Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju

Örn Bárður Jónsson

23. október 2020

Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju

Nú berast þær fréttir til almennings að nokkrir þingmenn standi saman að þingslyktunartillögu um aðskilnað ríkis og kirkju. Sjá nánar hér: https://www.althingi.is/altext/150/s/0128.html

Sagan

Árið 1907 gekkst biskup Íslands fyrir því að ná samningi við íslenska ríkið um að það tæki yfir nær allar jarðeignir kirkjunnar til forvöltunar sem merkir að ríkið skyldi reka þær og ávaxta. Gegn þeirri afhendingu var það tilskilið að ríkið greiddi tilteknum fjölda presta laun, sem kirkjan hafði til þess tíma séð um sjálf, en í reynd lifðu flestir prestar á þeim tíma af búskap á prestsetursjörðum. Biskup var orðinn þreyttur á því að standa í rekstri jarða og umsýslu eigna. Í 90 ár var þessi samningur í gildi, árin 1907-1997.

Ríkið, sem átti að gæta eignanna, var eins og aðrar veraldlegir aðilar, markað syndinni eða óflullkomleikanum. Vert er að minna á að orðið synd í Nýja testamentinu, hamartia, merkir geigun eða það að missa marks, ná t.d. ekki að uppfylla það sem er siðlegt og rétt. Menn brenna af í vítaspyrnu í fótbolta, hjón rífast, börn eru óhlýðin og allir klúðra lífi sínu á einn eða annan hátt.

Synd ríkisins er m.a. sú að einstaka ráðherrar og þingmenn stunduðu það um áratugaskeið að selja eignir úr eignasafni kirkjunnar til vina sinna, eignir sem ríkið var með í rekstri og gæslu en kirkjan átti. Bæjarfélag nokkurt á höfuðborgarsvæðinu fékk t.d. stóra landspildu keypta fyrir einn tíunda af matsverði fyrir 25 árum eða svo. Vinir ráðherra, hafa fengið glæsilegar jarðir með ám, laxveiði og fleiri hlunnindum, keyptar fyrir lítið. Dæmin eru mýmörg. Þetta heitir spilling og þjófnaður á máli siðara manna.

Árið 1997 var gerður nýr samningur milli ríkis og kirkju sem gekk í meginatriðum út á að eignasafn kirkjunnar sem ríkið hafði forvaltað í 90 ár varð að eign ríkisins og öll þjófa- og vanrækslumál látin kyrr liggja, syndirnar fyrirgefnar. Vandasamt reyndist að rekja allt braskið sem ríkið hafði staðið í. Ríkið tók þar með að sér árið 1997 að greiða laun 138 presta laun sín, þriggja biskupa, laun 18 starfsmanna Biskupsstofu og svo innheimti ríkið sóknargjöld fyrir kirkjuna eins og fyrir öll önnur, skráð og lögleg trúfélög. Þessum samningi hefur verið breytt á liðnum árum vegna þess að ríkið hefur ekki viljað standa við samkomulagið. Svona er pólitíkin.

Ég gagnrýndi þessar fyrirætlanir í eyru samningamanna kirkjunnar á sínum tíma (1997) og sagði að glapærði væri að afhenda ríkinu „gullfót“ kirkjunnar í staðinn fyrir pappírssnifsi. Pólitíkusar koma og fara og sumir þeirra vita lítið sem ekkert um sögu og menningu. Nú hefur komið á daginn að ríkið hefur ítrekað á liðnum árum kroppað í samninginn og svikið hann á margan hátt.

Annað meginatriði samningsins er sóknargjöldin sem ríkið innheimtir fyrir öll skráð trúfélög í landinu og er óháð eignasafni kirkjunnar. Sóknargjöld til trúfélaga standa straum af kostnaði við rekstur helgihalds og félagsstarfs trúfélaga. Innan þjóðkirkjunnar eru það prestaköllin með eina sókn eða fleiri innan sinna marka sem mynda rekstrareiningarnar. Sóknargjöld verður ríkið að mínu mati að halda áfram að innheimta og með því tryggja jafnræði og möguleika trúfélaga til að komast af í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Nútíminn

Ég hef verið talsmaður þess að aðskilja ríki og kirkju og hafði þá afstöðu þegar ég sat í Stjórnlagaráði árið 2011 og við skrifuðum Þjóðkirkjuna út úr tillögunni um nýja stjórnarskrá. Því var hins vegar snúið við í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillöguna 2012 sem Alþingi hefur ekki enn haft döngun í sér til að taka til efnislegrar meðferðar enda þótt óskin hafi verið skýr: Tillögur Stjórnlagaráðs skyldu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá!

En hvað vil ég þá með því að tala um aðskilnað, sem þó varð í raun staðfestur með lögum árið 1997? Til dæmis má geta þess að sænska kirkjan var aðskilin ríkinu þar í landi með álíka skilmálum árið 2000 og telst nú vera frjálst trúfélag, óháð ríkinu. Sænska kirkjan á miklar eignir, jarðir og skóglendur, sem hún forvaltar eða rekur sjálf. Ég vildi árið 1997, árið 2012 og vil áfram að kirkjan verði óháð ríkinu eins og önnur trúfélög. En ég vil þá að Þjóðkirkjan krefjist þess að öllu eignasafninu frá 1907 verði skilað til baka í raun, hverrri einustu jörð, eða andviði jarðanna á réttmætu verði.

Eignarrétturinn

Kirkjan átti líklega um 45% allra jarðeigna landsins fyrir og um siðaskiptin þegar danakonungur tók yfir eignir kirkjunnar, einkum klaustranna. Jarðir klaustranna voru mörg hundruð að tölu sem urðu meginstofn jarðasafns konungs, kallaðar „þjóðjarðir“. Þessar jarðir voru ekki taldar með í eignasafni kirkjunnar árið 1907 en það sem eftir sat þá hjá kirkjunni í landinu er til í útreikningum og mér er sagt að fjöldi þeirra „hundraða“ (en svo nefndist hin gamla mælieining á dýrleika jarða eða arðsemismöguleikum) sem eignasafnið taldi gæti verið nokkur hundruð milljarðar á núvirði í krónum talið, sé stuðst við mat Hagstofu Íslands í óskyldu dómsmáli sem nýlega var leitt til lykta.

Hvernig eignaðist kirkjan þessar eignir? Hún gerði það m.a. með því að annast fólk. Hún tók t.d. einstaklinga inn í klaustrin til umönnunar þegar fólk „settist í helgan stein“, flutti í steinhúsið, klaustrið, og fékk þar hjúkrun og líknarþjónstu til dauðadags. Þá voru engin sjúkrahús í landinu, engin elliheimili, engir skólar. Ríkið var ekki til á þeim tíma í nútímaskilningi, lítið miðstjórnarvald, og kirkjan annaðist mikilvæga þjónustu við íbúa landsins. Hvernig greiddi fólk fyrir þjónustu klaustranna, fyrir líknarþjónustuna? Í dag greiðum við til ríkisins með sköttum. Hjúkrun er ekki ókeypis, ekki læknisþjóusta og uppskurðir ekki heldur. Allt kostar þetta milljarða. En forðum daga greiddi fólk fyrir hjúkrun og líknarþjónustu, menntun ungmenna og uppeldi, með jarðarparti, því fá önnur verðmæti voru til í sjóðum einstaklinga. Þannig efnaðist kirkjan og varð í vissum skilningi „ríki í ríkinu“. En var það óeðlilegt?

Leyfið mér að taka dæmi úr nútímanum. Rauði krossinn er öflugt félag og alþjóðastofnun sem veltir stórum upphæðum ár hvert. Hvernig eru þau auðæfi fengin? Þau eru orðin til vegna tiltrúar almennings, hér á landi og um allan heim, sem hefur stutt þessi mikilvægu samtök til góðra verka. Getur ríkið slegið eign sinni á eigur Rauða krossins á Íslandi? Nei, vegna þess að eignarétturinn er heilagur. Kirkjan átti miklar eignir og hún afhenti ríkinu, þjófóttu ríkisvaldi, eignir sínar í góðri trú árið 1997. En stundum vaknar fólk upp við það að góð trú var ótrygg, tiltrú á spilltan veruleika.

Eingarrétturinn er svo skilgreindur í stjórnarskrá lýðveldisins, þeirri „dönsku“:

72. gr.

[Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.]

Í tillögu Stjórnlagaráð er hún svohljóðandi:

13. grein. Eignarréttur

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.

Kæru þingmenn, sem nú viljið aðskilnað ríkis og kirkju, þið segið í þingskjali ykkar:

„Skal samið um endanlegt uppgjör allra samninga þannig að því uppgjöri ljúki eigi síðar en árið 2034.“

Ég veit ekki hvort ég treysti mér til að trúa á slíkt fyrirheit í ljósi sögunnar og veikrar stöðu Alþingis sem mér þykir á stundum vera prinsipplaust og í algjörum hafvillum. Þá er ótalin viðvaningsleg stjórnsýsla landsins með flokksráðnu fólki í öllum helstu lykilstöðum.

Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju – en með fullkomnu réttlæti – með uppgjöri, sem tekur mið af skilningi á eignarrétti, menningu og sögu, þjónustu í samfélaginu, burðarvirki gyðing/kristinnar og grískrar menningar í samfélagi okkar, sem lagt hefur þjóðinni til mannskilning, túlkun á hinu stóra samhengi alls sem er – og er áfram reiðubúin til að þjóna þessari þjóð eins og hún hefur gert frá fyrstu tíð – þjóna öllum, án tillits til trúar eða skoðana.

Eina land veraldar

Og Nota Bene! Ísland er eina land veraldar sem alltaf hefur verið kristið. „Þú álfu vorrar yngsta land“, bæði jarðfræðilega og sem mannabyggð, hefur frá því fyrstu menn stigu hér á land, búið við kristinn vitnisburð. Fyrstu landnemar voru, eftir því sem sögur herma, írskir munkar og svo komu norrænir menn í kjölfarið, með kristna breta, íra, skota, kelta, um borð, karlþræla, ambáttir og ástkonur, á skipum með drekahöfuð í stafni, fólk sem að hluta til fylgdi átrúnaði, sem var á undanhaldi í álfunni, enda byggður að stórum hluta á hindurvitnum, andspænis trú, sem byggði á allt öðrum gildum og grunni og kunni meðal annars að skrifa og hugsa um veruleikann út frá gyðing/kristnum og grískri heimspeki sem hefur mótað vesturlönd s.l. 2500 ár eða svo og lagt grunnin að velferð Vesturlanda. Þessu vilja nokkrir þingmenn nú varpa fyrir róða í skammsýni sinni er þeir róa á mið kjósenda.

Nýjar rannsóknir byggðar á fornleifum sem fundist hafa á nýliðnum árum gefa allt aðra mynd af víkingum en þá sem söguskilningur okkar hefur haldið á lofti í rómantískri vímu.

Kristinn siður hefur mótað menningu okkar frá fyrstu tíð. Í heimi sem nú er á barmi upplausnar, ef marka má fréttir frá ýmsum löndum sem við viljum bera okkur saman við, er þörf fyrir heilsteyptan gildagrunn, sem ekki mun viðhaldast nema með sterkri kirkju sem er reiðubúin til að þjóna öllum á sama hátt og hún hefur gert um aldir með kærleiksboðskap Krists að leiðarljósi. Auðvitað er ég vilhallur í þessu máli og dreg taum kirkju og kristni enda trúi ég því að gildagrunnur kristinnar kirkju sé bæði þarfur og hollur þeim heimi sem við byggjum.

Ágætu þingmenn –

Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson,Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Guðjón S. Brjánsson –

ég geri mér grein fyrir hvað fyrir ykkur vakir með ályktuninni um aðskilnað, sem gerir ráð fyrir uppgjöri, en það verður þá að vera algjört, heiðarlegt og endanlegt, þar sem öllum steinum verður velt við, en ekki byggt á fordómum í garð kristni og kirkju og þar með Þjóðkirkjunnar, sem um þessar mundir býr við tímabundinn mótbyr. Skjótt kunna veður að skipast í lofti, eins og dæmin sanna. Mínar áhyggjur snúast helst um það að ríkið hafi hreinlega ekki efni á uppgjörinu, en þið eruð brött og teljið þetta geta gerst á 14 árum.

Kristur hafði aldrei upplifað aðra eins trú og hjá hinum heiðna hundraðshöfðingja sem til hans kom og bað hann lækna svein sinn. Jesús sagði við hann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“

Já, verði ykkur sem þið trúið.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.