Geimskipin voma

Geimskipin voma

eftir Örn Bárð Jónsson

Texti og hljóðupptaka:

Hefurðu tekið eftir þeim? Þau eru að vísu oft á bak við skýin en með lestri þessarar greinar ættirðu að koma auga á þau.

Heimurinn hefur breyst með ógnarhraða hin síðari ár.

Leikreglur hafa riðlast á mörgum sviðum og göfgi oft vikið fyrir græðgi, heiðarleiki fyrir hrappræði, lýðræði fyrir lygræði og almannahagur oft fyrir eigingirni.

Hér áður fyrr voru mörg öflug fyrirtæki rekin sem heiðarleg firmu, þar sem almannahagur var hafður að leiðarljósi og rekstrarmarkmið þau helst að komast af, gera gagn og skila hagnaði til þess að geta byggt upp eigið fé og mæta mögru árunum.

Tryggingarfélög voru lengi vel rekin nokkurn veginn í þessum anda, að telja má. Bankar einnig, enda voru þeir í ríkiseigu lengst af.

Endurskoðendur unnu að því að gæta laga og réttar í störfum sínum og sjá til þess að hluthafar og skattayfirvöld fengju treyst niðurstöðum í rekstrar- og efnahagsreikningum fyrirtækja og stofnana.

En nú er svo komið að í hinu virta dagblaði, The Times, birtist grein nýlega um að stóru og þekktu endurskoðunarfyrirtækin, með skrýtnu nöfnin, (KPMG, EY, Deloitte, PwC) væru ekki lengur þessi góðu og trúu fyrirtæki, því nú séu þau svo hart drifin af hagnaðarvon, hin stóru verkefni þeirra orðin mun margbreyttari og sum víðsfjarri hefðbundnum reikningsskilum. Greinin ber yfirskriftina, The new millionaire factories sem kalla mætti á íslensku, Nýju millaverksmiðjurnar.

Fyrirtæki geta villst af leið eins og einstaklingum hættir til, ef slikja fellur á háleit markmið þeirra, eins og oxun á góðmálma, sem missa þar með glit sitt og glans.

Og hvaða gildi ráða nú í okkar þjóðfélagi, sem á stundum virkar eins og það sé á stöðugri hátíð drýsla, sem engum góðum gildum eira og telja frelsið eitt ráða för? Frelsið deyr nefnilega ef það hefur ekki sitt yang? Lífið er ætíð dans þar sem jafnvægislistin ríkir eða það sem í Austurlöndum er kallað yin og yang.

Mikilvægt er að viðskiptalífið búi við frelsi, en það vill gjarnan gleymast, að frelsi er aldrei taumlaust, frelsi er ekki til nema í parsambandi við önnur gildi og þar er efst á blaði hugtakið ábyrgð. Frelsi fylgir ábyrgð og óheft frelsi rekur allt sem það snertir í helsi.

Það sem vísindi og fræði ná ekki að tjá, ráða skáldin gjarnan við að útskýra og túlka. Skáldið Jón úr Vör orti:

Líf þitt átt þú.

Ekki á ég það.

Enginn á það

nema þú.

En hamingjuna

hver á hana?

Hana á

enginn einn.

Já, hamingjan er nefnilega tengslahugtak, þar sem hún sem yin þarf sitt yang til að tóra. Sama á við um frelsið sem á sitt yang í ábyrgðinni.

Í lífinu er margt sem hefur þessa tvo ása. Á altari safnaða Þjóðkirkjunnar loga tvö ljós; annað fyrir fagnaðarerindið og hitt fyrir lögmálið, annað fyrir kærleiksboðskap Krists og hitt fyrir Boðorðin 10, annað fyrir frelsið og hitt fyrir ábyrgðina, annað fyrir elskuna og hitt fyrir mörkin sem setja þarf sjálfum sér og öðrum.

Guðfræðin í okkar mótmælendahefð hefur ætíð lagt ofuráherslu á prédikunina, á menntaða túlkun á ritum kristninnar og yfirfærslu til samtímans hverju sinni. Þess vegna gerir kirkjan þá kröfu að prestar hafi lokið a.m.k. 5 ára háskólanámi áður en þeim er hleypti upp í prédikunarstólinn.

Manstu þegar þjóðlífið var orðið „svona gasalega tvöþúsund og sjö“ í hegðun og háttum fyrir Hrun, þegar frelsið var orðið munaðarlaust, því það hafði týnt sínu yang þ.e. ábyrgðinni?

Við búum í breyttum heimi. Tryggingarfélög, bankar og stórfyrirtæki, eru ekki lengur öll á markaði eingöngu til þess að gera gagn og leggja góðum gildum lið, heldur eru þau sum kannski orðin eins og geimskip, sem voma yfir hagkerfum heims og um borð í brúnni eru tækifærissinnar, sem vilja koma sínum slöngum í samband við brjóst sem blæða og gefa sjálfum sér ný færi til að sjúga hjörtu þolenda og græða á þeim. Einhver þarf nefnilega að blæða til að aðrir fái að græða. Sjálfur gaf ég blóð reglulega í mörg ár, en Blóðbankinn gætti þess ætíð að tappa ekki um of af kallinum, enda er bankinn sá ekki millaverksmiðja og ég ekki orðinn blóðlaus.

Sumir stjórnmálamenn eru beint og óbeint í þjónustu þessara geimskipa og áhafna þeirra, gróðapunganna, sem aldrei seðjast.

Þessi geimskip eru orðin að einskonar heimsplágu. Óheftur kapitalismi lýtur sömu lögmálum og óheft frelsi, sem verður að óargadýri eins og óheft frelsi skilur eftir sig helsi og fjötra fyrir stóra hópa fólks.

Ég hef verið að hlusta á lestur sögunnar, Ég kaus frelsið, í Ríkisútvarpinu, eftir Viktor Kravtsenko. Hún var skrifuð af Úkraínumanni sem lifði á dögum Stalíns og þjónaði kommúnismanum þar til hann sá í gegnum djöfulskapinn allan og flýði land. Ofríkið varð algert, flokksræðið þoldi ekki fjálsa hugsun og hrundi að lokum til grunna, en því miður tók við taumlaust frelsi ólígarka og drísla undir stjórn yfirpúkans sjálfs í Rússlandi, Pútíns, sem hefur ráðist á sjálfstæða þjóð með viðurstyggilegum hætti. Hann stýrir mörgum geimskipum með sínum fálmandi græðgisslöngum, en sem betur fer er búið að klippa á þær í mörgum löndum og setja hömlur á áhafnir og eigendur.

En aftur hingað heim. Nú er barist í okkar þjóðfélagi um betri kjör handa þeim sem minnst bera úr býtum. Þau þurfa nauðsynlega að fá leiðréttingu. Við verðum að ná að reka þetta þjóðfélag án þess að stórir hópar falli í gryfju fátæktar, sem sæmir ekki þjóð sem vill líta á sig sem menningarþjóð. Best væri að hún liti á sig sem þjóð trúar og góðra gilda, en svo er ekki, meðan börn hennar eru mörg hver á harðahlaupum frá sannleikanum.

Á sama tíma streymir fólk til Evrópu í hundruð þúsunda tali. Og hvers vegna til Evrópu?

Vegna þess að þar eru lífskjörin best, æðstu mannréttindi tryggð, umhyggja mest, öryggi best.

Og hvers vegna er Evrópa svona frábær?

Hún er það vegna þess að álfan hefur allt sitt vit – sem hún hefur aflað sér á liðnum öldum, með rökræðum og í átökum á milli hópa, með blóði, svita og tárum – úr tveimur viskubrunnum; hinum gyðing/kristna brunni og hinum grísk/fílósófíska.

Nú hleypur fólk frá þessum brunnum og eltir útsölur þar sem það kaupir görótta drykki og eitraða í lekum skjólum.

En hve lengi mun það vara , að Evrópa tróni á toppnum, ef flóttinn frá sannleikanum heldur fram sem horfir og leiðir til fram-af-fara, að álfan gangi fyrir björg? Ætlar fólk að kasta arfinum á glæ, kasta menningunni allri, bókmenntum og listum, gildagrunni og trú síðustu 2.000 ára og teysta þess í stað á vélmenni í sýndarveruleika sem stjórnast bara af blóðlausum algóritmum?

Og geimskipin voma áfram yfir mörkuðum heims og bíða átekta. Andvaralaus fólksmassinn gefur vel af sér þar sem hann flýtur sofandi að feigðarósi.

Ef afturhvarf til hinna góðu gilda verður ekki að veruleika, þá megum við fara að biðja fyrir okkur.

Manstu árið 2007?

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.