Minningarorð +Guðrún Þórðardóttir 1922-2021

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Guðrún Þórðardóttir

húsmóðir

1922-2021

Útför/bálför frá Bústaðakirkju

mánudaginn 23. ágúst 2021 kl. 15

Sálmaskráin er neðanmáls og þar geturður skoðað athöfninan, sálma og annað sem flutt var.

Til að hlusta: smelltu á skrána hér fyrir neðan og þá heyrist ræðan.

Þegar ég minnist Guðrúnar Þórðardóttur þá fyllist hjarta mitt þökk og gleði. Hún var eiginkona móðurbróður míns og ætíð kölluð Dúdda í minni fjölskyldu. Hún reyndist mér alla tíð vel. Hún lagði að baki næstum 99 ár, fædd 4 árum eftir að heimsbyggðin gekk í gegnum spænsku veikina, sem enginn trúði að kæmi aftur í annarri mynd, en reyndin er önnur. Covid-19 hefur lamað heiminn, þessi agnarlitla veira, sem mannsaugað greinir ekki. En hún slapp við veiruna, en elli kerling sigraði að lokum. Það er lífsins saga.

Í hinni helgu bók segir á einum stað:

„Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu

ár . . .“ (Sálmarnir 90.10)

Lífið er í raun stutt, hvernig sem á það er litið. Við fæðumst og svo ber tímans straumur okkur á endastöð. Og þar verða allir að fara úr vagninum.

Þegar móðir mín fann að ég var á leiðinni inn í heim ljóssins í Sólgötu 8, á Ísafirði, fyrir tæpum 72 árum, kallaði hún á Dúddu mágkonu á neðri hæðinni, sem hringdi strax í Elínu ljósmóður, og þegar Elín kom svo á svæðið var ég þegar í heiminn borinn og horfði í spurn í augu móður minnar – og augun hennar Dúddu – og svo auðvitað ljósmóðurinnar. Þær 3 voru fyrstu manneskjurnar sem ég augum leit, þrenning kvenna, sem sá nýja mannveru koma í heiminn. Líf okkar allra er undur.

Í Davíðssálminum sem ég las hér fyrr í athöfninni kemur fram sterk trú á það að við séum engin tilviljun, heldur vorum við öll til, fyrir getnað og fæðingu, sem hugmynd, sem mögulegar manneskjur, pótensíal einstaklingar, sem svo urðu að veruleika.

Sálmaskáldið ritaði þessi orð fyrir 2500 árum eða

svo:

„Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni,

ævidagar mínir voru ákveðnir

og allir skráðir í bók þína

áður en nokkur þeirra var til orðinn.“

(Davíðssálmur 139:16)

Ævidagar Dúddu urðu margir og dagarnir voru góðir enda þótt lífið hafi ekki ætíð verið sem eintómur dans á rósum.

Vitund hennar var mótuð af velvild og kærleika. Augu hennar og bros sögðu meira en þúsund orð.

Þið sjáið hvað ég er að vísa til á myndinni fremst í sálmaskránni.

Við frændsystkinin í mínum ættlið erum sammála um að hún og Guðmundur heitinn, maður hennar, hafi sýnt okkur einlægan áhuga og elskusemi alla tíð. Þau voru einstök hjón og minningarnar um þau vekja með okkur gleði og þakklæti.

Dúdda var einstök kona, heil og sönn.

Sögur herma að hún hafi hitt frænda minn, Ísfirðinginn árið 1943. Þegar hún fékk svo tækifæri lífs síns, sem var að fara til náms í húsmæðraskóla, valdi hún Húsmæðraskólann Ósk, á Ísafirði. Án efa hafði ungi maðurinn þar í bæ áhrif á valið. Hún var þar við nám á Ísafirði frá haustdögum 1944 og fram í janúar 1945.

Hún var ljós yfirlitum, með fallegt bros og blíð augu, en Gummi, dökkur á brún og brá, með svart hár, góður íþróttamaður með lágan þyngdarpunkt sem gerði honum kleift að halda jafnvægi í hita knattspyrnuleiksins. Hann var svona Messi týpa og frábær í fótbolta, en liðin í Barcelona og annars staðar í Evrópu fréttu bara ekki af Gumma LÞ. Þar misstu þau af miklu. Hann var hins vegar í knattspyrnufélaginu Herði og við, frændur hans, vorum skráðir í Hörð um leið og við höfðum hlotið skírn og nafn.

Eftir skólavistina vestra var framtíðin ráðin og Dúdda flutti að lokum í Sólgötu 8, sem Gummi hafi byggt með foreldrum sínum og systkinum sem öll höfðu gælunöfn: Iddi, Salla og Dúnna, en hétu Friðrik, Salóme og Guðrún.

Móðir Guðmundar, Guðbjörg Margrét, var þá fallin frá, langt fyrir aldur fram og Dúdda hitti hana aldrei. Gummi saknaði móður sinnar en stoltur gat hann boðið verðandi eiginkonu sinni í „Höllina“ eins og einn gamansamur nágranni fjölskyldunnar, Kitti-ljúfur, kallaði húsið, sem var kjallari og tvær hæðir og ris með 4 íbúðum fyrir afa minn og ömmu, og þeirra börn. Húsið var byggt á 9 mánuðum, steypan hrærð í höndum, allir hjálpuðust að, Iddi átti vörubíl og gat sótt möl í steypuna og innréttingar voru smíðaðar af Gumma og félögum hans.

Guðrún Þórðardóttir fæddist á Stokkseyri 29. ágúst 1922. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 3. ágúst s.l. Foreldrar hennar voru Þórður Jónsson (f. 1886, d. 1959) og Málfríður Halldórsdóttir (f. 1889, d. 1933). Systkini Guðrúnar voru: Sigurður (f. 1912, d. 1978), Kristín (f. 1913, d. 2003), Ragnar (f. 1915, d. 1972) og Helga (f. 1926, d. 2016).

Fósturforeldrar Guðrúnar frá 2ja til 13 ára aldurs voru Guðrún Torfadóttir (f. 1869, d. 1950) og Helgi Jónsson (f. 1868, d. 1950). Fósturbræður Guðrúnar voru Jón Helgason (f. 1903, d. 1976) og Hálfdan Helgason (f. 1908, d. 1972).

Eiginmaður Guðrúnar var Guðmundur L. Þ. Guðmundsson húsgagnasmíðameistari f. í Hnífsdal 4. des. 1921, d. 24. júní 2008. Þau giftust 16. nóv. 1946 og bjuggu fyrst á Ísafirði en í Reykjavík frá 1953. Synir Guðrúnar og Guðmundar eru:

1) Gunnar Helgi, læknir f. 1947, kvæntur Ragnheiði Narfadóttur, hjúkrunarfræðingi (f. 1948). Synir þeirra eru:

a) Guðmundur, læknir (f. 1971), kvæntur Ernu Guðlaugsdóttur. Synir þeirra eru, Daníel (f. 2010) og Gunnar Emil (f. 2012). Dóttir Guðmundar og Lovísu R. Ólafsdóttur er Magdalena (f. 2000).

b) Gunnar Narfi, lögfræðingur (f. 1977), kvæntur Lóu Ingvarsdóttur. Börn þeirra eru Ingvar Dagur (f. 2006) og Emma Sóley (f. 2013).

2) Björn, framhaldsskólakennari f. 1955, kvæntur Margréti Héðinsdóttur, hjúkrunarfræðingi (f. 1957). Börn þeirra eru:

a) Héðinn, lífskúnstner (f. 1975), sambýliskona Þórhalla B. Jónsdóttir. Synir þeirra Jón Dagur (f. 2013) og Davíð Björn (f. 2014). Sonur Héðins og Guðrúnar H. Kristinsdóttur er Kristinn (f. 1996), sambýliskona Ástrós Ársælsdóttir, sonur þeirra er Ársæll Örn (f. 2021). Sonur Héðins og Maríu V. Ragnarsdóttur er Haraldur Hjalti (f. 2002).

b) Guðrún, lífefnafræðingur (f. 1980), gift Stefan Otte. Börn þeirra eru Linda (f. 2009), Hanna (f. 2012) og Tómas (f. 2020).

c) Helgi, íþróttafræðingur (f. 1990), sambýliskona Eva Dögg Jóhannsdóttir.

3) Guðmundur Þórður, handknattleiksþjálfari f. 1960, kvæntur Fjólu Ósland Hermannsdóttur, fatahönnuði (f. 1969). Dóttir þeirra er Júlía Ósland (f. 2007). Áður var Guðmundur Þórður kvæntur Helgu B. Hermannsdóttur. Synir þeirra eru:

a) Hermann, leiðsögumaður (f. 1990), sambýliskona Sigríður Guðbrandsdóttir.

b) Guðmundur Lúðvík, framkvæmdastjóri (f. 1992), sambýliskona Katrín Einarsdóttir. Dóttir þeirra er Carmen Helga (f. 2020),

c) Arnar Samúel, rafgreinir (f. 1996).

Guðrún gekk í Miðbæjarbarnaskólann og Gagnfræðaskóla Reykjavíkur. Sem unglingur vann hún við barnagæslu. Vann í bakaríi Gísla Ólafssonar frá 1939 – 1944 er hún fór í húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Guðrún var lengst af heimavinnandi og rak fallegt heimili í Litlagerði 6. Hún og Guðmundur voru einstaklega gestrisin. Hún var myndarleg hannyrðakona. Hafði mikið yndi af því að ferðast, ekki síst um Ísland. Hún var kærleiksrík móðir og góður vinur vina sinna. Var í saumaklúbbi með vinkonum um áratugaskeið. Guðrún fór aftur að vinna úti rúmlega fimmtug við ræstingar, lengst af í Vogaskóla.

Ég sting hér inn í ræðuna kveðju frá Helga Björnssyni en hann er aðstoðarmaður Patreks Andrésar Axelssonar á Ólumpíuleikum fatlaðra í Tokýó og gat því ekki fylgt ömmu sinni til grafar.

Guðmundur Gunnarsson sem var lagður af stað frá Svíþjóð og átti að vera í hópi líkmanna, veiktist og varð að snúa við. Gummi biður fyrir góðar kveðjur frá sér, Ernu og sonum þeirra, Daníel og Gunnari Emil.

Þá er hér kveðja frá bróður mínum, með hlýhug og þökk fyrir góðar stundir og heilræði á æskuárunum. „Takk fyrir allt, Dúdda mín.“ Mínar bestu kveðjur, Grétar Steinsson.

Ævisaga Dúddu var viðburðarríkari og flóknari en knappur formáli sem birtist með minningargreinum í Morgunblaðinu gefur til kynna.

Margrét, tengdadóttir Dúddu, skrifaði upp eftir henni minningar frá liðnum árum. Áhugaverð er sú lesning og varpar ljósi á bernsku hennar, unglingsár og svo það sem við tók. Ég hef sótt mér nokkur minningabrot úr þeim texta.

Eins og fyrr er komið fram fæddist hún á Stokkseyri en fór ung í fóstur til öndvegishjóna og þar var hún til 13 ára aldurs. Móðir hennar glímdi við veikindi og lést þegar Dúdda var 11 ára. Hún átti góða daga hjá fósturforeldrum sínum, Helga og Guðrúnu og uppeldisbræðrum sínum, Hálfdani og Jóni, sem voru mun eldir en hún. Auðvitað vöknuðu spurningar í hjarta ungrar stúlku um mömmu og pabba og litlu systur, sem var hjá mömmu, en ekki hún sjálf. Málfríður móðir hennar og Guðrún fósturmóðir voru góðar vinkonur þó 20 ára aldursmunur væri á þeim og höfðu báðar alist upp á Skúmsstöðum. Málfríður kom þangað sem hvítvoðungur.

Foreldrar hennar voru vel stæð á Stokkseyri. Þórður faðir hennar átti húsið, Brávelli, ásamt öðrum manni og rak þar bókaverslun. Hann sá um sparisjóðinn og gerði upp fyrir kaupfélagið. Hann gerði út bát, en sá bátur fórst. Pabbi hennar missti allt sitt á erfiðum tímum og flosnaði upp frá Stokkseyri og flutti til Reykjavíkur 1924 ásamt konu sinni og þrem börnum en Dúdda varð eftir hjá fósturforeldrum sínum.

Lífið á bernskuárum Dúddu var ólíkt því sem við eigum nú að venjast. Atvinna gat verið stopul. Allir urður að leggja sitt að mörkum, líka börnin, allir urður að hjálpast að og sýna ráðdeild og dugnað. Þegar Dúdda var 13 ára flutti hún til föður síns og sá að miklu leyti um heimilið, þrif og matseld. Fólk bjó við meiri óvissu þá en nú og varð bara að bíta á jaxlinn í amstri daganna og taka því sem að höndum bar. Hún þekkti þó pabba sinn ekki mikið þegar hún fór frá fósturforeldrum sínum, Guðrúnu og Helga, 13 ára gömul haustið (1935) vegna þess að Guðrún fósturmóðir hennar var komin með Alzheimer og gat ekki lengur haft hana. Þá flutti hún til pabba síns og fannst það erfitt. Hún man eftir því að þegar hún var á leiðinni á Njálsgötuna til að flytja þangað hafi hún snúið við og hlaupið grátandi til baka og leið mjög illa. Hún var með sífelldan höfuðverk allan veturinn og leið ekki vel. Það var fyrri veturinn sem hún var í Ingimarsskólanum. Hún upplifði án efa óvissu og fann til óöryggis sem barn og unglingur og það fylgdi henna alla tíð og koma fram í kvíða og líkamlegri vanlíðan á fullorðinsárum. En hún átti samt góða ævi og farsæla og gat stolt horft yfir farinn veg.

– Hér geri ég hlé á flutningi ræðunnar sem er í lengra lagi og við fáum að heyra lag eftir Stokkseyringinn Pál Ísólfsson sem var vinur Þórðar föður Dúddu en þeir spiluðu oft saman, Páll á harmóníum og Þórður á fiðlu. Þeir voru leikfélagar í æsku og þess má geta að Þórður styrkti Pál til náms í Þýskalandi. Organisti og einleikari flytja nú lagið Í dag skein sól á sundin blá.

„Þegar Dúdda fór af [húsmæðra]skólanum var hún heitbundin kona [. . .] og vissi að hún færi aftur til Ísafjarðar til að gifta sig. Hún fór því ekki að vinna þegar heim kom heldur fór hún að undirbúa brúðkaupið. Það þurfti að sauma viskustykki, handklæði og rúmföt. Handklæðin og viskustykkin voru öll merkt með krosssaumi og skreytt. Rúmfötin saumaði Dúdda úr lérefti þar sem damask var ekki fáanlegt. Hún bróderaði þetta allt saman og merkti eins og þá var siður. Þegar hún fór svo vestur sennilega í október 1946 til að gifta sig raðaði hún þessu öllu í kommóðu sem var með þrem skúffum í. Öllu var raðað snyrtilega í skúffurnar og svo var „slegið utan um kommóðuna“ og hún send með skipi til Ísafjarðar. Sjálf flaug Dúdda vestur og minnist þess að hafa þurft að bíða marga daga eftir fluginu vegna veðurs. Á þeim tíma varð að fljúga sjónflug og lítið mátti vera að veðri svo hægt væri að lenda. Það var afráðið að Helga systir hennar kæmi í brúðkaupið og hún átti að koma með brúðarvöndinn og slörið. Vélin sem Helga átti að koma með gat ekki lent og slörið og vöndurinn skilaði sér ekki. Af þeim sökum fór brúðkaupið fram heima hjá prestinum, en ekki í kirkjunni eins og ráðgert hafði verið.

Á þessum tíma frá janúar 1945 til október 1946 voru margir hjálpar þurfi ýmist vegna veikinda eða ómegðar. Dúdda hjálpaði fólki á þessum tíma eins og hún gat og listinn yfir þá sem nutu krafta hennar er langur.

16. nóvember 1946 rann upp í faðmi fjalla blárra, rétt áður en skammdegið skall á, sem varir fram til þess er Ísfirðingar halda Sólarkaffi, 25 janúar ár hvert, þegar sólin skín í sjálfri Sólgötunni. Brúpkaupsdagurinn, 16. nóv., var ekki valinn út í bláinn heldur af því að þá hefði tengdamóðir hennar orðið fimmtug en hún lést úr hjartaáfalli sumarið 1945, á 49. aldursári og þær hittust því aldrei.

Dúdda var stálminnug og greind kona sem hélt atgervi sínu til hinstu stundar enda þótt hún hefði mjög skerta sjón og heyrn hin síðari árin. Hún átti t.d. auðvelt með að læra tungumál og fylgdist alla tíð vel með öllu sem var á döfinn hverju sinni.

Bernskan var henni alla tíð hugstæð. En enda þótt efnahags- og félagslegar aðstæður hafi verið ólíkar í samanburði við samtíð okkar þá var lífið í skorðum. Trúin var fólki haldreipi, bænin og vonin um betri tíð, bjó með fólki. Samfélagið var einsleitara en nú, grunngildin voru klár og skýr, markmiðin líka, að vinna landi og þjóð gagn og gera sitt besta til að gera lífið bærilegra.

Dúdda var húsmóðir í orðsins fyllstu merkingu.

Þjóðfélagið hefur breyst og konur ekki lengur bundnar heimili og börnum, heldur hafa þær fengið tækifæri til starfsframa og menntunar. Þökk sé jafnrétti og heilbrigðum mannskilningi. En húsmóðurstarfið í sinni fyrri mynd var mikilvægt og göfugt. Heimili kvenna sem lögðu allt í það starf voru í það minnsta á pari við 5 stjörnu hótel. Morgunverður, hádegisverður, eftirmiddagskaffi, kvöldmatur og kvöldkaffi. Fjölskyldan settist saman við borð og naut ljúfengra rétta. Algengast var að fiskur væri á borðum 5 daga vikunnar og kjöt 2 daga. Er langlífi kannski einna helst fólgið í hollum mat og reglulegum máltíðum, reglu hvað varðar fótaferðir að morgni og háttatíma að kvöldi?

En þrátt fyrir alla hollustuna man ég að við Gunnar Helgi gúffuðum í okkur mjólkurblönduðu kaffi á Ísafirði með kringlum úr Gamlabakaríinu sem við difum fyrst í kaffið og svo í sykurkar og ef við borðuðum appelsínur þá var toppurinn skorinn af og sykurmolum troðið í gatið til að jafna sýruna! – Og við erum enn við góða heilsu!

Strákarnir hennar Dúddu fóru snemma að vinna og unnu allir á barnsaldri og unglingsárum í Landsbankanum sem sendlar og Gummi Þórður síðar sem forritari. Allir voru þeir knáir íþróttamenn, Gunnar lék fótbolta með Fram og Bjössi með Víkingi og varð unglingalandsliðsmaður og Gummi, Víkingur, varð landsliðsmaður í handbolta og síðar þjálfari heima og erlendis.

Bjössi rifjaði upp í mín eyru að þeir strákarnir hafi verið klæddir í heimaprjónaðar peysur og stífpressaðar terlínbuxur þegar þeir fóru í skólann. Þess vegna gat Bjössi ekki spilað fótbolta í frímínútum. „Maður spilaði ekki í stífpressuum terlínbuxum,“ en hann spilaði bara þeim mun meir eftir skólann þegar hann hafði skipt um föt! Þeir æfðu af ákafa m.a. í ganginum í Litlagerðinu og spörkuðu boltanum í eldhúshurðina og Dúdda tók ærslunum öllum með brosi á vör.

Hún var ætíð til staðar og tileinkaði líf sitt fjölskyldunni og heimilinu. Fyrsta sem strákarnir hrópuðu þegar þeir komu í hús var: „Mamma!“ Og alltaf var mamma til staðar. Hún helgaði líf sitt eiginmanni sínum og strákunum og svo þeirra fjölskyldum síðar á ævinni. Hún var afar nákvæm og vandvirk, reglusöm, nýtin og hagkvæm í rekstri heimilisins og vann margt í höndum. Segja má að hún hafi hugsað um hag eiginmanns og strákanna fremur en sinn. Hún hafði góða skapgerð, var sjálfri sér samkvæm og reyndi ekki að vera eitthvað annað en hún var í raun.

Enda þótt Ísafjörður hafi fengið allnokkurt rými í þessum minningarorðum vegna þess að þar tók líf hennar þá stefnu sem varðaði framtíðina þá má ekki gleyma því að hún lifði í Reykjavík uppfrá því, eða í 68 ár, og lengst af í Litlagerði 6. Þangað var ætíð gott að koma í heimsókn. Þar var hún sem drottning í ríki sínu, innan um fögur húsgögn, myndir og muni. Garðurinn var jafnan fagur og vel hirtur.

Gummi og Dúdda höfðu yndi af að ferðast og fóru í eftirminnilega Evrópuferð 1962, ásamt foreldrum mínum og fleirum, og svo eftir það kannski á ca. 5 ára fresti til útlanda. Slík ferðalög voru aldrei farin upp á krít. Fyrst var unnið og sparað og svo kom tíminn til að leyfa sér munað.

Þeir bræður hafa allir næmt auga og tengsl við náttúruna, stunda útivist og veiðar. Gunnar Helgi og Stella hafa ferðast víða og gengið um fjöll og firnindi, Björn og Margrét líka, en hann er flinkur að taka ljósmyndir af farfuglum og Gummi Þórður gengur og hjólar um óbyggðir ásamt Fjólu og svo eiga þau hund og hesta. Allir hundraðprósent menn, velmenntaðir og færir.

Dúdda lifði næstum heila öld. Næstkomandi sunnudag, 29. ágúst verða liðin 99 ár frá fæðingu hennar. Tíminn er afstæður a.m.k. líður hann mun hraðar hjá mér nú en þegar ég var unglingur og var alltaf að bíða eftir mikilvægum tímamótum. Eru hundrað ár langur tími? Það fer eftir því hvaða augum við lítum tímann. Svo dæmi sé tekið eru ekki nema 11 Dúddu-ævir frá landnámi og 20 frá fæðingu Krists. Það er ekki langur tími, leyfi ég mér að segja, ekki í hinu stóra samhengi.

Dúdda lifði ótrúlegar breytingar á lífsháttum á sinni ævi. Hún og hennar kynslóð hefur líklega lifað meiri breytingar, já, byltingar, en nokkur önnur kynslóð í sögu heimsins. Tækniframfarir hafa verið gríðarlegar s.l. 100 ár og nýjasta byltingin, sem fólgin er í alnetinu og samfélagsmiðlunum, er enn í þróun og mannkynið alls ekki búið að bíta úr nálinni með það allt saman.

Hvert leiðir þetta okkur? Hver er tilgangurinn með þessu öllu?

Þeirri hugsun vex fiskur um hrygg, nú á öld vísinda og tækni, að í tilverunni og að baki henni sé vitund, hugur og vilji. Þessi hugsun er kölluð pansychism sem vísar til alvitundar. Hún heillar mig hugsunin um að allt eigi sér uppruna og tilgang og að allt sé í tilteknu samhengi. Jóhannes postuli skilgreindi Guð með þremur orðum er hann sagði: „Guð er kærleikur.“ Þar með vísar hann til vitundar sem er í innsta eðli sínu góð og velviljuð.

Hefur náttúran vitund? Dýrin? Hvernig ratar krían til landsins á ári hverju? Enginn farfugl ferðast jafnlanga leið og hún. Hún gerir það til að vera í sól og sumri árið um kring. Hún leitar til ljóssins þessi litli fugl sem vegur aðeins um 100 grömm.

Ótrúlegt undur. Dýr hafa vitund, þau rata um og finna staði í órafjarlægð um veröld víða.

Eitt sinn var ég að undirbúa útför manns í Noregi sem hafði verið virkur skotveiðimaður. Hann lést á besta aldri. Fjölskyldan bjó á sveitabæ og kistan var flutt þangað og henni stillt upp á búkka á bæjarhlaðinu og stóð þar sem fjölskyldan hafði breitt undir kistuna laufguðum greinum og barri. Kistan var opin og hundur hins látna hnusaði af eiganda sínum og kistunni, ýlfraði og gelti.

Fjölskyldan átti hinstu kveðju með látnum ástvini og kvaddi hann með þökk. Þegar ekkjan leit upp af kistunni horfði hún allt í einu í augu fullorðins elgs sem stóð álengdar fjær í skógarjaðrinum og fylgdist með athöfninni. Var hann kominn til að kveðja veiðimanninn? Þegar athöfninni lauk og lokið hafði verið sett á kistuna, lét elgurinn sig hverfa hljóðlega inn í skógarþykknið, á sama hátt og hann hafði komið.

Vitund og veruleiki, handanvera og hérvera. Hvernig mun jörðinni, jurtum og dýrum, reiða af ef allt fer fram sem horfir? Ef býflugan hverfur getur þá lífið á jörðinni haldið áfram?

Páll postuli talaði um þjáningu jarðarinnar og sagði m.a.:

„Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur

fæðingarhríðir allt til þessa. Og ekki það eitt,

heldur stynjum við sem eigum frumgróða andans

einnig með sjálfum okkur meðan við bíðum

þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er með

endurlausn líkama okkar.“ (Róm 8.22-23)

Hvernig mun jörðinni farnast? Hvað verður um okkur? Við sem höfum verið til sem mögulegar mannverur, pótentíal verur, frá örófi alda og upphafi alls sem er, hverfum við bara og verða þá engin ummerki eftir okkur? Eða mun hin stóra vitund alls sem er, geyma okkur og þar með vitund okkar og veruleika um alla eilífð?

Þessar spurningar og margar fleiri eru þess virði að gefa gaum í leitinni að samhljómi við fegurðina, sannleikann, réttlætið og kærleikann, í dýpstu merkingu þessara mikilvægu og gildishlöðnu hugtaka. Heimurinn þarfnast þess að við gefum þessu gaum, komandi kynslóðir eiga það inni hjá okkur.

Guðrún Þórðardóttir lifði langa og farsæla ævi, það rættist vel úr stúlkunni sem fór á mis við móður sína en fékk skjól hjá góðu fólki og fann svo ástina og eignaðist góða syni sem allir hafa náð langt, hver á sínu sviði. Og svo eru það tengdabörnin og allir afkomendurnir. Í framtíðinn munu svo verða til nýir afkomendur, nýir einstaklingar, sem nú eru bara til í vitund hins almáttka, sem pótensíal einstaklingar, mögulegar manneskjur. Sumar þeirra verða að veruleika, aðrar ekki. Svona er lífið magnað og það að hafa fæðst mikið undur og þakkarefni.

Og nú er hún Dúdda kvödd með virðingu og þökk, hér í kirkjunni sem var nánast í bakgarði hennar og Gumma frænda í Litlagerði 6. Þau sóttu af og til hingað og voru við messur á hátíðum og helgidögum.

Lífið heldur áfram. Tímarnir breytast og mennirnir með, segir í máltækinu. Við höldum út í sumarið, sem enn á eftir að mæta okkur í nýjum veðra- og litabrigðum. Við höfum ætíð eitthvað í vændum sem við getum látið okkur hlakka til. Lífið er undur og í því býr vitund sem er öllu æðra, vitund sem elskar allt líf og geymir það í höndum sínum og hjarta.

Guð blessi minningu Guðrúnar Þórðardóttur og Guð blessi þig á lífsins vegi. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.