Ég hef glímt við það að flytja ræður í 40 ár og komist að því að tungan er tónlist, málið er músík.
Í fjölmiðlum er eins og tónlistin í tungunni sé að riðlast. Hún er orðin fölsk. „Söngurinn“ rangur, nóturnar falskar, hrinjandin röng.

Þetta er áberandi hjá mörgu yngra fólki sem talar í fjölmiðlum sem bjagar „tónlistina“ og „syngur“ þar af leiðandi falskt.
Ég nefni nokkur dæmi. Allt of algengt er að fólk, í viðleitni sinni til að tala skýrt, slíti í sundur samsett orð.
Sumir veðurfræðingar slíta t.d. í sundur orð sem sett eru saman úr þremur liðum. Orðið, suðausturland, sem lesa ber sem eitt orð væri, á ekki að lesa sem þrjú orð: Suð-austur-land – og alls ekki með sérstakri áherslu á síðasta liðinn.
Svo er það veðurfræðingurinn í Sjónvarpinu sem bætir gjarnan greini við orðið og talar um lægð á Suðaustur-land-inu og með ýktri áherslu á greininn. Hvenær byrjar hún að segja frá lægð yfir Noreg-inum eða Skot-land-inu eða Amerík-unni eða Græn-land-inu?
Veðurhorfur á suðausturlandi ber að syngja/lesa sem eitt orð væri, en ekki þrjú. Við tölum um suðurland, vesturland, norðurland og austurland og greinir hengdur við þessi orð gerir þau bara ankannaleg í flutningi. Greinirinn er algjörlega óþarfur.
Sumir fréttamenn ráða ekki við að lesa t.d. orðið forsætisráðherra, eða önnur ráðherraheiti, sem eitt orð, en leysa það upp í þrjú eða jafnvel fjögur: for-sætis-ráð-herra.
Líkja má því að tala, við listina að dansa. Dansparið þarf að líða í takti yfir gólfið, en ekki hökta eins og stirðfær gamalmenni.
Svo eru það persónufornöfn í enda orðs.
Ég kann frétt utanbókar sem flutt var á Rúv fyrir nokkrum árum og hljóðaði svo: „Konu voru dæmdar bætur eftir að maður réðst á hana.“ Fréttin var lesin svona í endann: „. . . réðst á HANA“, en ekki á’ana. Og þá vaknaði spurningin hvort Haninn hafir fengið einhverjar bætur?
Annar fréttamaður talaði um einhvern mann og son hans og endaði á að segja: „. . . sonur Hans “ en ekki sonur’ans. Og þá var blessaður maðurinn orðinn sonur einhvers annars manns sem ber nafnið Hans.
Tungan er tónlist, málið er músík, og því verður hrynjandin að vera rétt, hún þarf að styðja málið og framsetninguna svo það verði skiljanlegt á öldum ljósvakans.
Svo eru það sumir þaulvanir útvarpsmenn sem tala í höktstíl eins og punktur sé á eftir hverju orði. Flæðið gufar upp og höktið tekur yfir. Hugsanlega stafar þetta af nærveru hljóðnema og er því orðið að einhverskonar hljóðnemasótt sem allt of margir virðast sýkjast af í hljóðstofum landsins. Svo gæti þessi höktstíll stafað af því að öndunin sé ekki rétt. Söngvarar læra t.d. að anda rétt og þegar ég var í guðfræðinámi fengum við leiðsögn talmeinafræðings til að búa okkur undir framtíðarstarfið. Hann lagði gríðarlega áherslu á rétta öndun og að fá röddina til „að liggja“ rétt því þá þreytist hún ekki. Sú kennsla var bæði gagnleg og góð.
Að lesa upp í útvarpi krefst þess að fólk lesi með réttri hrynjandi og leyfi málinu að flæða eins og rennandi og tærri lind sem líður niður hallandi landslag.
Tungan er tónlist, málið er músík.
Þið sem talið í fjölmiðlum og flytjið mál ykkar í eyru þúsunda ef ekki tugþúsunda hlustenda dag hvern, þurfið að huga vel að þessu.
Þá er það efni í annan pistil að fjalla um málflutning íþróttafréttamanna, sem sumir hverjir hafa einkennilega hrynjandi í máli sínu og enda setningar gjarna á dramatískan hátt, eins og allar fréttir snúist um skelfilegar náttúruhamfarir með gríðarlegu mannfalli.
Flest fjölmiðlafólk skilar hins vegar sínu máli á óaðfinnanlegan hátt og það ber að þakka, en þau sem eru óvön eða óttaslegin fyrir framan hljóðnemann, þurfa að skoða framsetningu sína gagnrýnum huga og fá góð ráð, t.d. frá talmeinafræðingum og ekki sakar að hlusta á næma og trúfasta hlustendur.
Syngjum rétt en ekki falskt.
Tungan er nefnilega tónlist. Málið er músík.