+Vilborg Sigríður Árnadóttir 1946-2020

+Vilborg Sigríður Árnadóttir

1946-2020

Söngkona

Bálför frá Fossvogskirkju

mánudaginn 19. október 2020 kl. 15

Jarðsett verður í Hólavallagarði

Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson

_____

„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag“.

Ég veit að það er ekki ýkja frumlegt að byrja minningarorð yfir henni Vilborgu Sigríði Árnadóttur með tilvísun í ljóð Tómasar Guðmundssonar, Hótel Jörð!

En svo má spyrja: Hvernig er annað hægt?

Við erum ferðalangar sem í dag sitjum á krossgötum, á áningarstað, og kveðjum konu, sem horfin er af þessu jarðlífi.

Umrætt ljóð er svo nátengt Vilborgu. Enn hljómar tær rödd hennar í útvarpi, hennar sem var svo tónvís, að aðrir söngvarar í kórunum sem hún söng í, treystu á nærveru hennar. Sjálfri fannst henni erfitt að hafa þessa hárréttu tónheyrn sem gat skapað streytu þegar á reyndi og hún þurfti að koma fram ein eða með öðrum.

Hún lauk námi í sænskum bókmenntum við HÍ 1977 með 1. einkunn og svo lauk hún námi sem óperusöngkona við University of Hartford 1985. Hún var perfeksjónisti sem gerði miklar kröfur til sjálfrar sín og annarra um leið. Það var ekki alltaf auðvelt fyrir hana eða þau sem henni unnu.

Nú hefur hún lokið sinni för um lífsins veg, sem byrjaði svo glæsilega en lauk með löngum kafla sem virtist svo tilgangslaus og án merkingar, en var þó um leið tímabil þar sem drengirnir hennar, tengdadættu og barnabörn, áttu með henni dýrmætar stundir. Jólaheimsóknirnar voru sterkar. Pakkarnir voru teknir upp hjá mömmu og ömmu. Strákarnir bjuggu til gleðistundir hjá henni hvernær sem tækifæri gafst. Telma söng oft fyrir ömmu, allt frá unga aldri, og alltaf hlustaði amma af alúð og fylgdist vel með. Hún fékk oft heimsóknir frá sínum ástvinum og var því í vissum skilningi möndull sem allir snerust um svo mótsagnarkennt sem það annars kann að hljóma. Hún heyrði fréttir og fylgdist með af vörum þeirra sem komu og fóru.

„Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.“

Þessi myndlíking skáldsins lifir og er svo sönn þegar við lítum yfir mannlífið og í eigin barm. Við vitum að við eigum tíma í einhverri lengd á þessum gististað sem jörðin er en enginn veit hversu langur hann er í raun. Oft hef ég fengið þá beiðni frá fólki eftir meinta, vel heppnaða líkræðu, að ég eigi að jarða viðmælanda minn og þá svara ég yfirleitt með því að segja: Já, ef ég verð sjálfur lifandi og í lagi, en ég veit nú ekki hvort ég vakna í fyrramálið, enda þótt þú haldir að ég hafi kannski betri sambönd en þú!

Enginn veit morgundaginn.

Vilborg er horfin af þessu jarðlífi og við þökkum fyrir líf hennar og það að hún hefur nú hlotið hvíld. En hún lifir m.a. í söngvunum sem hún gerði sígilda. Undurtær rödd hennar og túlkun ljóðsins Við Vatnsmýrina og fleiri söngvum, mun áfram lifa. Þegar bróðir hennar var í sveit í Torstransfirði, þar sem hún hafði sjálf verið í sveit nokkur sumur, var fólk í heyskap, sem aldrei mátti trufla, en svo heyrðist hrópað af bæjarhlaðinu: Hún Vilborg er í útvarpinu! Veröldin stóð kyrr meðan hún heillaði áheyrendur um land allt og þau sem gerðu hlé á heiskaparstriti. Og enn njótum við söngs hennar og minnumst hennar fallega.

Í æviágripum sem mér bárust segir:

„Vilborg Sigríður Árnadóttir f. 7.1.1946 á Lokastíg 7 í Reykjavík

Hún lést á  hjúkrunarheimilinu Eir 9.10.2020

Foreldrar hennar voru Árni Björnsson f 14.06.1923 læknir og Guðný Theódórsdóttir Bjarnar f. 09.04.1922 húsmóðir. Þau eru bæði látin.

Vilborg Sigríður giftist Ara Jóhannessyni lækni. Þau skildu. Börn þeirra eru Jóhannes f. 12.09.1970 hann var í sambúð með Bjarney Bjarnadóttur, börn þeirra eru Telma og Ari. Árni Gautur kvæntur Sólveigu Þórarinsdóttur, börn þeirra eru Vilborg Elísabet og Kristján Pétur.

Vilborgar var elst 6 systkina. Þau eru Kristín fædd 1948, Björn Th. f.  1950, Einar Sveinn f. 1952, Árni f. 1956 og Vilhjálmur Jens f. 1964.

Vilborg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1966 og lauk síðan Ba-prófi í sænskri bókmenntasögu frá Háskóla Íslands1977                                                                                                                            

Hún stundaði söngnám hér heima og síðar við Guildhall School of Music í London 1969. Hún hélt svo áfram söngnámi í University of Hart í Hartford í Bandaríkjunum og lauk þaðan námi 1985.

Hún söng með ýmsum kórum. Einnig söng hún með dúetinum Heimi og Jónasi.

Vilborg starfaði við Heimsýninguna EXPO í Kananda 1967.“

Synirnir minnast mömmu fallega og efst er þeim í huga gleðin sem fylgdi henni og elskusemin. Hún sagði aldrei nei, segja þeir. Hún var gestrisin og tók ætíð vel á móti fólki. Hún þeyttist með þá á íþróttaæfingar og tómstundastarf í bernsku og lagði sig alla fram um að þeim liði vel. Hún var kvenréttindakona og náttúruverndarsinni með ríka réttlætiskennd.

Þegar hún var við nám í Guildhall var hún þegar tekin inn í kór skólans og fjölskyldumeðlimir sem heimsóttu hana í London tala um að það hafi verið hreint ævintýri að koma til hennar.

Þau minnast hennar sem geislandi manneskju, hún var falleg, vel gefin og hafði smitandi hlátur og auðsýndi þeim mikla umhyggju. Hún var elst systkina sinna og gegndi því hlutverki af alúð og ábyrgð. Hún var vandvirk, skrifaði vel og náði jafnan góðum einkunnum í skóla og allt lék í höndum hennar. Hún tók mikið pláss hjá pabba, sögðu systkinin, og í stofunni líka, hún lærði þar og þurfti sitt pláss!

Hún kenndi þeim að meta klassíska tónlist, gaf þeim plötur. Hún lærði söng m.a. hjá Göggu Lund og tónfræði hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni og fleirum.

Fólk laðaðist að henni og hún var vinsæl og kallaði á athygli með persónu sinni og útgeislun. Hún var félagslynd og toppurinn í tilverunni voru synirnir sem hún fylgdist með og gladdist yfir afrekum þeirra og sigrum.

Líf hennar bar í sér mikil fyrirheit, en eins og við vitum þá var líf hennar tvískipt, fyrir og eftir veikindin. Enginn velur sér veikindi eða grimm örlög. Lífið geymir margar gátur.

Hún naut góðrar umönnunar þar sem hún bjó seinustu árin. Hún var um tíma á Vífilsstöðum og Landakoti og svo á Eir og þakka ástvinir fyrir alla þá umhyggju sem hún hlaut af hálfu heilbrigðisstarfsfólks.

Hún lifir í minningum okkar og söngurinn hennar mun áfram lifa, söngurinn með Heimi og Jónasi, sem var einskonar innskot í lífi hennar á sínum tíma, því hún hafði ekki hugsað sér að verða vinsæl þjóðlaga- og þaðan af síður dægurlagasöngkona.

Röddin tæra og bjarta lifir. Söngur og tónlist eru undur sem gleðja fólk um veröld víða. Við þrífumst ekki án listar og menningar. Orðið menning heitir kúltúr á flestum málum en hjá okkur er það tengt manneskjunni og því sem mannfólkið gefur af sér. Svo má spyrja: Hvaðan kemur tónlistin? Hvaðan koma okkur hugmyndirnar um réttlæti, fegurð, sannleika og fleira sem lifir í hjörtum okkar og vitund? Eru þessi hugtök og fyrirbrigði ekki eilíf eins og frummyndirnar í kenningum Platóns, eitthvað sem er eilíft og ofar öllu, eitthvað sem við getum skynjað í brjóstinu fremur en í heilanum, í hjartanu, eins og sagt er? Ég jarðsöng mikinn tónlistarfrömuð í héraði sínu í Noregi fyrir nokkrum árum og þá kom ég inná þessa þanka og sagði að tónlistarfólk gegni því hlutverki að tengja við himininn og færa okkur hið himneska með túlkun sinni á jörðu. Og þegar við í lok þessarar athafnar heyrum Vilgorgu syngja Hótel Jörð, þá skulum við hugsa um þennan þráð að ofan og nema viskuna í ljóði Tómasar og tónunum sem Heimir sótti úr eilífiðinni og söng þeirra þriggja, Vilborgar, Heimis og Jónasar, sem er ódauðleg túlkun á fegurð jarðar, mannlífsins og vegferð okkar allra um lífsins veg. Við skulum hlusta eins og fólkið í sveitinni forðum sem lagði niður öll störf, hljóp heim í bæinn og hlýddi á himneskan sönginn. Veröldin stóð kyrr eitt andartak.

Tómas orti margt fagurt og ég hef oft vitnað í ljóðið hans um hana Anadyomene sem er annað nafn yfir Venus og Afródítu. Hann sá konu stíga upp úr öldum Adríahafsins á sólbakaðri strönd og þakkaði fyrir að vera lifandi og hafa „fæðzt í tæka tíð“ – og skrifaði af því tilefni:

Og það er á slíkum stundum, að maður getur gert sér
eins grein fyrir því og vert er,
að kynslóð vor hin eina kynslóð er,
sem nýtur þeirrar hamingju að hafa ekki dáið.
Svo hjartanlega náið
er lífið okkur enn, sem betur fer.

(Anadyomene, Stjörnur vorsins, 3. erindi)

Já, við erum eina kynslóð veraldarsögunnar sem ekki er dáin. Með það í huga göngum við út í haustið með sínum litbrigðum og fegurð og mætum vetri og veiru með von í hjarta og þökk fyrir fegurð lífsins og fyrir þau sem voru okkur kær en eru fallin sem lauf og verða aftur að mold. Og hvað svo?

Séra Hallgrímur orti í sálminum Um dauðans óvissan tíma og sagði þar m.a.:

Afl dauðans eins nam krenkja

alla í veröld hér.

Skal ég þá þurfa að þenkja,

hann þyrmi einum mér?

Adams er eðli runnið

í mitt náttúrlegt hold,

ég hef þar og til unnið

aftur að verða mold.

Í lokaversinu lýsir skáldið sinni kristnu von og æðruleysi andspænis dauðanum:

Ég lifi’ í Jesú nafni,

í Jesú nafni’ eg dey,

þó heilsa’ og líf mér hafni,

hræðist ég dauðann ei.

Svo ávarpar hann dauðann og það er eins og hann horfist í augu við hann og svo heldur hann áfram og botnar sálminn:

Dauði, ég óttast eigi

afl þitt né valdið gilt,

í Kristí krafti’ eg segi:

Kom þú sæll, þá þú vilt.

Vilborg átti sína trú og eilífðarvon.

Hin kristna von er sú að líf okkar, sem á sér að vísu upphaf, eig sér ekki endi, sem slíkt, heldur lifi í nýrri mynd, fyrir Jesú Krist, í eilífðinni, endurleyst fyrir náð Guðs og elsku – endurleyst!

Blessuð sé minning Vilborgar Sigríðar Árnadóttur og Guð blessi þig á lífsins vegi.

Amen.

HÓTEL JÖRÐ

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.

Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Einir fara og aðrir koma í dag

því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir sem ferðalag þetta þrá,

en þó eru margir sem ferðalaginu kvíða.

Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,

en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

En það er margt um manninn á svona stað

og meðal gestanna’ er sífelldur þys og læti.

Allt lendir í stöðugri keppni’ um að koma sér

og krækja sér í nógu þægilegt sæti.

En þó eru margir sem láta sér lynda það

að lifa’ úti’ í horni óáreittir og spakir,

því það er svo misjafnt sem mennirnir leita að

og misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir.

En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl

þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða.

En við sem ferðumst eigum ei annars völ,

það er ekki um fleiri gististaði að ræða.

Að vísu eru flestir velkomnir þangað inn

og viðbúnaður er gestirnir koma’ í bæinn.

Og margir í allsnægtum una þar fyrst um sinn,

en áhyggjan vex er menn nálgast burtferðardaginn.

Þá streymir sú hugsun um oss sem ískaldur foss

að allt verði loks upp í dvölina tekið frá oss,

er dauðinn, sá mikli rukkari, réttir oss

reikninginn yfir það sem skrifað var hjá oss.

Þá verður oss ljóst að framar ei frestur gefst

né færi á að ráðstafa nokkru betur.

Því alls sem lífið lánaði dauðinn krefst

í líku hlutfalli’ og Metúsalem og Pétur.

Texti: Tómas Guðmundsson

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.