+Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir 1917-2022

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir

frá Ísafirði

f. 22. ágúst 1917, d. 18. júlí 2022

Útför frá Kópavogskirkju, fæðingardag hennar, fyrir 105 árum, mánudaginn 22. ágúst 2022 kl. 13

Ræðan, bæði texti og hljóðupptaka eru í næstu smellu. Kveðjur eru ekki á upptökunni, en texti þeirra er neðanmáls.

Sálmaskráin er einnig neðanáls.

Í dag höldum við hátíð er við minnumst Ástu Sigurrósar Sigmundsdóttur. Hún varð elst allra íslendinga er hún lést í liðnum mánuði.

Þar sem ég sat og ritaði þessi minningarorð s.l. laugardag, sá ég fólk fyrir utan gluggann heima sem hljóp maraþon fyrir menningarnótt meðfram Sæbrautinni með hvítfyssandi bárur í bakgrunni á Sundum, í norðanstrekkingi uppá 6 metra á sekúndu og 10 gráðum á celsíus. Léttfætt hraustmenni, konur og karlar á lífsveginum og þar voru allir að reyna að sigra, hver á sinn hátt. Lífið er langhlaup og Ásta náði gullinu, hún komst lengst allra landsmanna.

Og við notum orðið afmæli á Íslensku. Ég veit ekki til þess að sambærilegt hugtak finnist í öðrum tungumálum. Við mælum af ævinni og því lengur sem við fáum mælt, þeim mun betra. Í dag eru liðin 105 ár frá fæðingu hennar og við höldum hátíð og þökkum fyrir líf hennar, gleði og dugnað, úthald og þrautseigju í dagsins önn.

Útför er auðvitað sorgarstund vegna þess að líf er hvatt og eftirsjá er að manneskju sem markaði djúp spor í líf afkomenda, ástvina og samfélags, en þessi kveðjustund er jafnframt hátíð.

Ég fékk í hendur texta frá fjölskyldunni sem er hryggjarstykkið í þessum minningarorðum hvað varðar staðreyndir um ævi hennar og uppruna.

Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir fæddist á Ísafirði þann 22. ágúst 1917, barn hjónanna Júlíönu Óladóttur, húsfreyju og verkakonu og Sigmundar Brandssonar, járnsmiðs.

Systkini Ástu voru: Anna Kristín Björnsdóttir, f. 1908, d. 1993, Þorbjörg, f. 1913, d. 1913, Óli Jóhannes f. 1916, d. 2000 og Daníel G.E., f. 1916, d. 2002.

Í manntali frá árinu 1917 segir, að hjónin hafi búið að Tangagötu 20 á Ísafirði ásamt þremur börnum sínum – tvíburum fæddum 1. apríl 1916 og Ástu – sem reyndar var skírð Ástríður en breytti nafni sínu við fermingu.

Að auki bjó vetrarstúlka í húsinu, Jóhanna Bjarnadóttir og 9 ára stúlka sem hjónin höfðu fengið til fósturs aðeins 4 mánaða gamla. Sú var systurdóttir Sigmundar, Anna Kristín Björnsdóttir að nafni, frá Hólum í Reykhólasveit. Hún var ellefu ára þegar Sigmundur fóstri hennar lést árið 1919 og bauðst henni þá að fara til foreldra sinna og systkina, en hún kaus að vera hjá fóstru sinni og hjálpa til við uppeldi yngri barnanna á heimilinu.

Þótt Ísafjörður væri einn helsti verslunarstaður landsins ólust systkinin upp í bæjarfélagi þar sem allir þekktu alla. Samfélagið tókst saman á við ýmsar áskoranir og t.a.m. starfaði Hjálpræðisherinn í bænum og bauð skólabörnum að borða í hádeginu ef aðstæður kröfðust þess – t.d. ef foreldrar voru við vinnu eða lítið var til á heimilunum.

Ásta missti ung föður sinn, en móður hennar ásamt fósturdótturinni, Önnu Kristínu, tókst að halda saman fjölskyldunni með mikilli vinnu og útsjónarsemi.

Og ævin heldur áfram með glaðværð bernskunnar en hljóðlátum en skerandi sársauka. Ásta var á öðru ári og skildi lítt hvað á gekk, en án efa skynjar barnið sorg móður og ástvina, skynjaði að eitthvað alvarlegt hafði átt sér stað.

Það kom sér vel að börnin færu í sveit á sumrin og fengju oft eitthvað matarkyns með sér heim á haustin, t.d. kjöt sem var ýmist saltað eða soðið niður í krukkur og dósir. Eins og á flestum heimilum var tekið slátur á Tangagötunni, saftað og sultað. Hafði Ásta oft á orði hve mamma hennar hefði gert góðan haustmat og alltaf reynt að hafa nóg til vetrarins. Húsmóðirin Júlíana greip til ýmissa ráða til að halda heimilinu gangandi, leigði út herbergi í húsi fjölskyldunnar og sá leigjendum fyrir fæði. Smiðjuna í kjallaranum notaði Júlíana til að svíða hausa og lappir og brennimerkja ýmislegt fyrir fólk, en járnsmiðurinn Sigmundur hafði búið til brennimerki fyrir sitt fólk og aðra í bænum sem síðan var notað til að merkja eitt og annað.

Hver fjölskylda átti sitt mark til að merkja slátrið.

Lífsbaráttan var hörð og einstæð móðir þurfti að huga að mörgu, tryggja að börnin væru í öruggum höndum meðan hún stundaði sín störf. Algengt var að börn væru send í sveit á sumrin.

Ásta fór kornung í sveit norður á Stað í Grunnavík í Jökulfjörðum til presthjónanna sr. Jónmundar Halldórssonar og konu hans, Guðrúnar Jónsdótttir. Þar undi hún sér vel og hugsaði alla tíð með hlýhug til dvalarinnar þar. Síðar var hún hjá skyldfólki sínu í Mýrartungu í Reykhólasveit og um líkt leyti voru tvíburabræðurnir Daníel og Óli í Nesi á Króksfjarðarnesi, á Kambi og í sveitinni þar um kring.

Á yngri árum fór Ásta töluvert á skíði á Ísafirði, stundaði gönguferðir og tók þátt í unglingastarfi í bænum. Hún lauk gagnfræðaprófi og fór í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Hún var í vist hjá Maríu og Pétri Njarðvík á Grænagarði og passaði drengina þeirra, Hallgrím og Njörð.

Ísafjörður hverfur aldrei úr minni okkar sem þar fæddumst og ólumst upp. Fjöllin, fjörðurinn og lognið fylgja okkur, tignarleg náttúran býr í brjósti okkar eins og verndandi afl.

Ísfirðingurinn, Njörður P. Njarðvík, sem Ásta gætti er hann var barn, segir í ljóði sínu:

Eins og vatn í lófa

er veröld mín

fjörður milli fjalla

fjara sem birtist og hverfur

sól sem rís yfir tind

og týnist í skörðum

myrkur sem skríður úr gjótum

giljóttra fjalla

sjór sem er logn

og löðrandi brim

fiskur flæktur í net

fjöll og himinn

veröld mín

eins og vatn í lófa

(Leitin að fjarskanum, útg. 1990, s.33)

Þá var Ásta einnig í vist hjá hjónunum frú Gertrud Henriette og Hans Georg Häsler bakarameistara og kynntist á heimili þeirra ýmsu framandi í matargerð og siðum. Þar var og til fallegt postulín og hreifst hún mjög af þýska laukmynstrinu og eignaðist síðar matar- og kaffistell með sama bláa munstri.

Í heimildarmynd Helga Felixsonar um Þjóðverja sem voru handteknir á Ísafirði á stríðsárunum kemur Ásta fram og segir frá kynnum sínum af Häsler-fjölskyldunni.

Anna fóstursystir Ástu vann einnig hjá þessum sömu hjónum og bróðirinn Óli vann í bakaríinu. Þar var ýmislegt framandi góðgæti að fá, til dæmis stollen – þýskt jólabrauð með hnetum, þurrkuðum ávöxtum og öðru gómsætu. Minningin um þýska stollen-brauðið fylgdi Ástu svo alla tíð, enda fékk hún iðulega sendingar frá vinum eða aðstandendum í aðdraganda jóla.  

Ásta fluttist ung kona suður til Reykjavíkur eftir að hafa fengið brjósthimnubólgu og dvalið á spítala á Ísafirði í rúmt ár. Syðra vann hún fyrst á vöggustofu barnaheimilisins Suðurborg og síðar hóf hún verslunarstörf hjá Verslun O. Ellingsen í Hafnarstræti. Starfið markaði upphafið að verslunarstörfum sem hún sinnti út starfsævina.  Hún starfaði hjá KRON – Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis – vítt um Reykjavík og í Kópavogi. Hún vann hjá Sigurði Magnússyni í Austurveri og í Kjötbúð Tómasar við Laugaveg 2 – hvar þorrabakkinn er talinn eiga uppruna sinn. Einnig vann Ásta hjá Guðna Þorgeirssyni í Fossvogsbúðinni og síðar í Kársneskjöri. Þá var hún sjálf lengi kaupmaður í Kópavogi og rak verslunina Kópavogur.  Síðustu árin á vinnumarkaði starfaði hún í Kvenfatabúðinni, Laugavegi 2.

Í einkalífi var Ásta lánsöm. Hún gekk að eiga Gunnar Þ. Þorsteinsson, járn- og rennismíðameistara frá Litluhlíð á Barðaströnd, þann 25. mars 1947 en hann lést 61 ári síðar – þann 11. október 2008.

Saman eignuðust þau þrjú börn –

Júlíönu Signýju árið 1947,

Óðin Gunnstein ári síðar og

Önnu Margréti árið 1950.

Fyrir átti Gunnar – með Önnu Einarsdóttur- dótturina Sigrúnu Björk, fædda 1944.

Hún er látin en Signý, Óðinn og Anna Margrét lifa móður sína.

Formálinn að minningargreinum er birtur hér að neðan.

Ásta og Gunnar tóku bæði virkan þátt í störfum Lionshreyfingarinnar – hann í Lionsklúbbnum Muninn en hún sem stofnfélagi í Lionsklúbbnum Ýr í Kópavogi. Ásta var þar félagi allt til dauðadags og elsti félaginn um árabil, enda var hún jafngömul hreyfingunni – fædd á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar.

Hún var heiðruð af Lions sem elsti félagi hreyfingarinnar.

Ásta Sigurrós lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð þann 18. júlí s.l., södd lífdaga, tæplega 105 ára gömul og elsti Íslendingurinn um nokkurra vikna skeið. Hún átti friðsælt andlát og dró andann í síðasta sinn í sama herbergi og Gunnar heitinn – maður hennar – fyrir tæpum 14 árum. Það er táknrænt fyrir samstöðu þeirra og einingu.

Síðustu árin bjó hún á Sunnuhlíð en hafði gaman af því að heimsækja húsið sitt á Kársnesbrautinni við sérstök tilefni. Húsið var sannkallað fjölskylduhús þar sem afkomendur Ástu og Gunnars hafa komið saman og notið samverustunda. Ásta skilur eftir sig fallega sögu, góðar minningar og stóran ættboga – þar sem fjölskyldan telur um 80 manns . . .

Ótrúlegt líf og afrek að lifa svo lengi og eiga afkomendur sem telja næstum árin sem hún lifði. Það er ekki lítill fjársjóður.

Enginn sem lítur ljósið fyrsta sinn á ævinni veit hvað bíður. Hvítvoðungurinn veit fátt en sér margt og upplifir en svo kemur þroskinn smátt og smátt og ævidögunum fjölgar. Fóstrið veit ekki hvað bíður og sama á við um þau sem eru við dauðans dyr, þau vita ekki hvað tekur við. En trúin veit Hver tekur við. Það er Hann sem Ásta skrifaði um í niðurlagi bréfs til barnabarns sem dvaldi í útlöndum. Þar segir:

Ég er hérna við stofugluggann, lít út, það er svo friðsælt og fallegt, húsið er snæviþakið, Perlan á Öskjuhlíðinni upplýst, aðventuljós komin í glugga, þetta segir manni að blessuð jólin séu í nánd.

Í kvöld voru litlu jólin í Lions-klúbbnum okkar, við sungum jóla sálmana og aðra söngva og ég las þeim jólaguðspjallið, við erum alltaf með jólapakka, svo gengum við í kringum jólatréð, ég var komin heim kl. 1/2 11, fór þá að skrifa á jólakort, nú er kl. 2 að nóttu til. Ég veit að þú ert í svefni, þig er kannski að dreyma heim, ég hugsa oft til þín . . .

Við höfum það gott afi þinn fer upp í laug á morgnana í heitu pottana og sund, hann biður að heilsa þér . . .

Jæja, elskan mín, ég veit að guðssonur gætir þín, og blessar þig og þetta góða fólk sem þú dvelur hjá, ég veit þú færð heimþrá um jólin en talaðu bara við hann, hann er allstaðar nálægur og fylgist með þér.

Guð blessi þig yndislega barn, þess biður þín amma.

Þetta ritaði Ásta árið 1996, þá 79 ára. Atgervið var mikið og ekki skorti áhugann á lífinu. Börnin hennar töluðu um hófsemi hennar, léttleika og góða lund. Hún var sáttasemjar og dvaldi ekki við leiðindi í lífinu. Hún var Mamma með stórum staf. Heimili hennar var ætíð gestkvæmt.

Stórfjölskylda hennar bjó nær öll utan höfuðborgarinnar og ættmenni gistu því gjarnan á Kársnesbraut þar sem heimilisfólk vék oft úr rúmi fyrir gestum. Oft kom fólk til hennar utan af landi sem átti ýmis erindi í Borginni.

Hún var heima fram yfir 99 ára aldur og eitt af síðustu verkum hennar á Kársnesbrautinni var að pússa útihurðina og bera á hana tekkolíu. Hún var ekki vön að biðja um hjálp, var sjálfstæð og sterk kona.

Hún var brosmild og bjó yfir ríku jafnaðargeði, var lundgóð og sjálstæð. Hún dvaldi í 5 ár og 2 mánuði í Sunnuhlíð. Þangað fór hún ekki vegna alvarlegra veikinda eða heilsubrests heldur var ástæðan að hún hafði ekki drukkið nægan vökva og því var það ofþurrkur sem þjáði hana um nokkurra daga skeið. Alvarlegra var þá nú ekki. En þar leið henni vel og naut góðrar umhyggju.

Þegar hún var í verslunarrekstri reyndi hún ætíð að gera góð innkaup og lét kúnnan njóta þeirra. Hún hafði nef fyrir kaupmennsku og pældí ætíð mikið í því að fá afslátt eða rabbat eins og hennar kynslóð sagði á dönskuskotinni íslensku. Strákarnir í heildsölum borgarinnar þekktu þessa hressu konu þegar hún hringdi og kölluðu hana Maríu Stewart.

Ætíð heilsaði hún ástvinum með handtaki og blíðu brosi. Hún talaði reyndar stundum um að flytja aftur heim, svo mikill var hugurinn og trúin á eigin getu, en hún varð þó að sætta sig við að kraftarnir fóru þverrandi þegar hún var komin yfir heila öld í aldri.

Hún var ætíð andlega þenkjandi og jós úr ólíkum viskubrunnum á lífsleiðinni en í þeim efnum er eigi allt gull sem glóir eins og þekkt er í samtímanum sem eltir svo margt sem hefur rýrt innihald.

Fyrir hálfu ári var hægt að tala við hana um hvað sem var og hún hélt góðu minni vel fram á aðra öld eigin ævi.

Barnabörnin sóttu til ömmu og afa í gegnum tíðina. Þangað var gott að koma og kynnast klassískum gildum og kærleika sem mótaður var af langri ævi og harðri lífsbaráttu. Slíkur kærleikur er eins og slípaður demantur.

Hver man þig og mig þegar við verðum öll horfin af þessu jarðlífi og allir sem þekkja okkur nú eða síðar verða einnig horfnir? Hver man okkur þegar enginn á jörðu man okkur lengur?

Kristin trú á svar við því. Sá sem allt hefur skapað og allt elskar, allar manneskjur, hverrar trúar sem þær eru, okkur öll og öll önnur, hann gleymir okkur aldrei, hann gleymir aldrei þeirri konu sem við kveðjum hér í dag, hann gleymir aldrei þér.

Þess vegna getum við glaðst yfir lífinu, yfir því að Ásta lifði og varði kröftum sínum til heilla sínu fólki og öllu sem lífsandann dregur.

Við höldum hátíð og minnumst hennar með þökk.

Guð blessi minningu Ástu Sigurrósar Sigmundsdóttur og Guð blessi þig, sem enn ert á lífsveginum.

Amen.

– – –

Kveðjur:

Mér bárust 3 kveðjur í tölvupósti og nú verð ég að játa syndir mínar, því 2 þeirra týndust í tölvunni minni og mér tókst ekki að finna þær aftur þrátt fyrir mikla fyrirhöfn og mundi ekki nöfnin. Ef þau sem áttu þessar kveðjur hlusta á upptöku mína í kvöld eða síðar, þá bið ég þau hin sömu að senda mér kveðjurnar aftur í tölvupósti og ég mun bæta þeim hér neðanmáls í textann svo þeim sé til haga haldið.

Þá kemur 3ja kveðjan:

Kær kveðja barst frá Steinunni Pálsdóttur, sem er erlendis, en hún segir Ástu hafa verið góða vinkonu fjölskyldu sinnar.

Og svo en frá Berlín í Þýskalandi: Margret Hillar, Gerd og Dani: My thoughts are with you all today.

Hér er formálinn sem birtist í Morgunblaðinu á undan minningargreinum.

Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir fæddist á Ísafirði 22. ágúst 1917.  Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð mánudaginn 18. júlí.  Hún var dóttir hjónanna Júlíönu Óladóttur húsmóður og verkakonu, f. 1879, d. 1951 og Sigmundar Brandssonar járnsmiðs, f. 1870, d. 1919.  Systkini Ástu voru: Anna Kristín Björnsdóttir, f. 1908, d. 1993, Þorbjörg, f. 1913, d. 1913, Óli Jóhannes f. 1916, d. 2000 og Daníel G.E., f. 1916, d. 2002.

Ásta giftist 25. mars 1947 Gunnari Þorsteini Þorsteinssyni frá Litluhlíð á Barðaströnd.  Foreldrar Gunnars voru hjónin Guðrún Finnbogadóttir ljósmóðir, f. 1893, d. 1978 og Þorsteinn Ólafsson bóndi í Litluhlíð, f. 1890, d. 1989.  Gunnar var þriðji elstur af ellefu börnum þeirra hjóna sem upp komust.

Börn Ástu og Gunnars eru:  1) Júlíana Signý, f. 1947, maður hennar er Örn Jónsson, börn þeirra eru Margrét, Jón Ragnar og Gunnar Örn.  2) Óðinn Gunnsteinn f. 1948, kvæntist Áslaugu Kristjánsdóttur, dóttir þeirra er Hera Kristín.  Þau skildu.  Kona Óðins er Auður Hallgrímsdóttir, þau eiga börnin Daníel Óla, Hallgerði Kötu og Davíð Þór.  3) Anna Margrét, f. 1950, maður hennar er Guðmundur Jóelsson og eiga þau dæturnar Gunnhildi Ástu, Erlu Dögg og Aldísi.  Fyrir átti Gunnar dótturina Sigrúnu Björk f. 1944, d. 2019 með Önnu Einarsdóttur f. 1927, d. 2003.  Sonur Sigrúnar og Eiríks Hjartarsonar er Hjörtur.  Sigrún Björk giftist Þorsteini Pálssyni f. 1943, d. 1975.  Börn þeirra eru Anna Silfa og Gunnar Reynir.  Maður Sigrúnar er Ásgeir Indriðason og dóttir þeirra er Svava Björk.  Afkomendur Ástu og Gunnars eru 54 en alls telur fjölskyldan um 80 manns.

Ásta ólst upp á Ísafirði hjá einstæðri móður og systkinum.  Hún fór kornung í sveit norður í Grunnavík til prestshjónanna þar, séra Jónmundar Halldórssonar og Guðrúnar Jónsdóttur.  Síðar var hún einnig í sveit hjá skyldfólki í Mýrartungu í Reykhólasveit.  Hún stundaði skíði og gönguferðir og tók þátt í unglingastarfi í bænum.  Hún lauk gagnfræðaprófi og fór í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði.  Hún fluttist ung til Reykjavíkur og vann fyrst á Vöggustofunni Suðurborg en hóf síðan störf hjá Ellingsen.  Það starf markaði upphafið að verslunarstörfum sem hún sinnti út starfsævina.  Hún var sjálf lengi kaupmaður í Kópavogi og rak, ásamt manni sínum, verslunina Kópavogur um árabil.  Ásta og Gunnar settust að í Kópavogi 1954 og bjuggu þar alla tíð.  Hún var virkur félagi í Lionsklúbbnum Ýr og lagði á þeim vettvangi ýmsum framfaramálum í Kópavogi lið.

Útför Ástu verður gerð frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.