+Reiner Helmut Santuar 1944-2023

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

Reiner Helmut Santuar

1944-2023

Bálför frá Neskirkju

þriðjudaginn 21. febrúar 2023 kl. 11

Einhver innskot eru í ræðunni sem ekki koma fram í textanum.

Hver var hann Reiner Helmut Santuar sem við minnumst hér í dag? Hver var hann? Ég þekkti hann ekki en byggi það sem ég segi hér um hann á upplýsingum vina hans. Hver var hann? Og hver er ég og hver ert þú? má líka spyrja. Hver erum við? Og til hvers erum við? Hvaðan komum við og hvað verður um okkur að lífi loknu? Um allt þetta vitum við eitthvað en allt sem við vitum um lífið og tilveruna er þó brotakennt. Trúarbrögðin geyma safn íhugana og reynslu fólks um lífið og tilveruna í gegnum aldir og árþúsund en þau vita samt ekki allt.

Gríski heimspekingurinn, Sókrates, hafði margt að segja um sína daga. Við hann eru kennd oroðin gnoþi seauton, þekktu sjálfan þig. Hann mun líka hafa sagt eitthvað á þá leið að sönn viska um sjálfan sig væri að vita hvað maður veit ekki, að þekkja takmörk eigin þekkingar og skilnings – að þekkja það sem maður veit og það sem maður á ólært.

Vesturlönd byggja allt sitt vit á viskunni úr tveim uppsprettum: hinum grísk/fílósófíska brunni og hinum gyðing/kristna. Heimspekingurinn Páll heitinn Skúlason, fv. háskólarektor, talaði um hugsanafljótið mikla sem er samsett úr þessum tveim straumum, grísk/fílósófískum og gyðing/kristnum. Þaðan er öll okkar góðu gildi komin – öll!

Vinir Reiners segja hann hafa þekkt sjálfan sig vel. Hann var íhugull og leitandi alla tíð. Ég spurði vinina: Hver var hann Reiner? Og þá komu fram orð eins og einyrki, einsetumaður, einfari en þau orð voru öll tekin samstundis út af borðinu því ekkert þeirra lýsir honum í raun. Orð eru eins og hringir sem skarast þegar þau eru lögð hvert ofan á annað. Sameiginleg merking þeirra er aldrei fyllilega söm.

Þegar ég kom heim að loknum fundi mínum með vinum Reiners komst ég að því að líklega væri besta orðið til að lýsa honum, orðið, einstakur.

Já, hann var ekki eins og neinn annar.

Og þegar öllu er á botninn hvolft þá ert þú líka þannig og ég einnig.

Við erum öll einstök og ekki eftirlíkingar af neinni annarri manneskju. Og enda þótt erfðavísarnir gefi til kynna skyldleika við foreldra og fyrri kynslóðir þá erum við einstök. Enginn hefur t.d. sömu fingraför og þú. Augun þín eru líka einstök.

Í Davíðssálmum segir:

„Augu þín sá um mig er ég enn var ómyndað efni, ævidagar mínir voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína áður en nokkur þeirra var til orðinn.“

Augu þín sáu mig – og þau augu sjá þig og mig núna, alla daga og um alla eilífð. Þegar allir sem nú lifa eru horfnir, allir sem muna okkur nú, þegar þau verða öll horfin af þessu jarðlífi þá er bara einn sem man allt, einn almáttugur, eilífur Guð, án upphafs og endis, eilífur, óskapaður, uppspretta alls sem er.

Reiner Helmut Santuar fæddist bænum Dörflach í Austurríki sem þá var hluti af Þýskalandi þann 12. febrúar 1944.

(Úr árbólk Háskóla Íslands 1967-68401. Reiner Helmut Santuar, f. i Dörflach, Pÿzkalandi, 12. febr. 1944. Stúdent 1965, Duisburg.)

Hann lést 9. febrúar 2023 á Hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ, 79 ára að aldri.

Foreldrar hans voru Paula og Cölestin. Hann átti einn eldri bróður, Herbert Santuar, að nafni, sem lést fyrir þremur árum, eftir því sem okkur er kunnugt.

Hann lauk stúdentsprófi í Duisburg 1965.

Í Árbók Háskóla Íslands sem út kom 1969 segir m.a.:

„Rikisstjórn Íslands veitti eftirfarandi stúdentum styrk til

náms við Háskólann í íslenzku, sögu Íslands og bökmenntum

háskólaárið 1967-1968.“ Nafn Reiners er meðal 10 annarra sem komu frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Grænlandi, Írlandi, Ítalíu, Kanada, Sviss og Svíþjóð. Fjölbreyttur hópur það og allt einstakir einstaklingar.

Að þessu námi loknu fór hann aftur tíl Þýskalands. En hann sneri aftur til Íslands 1974 og þá aðalllega til þess að kenna innhverfa íhugun að loknu kennaranámi í þeim fræðum.

Hann bjó hér til æfiloka.

Hann tók aldrei upp Íslenskan ríkisborgara rétt og sagt er að það hafi verið til þess gert að hann gæti sagst búa í útlöndum

Hann var fyrsti kennari Innhverfrar íhugunar hér á landi og einn af stofnendum Íslenska íhugunarfélagsins árið 1975. Hann kenndi um 1500 manns að íhuga. Félagið er ennþá starfandi, 48 árum eftir stofnun þess og á þeim tíma hafa u.þ.b. 5.000 Íslendingar lært þá íhugunaraðferð sem hann iðkaði og kenndi.

Rein er talaði góða íslensku sem hann var fljótur að læra og hafði gott vald á.

Hann starfaði árum saman sem þýskukennari í málaskólanum Mími og vann við garðyrkju mörg sumur. Einnig vann hann sjálfstætt sem þýskukennari og við að túlka stjörnukort fyrir almenning. Hann hafði mjög góða færni og þekkingu á því sviði, bæði í svonenfdu vestrænu kerfi og því indverska.

Eitt af þekktustu ritum úr arfi Hindúa er Bhagavad Gita, sem samanstendur af 700 versum úr ritningum Hindúa, sem eru hluti af epísku ljóði eða söguljóðinu Mahabharata, sem er talið frá fyrsta árþúsundi fyrir Krist og er dæmigert fyrir hindúistíska nýmyndun eða synthesis. Ritið er talið meðal heilagra ritninga hindúismans. Þess má geta að ritið var þýtt á íslensku á liðinni öld og það gerði Sigurður Kristófer Pétursson sem bjó sem sjúklingur á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi (9. júlí 188219. ágúst 1925) 43 ára að aldri.

Reiner var góðum gáfum gæddur, að sögn vina hans, las alla tíð mikið og hafði ótrúlegt minni á það sem hann hafði lesið og þreyttist aldrei á því að ausa af sínum fróðleiksbrunni og skenkja vinum.

Hann var góður kennari og fjölfróður og gat látið til sín taka á sviði heimspeki, og dulspeki, rætt trúarbrögð, stjörnuspeki, heilun, mankynsögu, landafræði, bókmenntir og matargerð svo fátt eitt sé nefnt.

Hann var skemmtilegur, segja vinir hans og hafði góða kímnigáfu. Hann talaði í gamnni um stóru Káin í lífi sínu en þau voru; konur, kynlíf og kaffi, en sú játning fylgdi að hann teldi sig geta á auðveldan hátt lifað án kvenna og kynslífs, en alls ekki án kaffis, sem hann kallaði reyndar tveim mismunandi nöfnum. Annað var K-vítamín og hitt arabísk baunasúpa.

Reiner var ógiftur og barnlaus en hann var barngóður eins og börn vina hans kynntust, t.d. áttu börn Gríms og July með honum margar, skemmtilegar stundir.

Hann var listrænn og fékkst m.a. við að mála vatnslitamyndir og ein af myndum hans prýðir opnu sálmaskrárinnar og er frá Kleifarvatni sem hann hélt mikið uppá. Já, honum var margt til lista lagt.

Reiner gaf fyrirmæli um að hann skyldi brenndur að jarðlífi loknu og að ösku hans yrði dreift við eða í Kleifarvatn og að þau sem þar yrðu viðstödd ættu m.a. að blása sápukúlur en það gerði hann oft í tíma og ótíma t.d. þegar hann vann við garðyrkju á sumrin. Þá átti hann það til að taka upp staukinn og blása nokkrar kúlur.

Hann kom víða við í sínum trúarpælingum, en var skráður í Þjóðkirkjuna, að sögn Gríms Grímssonar, vinar hans.

Nú taka til máls Grímur Grímsson og July og blása nokkrar huglægar sápukúlur í minningu hans:

[Upptakan heldur áfram með innskoti frá July og svo frá Grím en svo kom maður og bað um að fá að minnast hans og ég gaf honum leyfi fyrir stuttu innleggi sem varð reyndar allt of langt]

Ég minntist áðan á ljóðið Baghava Gita, en meginstef þess er hið sama og Sókrates nefndi, að þekkja sitt sanna sjálf og að leiðin til þess væri í gegnum eigin líkama, gáfur og skynjunarfæri, sem gerðu mönnum kleyft að tilbiðja guðdóminn. Ljóðið hjálpar einnig til við það að fólk nái því marki að lifa í hreinleika, styrkleika, aga, heiðarleika, góðvild, heilindum og staðfestu til þess að finna tilgang lífsins og að lifa í innihaldsríku lífi í fyllingu alls hins góða..

Sigurður Kristófer Péturssson, sem fyrr var getið var sjálfmenntaður fræðimaður og þýðandi, en hann þýddi t.d. Hávamál Indíalands: Bhagavad-Gíta. Hann var mikill málamaður, las norðurlandamálin öll, og talaði og ritaði dönsku. Ensku og þýsku nam hann svo vel að hann gat lesið vísindarit á þeim málum, og talaði esperanto og orti á því máli.

Þegar Sigurður Kristófer var 14 vetra varð hann holdsveikur. Tveimur vetrum síðar, árið 1898, tók Laugarnesspítali til starfa. Fékk hann þá vist þar og var hann einn af fyrstu sjúklingum sem þangað fluttust. Dvaldist hann þar til dauðadags.

Hann orti sálm sem verið hefur í sálmabókum Þjóðkirkjunnar og er þar enn í glænýrri útgáfu og ber nafnið Drottinn vakir.

Hvers vegna erum við hér? Þessi spurning leitar á marga á lífsleiðinni, hvar sem er í heiminum. Við spyrjum um tilvist okkar og tilgang.

Trúarbrögðin geyma öll margvíslegar hugmyndir um það allt. Margt er þeim sameiginelgt og annað ekki. Þau eru lík en um leið ólík, eins og við mannfólkið.

En markmið þeirra eru áþekk, að búa til heimsmynd, kerfi sem fólk getur mátað líf sitt við.

Kristnin er stundum talin vera í hópi trúarbragða eða trúarkerfa eða það sem á sumum tungumálum er kallað religion. En því er líka haldið fram að kristin trú sé einmitt ekki trúarbrögð í skilningnum trúarkerfi eða tilbeiðslukerfi, því kristin trú byggist á kærleikssambandi við persónu Jesú og gefi fólki því frelsi til að þroska það kærleikssamband á sínum forsendum.

En látum vera að fara nánar út í það. Hér erum við í húsi sem helgað er Kristi en öllum opið því sá Guð sem hér er talað um elskar alla menn, konur og karla, og algjörlega án allra skilyrða. Hér er enginn við dyrnar sem spyr um hver margar bænir þú hafir beðið í dag eða síðustu daga, hvort þú sért búinn að fyrirgefa þessum eða hinum, búinn að vinna svo og svo mörg góðverk og borgað svo og svo mikið í sjóði kirkjunnar eða til annarra líknarstofnana, enginn spyr um kynhneigð að hjúskaparstöðu þína, menntun eða áhugamál. Nei, hingað koma allir á sínum forsendum.

Í gær hitti ég mann og í okkar samtali barst Laugarnes í tal en hann hafði verið þar á gangi og kannað sögu þess. Ég fór að rifja upp sögu Sigurðar Kristófers Péturssonar og fann ýmislegt um hann á vefnum í símanum mínum. Og einmitt þar var talað um þýðingu hans á Baghava Gíta.

Er það tilviljun að einmitt í gær, meðan ég var að undirbúa þessa athöfn að ég var leiddur að nafni þessa merka manns? Ég held ekki. Ég fæ svon hjálp í hvert einasta sinn sem ég undirbý prédikun eða útför og oft koma hugboð mín og það, sem að sálu minni er hvíslað, mér gjörsamlega á óvart, en svo fæ ég það oft staðfest að útför lokinni að einmitt þessi eða hin tilvitnunin hafi einmitt átt við um þá persónu sem kvödd var hverju sinni. Ég held að hugboðið um þýðanda Baghava Gíta hafi ekki verið tilviljun og því leyfi ég mér að lesa sálm Sigurðar Kristófers Péturssonar sem hann orti á sinni ævi sem einkenndist af sjúkdómum og mótlæti en um leið sterkri trú á hið stóra samhengi alls sem er og trú á elskandi Drottin:

1 Drottinn vakir, Drottinn vakir

daga’ og nætur yfir þér.

Blíðlynd eins og besta móðir

ber hann þig í faðmi sér.

Allir þótt þér aðrir bregðist

aldrei hann á burtu fer.

Drottinn elskar, Drottinn vakir

daga’ og nætur yfir þér.

2 Löng þá sjúkdómsleiðin verður

lífið hvergi vægir þér,

þrautir magnast, þrjóta kraftar,

þungt og sárt hvert sporið er,

honum treystu, hjálpin kemur,

hann af raunum sigur ber.

Drottinn læknar, Drottinn vakir

daga’ og nætur yfir þér.

3 Þegar freisting mögnuð mætir,

mælir flátt í eyra þér

hrösun svo þig hendir, bróðir,

háðung að þér sækja fer,

vinir flýja – æðrast ekki,

einn er sá er tildrög sér.

Drottinn skilur, Drottinn vakir

daga’ og nætur yfir þér.

4 Þegar æviröðull rennur,

rökkvar fyrir sjónum þér,

hræðstu eigi, hel er fortjald,

hinum megin birtan er.

Höndin sem þig hingað leiddi

himins til þig aftur ber.

Drottinn elskar, Drottinn vakir

daga’ og nætur yfir þér.

Hér er talað um hel, um ríki dauðans og það sem er „hinum megin“ og það er himininn, heimkynni okkar allra hverrar trúar sem við annars eru. Því einn er uppruni okkar allra.

Við felum Reiner Helmut Santuar hans hinstu heimkynnum og þökkum fyrir lífið hans, fyrir vináttuna, gleðina, gáskann, sápukúlublásturinn, fyrir öll skemmtilegheitin og frumleikann síkvika.

Geymi hann hinn hæsti og megi sá sami fylgja þér um lífsveginn meðan lífsandinn bærist í brjósti þér.

„Augu þín sáu mig“ segir í bókinni góðu – og augu Guðs sjá okkur nú og um alla eilífð.

Amen.

Kveðjur sem fluttar voru síðar í athöfninni:

Guðmundur Þorsteinsson, félagi Reiner, kemst ekki í Neskirkju en biður fyrir kveðju til viðstaddra og þakkar vináttu Reiners.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.