Jón Bragi Eysteinsson 1928-2013

Jon BragiÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Jón Bragi Eysteinsson

fv. vegavinnumaður, sjómaður og bifreiðastjóri

Rofabæ 31

Útför frá Neskirkju,

21. nóvember 2013 kl. 13:00

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyri neðan.

„Ég er vegurinn“, sagði Jesús.

Leið okkar um lífið er vegferð. Við litum ljósið þegar konan sem ber fegursta starfsheiti íslenskrar tungu, kennd við ljósið, lyfti okkur upp og lét okkur öskra til að hreinsa lungun og koma önduninni af stað. Þar með hófst ferðalagið sem við erum öll á. Það liggur um ýmsa stigu og endar með sama hætt hjá öllum því

Afl dauðans eins nam krenkja,

alla í veröld hér. (HP)

Fyrsta ópið og síðasta andvarpið, ramma inn þetta líf.

Að lifa er verkefni. Við erum hvorki strengjabrúður né vélmenni. Við erum fólk af holdi og blóði með huga sem er frjáls til athafna og ákvarðana. Samt erum við bundin af aðstæðum og ýmsum atvikum lífsins, mótuð af uppruna og aðstæðum.

Segja má að Jón hafi lifað tímana tvenna. Líf fólks á Íslandi í gegnum aldirnar var keimlíkt, verklag og lífshættir breyttust lítið þar til á liðinni öld. Hann fæddist inn í heim torfbæja sem voru og eru merkileg fyribrigði í íslenskri sögu og menningu og inn í heim tæknibyltingar. Hann hreifst af tólum, tækjum og vélum, lærði á bíla, skip og flugvélar. Allt eru það tæki til að flýta fyrir manninum, bera hann um landið, yfir haf og um loftin blá. Maðurinn hefur þá þrá að brjótast út úr viðjum sínum og komast lengra. Hann er eins og fiðrildið sem byltir sér og brýst út úr púpunni, breiðir úr vængjum sínum og tekur flugið. Og maðurinn lætur sér ekki nægja að komast um á bílum, skipum og flugvélum og ekki heldur geimflaugum. Hann notar hugarflugið til að komast enn lengra og á auknum hraða út um allt á vængjum skáldskapar og ímyndunarafls. Við þolum ekki við í fjötrum líkamans og verðum að komast út, hærra, lengra – í burtu. En til að komast um landið á jarðneskum járnum þarf vegi og brýr. Það er ekki svo langt síðan að vegasamband vantaði milli landshluta. Vestfirðir voru t.a.m. ekki í vegasambandi fyrr en 1959 og helstu tálmarnir, fljótin á Suðurlandi, voru ekki brúuð að fullu fyrr en 1974.

Jón Bragi hét hann og fæddist á Stóru Hvalsá í Hrútafirði 6.2. 1928. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 14.11. 2013, en var áður til heimilis að Rofabæ 31, Reykjavík og þar áður á Laugateigi 38.

Jón var sonur hjónanna Kristínar Lilju Jóhannesdóttur frá Búrfelli í Miðfirði, f. 26. 8. 1900, d. 21.5. 1988 og Eysteins Einarssonar frá Hvítadal í Dalasýslu, f. 12.4. 1904, d. 25. 02. 1991.

Jón ólst upp fyrstu æviár sín að Stóru Hvalsá í Hrútafirði en fluttist síðan að Bræðrabrekku í Bitrufirði og var þar í stórum systkinahópi fram á unglingsárin.

Systkini Jóns eru,

Jóhanna Margrét Eysteinsdóttir, f. 1.1. 1925,

Bjarni Björnsson Eysteinsson, f. 16.6. 1926,

Kristjana Eysteinsdóttir, f. 26.10. 1929,

Sveinn Björgvin Eysteinsson, f. 17.5. 1931,

Steinunn Eysteinsdóttir, f. 23.6. 1933,

Laufey Eysteinsdóttir, f. 1.3. 1935,

Einar Magnús Eysteinsson, f. 21.12. 1936,

Fanney Eysteinsdóttir, f. 12.2. 1939 og

Trausti Eysteinsson, f. 26.7. 1943 d. 31.3. 2002.

Hálfsystkini Jóns, samfeðra, eru

Jens Eysteinsson, f. 18.3. 1945,

Dofri Eysteinsson f. 30.3. 1947,

Gísli Eysteinsson f. 29.11. 1949,

Hrafnhildur Eysteinsdóttir, f. 17.6. 1949 og

Hilmar Eysteinsson, f. 2.9. 1951.

Mér var sagt frá því áðan að mynd hefði verið tekin af systkinahópnum meðan þau voru öll á lífi utan einn og þar hefðu verið saman komin vel yfir þúsund aldursár. Að hugsa sér! Æviár þeirra ná aftur fyrir landnám og þá er nú farið að styttast í tíma Krists!

Jón kvæntist Berthu Konráðsdóttur, f. 21.9. 1934 d. 1.2. 2005 frá Reykjavík árið 1956. Bertha var dóttir Bertu Albertsdóttur f.22.10. 1903 d. 9.12. 1935 og Konráðs Gíslasonar f. 10.10. 1903 d. 26.8. 1999.

Jón eignaðist son fyrir hjónaband, Einar Eystein Jónsson, f. 27. 11. 1950, lækni í Vestmannaeyjum.

Jón og Bertha eignuðust tvær dætur, Hólmfríði Björgu og Steinunni.

1) Hólmfríður Björg Jónsdóttir,  f. 28.9. 1956 – sonur hennar er Bjartmar Jón Ingjaldsson, f. 4.6. 1986, sambýlikona Kolbrún Hjartardóttir, f. 21.3. 1987 – sonur þeirra er Bergur Gauti Bjartmarsson f. 16.3. 2013.

2) Steinunn Jónsdóttir, f. 7.12. 1960. Maki Trygve Jonas Elíassen f. 14.8. 1956. Synir þeirra eru Magnús Trygveson Elíassen f. 18.11. 1985, sambýliskona Sólrún Sumarliðadóttir f. 10.8 1977 sonur þeirra er Bragi Sumarliði Magnússon Elíassen, f. 13.5. 2011.

Gauti Trygveson Elíassen, f. 11.9. 1988, sambýliskona Alice Williams.

Jón fór á unglingsárunum suður á land til að vinna í vegavinnu hjá föður sínum og vann þar í nokkur ár. Lá leiðin síðar til Reykjavíkur þar sem hann kynntist konu sinni Berthu og bjuggu þau í Reykjavík allan sinn búskap. Jón vann við hin ýmsu störf í gegnum tíðina. Var til sjós og keyrði langferðabíla.

Á sjötta áratugi síðustu aldar útskrifaðist Jón frá Stýrimannaskóla Íslands með stýrimannapróf og vann í nokkur ár hjá Eimskipum á millilandaskipum. Síðan lá leiðin í „land“ og vann hann hin ýmsu verkamannastörf, lengst af hjá Jarðborunum ríkisins, þar til hann lét af störfum.

Jón var miklill áhugamaður og unnandi um íslenska náttúru og fróður um landsins gagn og nauðsynjar. Hann var óspar að miðla þeim fróðleik til fjölskyldu sinnar og vina.

Líf hans var vinna og aftur vinna. Hann gekk að sínum verkum og naut þess að finna kröftum sínum viðnám. Hann fann til skyldleika við lífið í landinu í gegnum aldirnar, við moldina. Hann naut þess að rækta, var alla tíð bóndi í sér og vildi rækta sínar kartöflur og komast um landið til að skjóta bráð sér til matar. Hann vissi það eins og gengnar kynslóðir á undan honum að landið gefur af sér í senn fæði og klæði, kjöt og kál, ull og skinn.

Þau voru ólík hjón, Bertha og hann, en áttu góða daga, unnu verkin sín hvort á sinn hátt og þegar hún veiktist og hann þurfti að sjá um hana heima þá hætti hann að vinna, gekk í heimilisverkin, eldaði mat eins og hann hafði reyndar ætíð kunnað, þreif og straujaði fötin, meira að segja náttkjólana hennar.

Heilsu hans hrakaði fyrir 10 árum eða svo og seinustu árin voru honum mótdræg á margan hátt vegna æðasjúkdóms. Það fór í skapið á honum að finna krafta og getu dvína. En kaldhæðnin hvarf ekki og afstaðan til lífsins var áfram söm.

Stelpurnar fundur ætíð til öryggis hjá pabba. Hann var kletturinn sem þær gátu ætíð treyst á. Hann var handlaginn og vinnusamur og alltaf til í að hjálpa fólki. Hann gekk jafnan að verkum sínum af yfirvegun og seiglu og sagði oft:  Maðu gerir það sem þarf að gera.

Hann var alla tíð pólitískur í hugsun og hafði þann þroska og skyn að við værum ein þjóð og þyrftum að standa saman og hjálpast að. Hann átti aldrei samleið með þeim flokkum sem nú stýra landinu og hafði í raun mikla fyrirvara á hvorum tveggju.

Segja má að Jón sé síðasti tengiliður fjölskyldu sinnar við gamla tímann. Hann lifði ótrúlega miklar breytingar á sinni ævi, sá landshluta tengjast fyrir þrotlausa vinnu í vega- og brúarsmiða, flugvélar flytja fólk yfir höf og lönd og sjóför stækka úr tryllum í stórskip. Til viðbótar öllu þessu höfum við sem nú lifum orðið vitni að mestu byltingu mannkynssögunnar, upplýsingabyltingunni, sem keyrð er áfram af tölvum og með netsambandi um allan hnöttinn. Aldrei hefur mannkynið verið eins vel tengt og nú en á sama tíma eykst firring og fólk einangrast sem aldrei fyrr fyrir framan tölvuskjáinn, eitt en samt með öllum en þó engum.

Ég er vegurinn, sagði Jesús. Þessi orð mælti hann fram fyrir 2000 árum en þau eru enn í gildi. Vegir um allt land og yfir öll fljót, skip sem ösla hæstu öldur, flugvélar sem komast til fjarlægustu landa á nokkrum klukkutímum og tölvutæknin sem tengir okkur við andfætlinga okkar á sekúndubroti, brúa þó ekki það bil sem skilur að hérveru og handanveru, þetta líf og hina komandi tilveru.

Um aldir hefur maðurinn staðið við þetta óbrúanlega fljót sem skilur að heim mannsins og himinn Guðs. Enda þótt maðurinn geti sent geimflaugar til framandi hnatta og ferðast um geiminn sem aldrei fyrr kemst hann ekki yfir þetta fljót. Hann getur ekki sætt Guð og manna. Til þess er hann of takmarkaður, fjötraður af breyskleika, með brotna sál. Syndin, það sem sundrar sambandi Guðs og manns, brotalömin í manninum, er orsök þess ógnarfljóts sem skilur að hið háa og heilaga annars vegar og hið jarðneska og breyska hins vegar. Hver megnar að brúa þessa miklu elfi? Hver hefur máttinn til þess, heilagleikann, heiðríkjuna? Hver þekkir í senn heim syndugra manna og heilagleika himinsins og megnar að tengja það saman sem eigi er á mannlegu valdi? Það er hann sem sagðist vera „vegurinn, sannleikurinn og lífið“. Hann er brúarsmiðurinn mikli og eini sem tengir hauður, haf og himinn, tengir sálu mannsins sem er firrt og flækist um í fjarskanum við himinsins frið og elsku.

Það er búið að brúa yfir stjórflótið og við stöndum við brúarstólpa þessarar tilveru og kveðjum góðan mann sem lagði landi og þjóð til krafta sína og það annað gott sem lífið færði honum.

Við fæddumst inn í þennan heim og höfðum ekkert um það að segja. Lífið tók við með sínum verkefnum. Svo kemur að því að við leggjum upp í ferðina yfir flótið. Frá vöggu til grafar þörfnumst við leiðsagnar til að rata réttan veg og ekki síst þegar kemur að flótsbakkanum.

„Ég er vegurinn“, sagði Jesús. Hann lofar því að tengja okkur við himinn Guðs, ekki bara þegar dauðinn kallar heldur alla daga sem við lifum á þessari jörð. Hann lýsir sem brennandi viti og vísar veginn. Leiðsögn hans leiðir aldrei í villu.

Guð fylgi látnum ástvini yfir fljótið mikla. Guð blessi minningu Jóns Braga Eysteinssonar og blessi hann líka þig og þitt fólk allt.

Amen.

Jón Bragi Salmaskra

Ritningarlestrar við athöfnina:

JESAJA 62:10-12

10Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
11Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
12Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Jóhannes 14.1-6

Vegurinn, sannleikurinn, lífið

1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.