Haukur Böðvarsson 1949-1980 – 70 ár eru liðin frá fæðingu hans

Haukur Böðvarsson

F. 18. sept. 1949. d 25. feb. 1980.

Haukur Böðvarsson

Í dag, 18. október 2019, þegar 70 ár eru liðin frá fæðingu æskuvinar míns, Hauks Böðvarssonar, minnist ég hans með virðingu og þökk. Hann fórst með skipi sínu, m/b Eiríki Finnssyni og áhöfn í Ísfjaðardjúpi 25. febrúar 1980 í miklu óveðri sem enginn sá fyrir.

Vinátta okkar hófst fyrir fermingaaldur og við brölluðum margt saman fram á unglingsár. Eftir að ég flutti suður hittumst við sjaldnar en gleði ríkti ávalt er fundum okkar bar saman.

Ég hugsa oft til hans og hef mynd hans á vegg heima til að minnast góðs drengs.

Á Vefnum fann ég minningargrein um Hauk, ritaða af Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni, fyrrum skólastjóra Stýrimanaskólans í Vestmannaeyjum. Ég birti hluta hennar hér fyrir neðan.

„Með fáum orðum langar mig að minnast míns gamla nemanda og vinar Hauks Böðvarssonar, sem fóst með m/b Eiríki Finnssyni í ofviðrinu mikla, sem gekk yfir Vestfirði hinn 25. febrúar sl.

Haukur Böðvarsson var fæddur á Ísafirði 18. september 1949. Hann var sonur hjónanna Iðunnar Eiríksdóttur og Böðvars Sveinbjörnssonar á Ísafirði.

Enn stendur mér einkar ljóst fyrir hugskotssjónum, þegar Haukur mætti til náms í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum haustið 1967. Hann var þá aðeins 18 ára gamall, naumlega með tilskilin siglingatíma og leit út fyrir að vera enn yngri. Haukur bauð af sér góðan þokka og fékk herbergi á heimavist að Breiðabliki. Þegar leið á vetur kom í ljós að Haukur var mikið og gott mannsefni. Hann var samviskusamur og stundaði námið af alúð. Hann varð vinsæll meðal félaga sinna, þó að hann léti aldrei sinn hlut í leik né starfi og var í miklu uppáhaldi hjá kennurum skólans fyrir ástundun og góða framkomu.

[. . . ]

Það sem þá lifði vertíðar komst hann í gott skiprúm til Friðriks Ásmundssonar á m/b Mars og hrósaði Friðrik honum fyrir einstaka snerpu og áhuga á sjónum.

Haukur var svo til sjós næsta árið og kom sem fullþroska og harðnaður sjómaður í 2. bekk. Haukur lauk fiskimannaprófi 2. stigs með prýðisárangri vorið 1970 og hlaut verðlaun fyrir góða ástundun og framfarir í námi. Hann hélt síðan vestur í átthaga sína og varð þar fljótlega skipstjóri og atkvæðamikill og annálaður sjósóknari og kalla Vestfirðingar ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Félagar hans þar vestra lýsa Hauk sem einstökum áhugamanni í starfi sínu á sjónum og að hann hafi átt fáa sína líka hvað það snerti. Þetta er vel mælt.

Haukur var skipstjóri með Guðnýju og Víking III á línuveiðum og var þá alltaf í röð þeirra aflahæstu eða hæstur línubáta á Ísafirði. Hann sótti stíft og man ég vel eftir sjónvarpsmynd af klakabrynjuðum báti að koma að bryggju á Ísafirði, var þar Haukur að koma að landi úr erfiðri sjóferð.

Árið 1975 hóf Haukur rækjuveiðar með m/b Morgunstjörnu og ári síðar hóf hann útgerð og eignaðist lítinn rækjubát, sem hann skírði í höfuð á afa sínum Eiríki Finnssyni, sem var þekktur maður á ísafirði á sinni tíð. Upp frá því stundaði Haukur rækjuveiðar meiri hluta ársins og hafði fest kaup á stærri rækjubát, er kallið kom, hinn 25. febrúar. Bátur þessi var stærri og betur búinn en sá, sem Haukur fórst með í mannskaðaveðrinu mikla. Hafði Haukur hug á að fara á djúprækjuveiðar á því skipi.

[. . .]

Hann var samt jafn hlýr og alúðlegur og hann var alltaf. Við töluðum um að hittast með félögum hans frá 1. bekk nokkru síðar í Reykjavík. Hann var ekki viss, en næsta vor, þá myndum við áreiðanlega hittast. Eftir veru hans í Eyjum áttu þær sterka taug í Hauk. En svona er lífið. Nú er Haukur horfinn ásamt fleiri góðum vinum, sem voru saman á Breiðabliki forðum daga.

Á liðnum vetri minntust við Steingrímur Arnar stundum á Hauk og örlög hans. Jafnframt því sem þessar línur er kveðja mín til Hauks Böðvarssonar eru þær kveðja frá Steingrími og samkennurum okkar. Mikill mannsskaði er að slíkum dugnaðarmanni sem Haukur Böðvarsson var. Hann var aðeins rúmlega þrítugur og lífið fullt af fyrirheitum.“

Hér er Hauki vel lýst sem góðum dreng, sem var kappsfullur og ósérhlífinn, hörkuduglegur og knár. Hann var vaskur og áræðinn. Ég man t.d. hvað hann var duglegur á skíðum sem unglingur.

Sjálfur nálgast ég nú sjötugsaldur og þakka fyrir hvern dag. Lífið er stærsta gjöfin en enginn veit hvenær því lýkur. Enginn á loforð um langlífi. Lifum við næsta klukkuktíma, næsta dag, næsta ár?

Oft verður mér hugsað til Hauks og þeirra mörgu sem ég hef fylgt og þeirra mörgu hverra moldum ég hef talað yfir á liðnum árum. Nándin við dauðann fær mann til að hugsa um lífið og tilveruna.

Ég trúi því að tilveran sé stærri en við skynjum hér í þessu jarðneska lífi. Víddirnar eru fleir og stærri en við fáum numið.

Til er sú hugsun um dauðann að allir deyi í raun þrisvar.

Fyrst deyjum við þegar hjartað hættir að slá og við gefum upp andann.

Við deyjum öðru sinni þegar við erum horfin af jörðu og líkaminn hefur verið lagður í gröf, í kistu eða duftkeri, eða í hina votu gröf, þar sem þau hvíla er aldrei fundust. Eftir útför erum við horfin, farin út af þessu lífi, eins og orðið útför ber með sér. En við lifum samt áfram í minningum ástvina og samferðafólks.

En svo kemur hinn þriðji dauði. Hann á sér stað þegar engin lifandi manneskja man okkur framar, þegar allir eru horfnir sem þekktu okkur og áttu um okkur minningar. Hver man þig og mig þá? Það er stóra spurningin. Hver man okkur þegar þessi veröld er horfin?

Norski skáldpresturinn Peter Dass, sem var samtíðarmaður séra Hallgríms Péturssonar á 17. öld, orti sálm, sem Sigurbjörn Einarsson, biskup, þýddi. Sálmurinn er númer 1 í norsku sálmabókinni og ég leyfi mér að fullyrða að stór hluti Norðmanna kunni hann utanbókar. Snilldarþýðing Sigurbjarnar hljóðar svo:

Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra

dýrka ber og veita lotning tæra.

Hver tunga, vera

skal vitni bera,

að voldug eru

þín ráð og þér þakkir færa.

Guð er Guð, þótt veröld væri eigi,

verður Guð, þótt allt á jörðu deyi.

Þótt farist heimur

sem hjóm og eimur,

mun heilagt streyma

nýtt líf um geim, Guðs á degi.

Björgin hrynja, hamravirkin svíkja,

himinn, jörð og stjörnur munu víkja,

en upp mun rísa,

og ráð hans prísa,

hans ríki vísa

og ljósið lýsa og ríkja.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.