+Steingrímur Bjarni Erlingsson 1970-2023

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Steingrímur Bjarni Erlingsson

1970-2023

vélfræðingur og athafnamaður

Bálför frá Hafnarfjarðarkirkju

fimmtudaginn 9. febrúar 2023 kl. 15

Texti og hljóðupptaka með ræðunni er hér fyrir neðan.

Nei,

Nei,

Og aftur:

Nei.

Og ég veit að þið takið undir þetta Nei með mér. Ekkert okkar vill vera í þessum sporum hér í Hafnarfjarðarkirkju í dag og kveðja mann í blóma lífsins. Nei, við viljum það ekki

– en verðum það samt.

Steingrímur Bjarni Erlingsson er horfinn frá okkur og harmur fyllir brjóst okkar og sál. Við viljum ekki vera í þessum sporum en við verðum að vera hér og horfast í augu við það að jarðlíf allra manna, kvenna og karla, tekur enda í fyllingu tímans.

Við munum öll deyja, orti Bubbi er hann söng um atómbombuna. Stef í ljóðinu eiga erindi við okkur hér í dag.

Heill þér faðir alheimsins seg þú mér

Vorum við ekki fædd þér til dýrðar?

. . .

Hættan eykst með hverri mínútu.

Dauðinn fer á stjá

. . .

Keflavík, Grindavík, Vogar

Reykjavík, Þorlákshöfn loga.

. . .

Það er stutt í það að storknað hraun

Muni renna á ný

Það er stutt í það að jöklar okkar

Muni breytast í gufuský

Hvert barn sem fæðist í dag

á minni og minni möguleika að lifa

Hver þrítugur maður í dag

Er með falsaðan miða.

Þið munið öll, þið munið öll, þið munið öll deyja . . .

Þetta er myrk sýn hjá Bubba, en hann deilir sinni sýn með skáldjöfrinum, séra Hallgrími Péturssyni, um lífið undir ógnum heimsins.

Margt er það enn sem ógnar lífi á jörðinni, en fyrir mátt læknisfræðinnar, eru möguleikar okkar til lífs þó mun meiri en áður því nú eru ævilíkur Íslendinga 84 ár en voru 42 ár fyrir 160 árum. Við lifum lengur – en sumir falla í valinn í miðjum leik og ná ekki að skora fleiri mörk.

Já, Denni skoraði mörg mörk. Hann ætlaði að verða bestur í fótbolta og hann varð það með 4. flokki með FH en þá hafði hann náð markmiði sínu og við tóku önnur fjöll að klífa og aðrir leikir.

Denni var snjall einstaklingur. Í honum bjó í senn dirfska og framkvæmdagleði. Hann fór oft með himinskautum og hugmyndirnar voru stórar og til að framkvæma þær þurfti milljónir ef ekki skrilljónir. Og Denni fann þessar skrilljónir. Eitt sinn leigði hann íslenska varðskipið Tý og fór með það til útlanda í þjónustuverkefni, málaði yfir gráa litinn og gerði skipið eldrautt. Þvílík dirfska og stíll. Og verkefnin urðu fleiri, meiri og stærri.

Hann heillaði Norðmenn og náði samningum um verkefni á Svalbarða og þar skiptu persónutöfrar hans mestu og hugmyndaauðgi. Í því samhengi kom dómsmálaráðherra Noregs hingað og Steingrímur lánaði honum bíl og ferðaðist einnig með honum víða um landið. Þeir áttu vel saman. Þá var hann Guðni A. Jóhannesson, fv. orkumálastjóri, sem er nýlátinn, oft í sambandi við hann í tengslum við vindmyllurnar sem Steingrímur rak um tíma.

Já, það var stíll yfir honum Steingrími og engin minnimáttarkennd en hann hóf sig þó ekki yfir aðra, en talaði við alla sem jafningja.

Hann var framkvæmdaglaður og endurgerði a.m.k. tvö hús, annað á Seltjarnarnesi og hitt á Bárugötunni í Vesturbænum og fyrir stafni var að gera íbúðina á Valsreitnum virkilega flotta.

Hann stundaði um tíma útgerð með Inúítum í Kanada. Draumarnir voru margir og stórir og sumir rættust og risu, en aðrir hrundu. Þannig er lífið: Vogun vinnur, vogun tapar.

Skáldið Steinn Steinarr orti um andstæður lífsins og sagði:

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.

Já, lífið er aldrei bara ljós og birta. Lífið er í raun stórhættulegt og ekki síst fyrir þær kynslóðir sem nú vaxa úr grasi og veltast um í ólgusjó netheima, þar sem upplýsingaflæðið streymir eins og stærstu fossar landsins, óbeislaðir og eyðandi, með slíkum þunga, að ef maður setur tána út í strauminn og án landfesta, er hætt við að maður verði hrifinn með vantsflaumnum og fljóti síðan bjargarlaus að feigðarósi. Landfestar og rætur skipta hér öllu.

Í raun er þetta ekkert nýtt. Lífið hefur ætíð verið svona enda þótt tækin og tólin hafi verið önnur og fábreyttari hér áður fyrr, því lífið hefur ávallt verið á mörkum himins og heljar, frelsis og fíknar, heilbrigðs lífernis og helfarar eyðandi efna. Og hér eru það landfestar og rætur sem bjarga.

Lífið hefur ætíð verið áhættusamt og þá fullyrðingu styð ég með tilvitnun í texta sem ritaður var fyrir 2.500 árum eða svo, texta í Davíðssálmunum, sem kenndir eru við Davíð konung Ísraels, sem var í senn snillingur og breyskur maður. Hann reis hátt og féll með látum, reis upp aftur og féll á ný.

Í 40. sálmi segir m.a. og það eru orð til okkar sem eftir lifum og hér kveðjum látinn ástvin:

Hann veitir kraft hinum þreytta

og þróttlausum eykur hann mátt.

Ungir menn þreytast og lýjast,

æskumenn hnjóta og falla

en þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft,

þeir fljúga upp á vængjum sem ernir,

þeir hlaupa og lýjast ekki,

þeir ganga og þreytast ekki. (Sl. 40.29-31)

Og Steingrímur Bjarni vonaði á Drottin. Hann drakk trúna í sig með móðurmjólkinni og í samskiptum við foreldra, afa og ömmur, að lífið væri í hendi Guðs og að ekkert fái slitið okkur úr hendi Skaparans. Við erum Guðs í lífi og dauða. Hann var t.d. tvisvar sinnum í sumarbúðum í Hlíðardalsskóla og jafn oft í Kaldárseli og þar var gott að vera og læra um Jesú Krist.

Foreldrar Steingríms Bjarna eru Vilborg Steinunn Sigurjónsdóttir og Erlingur Steingrímsson. Hann bar nafn föðurafa síns, Steingríms og Bjarna föðurbróður, sem dó ungur en það nafn er líka nafn langafa hans sem var sjómaður og hetja sem bjargaði fjölda manns úr sjávarháska um ævina m.a. föðurafa mínum.

Systkini Steingríms Bjarna eru:

Úlfar,

Ernir og

Kristín Salóme.

Steingrímur kvæntist Kistínu Jónínu Gísladóttur en þó ekki fyrr en árið 2008 en þau skildu svo árið 2016 en höfðu þá lifað saman sem hjón væru í 24 ár! Dætur þeirra og stolt foreldra sinna eru Soffía, f. 2000 og Edda f. 2003, báðar góðar íþróttakonur. Soffía, er rekstrarverkfræðingur og leikur handbolta hjá Gróttu og Edda er í HÍ og nemur hagfræði og leikur handbolta og fótbolta með sama félagi.

Denni hafði brennandi áhuga á að fylgjast með stelpunum. „Hann var mikill tungumálamaður og alltaf að reyna að kenna okkur tungumálin sem hann kunni. Hann var fyndinn og mikill húmoristi, góður sögumaður og sagði okkur margt sem á daga hans hafði drifið.“ Svo voru það mótorhjólarúntarnir sem þær fengu að reyna með honum. Hann eldaði svo góðan mat og var einnig mikill tónlistarunnandi og stelpurnar segjast þekkja rokktónlistina meira og minna fyrir hans fræðslu. „Hann var okkur góður vinur og þótti mjög vænt um okkur og var mjög stoltur af okkur.“ Dæturnar kveðja pabba með söknuði og trega og þakka fyrir allar góðu minningarnar.

Steingrímur var næmt barn og heyrn hans var ofurnæm. Sem barn þekkti hann alla bíla á vélarhljóðinu einu og svo fór að vélar urðu hans áhugamál og viðfangsefni. Þegar Óliver Steinn, ömmubróðir hans, kom með nýjan bíl í götuna og spurði strák hvort hann vissi hvað þessi nýi bíll héti svaraði hann státinn eftir að hafa heyrt í mótornum: Ford Mercury! Og bókaútgefandinn sem ætlað að máta strákinn varð algjörlega mát.

Denni lærði flugvirkjun í Tulsa í Oklahoma og svo útskrifaðist hann sem vélfræðingur úr Vélskólanum og var auðvitað forystumaður í félagslífinu þar. Svo fór hann á sjóinn eins og forfeður hans og margir ættingjar í gegnum tíðina.

Hann flutti ræðu á sjómannadaginn í Seltjarnarneskirkju árið 2015 og sagði þar m.a. frá trú sinni:

„Mamma mín kenndi mér bænirnar, en síðar átti ég eftir að kryfja orð biblíunnar með föðurömmu minni.“ 

Þegar hann var 2. vélstjóri á Björgúlfi EA árið 1994 fannst honum trúin vaxa í hjarta sér og sagði:

„Hér hófst fyrir alvöru samband mitt við Guð sem stendur enn í dag og er samningur okkar slíkur að ef ég er heiðarlegur og góður maður mun hann passa mig í ferðum mínum hvort heldur til sjós eða lands og ef hann þarf að vara mig við einhverju gerir hann það með að senda ákveðna tilfinningu í maga minn og fer ég aldrei […] á móti henni. Tala ég við Guð á hverjum degi og hefur tilvist hans marg oft verið sönnuð fyrir mér.“

Ekkert okkar getur lifað án trúar, hvorki vísindamenn né guðleysingjar eða annað fólk, því það að trúa er að treysta. Allir menn, konur og karlar, treysta á eitthvað, allir eiga einhverskonar lífsgrundvöll, lífsgildi og skoðanir sem lífið hvílir á. Kristin trú hefur mótað öll bestu þjóðfélög heims. Sú staðreynd verður ekki hrakin.

Steingrímur vissi margt. Hann var orðheppinn og átti margar frjóar tillögur sem hann framkvæmdi og aðrar sem biðu þess að verða að veruleika. Denni var maður athafna og verka, var eldklár og hittinn á verkefni og hluti sem hann taldi sér hag í og átti auðvelt með að hrífa aðra með sér.

Denni var sögufróður og hafði gaman af að segja sögur og vildi gjarnan hafa í þeim smá brodd eða neista. Hann kom víða við. Áhuginn á vélum var ekki bara tengdur skipum heldur líka bílum. Hann átti t.d. mótorhjól og Land Cruiser um tíma og svo var hann bassaleikari í hljómsveitinni Foringjarnir. Denni hafði ætíð mörg járn í eldinum, var á sísnúningi og stundum ofursnúningi svo við lá að vélin bræddi úr sér og líklega gerði hún það næstum því og oftar en einu sinni í yfirfærðri merkingu.

Denni ólst upp hér í nágrenni kirkjunnar, gekk í Lækjarskóla og hér var og er Íþróttahúsið. Hann fermdist hér í kirkjunni hjá séra Gunnþóri sem hann fékk seinna til að blessa skip og önnur ævintýri sín.

Hann fékk ýmsa hæfileika úr báðum ættum. Mamma hans og hann töluðu oft saman og voru alla tíð góðir vinir og höfðu bæði yndi af góðum húmor og hlógu oft saman og stundum var húmorinn ögn svartur. Hann átti ætíð skjól hjá mömmu. Og pabbi með sín vestfirsku gen lagði sitt af mörkum og þeir áttu mikið saman að sælda hin síðari árin. Stuðningur pabba var mikill og góður.

Steingrímur var orðheppinn eins og margt skyldmenna hans. Hann kom oft með snjallar tillögur, bjó yfir sterku minni, mundi vel ártöl og tölur, sá kjarna máls hverju sinni.

Hann hafði næmt tónlistareyra og þegar Richard var að spila Til vorsins eftir Grieg, skynjaði hann í verkinu blæbrigði í túlkun, sem gaf til kynna næma heyrn og skynjun þegar hann bar saman leik Richards og annarra listamanna af upptökum. Hann bað Richard gjarnan um að spila Til vorsins þegar hann kom í heimsókn til hans og mömmu og það sama mun Richard gera að loknum þessum minningarorðum.

Steingrímur naut elsku og umhyggju margra. Fjölskyldan vill sérstaklega þakka Lóu Sigrúnu, vinkonu hans, fyrir umhyggju og mikla elsku hin síðari ár.

Skömmu fyrir jól var nýtt tímabil að hefjast hjá honum. Framtíðin blasti við með nýjum tækifærum. Hann hafði náð áfangasigri í baráttu við sjúkdóm sem hafði lagt skugga yfir hann síðustu árin. Hann átti nýjan bíl, nýja íbúð og sjálfur nýkominn úr meðferð og hlakkaði til komandi daga. Úlfar og hann áttu saman góðar stundir um jólin en bróðirinn hélt svo aftur til Bandaríkjanna þar sem hann býr.

En dagarnir hans Steingríms Bjarna reyndust ekki bara bjartir eins og ýjað hefur verið að. Lífi hans má líkja við portrettmynd, en slíkar myndir verða aldrei málaðar eingöngu með hvítri málningu, heldur verða líka að vera til staðar dekkri litir og skuggar til að skerpa hið bjarta og styðja við ljósið í verkinu. Þetta þekkir hún Vilborg, af sinni listsköpun og sjálfur fæst ég við að mála og þekki því þessi lögmál.

Það skiptust á skin og skúrir í lífi hans.

Ég byrjaði þessa ræður á neitun: Nei, nei, nei, en ræðan hefur þó verið nánast eingöngu á hinum björtu nótum.

Steingrímur Bjarni var skemmtilegur maður, greindur og gáfaður, hæfileikaríkur frumkvöðull og framkvæmdamaður.

„Eitt sinn skal hver deyja“ segir í fornu spakmæli. Enginn flýr þá staðreynd eins og við vitum sem hlýddum á sálm séra Hallgríms Péturssonar við kistulagninguna, fyrr í dag, sálminn sem ber yfirskriftina: „Um dauðans óvissan tíma“. Hann er líka stundum kallaður, Sálmurinn um blómið. Sá texti er líklega sá besti og dýpsti, sem til er um dauðann á íslenskri tungu. Heyrum tvö vers:

3 Dauðinn má svo með sanni

samlíkjast, þykir mér,

slyngum þeim sláttumanni

er slær allt hvað fyrir er:

grösin og jurtir grænar,

glóandi blómstrið frítt,

reyr, stör sem rósir vænar

reiknar hann jafn fánýtt.

8 Hvorki með hefð né ráni

hér þetta líf ég fann,

sálin er svo sem að láni

samtengd við líkamann.

Í Herrans höndum stendur

að heimta sitt af mér,

dauðinn má segjast sendur

að sækja hvað skaparans er.

Já, dauðinn hefur vitjað ástvinar okkar. Hann nær öllum í fyllingu tímans, þér og mér, okkur öllum!

Búum okkur undir þau tímamót með því að íhuga viskuna í kristinni trú, viskunni sem býr í boðskap Krists og treystum því að við séum nú og verðum ætíð í hendi Guðs. Með því að trúa því erum við ekki að segja nei, heldur já! – og það eitt stórt og hljómfagurt og sterkt já!

Já, við lífið,

já, við upprisuna,

já, við eilífðina,

já, við Guð,

já, við Krist, sem er okkar besti bróðir og mesti áhrifavaldur veraldar og heimssögunnar, enda kemst enginn með tærnar þar sem hann hafði hælana.

En okkar já skiptir þó ekki mestu, heldur jáyrði Guðs, sem segir já við þig, já, við Steingrím Bjarna, já, við lífið, já, við allt fólk, sama hver uppruninn er, kyn eða gjörðir, já, við öllu fólki, því „ólíkur uppruni okkar auðgar heildina“ – í þessu landi og hvar sem er – eins og segir í aðfaraorðum nýrrar stjórnarskrártillögu frá 2011. Jáyrði Guðs er mikilvægasta já veraldarsögunnar og það já bar Kristur til mannkynsins, til þín og mín. Hann kom til að segja já við allt mannkyn og þig.

Svörum jáinu stóra með jái og fögnum því að í dag kveðjum við góðan dreng sem sjálfur var stórt JÁ!

Guð blessi minningu Steingríms Bjarna Erlingssonar og megi hann leiða ykkur, dætur hans, foreldra og ástvini alla og þig sem þessi orð heyrir.

Megi JÁ Guðs gefa þér þrek í sorginni og opna þér leið um lífsveginn og varpa birtu og rósum á veginn þinn.

Guð geymi þig sem enn ert á lífsveginum. Við þig hefur Guð ætíð sagt já og hann gerir það hvern dag:

Já!!!

Já!!!

Já!!!

Amen.

– – –

Kveðjur fluttar eftir moldun og blessun:

Charlotta María Hauksdóttir, eiginkona Úlfars bróður Steingríms, og börn þeirra Freyja og Haukur skila ástarkveðju frá Kaliforníu. Þar hafa þau verið föst við nám og störf, en hafa tekið þátt úr fjarska síðustu vikur, og fylgast nú með þessari athöfn í streyminu.

Kveðjur frá föðursystkinum Steingríms, þeim Lilju og Kristjáni sem eru í útlöndum.

Björn Valur Gíslason, fv. mágur Steingríms biður fyrir kveðju sína og dóttur sinnar, Kötlu Hrundar, til dætra Steingríms, móður þeirra, foreldra hans, systkina og ættingja allra. Björn Valur er úti á sjó og komst því miður ekki til að fylgja Steingrími til grafar og dóttir hans býr í Danmörku ásamt fjölskyldu sinni.

Snorri Sturluson, vinur Steingríms og fyrrverandi viðskiptafélagi, sendir kærleikskveðju til allra aðstandanda frá Danmörku, þar sem hann er fastur við störf.

Þá er hér kveðja til dætra Denna, Soffíu og Eddu og Stínu frænku. Guð blessi minningu Denna.

Stebbi Villi, Hulda og fjölskylda Ólafsfirði.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.