+Guðríður Sigurlaug Jónsdóttir

Minningarorð

Útför frá Fossvogskapellu

f. 19. apríl 1932 – d. 26. apríl 2022

miðvikudaginn 8. júní 2022 kl. 13

Jarðsett í Fossvogi. Texti og hljóðupptaka eru hér fyrir neðan.

Trúðu á tvennt í heimi,

tign sem hæsta ber:

Guð í alheims geimi,

Guð í sjálfum þér.

Þessi orð skáldsins Steingríms Thorsteinssonar urðu fleyg um land allt á sínum tíma og margir kunna þau enn og sú sem við kveðju hér í dag hélt uppá þessi orð og leit á þau, sem í það minnsta, hluta af sinni trúarjátningu.

Guðríður Sigurlaug Jónsdóttir hét hún og fæddist í Kothúsum í Garði, Gullbringusýslu, 19. apríl 1932. Foreldrar hennar voru Jón Þorkelsson, sjómaður og vélamaður f. í Káravík á Seltjarnarnesi, sem ekki sér lengur stað þar, enda horfin undir landfyllingu og Guðrún Eggertsdóttir, húsmóðir, fædd og uppalin í Kothúsum sem nú standa við Kothúsaveg 13.

Hún var yngst í barnahópnum, átti fjóra bræður, Eggert, Bjarna, Aðalstein og Svein, sem nú eru látnir en Aðalsteinn lést í frumbernsku. Hún ólst upp í Kothúsum fram yfir tvítugt og var síðan í áratug til skiptis í Keflavík og Garði, rúma hálf öld á Hagaflöt 20 í Garðabæ og frá 73 ára aldri í þjónustuíbúð Naustavarar í Hraunvangi 1 í Hafnarfirði.

Hún giftist Reyni Markússyni, 18. desember 1954, en hann starfaði lengst af sem brunavörður. Reynir dó 29. desember 2008 eftir að hafa lifað um árabil með Alzheimers-sjúkdómnum.

Þau hjónin eignuðust dreng sem dó 5 daga gamall úr gulu og svo misstu þau Gylfa er hann lést 16 ára úr beinkrabba. Það var erfið reynsla fyrir þau að missa þessa tvo drengi.

Eftirlifandi börn eru Þröstur, Hildur og Ólafur en sá síðastnefndi er giftur Jónu Sigurlín Harðardóttur. Barnabörnin eru sonarsonur, Páll Ólafsson og kjördóttir Hildar, Helga.

15 ára veiktist Gugga af taugaveiki. Þá var hún við nám á prestssetrinu Fellsmúla á Suðurlandi. Þar lá hún mikið fyrir í rúmi sínu. Talaði hún um að jörðin hreyfðist en enginn fann það nema hún. Síðar sagði presturinn frá þessu í viðtali í útvarpinu, að hann hefði haft lifandi jarðskjálftamæli og því alveg vitað að Hekla væri að fara að gjósa. Hekla byrjaði að gjósa 29. mars 1947 eftir að Guðríður var komin aftur heim til sín í Garðinn. Hún fann ætíð fyrir máttleysi í fótum eftir þessa mænusótt en náði sér að mestu.

Sem unglingur hjólaði hún með vinkonu sinni úr Garðinum og til Þingvalla og til baka. Ekki lítið afrek fyrir unglingsstúlkur.

Ein af ástæðum hennar fyrir því að vera í Soroptimistum og kvenfélagi var þörfin fyrir félagsskap. Hún var alvörugefin en það var stutt í góða skapið. Hún var ALDREI í vondu skapi eða reið og sjaldan pirruð. Hún vildi láta gott af sér leiða í góðum félagsskap. Hún var afskaplega mikil félagsvera. Þess vegna tók hún kennaraprófið og sérkennaraprófið og kenndi bekkjarkennslu í Flataskóla í Garðabæ og var svo sérkennari í Garðaskóla í Garðabæ. Þetta hafði fyrrum samkennari hennar að segja um hana á fésbókinni: “Mamma þín var einstök kona og eftirminnilegur samstarfsmaður í Garðaskóla á sínum tíma. Það var gott fyrir nýútskrifaðan kennara að koma í Garðaskóla og kynnast hennar sýn á kennslustarfið og hvernig við áttum að leiðbeina og styðja alla og helst þá sem minna máttu sín og þurftu auka aðstoð. Mikið er ég þakklátur fyrir allt sem hún kenndi mér á upphafsárum kennslunnar, sem ég bý enn að í mínum störfum.”

Hún las alla tíð mikið, hafði áhuga á krossgátum og íslensku máli. Hún naut menningar í víðum skilningi.

“Hún ferðaðist víða með manni sínum meðan hans naut við, fjölskyldu, vinum og Soroptimistum. Þegar hún nálgaðist áttrætt hætti hún að ferðast til útlanda án fjölskyldunnar.”

Í umsöng á minnisblaði fyrir starfsfólk heimilis þar sem Guðríður bjó um tíma segir m.a.: „öll börnin sinna móður sinni vel, hvert á sinn hátt.“ Það er góður vitnisburður um börn hennar sem hér kveðja móður sína og þakka fyrir líf hennar og elsku alla.

„Hún var mjög umhyggjusöm og elskuleg manneskja, ekki síst börnum sínum, barnabörnum og tengdabörnum. Hún sýndi þá umhyggju með gjöfum en ekki með kossum og faðmlögum. Hún var hæglát, háttvís og tranaði sér aldrei fram. Sem sagt mikið gull og mikil gæðakona. Hún var kölluð Gugga af mörgum en hún vildi ekki að nemendur og ókunnugir notuðu gælunafnið. Hún var falleg kona og lagði alla tíð upp úr því að vera snyrtilega klædd og tilhöfð.”

Hún naut þess að taka þátt í samræðum um heimspeki, yfirskilvitleg fyrirbæri, uppeldi og hugarfar. Hún las mikið og hlustaði á bækur og sögur, horfði á bíómyndir og sjónvarpsþætti.

Hún hélt einnig mikið uppá bandaríska geðlækninn, William Glasser, sem þróaði kenningar W. Edward Demings og hugmyndir um vinnustaðinn og meðferðarúrræði sem kallast „reality therapy“ og „choice theory“.

Hún var alla tíð leitandi og sóttist eftir fróðleik um lífið í víðum skilningi.

Trúðu á tvennt í heimi, sagði skáldið.

Á aðfangadag jóla árið 1995 birtist stutt viðtal í Morgunblaðinu í þættinum Vísnatorg, við séra Árna Pálsson, sem var barnabarn hins landskunna prests á Snæfellsnesi, séra Árna Þórarinssonar sem var víðkunnur og ekki síst fyrir ævisögu sína sem Þórbergur Þórðarson skráði.

„Þetta er erindi úr ljóðinu Lífshvöt eftir skáldið mikla Steingrím Thorsteinsson,“ segir Séra Árni Pálsson, sem er aufúsugestur á Vísnatorgi á aðfangadag. „Ég vel erindið vegna þess að afi minn […] Séra Árni Þórarinsson, var góður vinur hans.

Ég [þ.e.a.s. blaðamaður] kinka kolli og hann heldur áfram: „Séra Árni [Þórarinsson] sagði mér að þeir hefðu tekið tal saman og Steingrímur hefði sagt:

– Veistu Árni, að ég hef aldrei séð jafn mikið eftir neinu eins og því að hafa ort þetta erindi vegna þess að svo margir nota það til að afsaka trúleysi sitt.“

Árni lítur á mig þýðingarfullu augnaráði: „Þú skilur hvað hann á við. Það eru svo margir sem segja:

– Ég trúi á mig sjálfan.

Í staðinn fyrir að trúa á Guð í gegnum Jesú Krist nota þeir erindið sem afsökun fyrir trúleysi sínu og sinnuleysi um trúmál. Þetta er byggt á misskilningi vegna þess að Steingrímur á við að maður sé fæddur með hæfileika til að nálgast Guð og þjóna honum í verkum sínum.“ (Mbl 24.12.1995)

Ég rifja þetta upp í byrjun minningarorða um Guðríði sem hélt uppá versið og var alla tíð leitandi í trúmálum. Hún trúði á Guð sem er utan við manninn en líka í hjarta hans.

Til er rúmfræðileg formúla um Guð eftir fornan heimspeking sem hljóðar svo:

– Guð er hringur hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.

Guð er þar með eins og hafið sjálft og við eins og fiskar í hafinu og komust hvergi framhjá honum nema í eigin ímyndun.

Við fæðumst inn í þenna undraheim og veröld sem við þekkjum aðeins lítillega þrátt fyrir allan lestur og ferðalög. Alheimurinn er ógnarstór og í reynd óskiljanlegur mannlegri hugsun. En stærstur alls er „Guð í alheimsgeimi“ sem um leið getur verið „Guð í sjálfum þér! í hug og hjarta.

Trúðu á tvennt í heimi,

tign sem hæsta ber:

Guð í alheims geimi,

Guð í sjálfum þér.

“Börn hennar, barnabörn og tengdabörn sem hér kveðja Guggu sína þakka fyrir líf hennar og elsku alla með miklum hlýhug.”

Guð blessi minningu Guðríðar Sigurlaugar Jónsdóttur og Guð blessi þig og leiði á lífsins vegi. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.