Nú standa yfir breytingar á sorphirðu í höfuðborginni, tunnum er dreift í ýmsum stærðum og nú skal flokka og auglýsingarnar dynja á okkur borgarbúum í öllum fjölmiðlum.
Og ég spyr: Hvers vegna á plast að fara í græna tunnu en pappír í bláa?
Allir sem ég hef spurt um málið finnst þetta eigi að vera öfugt.
Ætti græna tunnan ekki að vera blá?
Plast er í hugum flestra bláleitt, alla vega glært plast, það hefur á sér bláan lit og ef ég ætlaði t.d. að vatnslita manneskju með glæran plastpoka í höndum mundi ég velja fölbláan lit á plastið. Þess vegna finnst mér að plast ætti að fara í bláa tunnu enda þótt plast fyrirfinnist í öllum regnbogans litum. Regnboginn hefur himininn að bakgrunni og hann er blár. Sástu þáttinn Endurvinnslumýtan á RÚV 7. júní sl? Hann er algjör hrollvekja um það brjálæði sem plastframleiðslan í heiminum er.
Ætti bláa tunnan ekki að vera græn?
Svo kemur allur pappírinn. Pappír er í flestum tilfellum framleiddur úr jurtatrefjum, venjulega úr trjáviði og flest tré bera grænt lauf.
Pappír er umhverfisvænni en plast og á sínar rætur í grænum lit. Þess vegna ætti pappír að fara í græna tunnu að mínu mati og plastið í bláa.
Skissaði 3 myndir í messunni sem var góð og gefandi á hvítasunnudag en þá fagnar kirkjan um allan heim úthellingu heilags anda sem enn starfar og gefur kraft og líf. Þetta er dagur lita og gleði. Messuskrúðinn er rauður sem vísar í eldinn sem minnir á eldtungurnar sem settust á hvert og eitt þeirra sem fylltust andanum á hvítaasunnudag forðum og töluðu tungum. Tungutal er dásamleg gjöf. Þegar beðið er í tungum, biður hjartað klökkt af gleði.
Dr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir messaði.Steingrímur þandi orgelið með mögnuðu eftirspili og stýrði kórnum í stólversi.
Prestur og meðhjálpari útdeildu, dr. Steinunn Arnþrúður og Þórdís Ívarsdóttir, form. sóknarnefndar.
Bálför frá Neskirkju föstudaginn 12. maí 2023 kl. 13
Minningarorðin, texti og hljóðupptaka hér fyrir neðan:
+Ragnhildur Jónsdóttir
1. lestur:
Ég hef augu mín til fjallanna – Sl. 121
2. lestur:
25 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. 26 En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. 27 Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. 28 Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ Mt. 20.25-28
Upptaka af prédikun sem flutt var í Vídalínskirkju, 2. sunnudag eftir páska, 23. apríl 2023 en þann dag voru liðin 60 ár frá fermingu minni.
Blöðunum týndi ég með punktum fyrir prédikunina svo ég varð að flytja hana eftir minni. En svo gleymdi ég að setja á upptöku í byrjun ræðunnar en þar talað ég um gleðina og gleðidagana sem kirkjan heldur uppá frá páskadegi/upprisudeginum og allt til uppstigningardags en þeir dagar eru 40 talsins . . . þá vitnaði ég í guðspjall dagsins þar sem Jesús spurði Pétur þrisvar hvort henn elskaði sig og sagði svo að honum bæri að vera hirðir.
En svo kveikti ég á upptökunni. Hljóðgæðin eru þolanleg en með all nokkru braki í prédikunarstólnum!
Bið áheyrendur um að taka viljann fyrir verkið.
Viltu hlusta? Smelltu þá á tengilinn! Ræðan tekur 24 mínútur.
Yfir rúmi bernsku minnar hékk mynda af Jesú biðjandi fyrir Jerúsalem. Hún fylgdi mér í æsku og svo eignaðist ég samskonar mynd þegar ég var orðinn fullorðinn og hef hana enn á vegg heima.
Jesús biðst fyrir. Jerúsalem í bakgrunni.
Aðra mynd á ég sem föðursystur mínar færðu mér, þær Jóhanna og Sigrún og sýnir afa minn með ánni Gullu sem honum var kær. Í prédikuninni segi ég sögu þeirra.
Bárður Guðmundur Jónsson 1884-1954 útvegsbóndi í Bolungavík, kvæntur Sigrúnu Katrínu Guðmundsdóttur 1885-1956, sem fluttu til Ísafjarðar á 4. áratugi liðinnar aldar og höfðu þangað með sér ána Gullu sem var vitur skepna.
Og hér bætist við þriðja myndin sem tekin var í kirkukaffinu af skólasystrum mínum – og ég fékk að vera með!
Minningarorðin er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan. Vegna smá mistaka varð upptakan í tvennu lagi og því þarf að opna fyrst: Kolbeinn – inngangur og síðan kolbeinn-saemundsson-1938-2023
Örn Bárður Jónsson, þýddi grein úr The Times, sem birtist laugardaginn 8. apríl 2023, aðfangadag páska og las þýðingu sína inn á upptöku samdægurs, sem hægt er að hlust á hér fyrir neðan og tekur lesturinn 5 mínútur og 38 sekúndur.
Erkibiskupinn af Kantaraborg hefur sagt að það að taka lyf gegn þunglyndi hafi hjálpa sér að finnast hann „vera venjuleg manneskja“, og komið honum aftur „í stöðu Eyrnaslapa og úr annarri mun verri stöðu“. [Hér vitnar hann í sögurnar af Bangsímon].
Justyn Welby, erkibiskup af Kantaraborg, sem ég hitti í Dómkirkjunni í Reykjavík er hann kom til Íslands árið 2013. Erkibiskupinn er æðsti maður hinnar Anglíkönsku kirkju (Church of England) og systurkirkna hennar víða um heim.
Erkibiskup Justin Welby hefur áður sagt frá því að hafa tekið lyf við þunglyndi og sagði messugestum í vikunni að lyfjanotkun hans leiki mikilvægt hlutverk í að stjórna líðan hans.
Í þriðja fyrirlestri sínum af þrem í Dómkirkjunni í Kantaraborg við upphaf kyrruviku [2023], ræddi hann þrjú þemu, bjartsýni, örvæntingu og von, og vitnaði í Eyrnaslapa, asnann dapra en geðþekka í sögunni Bangsímon eftir A.A. Milnes og útsýrði:
„Ég tek lyf við þunglyndi. Þau virka vel. Þau lyfta mér upp í stöðu Eyrnaslapa, úr enn verri stöðu. Eins og geðlæknirinn segir sem annast mig, er markmiðið ekki að ég leggist flatur, heldur að stilla mig nægjanlega af, þannig að mér líði eins og almennt gengur og gerist. Ég finn til depurðar þegar allt virðist dapurt og er hamingjusamur þegar allt virðist í lagi o.s.frv.“
Í fyrsta fyrirlestri sínum, sagði hann að persónur Milnesar gefi hjálplega leiðsögn við að skilja ólíka persónuleika – frá Tíguri, hinu síhoppandi og gjósandi tígrisdýri, til dapra asnans, Eyrnaslapa.
„Sum okkar eru Tígurar, sum Eyrnaslapar,“ sagði Welby sem er 67 ára. „Líklega eru sum okkar margar aðrar persónur í Bangsímonsögunum.“
„Rowan Williams [fv. erkibiskup af Kantaraborg] sagði eitt sinn við mig: „Eiginlega eru varla til þær mannlegu kringumstæður sem túlkunarfræði Bangsímons ná ekki að tala inn í.“ Aðeins Rowan gat sagt slíkt og verið í senn gamansamur og djúpur.““
Aðalpersónur sögunnar um Bangsímon.
Í öðrum fyrirlestri sínum, sagði Welby að „örvænting væri djúp, mannelg tilfinning“ og varaði við því að „samféleg án Guðs væri samfélag þar sem örvænting gæti reynst eina leiðin fram veginn“.
Hann hélt því fram að guðleysi fæli í sér „hugrakka heimspeki“, sem gæti á endanum reynst einskonar dýfa sem sumt fólk þurfi að reyna áður en það finni styrk í „einhverju handan“ þess sjálfs.
Erkibiskupinn sagði:
„Lífssýn án Guðs getur samt gert fólki mögulegt að reynast vel í kærleika, miskunn og réttlæti.
Þau geta eftir sem áður lifað í kærleika hvert með öðru. En slík heimspekileg sýn, því það að vera guðleysingi er hugrökk tegund heimspeki . . . gerir sjálfdæmið [autonomy] að átrúnaðargoði, og öll skurðgoð bregðast okkur.
Ekkert okkar er í raun sjálfráða [autonomous]. . . Við erum öll öðrum háð.“
Welby bætti við: „Það er einmitt á þeim stundum þegar við eru án allra valkosta að við vörpum okkur skilyrðislaust . . . á miskunn og náð Guðs. Og þá finnum við að valkostir eru til.“
Í bréfi sínu í vikunni ritaði Welby til æðstu leiðtoga annarra kirkjudeilda og sagði m.a.:
„Á yfirstandandi tímum . . . getur það reynst auðvelt að finna til tómleika vegna atburða og að líta stöðugt niður í svörð.
Yfirstandandi ár hefur verið ár mikillar þjáningar, sorgar, óvissu og ótta meðal fjölda fólks um heim allan. Í þessu landi hefur fjöldi fólks þurft að þrauka og þjást vegna dýrtíðar í daglegu lífi.
Víða um heim, þjást milljónir vegna stríðsátaka.“
Þegar við höldum páska, bætti hann við: „Er það vissulega hlutverk kristins fólks að halda áfram að minna stöðugt á dögun vonarinnar, hinn upprisna Jesú.
Fann á vefnum ljóðið Trees og glímdi við að snúa því á íslensku um bænadagana 2023. Árangurinn er hér fyrir neðan. En fyrst er vatnslitamynd af Akasíutré í Kenýu.
Akasíutré setja sterkan svip á þjóðgarðinn, Masai Mara.Ljóðið er úr ljóðabók frá 1914 og var birt sem grafskrift yfir höfundinum sjálfum, Joyce Kilmer, liðþjálfa, sem fæddur var 1886 en féll í stríðinu 1918.
Föstudaginn langa tók ég í sundur litla pappaöskju utan af rafhlöðu sem ég þurfti að endurnýja og þegar kassinn breiddi úr sér var hann krosslaga.
Ég málaði á pappann mynd sem tengist atburði föstudagsins langa og hér er verkið:
Krossfestur.Umbúðir. Leyndardómar, sem opnast og verða augljósir með augum trúarinnar.Mynd af atburði sem sneri veröldinni á hvolf og gerir enn. Þjáning og dauði breyttust í upprisu og sigur lífsins yfir dauðanum að morgni páskadags.
Nú eru uppi menn sem sækjast mjög eftir vindi. Þeir vilja mæla vind á hverju fjalli, hæð og tindi, vangi og velli líka.
Prédikarinn er nafn á einni af bókum Gamla testamentisins sem telst til spekirita. Þar gefur að finna mörg spakmæli eins og t.d. þessi: „Öllu er afmörkuð stund.“ (3.1) Hljómsveitin Byrds söng texta úr þessu riti og gerði garðinn frægan á hippatímanum:
To everything (turn, turn, turn)
There is a season (turn, turn, turn)
And a time to every purpose, under heaven.
Prédikarinn er barmafullur af spakmælum og þaðan er fyrirsögn þessa greinarkorns komið.
Vindurinn gengur til suðurs
og snýr sér til norðurs,
hann snýr sér og snýr sér
og hringsnýst á nýjan leik. (1.6)
Ég hef séð öll verk sem unnin eru undir sólinni og öll voru þau hégómi og eftirsókn eftir vindi. (1.14)
Áhuginn á vindinum nú á tímum er tengdur voninni um gróða. Þeir sem mest leita, vilja beisla vindinn, og það er í sjálfu sér göfugt hlutverk.
En þegar útsendarar svonefndra fjárfesta og spekúlanta birtast, þá rísa hárin á höfði mér og þarf ekki vind til.
Flestir eru þetta karlmenn sem virðast falla að sömu staðalmynd. Agentarnir eru flestir af sama sauðahúsi þegar markmið þeirra eru greind. Þeir eru sendir til að veiða peninga með því að virkja vind og vötn, firði og flóa, finna krana til að tengja við sínar arðslöngur.
Þeir koma gjarnan fram eins og þeir beri hag lands og þjóðar fyrir brjósti, en augun svíkja sjaldan, þau lýsa gjarnan af græðgi. Ef agentunum væri stillt upp í röð, eins og löggan gerir í glæpamyndum, þegar hún leitar eftir sakbendingum, þá mundu flestir sem búa yfir lágmarks innsæi í það sem er að gerast í viðskiptaheiminum, benda á alla í röðinni og segja: Þessi, þessi, þessi, þessi og líka þessi. Allir væru þeir undir sömu sök seldir. Agentarnir hafa bara eitt markmið: Að ná því að skapa útsendurum sínum arð af samfélaginu, landi, sjó og lofti. Og nú er það vindurinn sem þarf að tengja við arðslöngurnar.
Ólíkir, en sama sinnis
Í bók Prédikarans er flest talið til hégóma. Það kann að þykja dimm lífssýn en víst er að þegar eftirsóknin færist í aukana, hvort sem hún beinist að auði eða völdum, víkum eða vindi, þá umbreytist hún oft í hégóma, en skv. orðabók merkir orðið: „lítilsverðir hlutir sem litlu eða engu máli skipta“.
Lítið vissi höfundur spekiritsins um beislun vindorkunnar nema kannski þegar vindurinn var látinn skilja hismið frá kjarnanum í kornræktinni forðum. Hann þekkti líklega ekki til úthafa og þandra segla, enda uppi þúsund árum fyrir uppfinningu hafskipa og vindmylla, en myllurnar rötuðu síðar inn í eitt merkasta bókmenntaverk sögunnar um Don Kíkóta sem barðist við vindmyllur og sá í þeim eintóma óvini.
Við sem ekki viljum vindmyllur víðsvegar um landið og viljum hafa hemil á þróuninni erum kannski eins og riddarinn hugumstóri sem vildi lifa í heimi ævintýra. En það er einmitt í ævintýrum sem undrin gerast sem koma mest á óvart.
Við erum mörg sem viljum fara varlega í sakirnar og með bjarta trú á mátt ævintýranna, þar sem ómögulegir möguleikar opnast.
Nú er ég alls ekki á móti því að menn beisli vind, en ég hef engan áhuga á að sú virkjun lendi í höndum þeirra sem leita tenginga fyrir arðslöngur sínar en virðast að öðru leyti hafa lítinn áhuga á landi og þjóð.
Í Noregi er svo komið, skv. nýlegum umræðuþætti í ríkissjónvarpinu þar í landi, að enginn veit í raun hverjir hirða gróðann af vindmyllunum í landinu sem þar mala gull nótt sem nýtan dag. Slóðin er vandlega hulin og allar líkur virðast benda til þess að þeir sem mjólka vindinn á norskum hæðum, geymi gróðann í skattaparadísum gjörspilltra smáríkja.
Norðmenn létu plata sig. Þeir sáu ekki við agentunum. Þeir klikkuðu á að þekkja manneðlið handan við glerið í hinum ímyndaða sakbendingarsal.
Eftirsókn eftir vindi er mikil nú á tímum því hann getur gefið mikinn arð. Ef virkja á vindinn þá vil ég að við gerum það sjálf, þjóðin, og að framkvæmdin verði öll á vegum og í eigu almennings.
Vindurinn er okkar allra!
Og þar með heldur vindurinn áfram að vera eign okkar allra á þessu vindbarða skeri, sem landið okkar fagra er, og á þeim grundvelli hættir eftirsóknin eftir vindi að teljast einskær hégómi, því leitin verður að vinningi í allra þágu.
„Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans“, sagði Jesús.
Hlustum á vindinn. Lausnina er að finna þar, segir söngvinna nóbelsskáldið, Dylan. Svarið er í vindinum.
You must be logged in to post a comment.