Eftirsókn eftir vindi

Eftirsókn eftir vindi

eftir Örn Bárð Jónsson

Nú eru uppi menn sem sækjast mjög eftir vindi. Þeir vilja mæla vind á hverju fjalli, hæð og tindi, vangi og velli líka.

Prédikarinn er nafn á einni af bókum Gamla testamentisins sem telst til spekirita. Þar gefur að finna mörg spakmæli eins og t.d. þessi: „Öllu er afmörkuð stund.“ (3.1) Hljómsveitin Byrds söng texta úr þessu riti og gerði garðinn frægan á hippatímanum:

To everything (turn, turn, turn)

There is a season (turn, turn, turn)

And a time to every purpose, under heaven.

Prédikarinn er barmafullur af spakmælum og þaðan er fyrirsögn þessa greinarkorns komið.

Vindurinn gengur til suðurs

og snýr sér til norðurs,

hann snýr sér og snýr sér

og hringsnýst á nýjan leik. (1.6)

Ég hef séð öll verk sem unnin eru undir sólinni og öll voru þau hégómi og eftirsókn eftir vindi. (1.14)

Áhuginn á vindinum nú á tímum er tengdur voninni um gróða. Þeir sem mest leita, vilja beisla vindinn, og það er í sjálfu sér göfugt hlutverk.

En þegar útsendarar svonefndra fjárfesta og spekúlanta birtast, þá rísa hárin á höfði mér og þarf ekki vind til.

Flestir eru þetta karlmenn sem virðast falla að sömu staðalmynd. Agentarnir eru flestir af sama sauðahúsi þegar markmið þeirra eru greind. Þeir eru sendir til að veiða peninga með því að virkja vind og vötn, firði og flóa, finna krana til að tengja við sínar arðslöngur.

Þeir koma gjarnan fram eins og þeir beri hag lands og þjóðar fyrir brjósti, en augun svíkja sjaldan, þau lýsa gjarnan af græðgi. Ef agentunum væri stillt upp í röð, eins og löggan gerir í glæpamyndum, þegar hún leitar eftir sakbendingum, þá mundu flestir sem búa yfir lágmarks innsæi í það sem er að gerast í viðskiptaheiminum, benda á alla í röðinni og segja: Þessi, þessi, þessi, þessi og líka þessi. Allir væru þeir undir sömu sök seldir. Agentarnir hafa bara eitt markmið: Að ná því að skapa útsendurum sínum arð af samfélaginu, landi, sjó og lofti. Og nú er það vindurinn sem þarf að tengja við arðslöngurnar.

Ólíkir, en sama sinnis

Í bók Prédikarans er flest talið til hégóma. Það kann að þykja dimm lífssýn en víst er að þegar eftirsóknin færist í aukana, hvort sem hún beinist að auði eða völdum, víkum eða vindi, þá umbreytist hún oft í hégóma, en skv. orðabók merkir orðið: „lítilsverðir hlutir sem litlu eða engu máli skipta“.

Lítið vissi höfundur spekiritsins um beislun vindorkunnar nema kannski þegar vindurinn var látinn skilja hismið frá kjarnanum í kornræktinni forðum. Hann þekkti líklega ekki til úthafa og þandra segla, enda uppi þúsund árum fyrir uppfinningu hafskipa og vindmylla, en myllurnar rötuðu síðar inn í eitt merkasta bókmenntaverk sögunnar um Don Kíkóta sem barðist við vindmyllur og sá í þeim eintóma óvini.

Við sem ekki viljum vindmyllur víðsvegar um landið og viljum hafa hemil á þróuninni erum kannski eins og riddarinn hugumstóri sem vildi lifa í heimi ævintýra. En það er einmitt í ævintýrum sem undrin gerast sem koma mest á óvart.

Við erum mörg sem viljum fara varlega í sakirnar og með bjarta trú á mátt ævintýranna, þar sem ómögulegir möguleikar opnast.

Nú er ég alls ekki á móti því að menn beisli vind, en ég hef engan áhuga á að sú virkjun lendi í höndum þeirra sem leita tenginga fyrir arðslöngur sínar en virðast að öðru leyti hafa lítinn áhuga á landi og þjóð.

Í Noregi er svo komið, skv. nýlegum umræðuþætti í ríkissjónvarpinu þar í landi, að enginn veit í raun hverjir hirða gróðann af vindmyllunum í landinu sem þar mala gull nótt sem nýtan dag. Slóðin er vandlega hulin og allar líkur virðast benda til þess að þeir sem mjólka vindinn á norskum hæðum, geymi gróðann í skattaparadísum gjörspilltra smáríkja.

Norðmenn létu plata sig. Þeir sáu ekki við agentunum. Þeir klikkuðu á að þekkja manneðlið handan við glerið í hinum ímyndaða sakbendingarsal.

Eftirsókn eftir vindi er mikil nú á tímum því hann getur gefið mikinn arð. Ef virkja á vindinn þá vil ég að við gerum það sjálf, þjóðin, og að framkvæmdin verði öll á vegum og í eigu almennings.

Vindurinn er okkar allra!

Og þar með heldur vindurinn áfram að vera eign okkar allra á þessu vindbarða skeri, sem landið okkar fagra er, og á þeim grundvelli hættir eftirsóknin eftir vindi að teljast einskær hégómi, því leitin verður að vinningi í allra þágu.

„Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans“, sagði Jesús.

Hlustum á vindinn. Lausnina er að finna þar, segir söngvinna nóbelsskáldið, Dylan. Svarið er í vindinum.

Og vindurinn er vissulega sameign okkar allra.

+Guðmundur Halldórsson 1933-2022

Minningarorð

+Guðmundur Halldórsson

1933-2022

Sjómaður frá Ísafirði,

síðast búsettur í Bolungavík.

Útför frá Ísafjarðarkirkju

laugardaginn 9. júlí 2022.

Texti ræðunnar og hljóðupptaka eru hér fyrir neðan. Sálmaskráin er neðst og þar á undan kveðjur sem bárust.

Lesa meira

Borgin Lviv í Úkraínu og kaldhæðni örlaganna

Greinin er eftir blaðakonuna, Maren Kvamme Hagen, og birtist á vef NRK (Norska ríkisútvarpsins) og er hér endursögð og lesin inn af Erni Bárði Jónssyni með leyfi höfundar og birt á vefsíðu hans ornbardur.com.

Borgin Lviv

Rússar réðust einmitt á þessa borg, sunnudaginn 13. mars 2022. Í grein á vef NRK, norska ríkisútvarpsins, er rætt hvers vegna borgin búi yfir vissri ógn fyrir rustann í Rússlandi.

Lesa meira

Handritin og hálendið

Áður en þessi dagur, 21. apríl 2021, hverfur í tímans haf, þegar við höfum fagnað því sem þjóð að við fengum handritin afhent fyrir 50 árum, langar mig að rifja upp grein er ég skrifaði fyrir tæpum 19 árum og birtist í Morgunblaðinu 22. október 2002 undir yfirskriftinni: „Handritin og hálendið“.

Þar velti ég fyrir mér verðmætum þeim sem fólgin eru í því sem þessi tvö hugtök vísa til. Þau orð eiga enn erindi við okkur þegar landið er boðið til sölu á einn eða annan hátt. Myndum við selja handritin hæstbjóðanda?

Greinina er hægt að lesa á bak við þennan tengil:

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/694353/

Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju

Örn Bárður Jónsson

23. október 2020

Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju

Nú berast þær fréttir til almennings að nokkrir þingmenn standi saman að þingslyktunartillögu um aðskilnað ríkis og kirkju. Sjá nánar hér: https://www.althingi.is/altext/150/s/0128.html

Sagan

Árið 1907 gekkst biskup Íslands fyrir því að ná samningi við íslenska ríkið um að það tæki yfir nær allar jarðeignir kirkjunnar til forvöltunar sem merkir að ríkið skyldi reka þær og ávaxta. Gegn þeirri afhendingu var það tilskilið að ríkið greiddi tilteknum fjölda presta laun, sem kirkjan hafði til þess tíma séð um sjálf, en í reynd lifðu flestir prestar á þeim tíma af búskap á prestsetursjörðum. Biskup var orðinn þreyttur á því að standa í rekstri jarða og umsýslu eigna. Í 90 ár var þessi samningur í gildi, árin 1907-1997.

Ríkið, sem átti að gæta eignanna, var eins og aðrar veraldlegir aðilar, markað syndinni eða óflullkomleikanum. Vert er að minna á að orðið synd í Nýja testamentinu, hamartia, merkir geigun eða það að missa marks, ná t.d. ekki að uppfylla það sem er siðlegt og rétt. Menn brenna af í vítaspyrnu í fótbolta, hjón rífast, börn eru óhlýðin og allir klúðra lífi sínu á einn eða annan hátt.

Lesa meira

Þankar um Bakþanka Davíðs en þó engir bakþankar

Til Davíðs Þorlákssonar vegna Bakþanka hans í Fréttablaðinu 21. október 2020 og samskipta við hann á Facebook í kjölfarið.

„Ákrot“ heitir það í þínum pistli. Huggulegt orðaval. Já, þetta fólk „krotar“ til að ná fram sínum málstað og setur kusk á hvítflibbann þinn.

Svo er sagt það hafi verið slæm hugmynd „að skipa stjórnlagaráð með fólki sem hafði flest hvorki sérfræðiþekkingu ný lýðræðislegt umboð til að skrifa nýja stjórnarskrá.“

Er þetta sannleikanum samkvæmt?

Nei, það sér hver heiðarlegur maður.

Hverjir hafa sérfræðiþekkingu til að skrifa stjórnarskrá?

Lesa meira

Leitin að huglausa hagfræðingnum

Nú stendur yfir leitin að huglausa hagfræðingnum.

Stólvermir valdsins sem nú situr í fjármálaráðuneytinu vildi ekki mann í stöðu ritstjóra norræns tímarits, mann sem logar af hita og ástríðu fyrir réttlæti og sanngirni. Nei, ekki mann með áhuga eða heitar skoðanir sem brennur fyrir alþýðu þessa lands og heims, nei, ekki mann sem hefur andmælt ríkisstjórnum liðinna ára, látnum ríkisstjórnum, duglausum og án allrar döngunar þegar kemur að raunverulegu réttlæti og jöfnun lífskjara í landinu.

Nei, ekki hann! Alls ekki hann! Segir ráðherrann með roða í vöngum og velgju í hálsi. Hann sagði reyndar ekki: Ojbarasta! en kann akkúrat að hafa haft það orð í huga.

Útgerðin og allir hennar miskunnsömu samherjar (ojbarasta) veit að hún á urmul af seyðum í þessu landi, litlum bröndum, sem hún leyfir að ráða á yfirborðinu, með því að fóðra þau með gjöfum. Þessi seyði eru menn, karlar og konur, sem eru svo lítil að þau eru í raun miklu minni en lítil.

Hjálparsveitir landsins hafa ekki enn verið kallaðar út til leitar enda gerist þess ekki þörf því hug- og skoðanalausir hagfræðingar finnast í ráðnuneytum, í æðri menntastofnunum og víðar. En þeir eru í felum, þeir skýla sér á bak við skoðanaleysið og þess vegna eru þeir ekki og verða aldrei eftirsóttir fyrirlesar, hvorki í fjarlægum né nálægum löndum og enginn biður um þá í ritstjórastól virts tímarits.

Lesa meira