Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson
+ Jón Ólafur Skarphéðinsson
1956-2021

Útför/bálför frá Fossvogskirkju
þriðjudaginn 23. febrúar 2021 kl. 13
Jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði
Tengill á útsendingu/Link to the service: https://youtu.be/HLyU_OL2sBk
„Dreymi þig ljósið.“
Ljósið!
Ljósið er upphaf alls lífs á jörðu. Vísindamenn á sviði líffræði og fleiri fræðigreina hafa sagt að lífið hafi kviknað á hafsbotni við eldsumbrot. Eldurinn í iðrum jarðar er ljós af ljósi sólar sem er ljós af „sólnanna sól“. Lífið á jörðu og lífið í hafinu er allt af einu og sama ljósinu.
Eitt sinn ræddi ég við aldraða konu sem sagði mér að hún hefði unnið við það árum saman „að setja ljós á flöskur“. Ég kváði við og hún útskýrði fyrir mér að hún hefði unnið við að pakka lýsi.
Sá guli sem syndir í hafinu, þorskurinn, hefur gefið okkur ljós af ljósi um aldir. Ljós á lampa og ljós í líkama og sál úr lýsinu. Allt hangir saman.
Skáldið sem skrifaði sköpunarsögu Biblíunnar sá fyrir sér að allt hafi byrjað með ljósinu og sagði: „Guð sagði: „Verði ljós.“ Og það varð ljós.“ Hann hafði aldrei heyrt um geimferðir eða Hubbelsjónaukann og vissi ekkert um Miklahvell en skáldskapargáfan gaf honum innsæi til að rita hið stórbrotna ljóð sem sköpunarsagan er. Hann hafði sjödagaskemað frá Babylóníumönnum sem voru komnir þjóða lengst á 6. öld f. Krist í að reikna út árið og vikuna.
Við lifum í heimi ljóssins. Eðlisfræðin talar um Miklahvell, höfundur Sköpunarsögunnar tjáir samhengi hlutanna og uppruna alls í ljósinu og líffræðingurinn Jónsi sagði: „Lífið er bara efnahvörf.“ Allir segja þeir sannleikann, hver á sinn hátt.
Jón Ólafur var vísindamaður af lífi og sál. Hann stóð upp úr á margan hátt, sem vísindamaður og sem manneskja og svo gnæfði hann yfir flesta sökum hæðar sinnar.
Hann var kannski ekki hár í loftinu þegar hann fór fyrst í sveit norður í Hörgárdal til ættingja sinna í Garðshorni, samt var hann lengri en flestir jafnaldra hans. Sveitalífið fyrir norðan og í Holti á Síðu, mótaði hann ásamt borgarlífinu og menntaveginum sem hann gekk og gerði hann að heilsteyptum manni.
Jón Ólafur Skarphéðinsson fæddist í Reykjavík 15. september 1956. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 11. febrúar 2021.
Foreldrar hans eru Halla Oddný Jónsdóttir f. 14. júní 1935 og Skarphéðinn Bjarnason f. 21. febrúar 1927, d. 10. september 2006. Yngri sonur þeirra, er Friðgeir Bjarni f. 1960. Fyrri eiginkona hans var Margret Hallgrímsson f. 1953, d. 2015. Seinni eiginkona Friðgeirs Bjarna er Sigrún Rafnsdóttir f. 1960. Halla Oddný og Skarphéðinn skildu. Seinni kona Skarphéðins var Sigríður Karlsdóttir, vaktstjóri, f. 17. september 1944, d. 23. janúar 2018. Synir þeirra eru Karl, f. 1968, eiginkona Sara Gylfadóttir, Hjálmar, f. 1969, eiginkona Elín Ólafsdóttir og Óskar Bjarni, f. 1980, eiginkona Dóra Bergrún Ólafsdóttir.
Eiginkona Jóns Ólafs er Hólmfríður Jónsdóttir f. 4. ágúst 1959 og giftust þau 24. apríl 2004 eftir 23 ára sambúð.
Hólmfríður segir að Jónsi hafi beðið hennar í tíma og ótíma og loksins hafi það gengið upp!
Foreldrar Hólmfríðar voru Margrét Pétursdóttir Jónsson f. 1928, d. 2004 og Jón Gestsson f. 1924, d. 1961. Jón Ólafur og Hólmfríður eignuðust þrjú börn, Jón Börk f. 24. janúar 1983, d. 16. júní 2001, Unu Björk f. 20. maí 1991 og Ásu Kareni f. 16. maí 1994.
Jón Ólafur ólst upp í Hlíðunum og gekk í Hlíðaskóla og Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1976 og BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Samhliða náminu stundaði hann rannsóknir af miklu kappi undir leiðsögn Jóhanns Axelssonar og kenndi lífeðlisfræði við Háskóla Íslands. Hann flutti síðan út til Svíþjóðar 1983 ásamt konu sinni og syni og hóf þar doktorsnám sem fjallaði um áhrif ósjálfráða taugakerfisins og ýmissa lyfja á stjórn blóðflæðis. Hann varði doktorsritgerð sína við Gautaborgarháskóla árið 1988 og var ráðinn lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sama ár. Frá 1995 starfaði hann sem prófessor í lífeðlisfræði og kenndi við flestar deildir Heilbrigðisvísindasviðs. Hann stundaði jafnframt fjölbreyttar rannsóknir á sviði lífeðlisfræða. Hann tók virkan þátt í félagsmálum og sat m.a. í Háskólaráði.
Jón Ólafur var í sveit sem barn, fyrir norðan og sunnan, og var mikill náttúruunnandi. Fyrir nokkrum árum festi hann ásamt öðru góðu fólki kaup á landi í Borgarfirði og stúderaði holtið og rýndi í rofabörðin. Hann hafði áhyggjur af uppblæstri landsins og ofbeit. Jón Ólafur naut þess að fara í fluguveiði, lesa ána með fluguna á lofti en aflinn var aukaatriði. Hann var félagi í Ármönnum – Félagi um stangveiði og sat um tíma í stjórn þess.
Jón Ólafur var mikill áhugamaður um tónlist en blúsinn var í uppáhaldi og var hann tíður gestur á Blúshátíð í Reykjavík.
Jón Ólafur átti stóran og fjölbreyttan vinahóp sem hann hélt góðu sambandi við.
Ég hitti fjölskyldu Jónsa og vini á föstudaginn var. Það var góð stund þar sem góðar og skemmtilegar minningar voru rifjaðar upp.
Jónsi markaði djúp spor í hjörtu fólks sem hann umgekkst og hans er og verður sárt saknað. Margar sögur flugu um í stofunni, skemmtilegar sögur og ég leyfi mér að rifja sumar þeirra upp hér, því þær létta lund og eru sem smyrsl á sárin í sorginni.
Hvassaleitisgengið hefur haldið saman frá því meðlimir þess voru í barnaskóla. Unglingsárin voru spennandi og viðburðarík. Þeir segja að yfir Jónsa hafi verið stór ára og að erfitt hafi ætíð verið að halda í við hann. Leiftrandi gáfur og lífskraftur einkenndu hann alla tíð. Þegar þeir voru að stofna fjölskyldur og mennta sig og vinna, urðu samfundir stopulli, en alltaf þegar þeir hittust var það eins og þeir hefðu seinast sést í gær.
Hann var hár og myndarlegur, svipsterkur og yfir honum reisn. Ég sá mynd af honum sem tekin var þegar hann hafði safnað miklu hári og stelpurnar hans höfðu fléttað úr því tvær rótarfléttur sem náðu niður á bak. Ekki er laust við að hann hafi minnt mig á svipsterkan indíanahöfðingja. Föðurætt Jónsa var fá Vestfjörðum og stundum er sagt um Vestfirðinga að þeir hafi sumir í sér suðræna erfðavísa. En hvað sem því líður þá erum við Íslendingar allir útlendingar að uppruna sé farið nógu langt aftur í tímann.
Hann hafði stórt og þétt faðmlag sem hann gaf mörgum um ævina og þegar mágkona hans var orðin ein með sín börn og kom eitt sinn í heimsókn og leið ekki vel, sagði hún við Jónsa þar sem hann lá og hvíldi sig eftir matinn: „Nú verð ég að fá að leggjast ofan á þig“. Til er skondin mynd af atvikinu sem er sterkt tákn um væntumþykju og umhyggju sem var ríkur þáttur í lífi Jónsa.
Raunvísindamaðurinn reyndist hafa mjúkt hjarta. „Guðdómurinn í honum var í faðmlaginu“ sagði mágkonan. Börn hennar töluðu um athyglina sem hann veitti þeim og hvernig hann gat verið í senn strangur en hlýr.
Hann gegndi líka hálfgerðu pabbahlutverki fyrir yngri bræður sína sem alla tíð litu upp til hans. Hvað var annars hægt að gera!
Þegar starfsstöð „litla“ bróður færðist í fræðahúsið þar sem Jónsi hafði sína bækistöð lyftist hann upp við það að vera í sama húsi og „kóngurinn“! Og annar „litli“ bróðir segir að í rökræðum hafi Jónsi seint gefið sig nema þegar honum tókst að snúa taflinu við og gera rök litla bróður að sínum! En svo bætti hann við um Jónsa: „En hann var enginn besserwisser, og gat vissulega viðurkennt mistök sín ef svo bar undir.“
Í MH muna skólafélagarnir hann í græna jakkanum sem hann virtist aldrei fara úr, með rjúkandi pípuna í munnvikinu.
Hann fór snemma í rannsóknir, vísindin áttu hug hans allan. Lífið var honum áhugamál og viðfangsefni. Eitt sinn tók hann dauðvona mýs með sér heim af rannsóknarstofunni og hressti þær við og annað sinn þegar mús var í húsi nokkru og hann kallaður til sem meindýraeyðir kom ekki til greina að drepa músina.
Hann var agaður og vissi alltaf hvar hann geymdi skjöl og skýrslur. Litli bróðir, sem er himnalengja eins og hann, kom í heimsókn á skrifstofuna og þar sást ekki í skrifborðið fyrir skjölum, en Jónsi teygði sig í bunka á borðinu og dró út skjalið sem hann þurfti að nota. Allt var því í raun í röð og reglu – hans reglu!
Jón Ólafur kenndi heilbrigðisstarfsfólki um áraraðir og þekkti vel til í heilbrigðiskerfinu og var því afar þakklátur og mat starfsfólk þess mikið.
Hann var ætíð kröfuharður á sjálfan sig og sumir segja að hann hafi sett standardinn í hjúkrunarfræðinni. Hann var sían sem nemendur urðu að komast í gegnum. Þegar einn nemenda kvartaði yfir að hafa ekki náð einu prófi, sagði Jónsi: „Hvað, hefurður ekki fallið fyrr?“ Hann vissi að fall er fararheill. Hann var strangur kennari en vissi ætíð nákvæmlega hvað hann var að gera. Í MH hjálpaði hann mörgum með stærðfræðina m.a. Hólmfríði og við þekkjum afleiðingarnar af því!
Einhverju sinni var Skarphéðinn faðir hans í móral og illa á sig kominn og kallaði á soninn og bað hann um að redda einhverju sem gæti hresst hann við. Jónsi kom með lyf merkt þremur krossum og gaf honum og sagði að hann mætti bara taka 3 töflur í einu. Skarphéðinn hélt að þetta væri eitthvert undralyf sem gæti lagað allt, tók þær skv. resepti Jónsa, en fannst þær reyndar ekki breyta miklu – enda voru þetta bara magnyltöflur! Jón Ólafur hafði ekki langt að sækja húmorinn. Pabbi hans var öðru sinni illa fyrir kallaður í vinnunni og bað um að mega fara í kistulagningu. Hann fékk leyfið. Skömmu síðar fann yfirmaðurinn hann þar sem hann hafði lagt sig í gluggakistu í flugturninum!
Jón Ólafur naut þess að fara út og skoða kvöldhimininn, náði sér í stjörnukort til að geta betur ratað á milli himinljósanna og þekkt merkin.
Hann var enginn göngugarpur um fjöll og firnindi en naut þess að vera úti í náttúrunni, einkum að veiða. Sú iðja gaf honum frið og tóm til að hugsa. Veiðiferðir vinahópsins urðu margar og á leiðinni í eina þeirra þurfti vinur að koma við í búð og kaupa sér nærbuxur því hann hafði gleymt sínum heima. Hann tók fyrsta pakkann sem hann sá í búðinni og þegar hann svo fór í buxurnar eftir baðið með strákunum reyndust þær vera G-strengur með tungumerki Rolling Stones að framan! Það var mikið hlegið í þeim veiðitúr!
Bústaðurinn Dyrholt sem þau hjónin eiga í félagi við aðra fjölskyldu að Indriðastöðum í Skorradal var þeirra skjól og griðarstaður. Hann hafði áhuga á landgræðslu og að vinna gegn ofbeit og var, ólíkt sumum kollega sinna, lúpínumaður þótt sumir þeirra kölluðu plöntuna „græna minkinn“. Hann hafði séð hana vinna kraftaverk í Holti á Síðu þar sem Holtsborgin hafði blánað og grænkað fyrir mátt hennar sem vék síðan fyrir öðrum gróðri.
Hann var græjukall og elskaði tónlist, einkum blús og rokk. Hann pældi mikið í sándi og gæðum upptaka.
Jón Ólafur hafði sterka nærveru. Hann var alla tíð óhræddur og djarfur. Hann var hugrakkur og æðrulaus í veikindum sínum og þekkti reyndar sem vísindamaður nokkuð vel til margs af því sem hrjáði hann. Hann hafði kennt mörgum þeirra sem sinntu honum í veikindunum, læknum og hjúkrunarfræðingum. Hann hældi þeim og þau honum fyrir góða kennslu. Gagnkvæm virðing ríkti á meðal þeirra.
Hann var Hólmfríði og dætrunum afar þakklátur fyrir handleiðslu og stuðning í veikindinum. Covid-ástandið skerti möguleika fólks til heimsókna en vinir og vandamenn stóðu með honum í huga, í bænum sínum og góðum óskum.
Hann stytti sér stundir í veikindunum og hlustaði oft á útvarp. Hann lýsti því yfir að hann vildi gjarnan ræða við tvo aðila, annan þeirra hafði hann hlustað á í útvarpsviðtali og sagði við Hólmfríði: „Nú verðurðu hissa því hann er prestur.“ Klerkur sá hafði komið honum á óvart sökum víðsýni og breiðrar reynslu af ólíkum fræðigreinum. Engum sögum fer af því að þeir hafi hizt.
Honum þótti afar vænt um Hólmfríði og dæturnar, Unu Björk og Ásu Kareni og þegar Hólmfríður kvaddi hann eitt sinn og sagði: „Sofðu nú vel og láttu þig dreyma vel.“ Hann glotti við og svaraði: „Ég ætla að láta mig dreyma engla því ég á 3 engla.“ Hann elskaði fjölskyldu sína, móður, bræður og vini.
Hann var ekki trúaður í hefðbundnum skilningi þess orðs en hann hafði sínar leiðir til að túlka handanveruna. Fjölskyldan talaði mikið um Jón Börk. Þótt horfinn væri af þessu jarðlífi var hann áfram hluti af þeim.
Það var erfið reynsla að missa soninn. Jónsi tjáði sig um það í viðtali í DV sem ég las á dögunum og það bar vott um þroska og æðruleysi, lærdóm af biturri reynslu. Á minnisvarða um þau sem fórust í Skerjafjarðarslysinu stendur skrifað:
„Hér settist sólin í lífi þeirra en geislarnir lifa áfram með okkur.“
Í kenningum lúthersku kirkjunnar er til svar við spurningunni: „Hver er kristinn?“ Svarið er: Sú eða sá sem skírður er í nafni föður, sonar og heilags anda, er kristinn. Ég er skírður og ég er fæddur á tilteknum stað. Hvorugu verður breytt af hálfu þess sem gaf mér lífið. Ég get hins vegar efast og misst trúna en Guð missir ekki trúna á manneskjuna. Guð gleymir mér aldrei. Hann gleymir engum, skírðum eða óskírðum. Hann man þig.
Hvernig túlkum við veruleikann? Sumir gera það með aðferðum vísindanna og fræða, aðrir í gegnum menningu og tónlist, enn aðrir í gegnum skáldskap þar sem hæfileikinn til að hugsa út fyrir boxið er virkjaður, enn aðrir eftir leiðsögn kristninnar eða annarra trúarbragða. Og margir gera það með blöndu af öllu þessu, með vísindum og trú, menningu og listum, með því að horfa upp og út fyrir boxið og velta fyrir sér mörkum eða óendanleika alheimsins og spyrja hvort hugsanlega sé lifandi vitund að baki öllu þessu dýrðarverki.
Söngvaskáldið Kim Larsen átti sína trú og hann tjáði sig með söng sem ber yfirskriftina Móðir jörð. Læt hér fylgja eina hendingu úr bæn hans í þýðingu minni:
Þú ert sumar og vetur, þú ert mogunn og gær,
þú ert bernskunnar minni og hjartað sem slær,
þú ert döggin sem fellur og græðir upp svörð,
þú mín fegursta, Móðir jörð.
En hvaðan kemur Móðir jörð? Hvert er lögheimili lífsins?
Grundvallar tilvistarspurningar manneskjunnar eru: Hver er ég? Hvaðan kem ég? Hvað verður um mig?
Við sem hér kveðjum Jón Ólaf munum hann og munum muna hann um ókomin ár.
Hver man þig núna? Hver mun muna þig eftir 20 ár, 50 ár, 100 ár?
Hver mun muna þig þegar allir verða horfnir sem muna þig nú eða síðar?
Trú mín er sú að yfir öllu lífi, allri veröldinni, yfir alheiminum og í alheiminum, sé vitund sem allt elskar og engum gleymir. Aldrei!
„Lífið er bara efnahvörf“ sagði Jónsi. Lífið kvinaði af ljósinu, ljósinu eina sem kviknaði í árdaga fyrir skrilljónum ára. Ég tek undir það, en trúi því að lífið eigi sér æðri uppruna og merkilegt finnst mér það að þegar höfundur Sköpunarsögunnar teflir fram lífinu í sínum texta, er maðurinn yngstur í sköpunarverkinu, röð lífsins áþekk og í kenningum Darwins.
Þegar vísinda- og fræðimaðurinn Eggert Ólafsson, fór úr Sauðlauksdal 29. maí 1768, eftir vetrardvöl, með konu sinni, kvaddi séra Björn Halldórsson hann og söng úr hlaði með þessum orðum er hann samdi af tilefninu. Daginn eftir drukknuðu þau hjón á Breiðafirði.
Far nú, minn vin, sem ásatt er
auðnu og manndyggðabraut,
far nú, þótt sárt þín söknum vér,
sviftur frá allri þraut.
Far í guðs skjóli, því að þér
þann kjósum förunaut.
Farðu blessaður, þegar þver
þitt líf, í drottins skaut.
(Sr. Björn Halldórsson, Sauðlauksdal 1768)
Ljósið!
Megi Ljósið umvefja Jón Ólaf Skarphéðinsson – og þig – og lýsa þér og okkur öllum á lífsins vegi.
Amen.
– – –
Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju þriðjudaginn 23. febrúar 2021 kl. 13. Vegna sóttvarna verður gestum boðið, en athöfninni verður streymt og má nálgast hlekkinn á mbl.is/andlat eða á https://youtu.be/HLyU_OL2sBk

