Hvenær tókstu seinast próf?

Messa 26. feb. 2023 1. sd. í föstu í Laugarneskirkju

Talaði út frá punktum en gleymdi að ýta á upptökutakkann í símanum en endurflutti ræðuna eftir minni þegar heim var komið og hér er hún. Hljóp í skarðið fyrir vin minn og kollega, séra Jón Ragnarsson sem hefur leyst þar af um nokkurt skeið en lauk störfum um þessar mundir og er þar með farinn á eftirlaun.

Textar dagsins voru um freistingar og próf og ég las þá í byrjun upptökunnar svo samhengið skiljist betur.

Mörg tengjum við freistinguna við söguna af Adam og Evu í Eden þar sem tré stóð og af ávexti þess máttu þau ekki eta. Það var ávöxtur en ekki epli en myndlistin hefur gefið okkur eplið sem tákn. Hvað sem því líður þá erum við prófuð hvern dag í vali okkar, alla daga er okkar freistað, alla daga tökum við próf og föllum. En Guð elskar okkur samt. Hann elskar breyskar manneskjur eins og mig og þig.

Þegar stjörnur fall´á storð

Nýárskveðja 2023 – Gleðilegt nýtt ár og þakka liðið.

Þankar á tímamótum. Hér er birt þýðing á „negrasálmi“ sem ég þýddi í gær, gamlársdag 2022 og tók svo upp söng minn á honum ásamt hugvekju um mannlíf um áramót og einnig á þeim tímamótum sem hinst verða á jörðu.

Mynd af Veraldarvefnum

Hér fyrir neðan er hljóðskrá með söng mínum og hugvekju

Lesa meira

Um föl, fagurbrún og fordóma

Um föl, fagurbrún og fordóma

eftir Örn Bárð Jónsson

Svartur og hítur, hvítur og svartur

Hér fyrir neðan er greinin og einni hljóðskrá. Ýttu á þríhyrninginn og þá spilast lestur höfundar.

Hvers vegna eru flest okkar föl?

Í Kastljósi nýlega var fjallað um fordóma Íslendinga gagnvart fólki sem er af erlendu bergi brotið, einkum lituðu. Á hverju hvíla fordómar?

Xenófóbía

Xenofóbía er hugtak sem vísar til ótta og fordóma gagnvart framandi fólki, útlendingum, fólki sem á einhvern hátt telst öðruvísi en meirihluti íbúa. Fordómar hvíla ætíð á grunni fáfræði og/eða ótta.

Einelti

Náskylt er eineltið sem allt of mörg börn mega þola í skólum. Sum þeirra eru ofsótt vegna litarafts eða útlits, önnur vegna þess að þau eru kotroskin og með ríka málkennd, tala öðruvísi og eru sum e.t.v. ekki eins félagslynd og hin, lesa kannski meira og hafa þar með stærri orðaforða. Þá verða sumir „aumingjarnir“ öfundsjúkir og fara að bögga þau eins og sagt er á ísl-ensku sem er önnur útgáfa á ís-lensku og sínu verri. Og nú virðist ég við fyrstu sýn vera dottinn í fordómapyttinn þegar ég tala um aumingja, en mér til málsbóta er að ég hef orðið innan gæsalappa, vegna þess að mér er það ljóst að ég er að dæma eineltisliðið í skólum eða vandræðagemsana. Gemsar í þessu samhengi er mun eldra en gemsarnir sem við berum flest í vösum okkar eða veskjum. Gemsi merkir upphaflega veturgömul kind en er einnig notað um ómerkilegan mann.

Hin fölu

En aftur að xenófóbíunni, hatrinu gegn fólki sem er ekki eins og meirihlutinn. Við erum nefnilega flest bæði föl og fordómafull. En hvers vegna erum við föl?

Talið er að mannkynið eigi uppruna sinn í Afríku þar sem fólk er flest dökkt á hörund og hefur verið frá upphafi. Þar er sólin hátt og lengi á lofti og fólk hefur því um aldir og árþúsund varist miklu sólskini með því að þróa með sér dökkt hörund. En þegar þetta dökka fólk flutti til annarra svæða heimsins, þar sem minna sólarljóss gætir, urðu erfðabreytingar hjá þeim með tíð og tíma.

Erfðafræðingar með fornminjar af mannfólki í fórum sínum telja að Evrópubúar séu blanda af a.m.k. þremur fornum þjóðflokkum: veiðimönnum, söfnurum og bændum, flokkum fólks sem fluttust aðskildir til Evrópu á s.l. 8000 árum. Nýlegar uppgötvanir af fornleifum frá Spáni, Lúxemborg og Ungverjalandi, gefa til kynna að þetta fólk hafi verið dökkt á hörund. Þetta fólk skorti tvennskonar erfðaefni SLC24A5 og SLC45A2 og sá skortur er valdur að því að Evrópubúar fengu flestir ljósari húð, urðu fölari á vegi tímans. Fleiri þættir spila hér stórt hlutverk í þróun manneskjunnar sem ekki verður fjallað um hér í þessum stutta pistli.

(https://www.science.org/content/article/how-europeans-evolved-white-skin)

Við sem erum hvít erum þar með upplitað blökkufólk eða það sem ég kalla, fölvar.

Til er kínversk skýringarsögn um mannkynið. Guð vildi baka manneskju og sló í deig, setti yfir eld og bakaði. En bráðlæti varð til þess að baksturinn varð fölur og hálfhrár. Í næstu tilraun ætlaði Guð að gæta sín betur og baka lengur og hann beið þolinmóður en sú bið varð reyndar ögn of löng og deigið brenndist og varð allt of dökkt. Í þriðju tilraun náði Guð þessum fína árangri og baksturinn varð ljósbrúnn og fagur eins og rétt bakað brauð.

Þessi saga er skemmtileg en í henni er vísir að xenofóbíu því sagan upphefur lit Austurlandabúa á kostnað hinna fölu frá Evrópu og þeirra svörtu frá Afríku. Sagan er auðvitað kínversk gamansaga. Já, það er erfitt að komast hjá fordómum hvort sem beitt er alvöru eða gríni.

Fordómar

Fordómar eru eins og arfi í garði. Þeir hverfa aldrei alveg úr hugarbeði þínu eða mínu. En ef við erum dugleg við að reita arfann er unnt að halda honum í skefjum og arfi er ætíð betri heftur en skefjalaus.

Við, Íslendingar, erum fölir á hörund en orðið föl getur komið af tveim orðstofnum í okkar máli, fölur og falur. Við erum föl á hörund en við erum allt of mörg einnig föl í merkingunni að vera auðkeypt og auðblekkt.

Undarleg tík

Sú skrítna tík sem kennd er við orðið pólis (borg á grísku) og kallast pólitík og er ætlað að gæta hags borgaranna skv. frummerkingu orðsins, hefur allt of lengi afhjúpað þann plagsið innan íslenskrar stjórnsýslu að þar er mörg manneskjan, föl eða til sölu. Sum taka sérhyggju fram fyrir almannahag og tryggja þar með hag hinna fáu og ríku á kostnað hinna mörgu sem hafa minna á milli handanna.

Hin fölu og fölu

Svo má líka minna á samskipti hvítra og svartra í nýlegri viðskiptasögu okkar og þar vísa ég til framgöngu upplitaðra útgerðarmanna að norðan, gagnvart fagurbrúnu fólki í sunnanverðri Afríku, sem Kveikur hefur lýst upp, en þar urðu hin brúnu föl í vafasömum viðskiptum á milli hinna fölu og hinna fölu þar sem hinir fölu báru fé á hin ófölu sem reyndust þar með vera föl – eða þannig!

Margt er skrítið í kýrhausnum, sagði kerling – eða verð ég að segja karl – til að fá ekki á mig fordómastimpil eða fæ ég hann hvort sem ég nota orðið karl eða kerling? Verð ég dissaður í báðum tilfellum? Ég vona ekki.

Góðar stundir!