignanna, var eins og aðrar veraldlegir aðilar, markað syndinni eða óflullkomleikanum. Vert er að minna á að orðið synd í Nýja testamentinu, hamartia, merkir geigun eða það að missa marks, ná t.d. ekki að uppfylla það sem er siðlegt og rétt. Menn brenna af í vítaspyrnu í fótbolta, hjón rífast, börn eru óhlýðin og allir klúðra lífi sínu á einn eða annan hátt.

Synd ríkisins er m.a. sú að einstaka ráðherrar og þingmenn stunduðu það um áratugaskeið að selja eignir úr eignasafni kirkjunnar til vina sinna, eignir sem ríkið var með í rekstri og gæslu en kirkjan átti. Bæjarfélag nokkurt á höfuðborgarsvæðinu fékk t.d. stóra landspildu keypta fyrir einn tíunda af matsverði fyrir 25 árum eða svo. Vinir ráðherra, hafa fengið glæsilegar jarðir með ám, laxveiði og fleiri hlunnindum, keyptar fyrir lítið. Dæmin eru mýmörg. Þetta heitir spilling og þjófnaður á máli siðara manna.

Árið 1997 var gerður nýr samningur milli ríkis og kirkju sem gekk í meginatriðum út á að eignasafn kirkjunnar sem ríkið hafði forvaltað í 90 ár varð að eign ríkisins og öll þjófa- og vanrækslumál látin kyrr liggja, syndirnar fyrirgefnar. Vandasamt reyndist að rekja allt braskið sem ríkið hafði staðið í. Ríkið tók þar með að sér árið 1997 að greiða laun 138 presta laun sín, þriggja biskupa, laun 18 starfsmanna Biskupsstofu og svo innheimti ríkið sóknargjöld fyrir kirkjuna eins og fyrir öll önnur, skráð og lögleg trúfélög. Þessum samningi hefur verið breytt á liðnum árum vegna þess að ríkið hefur ekki viljað standa við samkomulagið. Svona er pólitíkin.

Ég gagnrýndi þessar fyrirætlanir í eyru samningamanna kirkjunnar á sínum tíma (1997) og sagði að glapærði væri að afhenda ríkinu “gullfót” kirkjunnar í staðinn fyrir pappírssnifsi. Pólitíkusar koma og fara og sumir þeirra vita lítið sem ekkert um sögu og menningu. Nú hefur komið á daginn að ríkið hefur ítrekað á liðnum árum kroppað í samninginn og svikið hann á margan hátt.

Annað meginatriði samningsins er sóknargjöldin sem ríkið innheimtir fyrir öll skráð trúfélög í landinu og er óháð eignasafni kirkjunnar. Sóknargjöld til trúfélaga standa straum af kostnaði við rekstur helgihalds og félagsstarfs trúfélaga. Innan þjóðkirkjunnar eru það prestaköllin með eina sókn eða fleiri innan sinna marka sem mynda rekstrareiningarnar. Sóknargjöld verður ríkið að mínu mati að halda áfram að innheimta og með því tryggja jafnræði og möguleika trúfélaga til að komast af í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Nútíminn

Ég hef verið talsmaður þess að aðskilja ríki og kirkju og hafði þá afstöðu þegar ég sat í Stjórnlagaráði árið 2011 og við skrifuðum Þjóðkirkjuna út úr tillögunni um nýja stjórnarskrá. Því var hins vegar snúið við í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillöguna 2012 sem Alþingi hefur ekki enn haft döngun í sér til að taka til efnislegrar meðferðar enda þótt óskin hafi verið skýr: Tillögur Stjórnlagaráðs skyldu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá!

En hvað vil ég þá með því að tala um aðskilnað, sem þó varð í raun staðfestur með lögum árið 1997? Til dæmis má geta þess að sænska kirkjan var aðskilin ríkinu þar í landi með álíka skilmálum árið 2000 og telst nú vera frjálst trúfélag, óháð ríkinu. Sænska kirkjan á miklar eignir, jarðir og skóglendur, sem hún forvaltar eða rekur sjálf. Ég vildi árið 1997, árið 2012 og vil áfram að kirkjan verði óháð ríkinu eins og önnur trúfélög. En ég vil þá að Þjóðkirkjan krefjist þess að öllu eignasafninu frá 1907 verði skilað til baka í raun, hverrri einustu jörð, eða andviði jarðanna á réttmætu verði.

Eignarrétturinn

Kirkjan átti líklega um 45% allra jarðeigna landsins fyrir og um siðaskiptin þegar danakonungur tók yfir eignir kirkjunnar, einkum klaustranna. Jarðir klaustranna voru mörg hundruð að tölu sem urðu meginstofn jarðasafns konungs, kallaðar “þjóðjarðir”. Þessar jarðir voru ekki taldar með í eignasafni kirkjunnar árið 1907 en það sem eftir sat þá hjá kirkjunni í landinu er til í útreikningum og mér er sagt að fjöldi þeirra “hundraða” (en svo nefndist hin gamla mælieining á dýrleika jarða eða arðsemismöguleikum) sem eignasafnið taldi gæti verið nokkur hundruð milljarðar á núvirði í krónum talið, sé stuðst við mat Hagstofu Íslands í óskyldu dómsmáli sem nýlega var leitt til lykta.

Hvernig eignaðist kirkjan þessar eignir? Hún gerði það m.a. með því að annast fólk. Hún tók t.d. einstaklinga inn í klaustrin til umönnunar þegar fólk “settist í helgan stein”, flutti í steinhúsið, klaustrið, og fékk þar hjúkrun og líknarþjónstu til dauðadags. Þá voru engin sjúkrahús í landinu, engin elliheimili, engir skólar. Ríkið var ekki til á þeim tíma í nútímaskilningi, lítið miðstjórnarvald, og kirkjan annaðist mikilvæga þjónustu við íbúa landsins. Hvernig greiddi fólk fyrir þjónustu klaustranna, fyrir líknarþjónustuna? Í dag greiðum við til ríkisins með sköttum. Hjúkrun er ekki ókeypis, ekki læknisþjóusta og uppskurðir ekki heldur. Allt kostar þetta milljarða. En forðum daga greiddi fólk fyrir hjúkrun og líknarþjónustu, menntun ungmenna og uppeldi, með jarðarparti, því fá önnur verðmæti voru til í sjóðum einstaklinga. Þannig efnaðist kirkjan og varð í vissum skilningi “ríki í ríkinu”. En var það óeðlilegt?

Leyfið mér að taka dæmi úr nútímanum. Rauði krossinn er öflugt félag og alþjóðastofnun sem veltir stórum upphæðum ár hvert. Hvernig eru þau auðæfi fengin? Þau eru orðin til vegna tiltrúar almennings, hér á landi og um allan heim, sem hefur stutt þessi mikilvægu samtök til góðra verka. Getur ríkið slegið eign sinni á eigur Rauða krossins á Íslandi? Nei, vegna þess að eignarétturinn er heilagur. Kirkjan átti miklar eignir og hún afhenti ríkinu, þjófóttu ríkisvaldi, eignir sínar í góðri trú árið 1997. En stundum vaknar fólk upp við það að góð trú var ótrygg, tiltrú á spilltan veruleika.

Eingarrétturinn er svo skilgreindur í stjórnarskrá lýðveldisins, þeirri “dönsku”:

72. gr.

[Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.]

Í tillögu Stjórnlagaráð er hún svohljóðandi:

13. grein. Eignarréttur

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.

Kæru þingmenn, sem nú viljið aðskilnað ríkis og kirkju, þið segið í þingskjali ykkar:

“Skal samið um endanlegt uppgjör allra samninga þannig að því uppgjöri ljúki eigi síðar en árið 2034.”

Ég veit ekki hvort ég treysti mér til að trúa á slíkt fyrirheit í ljósi sögunnar og veikrar stöðu Alþingis sem mér þykir á stundum vera prinsipplaust og í algjörum hafvillum. Þá er ótalin viðvaningsleg stjórnsýsla landsins með flokksráðnu fólki í öllum helstu lykilstöðum.

Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju – en með fullkomnu réttlæti – með uppgjöri, sem tekur mið af skilningi á eignarrétti, menningu og sögu, þjónustu í samfélaginu, burðarvirki gyðing/kristinnar og grískrar menningar í samfélagi okkar, sem lagt hefur þjóðinni til mannskilning, túlkun á hinu stóra samhengi alls sem er – og er áfram reiðubúin til að þjóna þessari þjóð eins og hún hefur gert frá fyrstu tíð – þjóna öllum, án tillits til trúar eða skoðana.

Eina land veraldar

Og Nota Bene! Ísland er eina land veraldar sem alltaf hefur verið kristið. “Þú álfu vorrar yngsta land”, bæði jarðfræðilega og sem mannabyggð, hefur frá því fyrstu menn stigu hér á land, búið við kristinn vitnisburð. Fyrstu landnemar voru, eftir því sem sögur herma, írskir munkar og svo komu norrænir menn í kjölfarið, með kristna breta, íra, skota, kelta, um borð, karlþræla, ambáttir og ástkonur, á skipum með drekahöfuð í stafni, fólk sem að hluta til fylgdi átrúnaði, sem var á undanhaldi í álfunni, enda byggður að stórum hluta á hindurvitnum, andspænis trú, sem byggði á allt öðrum gildum og grunni og kunni meðal annars að skrifa og hugsa um veruleikann út frá gyðing/kristnum og grískri heimspeki sem hefur mótað vesturlönd s.l. 2500 ár eða svo og lagt grunnin að velferð Vesturlanda. Þessu vilja nokkrir þingmenn nú varpa fyrir róða í skammsýni sinni er þeir róa á mið kjósenda.

Nýjar rannsóknir byggðar á fornleifum sem fundist hafa á nýliðnum árum gefa allt aðra mynd af víkingum en þá sem söguskilningur okkar hefur haldið á lofti í rómantískri vímu.

Kristinn siður hefur mótað menningu okkar frá fyrstu tíð. Í heimi sem nú er á barmi upplausnar, ef marka má fréttir frá ýmsum löndum sem við viljum bera okkur saman við, er þörf fyrir heilsteyptan gildagrunn, sem ekki mun viðhaldast nema með sterkri kirkju sem er reiðubúin til að þjóna öllum á sama hátt og hún hefur gert um aldir með kærleiksboðskap Krists að leiðarljósi. Auðvitað er ég vilhallur í þessu máli og dreg taum kirkju og kristni enda trúi ég því að gildagrunnur kristinnar kirkju sé bæði þarfur og hollur þeim heimi sem við byggjum.

Ágætu þingmenn –

Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson,Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Guðjón S. Brjánsson –

ég geri mér grein fyrir hvað fyrir ykkur vakir með ályktuninni um aðskilnað, sem gerir ráð fyrir uppgjöri, en það verður þá að vera algjört, heiðarlegt og endanlegt, þar sem öllum steinum verður velt við, en ekki byggt á fordómum í garð kristni og kirkju og þar með Þjóðkirkjunnar, sem um þessar mundir býr við tímabundinn mótbyr. Skjótt kunna veður að skipast í lofti, eins og dæmin sanna. Mínar áhyggjur snúast helst um það að ríkið hafi hreinlega ekki efni á uppgjörinu, en þið eruð brött og teljið þetta geta gerst á 14 árum.

Kristur hafði aldrei upplifað aðra eins trú og hjá hinum heiðna hundraðshöfðingja sem til hans kom og bað hann lækna svein sinn. Jesús sagði við hann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“

Já, verði ykkur sem þið trúið.

Posted in Uncategorized | Tagged , , , , , , , , , | Leave a comment

Þankar um Bakþanka Davíðs en þó engir bakþankar

Til Davíðs Þorlákssonar vegna Bakþanka hans í Fréttablaðinu 21. október 2020 og samskipta við hann á Facebook í kjölfarið.

“Ákrot” heitir það í þínum pistli. Huggulegt orðaval. Já, þetta fólk “krotar” til að ná fram sínum málstað og setur kusk á hvítflibbann þinn.

Svo er sagt það hafi verið slæm hugmynd “að skipa stjórnlagaráð með fólki sem hafði flest hvorki sérfræðiþekkingu ný lýðræðislegt umboð til að skrifa nýja stjórnarskrá.”

Er þetta sannleikanum samkvæmt?

Nei, það sér hver heiðarlegur maður.

Hverjir hafa sérfræðiþekkingu til að skrifa stjórnarskrá?

Svarið er: Heiðarlegt fólk með réttlætiskennd.

Samlíkingin við þríeykið og veiruna er bara aulalegur brandari.

Það að gera lítið úr okkur sem sömdum nýju stjórnarskrána er ekki siðlegt og ekki heldur kristilegt af því þú fórst inn á þá sálma. Já, auðvitað máttir þú kýla prestinn undir beltisstað svo hann findi fyrir því.

Þar fyrir utan var urmull af sérfræðingum í stjórnlagaráði. Þar voru stjórnmálafærðingar, læknar, lögfræðingar, guðfræðingar, a.m.k. einn hagfræðingur, hjúkrunarfræðingur með nám í uppeldis- og kennslufræðum, sérfræðingur í búvísindum, félagsmálajálkar, fólk með reynslu úr fjölmiðlum, stærðfræðingar, heimspekingar og einstaklingar með allskonar háskólagráður og svo fólk með réttlætiskennd og þjóðfélagsvitund. Hverjir eru sérfræðingar í ritun stjórnarskrár? Varla þingmenn sem eru kosnir af flokkslistum, ekki sem einstaklingar, heldur mengi úr flokki, hópur sem veittur er af magnafsláttur, ef svo má að orði komast. Þingmenn hafa allskonar þekkingu og lífsreynslu og við treystum þeim, en þeir eru sjaldnast sérfræðingar í þeim málaflokkum, sem þeir setja lög um. Við sem kosin vorum til stjórnlagaþings vorum kosin í persónukjöri, ekki af listum, ekki heldur af flokkslistum, heldur sem fólk er þjóðin valdi og treysti til þess að vinna af heilindum og í anda réttlætis og sannleika.

Hvers vegna ekki að treysta þeim sem þjóðin valdi til að semja nýja stjórnarkrá? Við sem þjóðin valdi í sérstakri kosningu höfðum vissulega lýðræðislegt umboð þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi ógilt kosninguna á eintómum hýpótesum, tilgátum. Hugsanlega hefði hugsanlega einhverjir, hugsanlega á einhverjum stað, getað séð hvað einhver annar hefði hugsanlega kosið. Hæsitréttur varð að gjalti í þessum dómi sínum.

Forsetakosningarnar í sumar voru sama marki brenndar (ég nennti ekki að vekja athygli á því) og allar kosningar á lýðveldistímanum hefði mátt dæma ógildar á samskonar hýpótesum, fabúlum, geimflugi í ímyndunarveiki. Hæstiréttur afgreiddi “pöntun” sem tveir aðilar úr stuttbuxnadeildinni í Valhöll komu með í réttinn.

Sjálfstæðisflokkurinn sem auðvitað bað fólk að taka ekkert mark á kosningunni til stjórnlagaþings og bjóða sig ekki fram, missti af lestinni. Ef flokkurinn hefði tekið lög Alþingis alvarlega um stjórnlagaþing hefði hann getað haft mun meiri áhrif ef fleiri hefðu boðið sig fram úr þeim herbúðum. Þau sem áttu rætur í flokknum voru samt nokkur og unnu af heilindum enda úrvalsfólk.

En ríkisstjórnin gerði það eina rétta í stöðunni og skipað þau sem kjörin höfðu verið í stjórnlagaráð. Jóhanna Sigurðardóttir hafði kjark og þor til að reyna að koma böndum á drekann sem ógnar þessu samfélagi meir en nokkuð annað.

Þú segir að svona mikilvægt mál eigi að vera í höndum þeirra sem eru lýðræðislega kosnir til þess. Já, ég er sammála því v.þ.a. þingið á að taka tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar og greiða atkvæði um hverja þá grein sem fyrirfinnst í frumvarpinu til nýrrar stjórnarskrár. Auðvitað á Alþingi að fjalla um það. Hvers vegna ertu að hnykkja á slíkum sjálfsögðum hlutum. Hver hefur talað gegn því að Alþingi eigi síðasta orðið? Enginn! Þess vegna er greinin þín þegar hingað er komið bæði með lygar í textanum og svo dylgjur um eitthvað annað. “Tilgangurinn helgar meðalið”, segir orðtakið en það vísar til rökvillu og hættulegrar hegðunar af hálfu fólks. Gættu þín á slíkum málflutningi ef þú ætlar að komast áfram sem heiðarlegur maður í heimi hér.

Svo á undirbúningsvinnan að vera í höndum “fagfólks”, segir þú. Eru það lögfræðingar, þrasfræðingar, menntaðir í lítilli deild á Íslandi, í íslenskum lögum, með litla þekkingu á öðrum fræðigreinum. Hvað læra laganemar t.d. um siðfræði, heimspeki, sögu, trúarbrögð, sálfræði, geðlæknisfræði, sögu, bókmenntir, menningu og svo mætti lengi telja. Þetta er þröngt nám sem veitir bara brautargengi á Íslandi þar sem þrasfræðingar taka 30 þúsund kall á tímann við að leiðbeina fólki í íslensku lagaumhverfi. Lögfræðingar eru flestir með þrönga menntun í lögum smáríkis og vita sumir afar lítið um hina stóru veröld. Eru þeir “fagfólkið” sem þú auglýsir eftir?

Þú talar af virðingu um “dönsku” stjórnarskrána sem Sveinn Björnsson, fyrsti forseti vor, sagði um að semja yrði uppá nýtt án tafar og tóku flestir þingmenn undir það. Breytingarnar sem gerða hafa verið á henni eru bara smá tilfærstlur varðandi kosningakerfið sem er enn meingallað og svo var mannréttindakaflinn tekinn í gegn vegna tengsla okkar við siðaðar þjóðir. Flestar breytingar á lagaumhverfi, dómstólum og lögregluvaldi, höfum við neyðst til að taka upp vegna tengsla okkar við hið stórhættulega Evrópusamband sé mið tekið af málflutningi þíns flokks.

Bindandi kosning 2012? Hver heldur því fram? Enginn? Hvers vegna ertu þá að ýja að því? Þú hlýtur að sjá að greinin þín er algjör steypa frá upphafi til enda.

Þú hnykkir svo á með frösunum sem notaðir eru til að þjóna kvótagreifunum, fjölskyldunum, sem valsa um með gróðann af auðlyndinni, fela hann í skattaskjólum, múta stjórnmálamönnum í fjarlægum löndum og sýna ofbeldi í samskiptum við embættismenn og fjölmiðlafólk hér heima sem reynir að vinna vinnuna sína.

Þetta er málflutningur flokksins sem þú augljóslega tilheyrir, sem áður fyrr gat talað um “stétt með stétt” en er nú fastur í frösum sem lýsa má með orðunum: “við og útgerðin”.

Bútasaumsaðferðin dugar ekki í þessu tilfelli. Enginn setur nýja bót á gamalt fat eða nýtt vín á gamla belgi, sagði Kristur í pólitískum afskiptum sínum á sinni tíð.

Alþingi er ekki stjórnarskrárgjafinn enda þótt Alþingi segi sitt síðasta orð um nýtt frumvarp. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og það verður þjóðin sem velur nýtt þing og það verður einmitt nú, með dyggri hjálp manna eins og þín og þinna flokkssystkina, að stjórnarskrármálið verður efst á baugi í komandi kosningum.

Þakka ykkur fyrir ofsann, frasana, sektaríönsku tilburðina, sértrúarhyggjuna og ofbeldið gegn þeim sem krotuðu á vegg þjóðarinnar, sem þið teljið auðvitað vera ykkar vegg. Gætið þess bara að verða ekki undir veggnum þegar hann hrynur yfir spillingaröflin í landinu.

Posted in Uncategorized | Tagged , , , , , , , , , , | Leave a comment

Bjagað vald

Svar við grein Sighvats Björgvinssonar í Kjarnanum 20. október 2020 https://kjarninn.is/skodun/2020-10-19-stjornarskrargjafinn-og-thu-sjalfur/

Hvatur þykir mér þú vera, sveitungi sæll, og bera nafn þitt með rentu, Sighvatur, hugrakkur til orrustu. En það er Bárður einnig því nafnið merki “sá sem ann orrustum”. Báðir höfum við vestfirskan anda í brjósti. En í bardaga er ekki gott að höggva í eigin fót. Það þykir mér þú nefnilega gera í grein þinni í Kjarnanum 20. október 2020 þegar 8 ár eru liðin frá því þjóðin sagði hugs sinn til tillagna Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá.

Þjóðin hefur talað

Yfirgnæfandi meirihluti lýsti því yfir að leggja bæri tillögurnar fyrir Alþingi eða 67% kjósenda. Þar lýsti yfirgnæfandi meirihluti sig samþykkan ákvæðinu um auðlindir í almannaeigu eða 89%. Fylgjandi persónukjöri voru 78%. Ákvæði um þjóðaratkvæði samþykktu 73%, um jöfnun atkvæða í landinu 67%. Þjóðkirkju vildu 57%.

Þjóðin sagði sitt álit í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hún kaus líka fólk til Stjórnlagaþings árið 2010 og valdi 25 einstaklinga, ekki af flokkslistum, nota bene, til að skrifa nýja stjórnarskrá. Það var Alþingi sem ýtti þessu stjórnskipi úr vör sem þú vilt ekki kannast við enda þótt þinn eigin flokkur hafi verið í forystu og verið mest áfram um að koma þessu lýðræðislega ferli í gang sem lofað er um veröld víða sem fordæmalaust fyrirbrigði í veraldarsögunni þegar um ritun grundvallarlaga fyrir sjálfstæða þjóð er að ræða. Ég hef þá skoðun sem einstaklingur í þessu landi mínu að lög Alþingis gildi og ég geti ekki af geðþótta valið hvaða lög mér líki og líki ekki hverju sinni. Sjá nánar hér: https://kjarninn.is/skodun/2020-10-16-gedthotti-og-gerraedi/

Hið lýðræðislega ferli

Árið 1814 fól konungur Norðmönnum að velja fólk til stjórnlagaþings. Kosið var í öllum höfuðkirkjum landsins, þar með Nes kirke þar sem ég þjónaði um tíma. Við kirkjugarðshliðið er emeleraður skjöldur til minninga um kjörið sem var fyrsta almenna kosning, þjóðkjör, í Noregi. Stjórnlagaþingið koma saman á Eiðsvelli og tillögur þess voru síðan samþykktar seinna sama ár. Stjórnarskrá Noregs er ein sú elsta í heiminum sem enn er í gildi en á henni hafa þó verið gerðar smávægilegar breytingar í tímans rás.

Skjöldurinn við kirkjuhlið Neskirkju
í Hringsakurspfrófastsdæmi, í Heiðmerkurfylki, Noregi.
Kirkjan er úr steini en elsti hluti hennar er frá um 1250.

Íslenska ferlið var enn lýðræðislegra vegna þess ríka samráðs sem Stjórnlagaráð hafði við þjóðina með því m.a. að nýta samskiptatækni nútímans til hins ítrasta.

Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn

Stjórnarskrárgjafinn er þjóðin sem kýs sér einstaklinga, ekki af flokkslistum, og felur þeim að rita stjórnarskrá. Þjóðin kýs fólk til Alþingis og veitir valdið hinum kjörnu fulltrúum. Stjórnskipun okkar, skv. þeirri “dönsku” stjórnarskrá sem er í gildi, felur það í sér að Alþingi taki við tillögum þeirra sem þjóðin valdi til verksins og afgreiði tillögurnar. Þar hefur þú rétt fyrir þér er þú segir að Alþingi hafi mikið um málið að segja. En Alþingi verður að virða eigin gjörðir, virða að það fól öðrum en sjálfu sér að rita nýja stjórnarskrá. Sú skrá liggur fyrir og hana ber að taka til efnislegrar meðferðar. Þetta þing ræður ekki við verkið en von mín er sú, að næsta þing, eftir að þjóðin hefur heyrt brýningar þínar í niðurlagi greinar þinnar, verði kosið út frá þeim málum sem mest á ríður að koma böndum á og það eru einmitt þau atriði sem þjóðin lýsti sig samþykka í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Kjósi þjóðin út frá þeirri sannfæringu verður til nýtt Alþingi sem ég trúi að muni ráða við að samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórlagaráðs. Um þennan möndul ættu næstu kosningar einmitt að snúast.

Lög sem bjaga

Veljum í næstu kosningum út frá málefnum og vonandi í seinasta skipti með núgildandi, gatslitnum kosningalögum, sem bjagað hafa vald þjóðarinnar í þessu landi um árabil.

Posted in Uncategorized | Tagged , , , , , , , , , | Leave a comment

Geðþótti og gerræði

Grein í KJARNANUM um nýju stjórnarskrána. Alþingi virðir ekki eigin lög og samþykktir. Hvað með þig?
https://kjarninn.is/skodun/2020-10-16-gedthotti-og-gerraedi/

Posted in Pistlar, Stjórnmál, Uncategorized | Leave a comment

Guð og náttúran

Grein í Kjarnanum sem fjallar m.a. um guðfræðilega aðgreiningu skapara og sköpunar.
https://kjarninn.is/skodun/2020-09-25-gud-og-natturan/


Posted in Uncategorized | Tagged , , , , , | Leave a comment

Nýjar skissur – New Sketches from Iceland

Strong wind in Eyjafjörður north Iceland showing a range of colours in the ocean.
A choice of houses in the centre of Reykjavik
The Icelandic Art Museum, formerly a dance house from my days of youth in the seventies and before that a fish freezing factory!
Posted in Myndblogg, Stjórnmál, Urban Sketchers, Urban Sketches | 1 Comment

Ljósið græna

Grein mín í Kjarnanum 5. sep. 2020 um nýju stjórnarskrána:

https://kjarninn.is/skodun/2020-09-04-ljosid-graena/

Posted in Hugvekjur, Pistlar, Stjórnmál | Leave a comment

“Gimme Shelter” – Rollingur í ráðuneytið

Til hamingju Ísland!

Ólafur Helgi Kjartansson hefur fengið nýtt hlutverk fyrir land og þjóð.

Posted in Myndblogg, Skissublogg | Leave a comment

Watercolour sketches from SE-Iceland and from Hrísey, Eyjafjordur, North Iceland

A deserted house, Mountain and fjord views.

Posted in Skissublogg, Urban Sketchers, Urban Sketches | Leave a comment

Fordómar Sapiens – Prejudism in Sapiens

Grein sem birtist í Kjarnanum 10. ágúst 2020
https://kjarninn.is/skodun/2020-08-06-fordomar-sapiens/
A critique written in Icelandic on the book Sapiens.

Posted in Pistlar | Leave a comment