
Örn Bárður Jónsson
Ávarp
+Jón Sigurðsson
1946-2021
Við útför Jóns þjónuðum við séra Kristján Björnsson, vígslubiskup sem flutti minningarorðin en ég flutti ávarp eftir að leikið hafði verið Kveðjuleg frímúrara eftir Valdemar Schiöth. Organisti var Jónas Þórir.
Jón Sigurðsson var eftirminnilegur maður og það er mér beinlínis sárt að mæla um hann í þátíð en „eitt sinn skal hver deyja“ segir í máltækinu og við vitum að þau örlög bíða okkar allra.
Ég kynntist Jóni fyrst á 8. áratugi liðinnar aldar er við áttum samleið í St. Jóhannesarstúkunni Glitni en kynntist honum nánar á síðari stigum, einkum í Landsstúkunni og svo í Æðstaráði Reglunnar og átti með honum mörg gefandi og skemmtileg samtöl.
Ég hlakkaði ætíð til samfunda við Jón. Hann iðaði beinlínis af lífi, stutt var í hlátur og glettni og svo tókum við til við að ræða allt milli himins og jarðar. Við ræddum bókmenntir, þjóðfélagsmál, heimspeki og ýmis stef í kristinni trú og hvar sem borið var niður var hann á heimavelli. Hann var gáfaður og víðlesinn, lausnarmiðaður ef hann var spurður ráða, jákvæður, elskulegur og sanngjarn í öllu.
Jón var trúaður maður og átti innri sannfæringu, sem gerði hann „brennandi í andanum.“ Við höfum fengið að njóta nokkurra trúarljóða hans hér í dag.
Páll postuli ritaði bréf til safnaðarins í Róm upp úr miðri 1. öld og sagði þar m.a.:
„Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða. Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing. Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.“ (Rm 12.9-13)
Trúin var sem glóð í hjarta hans og hann deildi með mér reynslu sem hann varð fyrir sem ungur maður er hann vann í sláturhúsi í Svíþjóð og stóð við færibandið með reiddan hnífinn. Hann var að íhuga hinstu rök og hið stóra samhengi tilverunnar – á þeim tímum voru eyru ungs fólks ekki stífluð með Airpodum. Þá hafði fólk tíma til að láta hugann reika, vera með sjálfu sér og íhuga hvað sem var. Og þá varð hann fyrir upplifun sem breytti lífi hans og stefnu. Hann mætti Kristi í sál og sinni. Slík reynsla er stundum köllu afturhvarf, endurfæðing, þroskun barnatrúarinnar, blómgun skírnarnáðarinnar.
Við deildum báðir slíkri reynslu frá því við vorum á þrítugsaldri og sú glóð sem þar varð til er enn heit. Já, ég segi er! Ég tala í nútíð því trúin í hjartanu lifir dauðann og nær takmarki sínu þegar fyrirheit Drottins rætast og allt verður nýtt í himni Guðs í Kristi.
Hann átti sér einkunnarorð úr elsta sálmi sem til er á norrænni tungu, Heyr himna smiður, fyrstu línuna í 3. versi, sem er bæn til Krists: „Gæt mildingur, mín . . .“
Frímúrarareglan er mannræktarfélag sem skapar vettvang til leitar og þroska, fágunar lífs og sálar. Hún skapar tækifæri eftir því sem hver og einn finnur og skilur og ástundar. Við reglubræður erum leitandi. Við erum ferðalangar og enginn okkar hefur náð fullkomnun en við erum á leiðinni til meiri þroska.
Á morgun verða haldnar kosningar til Alþingis sem minnir á að við höfum öll verið valin, kosin til þess að leggja lífinu lið, kölluð til að stuðla að réttlæti og sannleika á meðal okkar og í heiminum öllum. Og það gerum við með því að leggja góðum málum lið og fara eftir sannfæringu okkar og láta hjartað ráða og ekki spillir nú að hafa bænina með í för – ásamt hinni þríþættu fléttu: trú, von og kærleika.
Allstaðar þar sem Jón fór var hann „brennandi í andanum“, áhugasamur, glaðsinna, skemmtilegur, greindur og djúphygginn.
Ég kveð hann með söknuði en um leið í hinni kristnu von sem glóði í hjarta hans og glóir enn fyrir mátt Krists.
Páll sagði:
„Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.“
Allt þetta prýddi sál míns góða vinar og reglubróður, hann var æðrulaus og setti von sína alla á Krist.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Grátnir til grafar
göngum vér nú héðan,
fylgjum þér, vinur.
Far vel á braut.
Guð oss það gefi,
glaðir vér megum,
þér síðar fylgja í friðarskaut.
(V. Briem, Sb 271, 2. -og 4. vers)
Guð blessi Jón Sigurðsson að eilífu og Guð styrki og blessi ykkur, kæra Sigrún og fjölskylda, og leiði ykkur – og okkur öll – áfram á lífsins vegi.
Amen.