Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Birna Sigurðardóttir
1923-2021
hjúkrunarkona
Bálför í kyrrþey frá Garðakirkju
þriðjudaginn 9. mars 2021 kl. 13
Jarðsett á Ísafirði

Upptaka hér:
Líf og heilsa hefur skipt mannkyn miklu máli á öllum tímum.
Matteus guðspjallamaður ritaði margt um Jesú og sagði m.a.:
“ . . . og alla þá er sjúkir voru læknaði hann. Orð Jesaja spámanns áttu að rætast: „Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora.“ (Matt 8.16b-17)
Fyrstu 2. aldir eftir landnám eða svo var fólki hjúkrað á heimilum því engar voru stofnanir til í landinu. Heimilisfólk hjúkraði hvert öðru og í sumum tilfellum kom fólk af öðrum bæjum sem þótti hafa sérstakt lag á sjúkum og umönnun veikra. Seinna komu klaustrin og þá má segja að fyrstu vísar að sjúkrahúsum hafi orðið til á grundvelli boðskapar Frelsarans. Fólk lagðist inn í klaustrin og fékk þar hjúkrun. Aldrað fólk settist í „helgan stein“ eins og það er kallað og merkir að flytja í steinhúsið, í klaustrið, og verja þar elliárunum með þjónustu og umönnun munka eða nunna, allt til dauðastundar. Fyrir það fengi klaustrin greitt með vistum eða jarðarparti því ekkert í lífinu er ókeypis, hvorki þá né nú.
Sjaldan hefur okkur verið ljósari mikilvægi heilbrigðisstofnana og starfsfólks þeirra, en nú, á tímum plágunnar, sem kennd er við Covid-19. Heilbrigðiskerfið okkar er rómað fyrir fagleg vinnubrögð og vel menntað starfsfólk. Kerfið ber nafn sem byrjar á orðstofninum „heil“ og vísar til heilbrigðis og heilunar.
Í guðspjallinu áðan heyrðum við um manninnm sem tók rekkju sína og gekk. Og þau eru mörg sem risu úr rekkju fyrir hjúkrunm Birnu og annarra heilbrigðisstarfsmanna í áranna rás.
Birna helgaði líf sitt umönnum og hjúkrun, hún annaðist börn sín og fjölskyldu og svo gekk hún vaktir árum saman á sjúkrahúsum. Hún lifði langa ævi og settist að lokum „í helgan stein“ á Hrafnistu í Hafnarfirði og naut þar góðra daga.
Birna Sigurðardóttir fæddist í Reykjavik 5. mars 1923. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 28. feb 2021, tæplega 98 ára.
Foreldrar hennar voru, Jóhanna Jónsdóttir, saumakona, frá Bakka í Svarvaðadal f. 6.7. 1889, d. 21.1. 1993, á 104. aldursári og Sigurður Sigurðson, fv. Búnaðarmálastjóri, frá Draflastöðum, f. 5.8. 1871 d. 2.7. 1940
Birna kvæntist Tryggva J. Jóakimsson, forstjóra f. 10.2. 1919, d. 29.5. 1974
Foreldrar hans voru Tryggvi Jóakimsson f. 28.7. 1881 d. 29.2. 1956 og Margarethe Hasler Jóakimsson f. 12.12. 1886 d. 17.4. 1962.
Birna og Tryggvi eignuðust 5 börn. Þau eru:
1) Tryggvi f. 28.12. 1950, Maki : Björg Thorlacius f. 12.5.1952. Börn þeirra eru a) Margrét Björk b) Birna ot c) Aldís.
2) Reynir f. 21.11. 1951 d. 3.6. 1971
3) Erlingur f. 23.2. 1953 Maki: Anna Lilja Sigurðardóttir f. 14.1. 1952 d. 16.12. 2014. Börn þeirra a) Reynir b) Sigurður Jóhann og c) Sólveig
4) Svanbjörn f. 1.4. 1957. Maki : Kristín Marteinsdóttir f. 5.2. 1957 d. 5.4. 2008. Börn þeirra : a) Brynjar b) Marteinn c) Tryggvi og d) Aron
5) Jóhanna Margrét f. 23.2. 1960. Barn a) Julian Hlynur.
Barnabarnabörn Birnu eru 16 talsins.
Birna ólst upp hjá móðurömmu og frændfólki að Neðri Ási í Hjaltadal.
Um tólf ára aldur flutti hún til móður sinnar og stjúpa á Sauðárkróki.
Eftir Unglingaskólan á Sauðárkróki fór hún í Héraðsskólan á Laugarvatni og síðan í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.
Árið 1947 lauk hún námi frá Hjúkrunarskóla Íslands.
Að námi loknu vann hún á Kristneshæli, á Akureyri og nokkrum stöðum í Noregi.
Árið 1949 sest Birna að á Ísafirði, bjó hún lengst af á Seljalandsvegi 28 með eiginmanni og börnum og vann sem hjúkrunarkona á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Seinna vann hún sem skólahjúkrunarkona á Laugarvatni tvo vetur. Sjálfbjargar heimillinu Hátúni í nokkur ár, Hjúkrunarkona fyrir eldri borgara á Mallorka og að lokum á Hrafnistu í Reykjavík.
Birna var í Sambúð með Halldóri Gunnari Pálssyni frá Hnífsdal í tæp 30 ár, f. 5.11. 1921 d. 18.4. 2018. Þau bjuggu í Hafnarfirði allan sinn búskap. Síðustu árin dvöldu þau á Hrafnistu í Hafnarfirði.
Birna fæddist í Grjótaþorpinu í Reykjavík, dóttir einstæðrar móður og manns sem var kvæntur og margra barna faðir. Hún flutti að Neðri Ási í Hjaltadal um 2ja ára aldur og ólst þar upp hjá móður ömmu sinni og afa, Svanhildi Björnsdóttur og Jóni Sigtryggi Zóphoníassyni. Þau bjuggu í torfbæ og Birna kynnstist því ólíkum kjörum og húsakynnum á sinni löngu ævi. Fyrsta minningin hennar var þegar afi hennar dó. Þá var hún 3ja ára og húskveðja var haldin heima í torfbænum. Á Neðri Ási bjuggu einnig móðursystir Birnu, Soffía og eiginmaður hennar, Steinn, ásamt börnum.
Birna kallaði Stein pabba eins og hinir krakkarnir því hún hafði lítið af föður sínum að segja.
Amma hennar kenndi henni að lesa í gegnum Sálmabækurnar og fannst barninu það þungir og torræðir textar. Fáar voru barnabækur til á þeim árum og engar teiknimynir eða spjaldtölvur.
Pabbi hennar kom nokkru sinnum og færði henni bækur eftir Charles Dickens og Mark Twain og kunnu hún vel að meta það.
Móðir hennar Jóhanna Jónsdóttir var saumakona sem vann hér og þar en kom af og til í Neðri Ás en settist síðan að á Sauðárkróki og giftist Sigurbirni Björnssyni.
Eitt skipti gekk hún í svefni og vaknaði í rúminnu á milli uppeldisbræðrana Kára og Bjössa sem voru miklir stuðboltar og var henni mikið strítt af því, en það sem henni fannst verst var tilhugsunin um að hún hafði gengið löng og dimm göngin í gamla torfbænum alein um nótt frá vistaverum ömmu sinnar til strákanna sem sváfu í hinum enda bæjarins. Ætíð var kært á milli Birnu og barnanna sem hún ólst upp með í Ási.
Hún fór í fyrsta skipti út fyrir Hjaltadalinn þegar nún var u.þ.b. 9 ára. Hún hafði tínt ullarlagða af girðingunum og unnið sér inn smá pening sem hún tók með sér í Kolkuós sem var verslunarstaður innarlega við austanverðan Skagafjörð. Þar gat hún keypt sér munnhörpu og slikk fyrir afganginn. Hún sagði oft þessa sögu enda minningin henni kær og ljúf.
12 ára gömul flutt hún til Sauðárskróks, til móður sinnar, Jóhönnu Jónsdóttir og stjúpa, Sigurbjörns Björnssonar. Hún talaði um hvað hún átti erfit með að fara frá ömmu sinni og sagði oft frá því að þegar hún fór í fyrsta skiptið með sitt völuskrín úr sveitinni út til að leika á Króknum þar sem henni var mætt með mikilli stríðni af kaupstaðarbörnunum. Hún sýndi þeim aldrei aftur leikföngin sín úr sveitinni.
Fyrr var getið nokkurra starfa hennar, en eftir Unglingaskólan fór hún einn vetur í héraðsskólan á Laugarvatni (1939 –1940).
Sumarið eftir vann hún á Þingvöllum og dvaldi einnig um tíma hjá hálfbróður sínum Ingimari í Hveragerði.
Hún var í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað 1941–43.
Lauk námi frá hjúkrunarskóla Íslands 1947.
Vann sem hjúkrunarkona á Kristneshæli Akureyri 1947–1948
1948–1949 Vann hún í Noregi meðal annars á Ullevall sjúkrahúsinu í Oslo.
1949 vann hún á Sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Þar kynnstist hún Tryggva J. Jóakimssyni eða Bússa eins og hann var jafnan kallaður og gengu þau í hjónaband árið 1950.
Ég man Tryggva vel og bróður hans, Aðalbjörn, og fjölskyldur þeirra beggja, þekkti Felix ekki því hann var fluttur frá Ísafirði þegar ég var drengur, man þó lítið eftir Tryggva föður þeirra en kynntist frú Margrethe eins og við kölluðum hana, fór stundum til hennar með vörur er ég var sendill í verzlun föður míns, en hann leigði húsnæðið undir verzlunina af frú Margrethe. Hún bauð mér ætíð inn í eldhúsið, setti mig við borð, færði mér nýbakaða köku og mjólkurglas og spjallaði við mig. Tryggvi lést langt um aldur fram árið 1974.
Börnin minnast þess að móðir þeirra hafði græna fingur og var allt jafnan blómstrandi í kringum hana, einnig var hún eðal kokkur og vakti það alltaf athygli hjá krökkum sem komu og gistu, kannski um páska þegar frændfólk að sunnan kom í heimsókn, að á kvöldin þegar krakkarnir komu inn, beið eftir þeim fullur bakki af dönsku smörrebröd með allskonar samsetningum sem hún galdraði fram með allskonar afgöngum.
Ég man fjölskylduna á Seljalandsveginum vel og kom oft þangað með matvörsendingar úr verzlun föður míns, því á þeim tíma var heimsendingarþjónusta við lýði, enda þótt ekkert væri Netið til að panta í gegnum. Barnahópurinn þeirra Birnu og Bússa var fjörugur og vinahópur þeirra á Seljalandsveginum og Engjaveginum mjög fjörugur, ef ekki ofvirkur á köflum, og maður veltir því fyrir sér nú, á síðari tímum, hvort vatnið í Hlíðinni hafi kannski verið með öðru innihaldi en á Eyrinni þar sem ég ólst upp!
Tvö ár með millibili, eftir að Tryggvi lést, vann Birna sem Skólahjúkrunarkona á Laugarvatni. Flutti svo aftur til Ísafjarðar og loks til Reykjavíkur. Hún vann um tíma á Sjálfbjargarheimillinu Hátúni og Hrafnistu í Laugarásnum.
Árið 1988 fór Birna til Mallorca og vann þar sem hjúkrunarkona fyrir hóp ellilífeyrisþega í tengslum ivð ferðaskrifstofuna Sunnu.
Þar lágu leiðir hennar og Halldórs Pálssonar frá Hnífsdal saman.
Birna og Halldór bjuggu sér sérstaklega hlýlegt og fallegt heimilli í Hafnarfirði. Þau voru gestrisin og sannarlega engin lognmolla yfir þeim, endalaust að bjóða í mat því bæði voru þau góðir kokkar. Þau fóru nær daglega í sund og enn eru að berast kveðjur til barna hennar frá sundvinum. Þau voru bæði með græna fingur og stanslaust á flandri um nágrenið með kaffi á brúsa og nesti og voru svo dugleg að taka með sér vini, og barnabörnin. Þau nutu þess að fara á nýjar slóðir til að njóta lífsins saman.
Börn og barnabörn Halldórs voru Birnu mjög kær og var hún „amma“ þeirra yngstu eins og Halldór var „afi“ yngstu barnabarna Birnu.
Árið 2012 eða þar um bil fluttu þau á Hrafnistu í Hafnarfirði og var það þeim báðum erfitt að kveðja heimilið og frelsið sem þau höfðu notið þar en ekki fór færninni fram eða hreyfigetu og því einboðið að flytja í hús með þjónustu, setjast „í helgan stein“.
En félagsfærnin var þeim í blóð borin og þau voru fljót að kynnast starfsfólkinu og íbúum og gerðu eins gott úr hlutunum eins og hægt var, enda bæði með áhuga fyrir umhverfi sínu og fólki.
Halldór, eða Dóri eins og hann var jafnan kallaður, lést 2018 og er sárt saknað. Hann var glaðvær maður og gamansamur eins og mörg ættmenna hans. Ég man vel eftir honum og hans fólki úr Hnífsdal og kunn er sagan af Leifi bróður hans sem sagði við séra Magnús Erlingsson, kollega minn og sóknarprest á Ísafirði: „Magnús minn, þegar þú jarðar mig máttu gjarnan segja eitthvað fallegt um mig, en það þarf ekkert að vera satt!“
Birna var ætíð þolinmóð og bjó yfir jafnaðargeði. Hún hafði yndi af að gleðjast með öðrum og fá sér ögn í tána í góðra vina hópi. Hún hafði yndi af góðum bókmenntum. Hún þoldi illa yfirborðsmennsku eða hroka og kom eins fram við alla eftir því sem við varð komið.
Birna var heilsuhraust þótt hún hafi síðustu árin verið bundin við hjólastól og orðin nærri blind. Hún stytti sér dagana og hlustaði á hljóðbækur eða útvarp og fylgdist ótrúlaga vel með.
Hún þekkti nær allt starfsfólkið með nafni og hafði sterka skoðun á hlutunum nær alveg fram á síðasta dag. Starfsfólkið á Hrafnistu sýndu Birnu mikla umhyggju og væntumþikju og var það greinilegt að hún var í miklu uppáhaldi hjá þeim. Hafði starfsfólkið orð á því að sennileg væri bjallan orðin riðguð því hún hefði nær aldrei notað hana. Hún hafði svo oft þurft að hlaupa sjúkrahúsgangana á sinni starfsævi til að svara bjöllum sjúklinga og þess vegna sparaði hún hringingarnar eins og hún mögulega gat.
Sérstakar þakkir er hér færðar starfsfólki á Hrafnistu sem hugsaði einstaklega vel um Birnu.
„Kær kveðja hefur borist frá starfsfólki og heimilisfólki á Ölduhrauni, 3. hæð, Hrafnistu. Þökkum fyrir vináttu á liðnum árum. Blessuð sé minning Birnu okkar.“
Kveðja er hér flutt frá Julian Hlyni Parry dóttursyni Birnu, sem búsettur er í Berlin, og sendir innilegar kveðjur og þökk til ömmu sinnar. Þau voru sérstaklega náin en í ljósi aðstæðna hafði hann ekki tök á að koma og vera við útförina.
Margs er að minnast. Sigríður Garðarsdóttir frá Neðra Ási í Hjaltadal sendi fjölskyldunni samúðarkveðju ásamt fallegum minningum:
„Hér er gengin yndisleg kona falleg, glettin, hlý og skemmtileg. Alltaf var hún/þið góðir gestir í Ási þegar hún kom með skipi að vestan eða keyrandi torleiði frá Ísafirði á Fólksvagenbjöllunni, troðinni af farangri og börnum. Það var tveggja daga ferð í þá daga. Svo tróð hún öllum skaranum í Ási inn í bílinn og fór með okkur á rúntinn fram í Reyki eða yfir í Kolbeinsdal eða bara eitthvað út að keyra. Einu sinni sátuð þið [Jóhanna og] Dísa úti í götu efalaust á öðru og þriðja ári og lékuð ykkur eins og barna var háttur í moldinni. Eitthvað höfðuð þið innbyrt af jarðvegi og voruð kámugar um munninn. Ég hljóp inn í ósköpum og sagði konunum að það yrði að sækja ykkur þið væruð farnar að éta mold. Birna brosti bara elskulega og sagði: „þetta gerir þær bara hraustari“. Mér krossbrá, fannst þetta frekar ógeðslegt (ég var alltaf svo klígjugjörn) en fyrst hjúkrunarkonan frænka mín, sem ég leit mikið upp til, sagði þetta, hlaut það að vera rétt.“
Þá er hér önnur kveðjar frá ættingjum:
Þar sem að við systkinin sjáum okkur ekki fært að koma að norðan til að vera við útförina langar mig að biðja þig að flytja eftirfarandi kveðju:
Innilegar kveðjur og þakkir frá systkinunum frá Neðri Ási fyrir ljúfar og eftirminnilegar stundir fyrri ára. Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar – og undir þetta ritar, Sigríður Garðarsdóttir, Miðhúsum.
Og nú er Birna horfin af þessu lífi, birnan lögst í hinsta sinn í „hýði“ himinsins. Á misjöfnu þrífast börnin best, segir máltækið. Hún bjó við ýmis kjör á sinni lífsleið en átti gott líf, þrátt fyrir erfiðleika, sorg og missi. Hún hélt ætíð ótrauð áfram og gafst aldrei upp. Hún starfaði við hjúkrun og umönnun stóran hluta ævi sinnar. Hjúkrunarstarfið er köllun og þeim einum gefið sem hafa til þess umönnunarhjarta og elsku til samferðafólksins.
Hún var skírð og fermd og ólst upp við lestur ömmu sinnar og söng úr sálmabókinni enda þótt henni fyndist nú nóg um það allt saman sem barni.
Hvernig við rækjum trú okkar hefur engin áhrif á Guð, að ég tel, því hann elskar öll sín börn, bregst engum og gleymir engri manneskju, hverjar sem lífsskoðanir þeirra kunna að vera.
Birna er horfin á vit himinsins.
Drottinn Jesús, læknirinn mesti og besti, ruddi okkur braut þangað og opnaði okkur hlið himinsins þar sem lífið er varðveitt að eilífu, í elsku og náð, miskunn og fyrirgefningu.
Guð blessi minning Birnu og megi Guð blessa þig á lífsins vegi.
Amen.

