+Sigurður Jóhann Jóhannsson 1934-2021

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Sigurður Jóhann Jóhannsson

1934-2021

fv. bankastarfsmaður frá Ísafirði.

Útför frá Grafarvogskirkju

föstudaginn 3. september kl. 10.

Jarðsett í Gufunesi.

Öll þekkjum við málsháttinn: „Hver er sinnar gæfu smiður.“ Margt er það í lífinu sem við fáum ekki breytt og ráðum ekki yfir en svo er það ótalmargt sem háð er eigin ákvörðunum okkar og vali á lífsins leið. Hamingjan, gæfan er í það minnsta að einhverju leyti, í okkar eigin höndum. Lífsskoðanir og lífsmáti skipta miklu. Í Gamla testamentinu eru 150 sálmar kenndir við Davíð konung. Fyrsti sálmurinn fjallar um hamingjuna, gæfuna, hinn rétta veg. Þar er talað um þau sem trúa á Guð og leitast við að lifa í samfélagi við hann. Sá maður, karl eða kona, sem það gerir, verður lánsamur. Heyrum hvernig sálmaskáldið orðaði þetta mörgun öldum fyrir Krist:

Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum. (Sl 1.3)

Mér komu þessi orð í hug þegar ég byrjaði að semja þessi minningarorð yfir Sigurði Jóhanni Jóhannssyni. Hann var elskulegur maður, jákvæður, réttsýnn og vel gerður. Hann valdi hinn góða veg, var trúaður og heilsteyptur maður sem tókst á við áföll og veikindi á sínum yngri árum og stóð uppi sem sigurvegari.

Sigurður Jóhann Jóhannsson fæddist í Bolungarvík 12. desember 1934. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi 19. ágúst 2021. Foreldrar hans voru hjónin Jóhann Jón Jensson fæddur í Bolungarvík 15. apríl 1898, dáinn 21. apríl 1967 og Sigurða Sigurðardóttir, fædd á Breiðabóli í Hólshreppi 9. júlí 1895, dáin 18. janúar 1947. Bræður Sigurðar Jóhanns voru Hjörleifur Hafliðason, (f. 12. september 1920, dáinn 30. nóvember 2008), Sturlaugur, (fæddur 27. ágúst 1924, dáinn 24. júlí 2003) og Ágúst, (fæddur 31. júlí 1926, dáinn 25. febrúar 2019). Allir látnir.

Sigurður Jóhann kvæntist á jóladag, 25. desember 1957, Sæunni Sigríði Sigurjónsdóttur, fædd 25. júní 1936, fyrrum verslunarkonu og bankastarfsmanni. Foreldrar hennar voru Sigurjón Veturliðason og Kristín Kolbeinsdóttir, sem bæði eru látin. Sigurður Jóhann og Sæunn Sigríður eignuðust tvö börn.

1) Sigurjón Jóhann, fæddur 10. apríl 1957, eiginkona hans er Oddný Bára Birgisdóttir, fædd 4. apríl 1958. Börn þeirra eru:

a) Sæunn Sigríður gift Steingrími Rúnari Guðmundssyni. Dætur þeirra eru Svava Rún, Elma Katrín og Hildur Lóa.

b) Birgir Örn, sambýliskona hans er S. Tinna Miljevic. Börn hans eru Alexander Örn og Margrét Bára. Dóttir S. Tinnu er Úlfa Nadía.

c) Kristín Ósk sambýlismaður hennar er Haukur Örn Gunnarsson.

2) Sigurða fædd 19. apríl 1961. Fyrrverandi eiginmaður hennar er Kristinn Sævar Jóhannsson. Börn þeirra eru:

a) Sigurður Jóhann, sambýliskona hans er Tinna Cleopetra Jónsdóttir.

b) Ragnheiður Eva, sambýlismaður hennar er Kristinn Erlingur Árnason. Dóttir þeirra er Sunneva Karen.

c) Karen Harpa sambýlismaður hennar er Jón Ágúst Gunnsteinsson.

d) Axel Freyr.

e) Stjúpsonur Sigurðu er Bjarni Magni Kristinsson.

Sigurður Jóhann ólst upp fyrstu átta árin í Bolungarvík en flutti þá með foreldrum sínum til Ísafjarðar. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Sigurður Jóhann stundaði fyrst ýmis almenn verkamannastörf og skrifstofu- og verslunarstörf. Hann hóf störf við Landsbankann á Ísafirði árið 1963, varð skrifstofustjóri útibúsins á Ísafirði í ársbyrjun 1972 og gegndi því starfi þar til hann flutti til Reykjavíkur árið 1988. Þar tók hann við sömu stöðu í Breiðholtsútibúi Landsbankans og var staðgengill svæðisstjóra þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Sigurður Jóhann starfaði mikið að félagsmálum. Hann sat í bæjarstjórn Ísafjarðar um nokkurt skeið, fyrst sem varabæjarfulltrúi og síðan aðalmaður. Hann átti sæti í bæjarráði sem og byggingarnefnd Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Þá var hann formaður Íþróttabandalags Ísfirðinga árin 1964 -1978 og hafði áður átt sæti í stjórn þess. Hann átti sæti í sambandsstjórn ÍSÍ og stjórn knattspyrnufélagsins Vestra, sat um árabil í stjórnum Vlf. Baldurs og Sjálfsbjargar á Ísafirði. Hann starfaði einnig í Lionsklúbbi Ísafjarðar í 25 ár og var tvívegis formaður hans. Þá var Sigurður Jóhann ritstjóri Skutuls, málgagns Alþýðuflokksins á Vestfjörðum árin 1964 -1974. Hann ritaði einnig nær allar ritstjórnargreinar Bæjarins besta (BB) um þrjátíu ára skeið. Fyrir störf sín að íþróttamálum hefur Sigurður Jóhann hlotið gullmerki ÍSÍ og Íþróttabandalags Ísfirðinga. Sigurður og Sæunn Sigríður voru gerð að heiðursfélögum Ísfirðingafélagsins í Reykjavík árið 2017.

Þá starfaði hann í Frímúrarareglunni og var virkur Njálubróðir á Ísafirði. Frímúrarabræður standa heiðursvörð hér í dag.

Ég nefndi áföll og veikindi fyrr í ræðunni. Sigurður Jóhann var berklaveikur sem barn og ungur maður og dvaldi af þeim sökum á sjúkrastofnunum. Móðir hans dó úr sama sjúkdómi þegar hann var 12 ára. Hann lá þá sjálfur á spítalanum á Ísafirði. Hann komst ekki í útförina en gat fylgst með líkfylgdinni út um gluggann á sjúkrastofunni. Móðir hans lést í janúar 1947.

Í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, Móðurást, segir í 2. versi:

Hvur er in grátna sem gengur um hjarn,

götunnar leitar, og sofandi barn

hylur í faðmi og frostinu ver,

fögur í tárum, en mátturinn þverr –

hún orkar ei áfram að halda.

Síðar var hann á í Kristsneshæli í Eyjafirði sem nú heitir Kristnesspítali. Hið fagra orð, hæli, sem merkir skjól eða athvarf er ekki lengur notað um slíkar stofnanir og hefur verið gengisfellt.

Hjörleifur Hafliðason, hálfbróðir Sigga Jóh og kona hans, Júlíana Hinriksdóttur á Akureyri gengu honum í föður og móðurstað meðan hann dvaldi í Kristnesi.

Seinna var hann svo á Vífilsstaðaspítala. Hann las mikið á þessum árum og var alla tíð ljóðelskur og kunni að meta góðar bókmenntir. Mikil menntun er fólgin í því að lesa bókmenntir, ljóð, skáldsögur og sögulegar frásagnir. Hann bjó að þessu alla tíð og gat þulið upp tilvitnanir úr bókum við ýmis tækifæri.

Siggi Jó, eins og hann var oftast nefndur fyrir vestan, kunni urmul ljóða utanbóka. Hann þekkti án efa Heiðlóuvísu Jónasar Hallgrímssonar, þar sem segir m.a.o.:

Snemma lóa litla í,

lofti bláu „dirrindí“

undir sólu syngur:

„lofið gæsku gjafarans –

grænar eru sveitir lands,

fagur himinhringur.

Í mögnuðu ljóði Einars Benediktssonar, Einræður Starkaðar, eru þekkt orð í 3. kafla, sem margir kunna hrafl úr:

Það smáa er stórt í harmanna heim, —

höpp og slys bera dularlíki, —

og aldrei er sama sinnið hjá tveim,

þótt sama glysi þeir báðir flíki. —

En mundu, þótt veröld sé hjartahörð,

þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,

bölið, sem aldrei fékk uppreisn á jörð,

var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.

Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúizt við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

Hann var menningarlega sinnaður og listrænn. Hann var flinkur teiknari og hafði fagra rithönd.

Ég spurði börnin hans og tengdadóttur: Hvað kemur ykkur fyrst í hug þegar ég bið ykkur að minnast hans? Svörin létu ekki á sér standa:

Hann var ljúflingur út í gegn, fyrirmynd barnabarnanna sem nutu þess að hlusta á sögur hjá afa. Hann var félagsmálamaður, sannur krati, lét sig varða mál verkalýðs og launafólks. Hann var mikill fjölskyldumaður sem lét sér annt um fólkið sitt. Hann var skapgóður. Hann og Sæja kynntust í Alþýðuhúsinu, í bíóinu eða á balli, þau voru ekki alveg viss. Siggi Jó safnaði bíóprógrömmum árum saman.

Sigurða nefndi hvað mamma og pabbi reyndust henni vel í veikindum hennar. Hún þurfti að sækja sjúkraþjálfun uppi í risi á Sjúkrahúsinu á Ísafirði og þar var engin lyfta en pabbi bar hana upp stigana meðan á þessu stóð.

Ég leyfi mér að skjóta því hér inn að við Sigurður Jóhann vorum skyldir í 4. og 5. lið. Faðir minn og Sigurður Jóhann voru fjórmenningar, afkomendur Guðrúnar Jónsdóttur, f. 1800, d. 1873 og Jóhanns Jónssonar f. 1798 og dó 1883 og var bóndi á Hanhóli í Bolungavík og formaður á sjó, þekktur fyrir ótrúlega hreysti og kallaður Jóhann sterki. Hann eignaðist 14 börn. Eitt sinn voru 3 sjómenn að berjast í briminu í Bolungavík eftir að báti þeirra hvolfdi, ósyndir og bjargarlausir. Tekið skal fram að sjálfur kunni Jóhann ekki að synda. Honum hafði þá tekist að lenda sínum báti eftir veiðiferð. Hann gat ekki horft á menning drukkna í briminu meðan aðrir stóðu og störðu ráðalausir og tók á það ráð að setja grjót í skinnbrók sína, batt reipi um sig miðjan og bað menn halda í reipið, óð svo út í brimið og bjargaði fyrst tveimur mönnum. Sá þriðji flaut á öldunum vegna lofst í brók og stakki og rak burt frá landi. Jóhann óð aftur út eftir að hann fann lengra band, sást hverfa í brimið þegar hann sótti síðasta manninn. Jóhann náði honum og er hann kom að landi settist hann á stein, studdi höndum á magann og spjó sjónum út úr sér. Eftir það tók hann steinana úr brókinni, fékk sér kaffi með brennivíni út í og gekk svo heim til sín. (Sögur og sagnir úr Bolungavík, eftir Finnboga Bernódussson)

Ég má til með að nefna einn afkomanda Jóhanns sterka til viðbótar en það er Kristján Helgi Magnússon, listmálari f. 1903, d. 1937, þá 34 ára. Hann var afar flinkur teiknari sem barn og unglingur og var studdur til listnáms í Bandaríkjunum og vann, að námi loknu, náið með menntamálaráðherra þar í landi og vann að eflingu myndlistar um öll Bandaríkin. Hann sýndi verk sín m.a. í London og París og vakti athygli. Nú um þessar mundir er sýning uppi á verkum hans á Ísafirði en íslenskir myndlistarmenn og samtíðarmenn hans tóku hann aldrei inn í sínar klíkur.

Siggi Jó hafði ekki langt að sækja sína listrænu hæfileika en Jóhann, faðir Sigga og Kristján Helgi listmálari voru þremenningar. Listmálarinn var bróðir Jóhanns Magnússonar, sem var „skólaafi“ minn, þegar ég var í Barnaskóla Ísafjarðar og margir viðstaddir þessa athöfn þekktu.

Sigurður Jóhann vann ýmis störf áður en hann byrjaði í Landsbankanum 1963 og sagði oft söguna af Sigurjóni syni sínum sem orðaði það svo að nú væri pabbi „hættur að vinna og kominn í bankann“.

Siggi og Sæa voru samhent hjón og hann sagði oft við hana: „Sæa mín, þú gerir alla daga betri.“ Hann bar hana á höndum sér og svo var hann svo húslegur. Hann var listakokkkur og tók eiginlega yfir eldhúsið og var alla tíð aðalkokkur heimilisins.

Hann hafði yndi af stangveiði og fór margar ferðir inn í Djúp að veiða, í Laugadal og Langadal. Og ætíð er hann ók um Djúpið varð hann að staldra við árnar og horfa í hylina.

Hann hafði gaman af að hitta fólk og spjalla. Eitt sinn fór hann með börnin í göngutúr á sunnudegi og hitti karla á Kaupfélagshorninu. Börnin skiluðu sér heim eftir góða stund og Sæa spurði: „Hvar er pabbi ykkar?“ Þau svöruðu: „Hann lenti á kjaftatorgi.“

Hann var ætíð mikill Ísfirðingur í sér og sagðist alltaf eiga heima þar en bætti svo við að hann ætti sér náttstað í Kópavoginum. Hann spurði alltaf er hann hringdi vestur: „Hvernig er veðrið heima?“

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Sb 271, 2. vers, Valdimar Briem)

Ég flyt ykkur kveðju frá Jóni Ágústi Gunnsteinssyni, sambýlismanni Karenar Hörpu, sem er í tannlæknanámi í Ungverjalandi, en hann og Siggi voru góðir vinir.

„Hver er sinnar gæfu smiður.“ Að rata lífsveginn góða er gæfa sérhverrar manneskju. Kristin trú er á einum stað í Nýja testamentinu kölluð vegur. Að vera kristinn er að fara eftir hinum góða vegi, veginum sem liggur til eilífs lífs.

Ef spurt er: Hver er kristinn? þá svarar kirkjan með þessum orðum: Sá sem er skírður í nafni, föður og sonar og heilags anda, er kristinn.

Svo er það með ýmsu móti hvernig fólk ræktar þá gjöf sem skírnin er. Við villumst öll og förum út af veginum góða en þá er bara að koma sér uppá hann aftur. Við, breyskar og ófullkomnar mannseskjur, bregðumst öll Guði, en hann bregst okkur aldrei. Hann svíkur aldrei þau loforð sem hann gaf í heilagri skírn. Gott er að fá að lifa í þessu samhengi, í náð Guðs og elsku, sem er skilyrðislaus og eilíf.

Við kveðjum Sigurð Jóhann Jóhannsson með virðingu og einlægri þökk.

Guð blessi minnningu hans og varðveiti hann að eilífu í himni sínum og Guð veri Sæunni og hans nánustu ástvinum náðugur og leiði þig og mig á lífsins vegi, alla daga!

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.