+Linda Bára Þórðardóttir 1968-2021

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Linda Bára Þórðardóttir

1968-2021

þýðandi

Skólagerði 17, Kópavogi

Útför/bálför frá

Árbæjarkirkju, Reykjavík

fimmtudaginn 8. júlí 2021 kl. 15

Sálmaskráin er neðst í færslunni.

Fyrir áratugum las ég bók sem hafði djúp áhrif á mig. Um er að ræða svonefnda sjálfshjálparbók sem ber nafnið, The Road Less Travelled eða Hinn fáfarni vegur, eftir M. Scott Peck. Ég man þegar ég opnaði bókin og las fyrstu setninguna sem hljóðar svo: „Life is Difficult“ – Lífið er erfitt – og mér þótti það sérstök byrjun á bók um listina að lifa. En, lífið er víst ekki bara dans á rósum.

Í gær þar sem ég fékkst við að taka bækur upp úr kössum, því ég stend í flutningum, fann ég aðra bók eftir sama höfund, framhald hinnar fyrri og þar minnist höfundur á að hafa byrjað fyrri bók sína á orðunum Lífið er erfitt, en í þeirri síðar segir hann í innganginum: Life is complex – Lífið er flókið, lífið er margslungið.

Já, lífið er í senn erfitt og flókið. Við byrjum að læra um leið og við fæðumst og við lærum meðan við lifum. Skóla lífsins lýkur ekki fyrr en með dauðanum. Svo lengi lærir sem lifir, segir í máltækinu.

Við erum heppin sem lifum hér á landi. Landið er fagurt og frítt en sjaldan er á vísan að róa þegar kemur að veðri. Faðir minn sagði mér að í bernsku hans hefði aldrei verið fjargviðrast út af veðri. Fólk tók því sem að höndum bar. Fólk gat ekki keypt sér sumarauka með því að fljúga til sólarlanda, nei, lífið var bara hér á landi með öllu veðrabrigðum, þar sem sumar, vetur, vor og haust tefldu fram sínum sérkennum með litum og látum, logni og lægðarunum. Landið okkar er einstakt og nú hefur heimurinn uppgötvað þetta stórbrotna land og náttúru þess.

Linda var bókmenntafræðingur. Nýlega átti ég tal við einn slíkan sem sagði að bókmenntafræðin væri eiginlega sprottin upp úr guðfræði, úr biblíiufræðunum. Það fer því vel á að vitna í ljóð skáldkonunnar Unnar Benediktsdóttur Bjarklind sem tók sér skáldanafnið Hulda:

Í hinu fagra ljóði „Hver á sér fegra föðurland“, segir hún í 2. versi:

Hver á sér meðal þjóða þjóð,

er þekkir hvorki sverð né blóð

en lifir sæl við ást og óð

og auð, sem friðsæld gaf?

Við heita brunna, hreinan blæ

og hátign jökla, bláan sæ,

hún uni grandvör, farsæl, fróð

og frjáls – við ysta haf.

Linda Bára fæddist undir háum hlíðum vestfirzkra fjalla en hún var ein fárra af sinni kynslóð sem hafði á barnsaldri búið í þremur heimsálfum, í Evrópu, Afríku og Suður-Asíu. Hún var því heimsmanneskja.

Við erum ferðamenn á lífsins vegi og Linda Bára hóf lífsgöngu sína 10. apríl 1968 er hún fæddist á Ísafirði.

Foreldrar hennar eru Þórður Oddson, skipstjóri f. 13.1. 1943, d. 28.12. 2019 – blessuð sé minning hans – og Hildur Maríasdóttir, skrifstofumaður, f. 25.9. 1944. Ég leyfi mér að geta þess að Marías Guðmundsson, faðir Hildar og Jón Örnólfur Bárðarson, faðir minn, voru bræðrasynir, og þ.a.l. erum við Hildur þremenningar.

Linda Bára ólst upp á Ísafirði og í Súðavík við Álftafjörð vestur með foreldrum sínum þar til hún var fjögurra ára. Þá flutti fjölskyldan til Indlands, til Chennay (áður Madras), þar sem faðir hennar var við kennslu í fiskveiðum. Þau sneru aftur til Ísland og eftir stutt stopp heima var haldið til Sómalíu, Mógadisjú, þar sem þau dvöldu í tvö og hálft ár. Þar stundaði hún nám í amerískum skóla. Síðar meir bjó fjölskyldan saman 2 ár í Tansaníu, Kigoma nálægt Ujiiji þar sem Davíð hitti Livingstone forðum daga og orðin þekktu féllu: „Doctor Livingston, I presume.“ Þá bjuggu þau á Íslandi um hríð og héldu svo til Cochin og Bombay á Indlandi og Gambíu í Vestur-Afríku.

Linda Bára tók síðasta bekk grunnskóla á Ísafirði og stúdentspróf á Laugarvatni og lærði bókmenntafræði í Háskóla Íslands. Hún bjó að því að á heimili hennar var ætíð töluð íslenzka.

Sumarstörf Lindu á yngri árum voru í Súðavík. Hún kynntist grunnatvinnuvegi landsmanna í þorpinu heima og vann svo síðar í veiðihúsum í Norðurá og Hítará. Hún talaði reiprennandi ensku og var því eftirsóttur starfsmaður þar sem útlendingar komu til að njóta íslenskrar náttúru við veiðar. Hún fór til Svíþjóðar og dvaldi þar við störf í eitt ár.

Hún hafði sterkar taugar til Súðavíkur þar sem Kofri, bæjarfjallið gnæfir yfir með egghvassar brúnir og háan hatt og Snæfjallaströndin kúrir handan Djúpsins. Arnarnesið og Kambsnesið eru útverðir Álftafjarðar og innst í firðinum eru Hattardalur og Seljalandsdalur þar sem áin niðar og berjalandið grær ásamt björkinni sem klæðir fjarðarbotninn.

Eftir snjóflóðið skæða fóru þær mæðgur vestu á hverju vori og hjálpuðu til við að gera garðinn hjá Rögnu frænku flottan fyrir sumarið, en Ragna er móðursystir Hildar. Í leiðinni gróðusettu þær tré og runna í landi Saura og á hverju hausti var farið vestur til berja, og síðan sultað og saftað þegar heim var komið.

Bogga frænka í Hnífsdal dásamaði saftina og var viss um að hún gerði henni lífið auðveldara á sínum tíma en þær mæðgur sáu öllu eldrafólkinu í fjölskyldunni fyrir saft og sultu.

Í garðinum hjá þeim hér syðra var mikil rækt og eitt af síðustu verkum Lindu var að setja niður kartöflur og margir hafa fengið að njóta jarðaberjanna sem ræktuð voru í garðinum í Skólagerði.

Minnisstæð er ferð hennar og foreldranna til Indlands árið 2000 er þau slógust í för með forseta Íslands sem fór þangað í opinbera heimsókn. Skipuleggjendur sáu til þess að fylla flugvélina af áhugasömum farþegum og fjölskyldan skellti sér með til að rifja upp dvöl sína forðum í því stóra og fjölþætta landi. Þá fóru þær mæðgur síðar til Kína árið sem Linda varð fertug. Þær fóru einnig til Færeyja og Grænlands og nýttu svo hér heima fellihýsi fjölskyldunnar til 30 ára og fóru margar ferðir vítt og breytt um landið, þær síðustu í fyrrasumar.

Linda var mikill dýravinur og var næm á lífríki og umhverfi hvar sem hún fór. Hún var föst fyrir og ákveðin í skapi en geðgóð og elskuleg.

Hún var róleg og heimakær og bjó lengst af hjá foreldrum sínum, hafði yndi af tónlist og hannyrðum, fór á smíðanámskeið og pússaði m.a. upp gömul húsgögn. Hún fór oft út á meðal fólks og hafði m.a. yndi af að sækja útgáfutónleika ýmiskonar hljómsveita. Hún var góður kokkur og bakari og skötuveizlan hennar á aðventunni brást aldrei. Hún fór létt með að græja það fyrir fjölda svangra sem kunna að meta þennan þjóðarrétt sem er Vestfirðingum sérlega kær.

Hún vann síðustu árin við þýðingar og textasmíði hjá Skjali þjónustu þar til hún veiktist. Hún tók veikindum sínum af æðruleysi.

Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 29. júní 2021.

Lífsgöngu Lindu Báru er lokið. Hún hafði farið víða og lært margt á þeim 53 árum sem hún lifði. Á henni sannaðist að lífið er í senn erfitt og flókið og það sama sannast á okkur öllum. Við erum öll í sama skóla, skóla lífsins, og þar mætum við dag hvern til að nema og njóta, læra og lifa.

Þið sem hér kveðjið Lindu Báru, munið hana og munuð muna hana meðan þið lifið. Þau eru mörg sem muna okkar, þig og mig. En hver man okkur þegar allir á jörðu verða dánir sem kynntust þér og mér? Hver man okkur þá?

Fyrir áratugum var sitjandi biskup spurður í sjónvarpsviðtali hvort hann gæti sagt áhorfendum hvað tæki við eftir dauðann. Hann sagðist ekki geta sagt HVAÐ tæki við en hann sagðist vita HVER tæki við. Það er Kristur, Guð, sem engum gleymir og alla elskar. Lestu um hann í Nýja testamentinu. Hann var fordómalaus, kærleiksríkur, miskunnsamur, fyrirgefandi, lífsglaður, sat ótal veizlur og fagnaði með fólki, elskaði alla, læknaði og líknaði og sagði mannkyni að kærleikurinn væri starkasta afl tilverunnar.

[innskot um Krist]

Linda Bára var helguð honum í heilagri skírn, vígð himninum og eilífðinni. Hún staðfesti það með fermingu sinni og við felum hana nú þeim fyrirheitum trúarinnar sem gefa okkur von um eilíft líf í elsku og gleði himinsins.

Að endingu les ég sálm séra Valdimars Briem:

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja’ í friðarskaut.

Sb. 1886 – Valdimar Briem

Guð geymi Lindu Báru Þórðardóttur í himni sínum og Guð varðveiti þig á lífsins vegi. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.