Víða leynist viðurstyggðin

Hér gerturðu lesið greinina sem birtist í Kjarnanum 6. ágúst 2022 og einnig hlustað á lestur höfundar.

Mér finnst það ögn hryggilegt að upplifa það að sumum guðleysingjum er umhugað um að kristið fólk sé bókstafstrúað eins og þeir eru sjálfir í afstöðu sinni til helgirita Gyðinga og kristinna manna, þegar þeir tala um fólk sem þeir fyrirlíta. Ég finn til með öllum, sem eru bókstafstrúar, hver sem trúarhópurinn er eða trúleysishópurinn.

Gamla testamentið er hryggjarstykkið í bókmenntaarfi Gyðinga og þar kennir margra grasa. Þar er að finna sögur um lífsbaráttu og landnám, ættir og ævi karla og kvenna, meiðingar og manndráp, styggðaryrði og stríð, valdaplott, pyntingar og framapot. Merkilegar sögur sem ætlað er að vera lyklar að skilningi á eðli manna í þessum heimi. Og svo er líka ótrúlega margt í bókinni góðu um fegurð mannlífs og heims.

Kjarninn í bókmenntaarfi okkar þjóðar eru Íslendingasögurnar og fleiri rit, bæði heiðin og kristin. Þar kennir margra grasa og sumt er þar hart undir tönn og viðurstyggilegt eins og í Biblíunni.

William Booth, sá merki maður og stofnandi Hjálpræðishersins, sagðist lesa Biblíuna á sama hátt og hann borðaði ýsu. Hann sagðist tína beinin út úr sér og leggja þau á diskbarminn, en borða það sem meltanlegt væri. Hann lét það sem sagt eiga sig sem hann skildi ekki.

Í bókmenntaarfi Íslendinga er margt gott og vænlegt til eftirbreytni, en þar er líka ýmislegt sem vinsa þarf frá og leggja á diskbarminn eins og t.d. texta um hefndarskyldu, barnaútburð og að varpa öldruðum og langveikum fyrir ætternisstapa, sem merkti að kasta þeim hreinlega fyrir björg.

Margt illt vék fyrir kristinni miskunn og mildi í aldanna rás, en auðvitað er mannskepnan söm við sig á öllum öldum, fordóma- og ofbeldisfull. Þess vegna þarf stöðugt að boða henni fegurð og halda að henni fordómaleysi.

Textar Biblíunnar um samkynhneigð, bæði í hinu Gamla testamenti og hinu Nýja, eru börn síns tíma og þeir textar eru ekki þeir einu sem vinsa ber frá og leggja til hliðar. Einnig þarfa að túlka þá með aðstoð vísinda á sviði tungumála, félagsfræði, trúarbragðafræði, mannfræði og sagnfræði svo aðeins nokkur svið séu nefnd.

Biblíufræðingar hafa hin síðari árin komist að þeirri niðurstöðu að textar Biblíunnar þar sem samkynhneigð er fordæmd séu flestir ef ekki allir um ofbeldi karla gegn öðrum körlum, einkum drengjum. Textarnir eru þar með ekki um ást tveggja einstaklinga af sama kyni.

Páll postuli fordæmdi slíkt ofbeldi á þeirri forsendu að hann hafði fyrir augum í borgarsamfélagi þess tíma, sérstaka staði þar sem ungir drengir voru hafðir sem leikföng karlar, sem misnotuðu þá, með „löglegum“ hætti og leyfi hins heiðna samfélags.

Samkynhneigð í Íslendingasögunum.

Særún Lísa Birgisdóttir, þjóðfræðingur, sagði í viðtali í Vísi árið 2014:

Reyndar er talað um samkynhneigð í Íslendingasögunum, þar var versta níð sem hægt var að segja um mann að hann væri argur, en eftir siðaskipti hverfa þeir gjörsamlega úr heimildum.

Fordómarnir voru líka til forðum daga. Mannfólkið er samt við sig.

Og meira frá henni:

Særún segist munu fjalla [í fyrirlestri sínum] um hvernig þöggunin hefur verið fylgifiskur samkynhneigðar frá örófi alda og hvað samkynhneigðir eru ósýnilegir í íslenskri sögu. „Ég tengi þetta við huldufólks- og útilegumannasögur. Það sem fólk gat ekki sagt og mátti ekki segja var nefnilega ofið inn í þær, þannig að kannski er hægt, án allrar ábyrgðar, að setja á sig gleraugun og skoða sögurnar okkar út frá þessum sjónarhóli.“

Þöggun var einnig þekkt fyrr á öldum. Við höfum ekkert breyst að eðli til en skoðanir okkar breytast ef við nennum að reita illgresið úr beðum hugans.

Með hvaða gleraugum les ég Biblíuna? Ég leitast við að lesa hana með augum Jesú Krists, ef svo má að orði komast og þá styðst ég við texta, sem lýsa miskunn hans og elsku til fólks almennt talað og nota þá mynd af Jesú, sem guðspjöllin birta til að vinsa svo frá það annað í Biblíunni, sem ekki fellur að kærleiksríkri mynd hans.

Hvers vegna lærir fólk akademíska guðfræði árum saman? Svar mitt er: Til að læra viðurkenndar, akademískar, aðferðir til að lesa og túlka texta, þýða þá af einu tungumáli yfir á annað, án þess að bjaga merkingu textans og svo til að geta vinsað úr og haldið hinu góða, en hafna hinu mannfjandsamlega og illa.

Undir guðfræði falla margar aðrar greinar, svo sem heimspeki, trúarheimspeki, trúarbragðafræði, trúarlífsfélagsfræði, siðfræði, kirkjusaga, forn tungumál eins og latína, gríska og hebreska og svo sálgæslufræði og margt fleira.

Þannig er það nú í lífinu yfirleitt að við veljum á milli skoðana, hvort sem þær eru á prenti eða í töluðu máli og þess vegna skil ég ekki, hvers vegna flestir svonefndir guðleysingjar, skuli vera bókstafstrúar þegar kemur að Biblíunni. Þeir krefjast þess og heimta, að við sem viljum hafa Krist að fyrirmynd og leiðtoga lífsins, að við gleypum í heilu lagi alla Biblíuna með beinum, innyflum og öllu saman og froðufella af vanþóknum ef við segjumst ekki taka hvað sem er sem gott og gilt úr Biblíunni. Þeir leyfa okkur ekki að hafa valfrelsi, byggt á akademískum forsendum.

Bókstafstrúarmenn eru víða og viðurstyggð slíkrar trúar stingur sér niður í mannlífinu enda er hún af sama meiði og fordómar yfirhöfuð. Sumar kirkjudeildir eru haldnar alvarlegri trúarvillu sem birtist einkum í bókstafslegri túlkun Biblíunnar og hluti Hæstiréttar Bandaríkjanna er t.d. mengaður af sömu villu.

Þegar „búlduleitir“ guðleysingjar þvinga skoðunum uppá aðra og heimta að fólk falli að staðalmynd bókstafstrúarmannsins, eru þeir í álíka sporum og bókstafstrúaðir hæstaréttardómarara vestra.

Sumir guðleysingjar gerast þar með sekir um ofbeldi, sem beitt er með orðum og ljótum yfirlýsingum um fólk, sem hefur aðrar lífsskoðanir en þeir sjálfir.

Já, víða leynist hún, viðurstyggðin.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.