+Unnur Þórðardóttir

1933-2022

Minningarorð

skurðstofuhjúkrunarfræðingur

Útför frá Fossvogskapellu

miðvikudaginn 8. júní kl. 15

Minningarorðin geturðu lesið hér fyrir neðan og einnig hlýtt á hljóðupptöku ræðunnar.

Það vex eitt blóm fyrir vestan,

og vornóttin mild og góð

kemur á ljósum klæðum

og kveður því vögguljóð.

Ég ann þessu eina blómi,

sem aldrei ég fékk að sjá.

Og þangað horfir minn hugur

í hljóðri og einmana þrá.

Og því geng ég fár og fölur

með framandi jörð við il.

Það vex eitt blóm fyrir vestan

og veit ekki, að ég er til.

(Guðmundur Árnason / Steinn Steinarr)

Steinn Steinarr var mikið skáld og í þessu ljóði er hann tregafullur því stúlkan fyrir vestan veit ekki að hann er til. Ást hans kemur ekki til baka heldur fellur niður á hinum vallarhelmingi lífsins eins og misheppnaður tennisbolti.

Að vera til og að njóta þess lífs sem gefið er, njóta þess í kærleika og ást með annarri manneskju og að eignast afkvæmi til að næra og elska, er meðal mestu dásemda þessa lífs.

Unnur Þórðardóttir naut þess að vera til og leggja lífinu lið með gáfum sínum og kröftum.

Unnur fæddist í Ólafsvík 25. Ágúst 1933. Hún andaðist að Hjúkrunarheimilinu Mörk þann 31.maí 2022.

Foreldrar hennar voru Þórður Kristjánsson, (f. 31. ágúst 1891, d. 28. september 1980), og Svanfríður Una Þorsteinsdóttir, (f. 22. desember 1888, d. 8. maí 1960).

Systkini hennar voru:

Ellert Kristján, (f. 1916, d. 1918),

Elín Kristín, (f. 1917, d. 2006),

Ebba, (f. 1919, d. 1921),

Esther, (f. 1921, d. 2007),

Ebba Anna, (f. 1921, d. 1923),

Þórður, (f. 1923, d. 2013),

Aðalbjörg, (f. 1924, d. 1925),

Sigrún, f. 1926, d. 2014,

Rafn, (f. 1927, d. 1996),

Hrafnkell, (f. 1929, d. 1935),

Lilja, (f. 1930, d. 2020),

Rakel, (f. 1931, d. 1975).

Sammæðra systir:

Anna Lára Guðmundsdóttir, (f. 1915, d. 1921), sem var elst.

Nú er allur systkinahópurinn horfinn af þessu jarðlífi ásamt foreldrum sínum. Guð blessi minningu þeirra allra.

Unnur ólst upp á Snæfellsnesi og var þ.a.l. eins og blóm sem óx fyrir vestan en ástin hennar var heppnari en skáldsins því hún fann hljómgrunn í öðru hjarta er hún og Sverrir Bergmann Bergsson fundu hvort annað og lögðu upp saman í ferð um lífsins veg. Þau gengu í hjónaband 13. júní 1959. Sverrir var taugaskjúkdómalækni, f. 20. janúar 1936, d. 26. janúar 2012. Blessuð sé minning hans.

Börn þeirra eru:

1) Yrsa Bergmann, (f. 19. Júní 1960),

börn:

a) Sunna Hlín, (f. 1980),

b) Máni Freyr, (f. 1988),

c) Ylfa Eir, (f. 1990).

2) Ýmir Bergmann, (f. 13. Ágúst 1964),

börn:

a) Böðvar, (f. 1995),

b) Nanna, (f. 1995),

c) Freyr, (f. 2021).

Unnur lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands í mars 1958 og framhaldsnámi í skurðstofuhjúkrun við Landspítalann 1. ágúst 1959. Hún starfaði við sérgrein sína á Íslandi svo og í Englandi.

Unnur vann lengst af sem skurðhjúkrunarfræðingur og var sem slík yfir skurðdeildinni á Borgarspítalanum um árabil.

Hún var umhyggjusöm og verklagin og börnin hennar segja hana hafa verið flinka í höndunum og að hún hafi saumað á þau fatnað og margt annað fyrir heimilið. Þegar þau hjónin voru að mennta sig og berjast áfram með börnin voru aðrir tímar en nú. Eitt árið gufaði upp næstum allur sparnaður þeirra í gengisfellingu á 7. áratugnum þegar verðbólgan fór upp í 75% eða þar um bil. Þau þurftu að spara og velta hverri krónu áður en keypt var eitthvað nýtt.

Þegar bjuggu í Bretlandi eignuðust þau hústjald og Unnur saumaði innra tjald sjálf sem smellpassaði og gerði höll úr koti. Hún var útsjónarsöm og kunni að gera mikið úr litlu. Og svo var það söknuðurinn yfir því að hafa ekki íslenskan mat á borðum og þá var allt reynt til að búa til rétti með því t.d. að salta kindakjöt í bala úti á svölum.

Þau bjuggu við þröngan kost og það var ekki tekið út með sitjandi sældinni að mennta sig. Sparnaður og nýtni voru boðorð dagsins og það sem keypt var í dag átti að nýtast næstu kynslóð líka. Þegar Unnur var í námi í Danmörku bar Sverrir t.d. fram kvöldmatinn frá deginum áður í hörpuskel og þá varð hann eins og nýr réttur og rómantískur.

Við ræddum saman ég og Yrsa og Ýmir að Íslendingar tóku með sér íslenskar matarbirgðir í sólarlandaferðir, kótilettur, Ora-fiskbollur, grænar baunir og jafnvel gos, því kjúklingar á Spáni gátu verið eitraðir og gosið úr vondu vatni. Þau brostu þegar þau rifjuðu upp að mamma hafði klætt þau í ullarnærföt á leið til Spánar. Töskurnar urðu eftir í Englandi og hitinn í Barcelona varð næstum óbærilegur fyrir börn í ullarklæðum. Íslenskar kartöflur voru teknar með til Fuengirola og spænsku tollverðirnir horfuð furðulostnir á þessar smáu og skrítnu kartöflur sem voru með ótal augu og mjög ójafnar á yfirborði.

Unnur var menningarlega sinnuð. Kynnti börnum sínum tónlist, bókmenntir og fegurð á sviði menningar og lista. Hún hafi fágaða framkomu og var listræn í sér. Hún fékkst við myndlist á sínum yngri árum og lærði m.a. á námskeiði hjá Ásmundi Sveinssyni um tíma. Eftir heimkomuna frá Bretlandi vaknaði listáhuginn aftur.

Sverrir var virkur í pólitík og brann fyrir réttlæti og sanngirni í þjóðmálum. Hann var róttækur og tók m.a. þátt í Keflavíkurgöngunnin alþekktu og 19. júní 1960 var hann einmitt í göngunni meðan Unnur ól Yrsu á fæðingardeildinni!

Hún hafði ríka kímnigáfu og var ögn stríðin og naut þess oft að skjóta á fólk og koma því á óvart en var jafnframt kurteis og bar virðingu fyrir fólki. Hún naut þess að horfa á grínista Benny Hill í sjónvarpi og ætíð var stutt í hláturinn yfir þáttum Dave Allen sem ávalt hafði glas á borði og í því litaðan vökva sem var kannski bara te en allir voru vissir um að í því væri whiskey.

Sverrir og Unnur voru alvörufólk án þess að vera um of alvarleg. Lífið var spennandi vettvangur og þörfin mikil fyrir þeirra sérþekkingu. Lífið var stöðug áskorun.

Börnin segja mömmu hafa verið listakokk og vettvangur heimiliskennslunnar var í eldhúsinu í Hofslundi.

Unnur las alla tíð mikið, naut bókmennta og keypti bækur til gjafa.

Hún hafði ríka réttlætiskennd og bar virðingu fyrir öðru fólki.

Sláldið Steinn Steinarr var mikið lesinn og er enn. Hann var brautryðjandi í endursköpun skáldskaparhefðarinnar. Kristján Karlsson ritaði formála að Kvæðasafni Steins og lýkur þeim með þessum orðum:

„Steinn Steinarr er miklu skyldari Hallgrími Péturssyni en hinum upplýstu, „víðsýnu“ skáldum 19. aldar, sem voru honum þó hugstæð. Kvæði hans eru trúarljóð – með neikvæðu forteikni. Trúaður eða trúlaus er hann í flokki hinna mestu trúarskálda vorra.“ (Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, s. XXVII).

Merkilegar mótsagnir og sannar í lífi mikils skálds. Við lifum ekki án menningar og það er oftar en ekki skáldskapurinn sem opnar okkur sannleikann um lífið. Já, lífið er skáldskapur sem segir sannleikann. Við skiljum fiskveiðistjórnunarkerfi landsins með því að hafa horft á þáttaröðina Verbúðin en hefðum aldrei skilið það á sama hátt með því að lesa skýrslur eftir sérfræðinga. Skáldskapurinn opnar okkur skilning á lífinu. Rithöfundurinn sem skrifaði sköpunarsögu Biblíunnar sá fyrir sér að ljósið væri upphaf alls. Hann var skáld. Hann þekkti hvorki geimför né kenninguna um Miklahvell en hann sá það með augum skáldsins að ljósið hafi sett allt af stað:

Guð sagði:

„Verði ljós.“

Og það varð ljós!

Stjarnfræðin horfir út fyrir mannheima, út fyrir jörðina og rýnir í rúnir alheimsins og læknisfræðin horfin inn í manneskjuna. Bæði í hinu ytra og því innra eru ókortlögð svið og ný sannindi bíða eftir því að verða afhjúpuð.

Lífið er undur, lífið er dásamlegt a.m.k. að mestum hluta. Vissulega eru þjáningar í þessum heimi og mótlæti en lífð er samt undurfagurt og spennandi. En lífið er stutt þegar aldraður einstaklingur lítur til baka.

Í Davíðssálmum segir á einum stað:

„Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt. . . Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ (90.10. og12.v)

Kynslóðir koma og kynslóðir fara.

Yrsa og Ýmir hafa nú misst báða foreldra sína sem bæði lifðu fram á eftirlaunaaldur. Enginn veit morgundaginn, hvorki barnið né amma eða afi. Við lifum ætíð í óvissu en þá er það vonin sem gefur okkur hugrekki til að horfa fram á veginn í trú á að lífið haldi áfram og jafnvel að því ljúki ekki við gröf og dauða.

Það vex eitt blóm fyrir vestan,

og vornóttin mild og góð

kemur á ljósum klæðum

og kveður því vögguljóð.

Guð blessi minningu Unnar Þórðardóttur og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.