+Erlendur Pálsson 1955-2022

Minningarorð

Erlendur Pálsson

f. 1. maí 1955 – d. 3. júní 2022

veitingamaður og bifreiðarstjóri.

Bálför frá Fossvogskirkju

þriðjudaginn 14. júní kl. 15

Jarðsett í Fossvogi.

Ræðan er hér fyrir neðan og hljóðupptakan líka. Sálmaskráin er neðs í færslunni.

Frændrækni var fyrsta orðið sem hópurinn nefndi sem ég hitti til að undirbúa útför Erlendar Pálssonar. Hann var frændrækinn.

Orðið frændi er skylt sögninni að frjá sem merkir að elska. Sagnirnar að frjá og fría eru einnig skyldar nafni hinnar norrænu gyðju, Friggjar, sem var gyðja móðurumhyggju og frjósemi. Hún var kona Óðins.

Orðið frændi er því nátengt orðunum ást og elsku. Sögnin að elska er merkilegt orð því hún er og verður ætíð tengd verknaðinum að elska. Elskan er því ekki tilfinning heldur gjörningur, verknaður. Þess vegna sagði Jesús: „Elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Þú skalt v.þ.a. þú getur. Hann sagði ekki: Elskaðu náungann þegar þér líður þannig að þú viljir sýna honum kærleika. Ekki heldur: Elskaðu fólk sem þér líkar við. Nei, hann sagði „elska skaltu“. Það er boð, skipun um að teygja sig út fyrir þægindarammann og elska ekki bara þau sem auðvelt er að elska heldur líka þau sem erfiðara er að umgangast og elska.

Jesús var róttækasti maður veraldarsögunnar þegar kemur að elsku til Guðs og til náungans, til heimsins og alls.

Hann sagði líka:

„43Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.’ 44En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, 45svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. (Matt. 5.43-4)

Krafa Jesú er stór en með hans hjálp er unnt að líkja eftir elsku hans. Hann er mesta og besta fyrirmynd sem veröldin hefur eignast og mun nokkuru sinni eignast.

Erlendur Pálsson fæddist í Reykjavík þann 1. maí 1955. Hann lést á hjartadeild Landspítalans þann 3. júní 2022.

Foreldrar Erlends voru Valdís Erlendsdóttir f. 29.nóvember 1929 d. 13.mars 2017, og Páll Andrés Arnljótsson, f. 4.desember 1927, d. 26.júní 1959 þegar Erlendur var nýorðinn fjögurra ára.

Erlendur ólst upp í Langagerði í Reykjavík og var yngstur þriggja bræðra sem voru;

Örn, f. 11.desember 1948, d. 2.apríl 2018, og

Hrafn f. 16. ágúst 1950, d. 3. júní 2005.

Erlendur lætur eftir sig þrjú börn, þau eru:

1) Páll Arnar f. 31. janúar 1979, hann á tvo drengi, Orra Hrafn og Sebastian.

2) Hlynur f. 15. maí 1986.

3) Telma f. 17. júní 1993, gift Davíð Helga Hermannssyni, börn þeirra eru Bríet Arna og Patrekur Nóel. 

Móðir þeirra er Elsa Jónsdóttir en hún og Erlendur skildu árið 2008.

Það er erfið reynsla fyrir börn að missa foreldri og fyrir dreng að missa föður sinn, fyrirmynd sína og leiðtoga á lífsins vegi. Móðirin varð að axla það hlutverk ofan á sitt og berjast áfram með drengina þrjá, Örn á 11. ári, Hrafn 5 ára og Erlend 4 ára.

Bræðurnir voru mikið saman og léku sér, tuskuðust eins og ungviði gerir, bæði menn og dýr, kitluðu hver annan og létu vel að hver öðrum.

Elli var barnagæla og lifnaði allur við ef börn voru nærri.

Hann var ekki maður mikilla orða en sýndi elskuna í verki eins og Kristur hvatti okkur einmitt til að gera.

Hann var afar stoltur af Páli Arnari þegar hann hafi lokið háskólaprófi en meðan strákurinn var yngri virkaði pabbi oft á hann sem kröfuharður og lokaður en það breyttist þegar á leið aldurinn. Foreldrar breytast og börnin líka. Lífið er aldrei kyrrstætt, allt er á iði og í þróun.

Honum þótt afar vænt um afkomendur sína og átti það til að kíkja í heimsókn án fyrirvara og þegar hann kom til Telmu þá hegðaði hann sér eins heima hjá sér og naut þess að spjalla um daginn og veginn.

Elli naut þess að vera með Hrafni bróður og besta vini sínum Jóhannesi Viðari og margt skemmtilegt gerðist í þeirra sambandi. Stundum reyndist kveikurinn í Erlendi stuttur og hann gat rokið upp en var ætíð fljótur til baka.

Eins og fyrr kom fram ólst hann upp í Langagerði 14 en var einnig mikið í Vestmannaeyjum eftir að faðir hans lést og var þar hjá Önnu Erlendsdóttur, móðursystur sinni, en mamma hans var mikið í burtu enda vann hún sem þerna á Gullfossi til að sjá sér og sínum farborða. Hann skynjaði því flótt hve miklu máli stórfjölskyldan skipti. Frændræknin efldist við það að fá að eiga stundir með fólkinu sínu.

Hann gekk í Breiðagerðisskóla og Réttó og svo var hann í Iðnskólanum um tíma. Hann vann hjá Ísal í nokkur ár, hætti þar um 1995. Eftir það sinnti hann ýmsum störfum, rak vídeóleigu í Engihjallanum til 1998 og ári síðar opnaði hann Píanóbarinn. Þá ók hann rútum og svo leigubíl og lagði mikið upp úr því að vera á góðum bíl og flottum, tandurhreinum og fínum. Hann var líklega fyrstur leigubílstjóra til að aka um á rafbíl og auðvitað Teslu. Hann „gædaði“ stundum farþega sína á ensku og kunni að bjarga sér í margvíslegum aðstæðum lífsins.

Hann átti Honda VTX 18009 mótorhjól um tíma og naut þess að hjóla á því um bæinn og sérstaklega sjálfan afmælisdaginn, 1. maí, þegar mótórhjólum var ekið í löngum röðum í borginni á sólbjörtum en svölum vordegi.

Hann naut þess að fara í veiðiferðir með Jóhanni frænda sínum, einkum á rjúpu, en Jóhann var honum sem bróðir og sannur vinur.

Hann missti báða bræður sína og það var erfið reynsla. Örn dó rúmlega 69 ára ári og Hrafn tæplega 55 ára. Hann ræddi mikið um lífið og tilveruna við Jóhannes Viðar einkum eftir að Hrafn dó. Hann sinnti bræðum sínum vel í veikindum þeirra en Elli og Örn lágu eitt sinn saman á sjúkrahúsi og sagði Elli að nú væru þeir eins og forðum í Langagerðinu þar sem herbergi þeirra lágu hlið við hlið.

Elli gat staðið fast á sínum skoðunum og lét sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Hann var um leið óhræddur að reyna eitthvað nýtt og fylgdist vel með tækninni. Hann var bráðlátur í skaphöfn en um leið ljúfur og tilfinninganæmur.

Hann tók afahlutverkið mjög alvarlega og naut þess að fá að gæta barnanna. Bríet litla og hann voru eins og sálufélagar og nutu þess að kúra saman, gefa fuglunum og skoða heiminn. Ef foreldrunum tókst ekki að róa þá litlu varð hún fljótt róleg í fangi afa síns.

Hann var duglegur við að koma í heimsókn og oft hringdi hann og þá hófust samtölin oftar en ekki á orðunum: „Hvað er að frétta?“

Svo var það honum stór stund að fá að leiða Telmu inn kirkjugólfið þegar hún gekk í hjónaband með Davíð Helga og Patrekur Nóel var skírður 14. maí s.l.

Hann hringdi rétt fyrir dauða sinn í Jóhannes Viðar og ræddi þá um hve mikilvægt það væri að hafa í sér elsku til barnanna. Hann bað gjarna um að fá að passa börnin.

Hann var alla tíð duglegur og bóngóður en um leið harður af sér enda þurfti kjark til að ganga í gegnum veikindin sem kölluðu um tíma á blóðskiljun þrisvar sinnu í viku hverri.

Hann varð 67 ára 1. maí s.l. og lifði rétt rúman mánuð í viðbót og lést 3. júni s.l.

Eftir lifa góðar minningar ástvina. Lífið er aldrei bara dans á rósum og mannleg samskipti eingöngu gleði og hamingja.

Í lífinu skiptast á skin og skúrir en þegar horft er til baka þá flýtur hið góða og eftirminnilega upp á yfirborðið.

Erlendur hefur lokið sinni lífsgöngu. Hans er sárt saknað og hann nú falin þeirri elsku himinsins sem er æðri og meiri allri jarðneskri elsku. Guð geymi hann í himni sínum ásamt ástvinum hans sem kvöddu fyrr.

Góður Guð blessi minningu Erlendar Pálssonar og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum. Amen.

Kveðjur:

Systurnar Anna Pála, Helena, Sigrún og Sigurbjörg, dætur Önnu og Páls Tómasonar, náfrænda Erlendar, frá Skipagötu 2, Akureyri, senda hlýjar samúðarkveðjur.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.