Gimme a Break – Jóhannesarlykillinn

eskatalogiaÖrn Bárður Jónsson

Prédikun í Neskirkju

síðasta sunnudag kirkjuársins

24. nóvember 2013 kl. 11

Gimme a Break – Jóhannesarlykillinn

Þú getur hlustað á og lesið ræðuna hér fyrir neðan. Prédikunartextarnir eru svo neðanmáls.

Biðjum . . .

Friður . . .

Hann hætti sér út á hálan ís í gær. Ég horfði á hann út um stofugluggann. Ísinn var þunnur og hann dansaði á ísnum sem sumsstaðar brotnaði undan honum svo hann vöknaði. En honum tókst í nokkur skipti að skríða aftur á skörina á ný og taka dansspor í vetrarsól á glergólfinu. En svo allt í einu mætti hann skapadægri sínu. Ég heyrði skotið ríða af meðan ég var með hann í sjónaukanum, sá ísinn brotna og vatnið gusast en dýrið hvarf inn í grjótgarðinn. Minkahundurinn fann hann eftir góða stund og kom svo og sýndi mér bráðina hróðugur. Minkabaninn klappaði tíkinni og hrósaði til að viðhalda færninni.

Lífið er dans á hálum ís. Við erum að vísu ekki samskonar skepna og minkurinn en skepnur þó í þeim skilningi sem hún Rannveig amma hans föður míns hafði er hún klappaði á koll hans í æsku og sagði með sinni blíðu rödd: Hvað segir þú nú skepnan mín?

Við erum hluti skepnunnar, sköpunarinnar, eins og minkurinn, erum af holdi og blóði eins og hann og þurfum að komast af í þessu lífi. Hættur er víða enda þótt skyttur elti okkur ekki með hólka sína.

Sálmaskáldið, Helgi Hálfdánarson, orti:

Þótt mannkyns morðinginn

nú magni fjandskap sinn,

hann engu orka kann,

því áður dóm fékk hann.

Eitt orð má fljótt hann fella.

Hið illa er víða að verki í mannheimum. Lífinu fylgja freistingar og hættur. Lífið er dans á hálum ís og okkar bíður dómur eins og skepnu sem deyr. Eða hvað?

Það er ekki á hverjum degi sem maður fær lifandi dæmisögu senda heim í miðjum undirbúningi fyrir prédikun sunnudagsins. Svona er þjónustan nú stundum góð.

Þessi atburður sem gerðist fyrir utan stofugluggann hjá mér í gær er mér sem lifandi dæmisaga á þessum degi þegar íhugunarefnið er dómur Guðs.

Lexía dagsins dregur upp mynd af manninum sem hverfu eins og hvikull skuggi. Líf mannsins er eins og blaktandi strá en Guð hefur auga með honum. Trúin birtist í orðunum og boðar að ekkert fari framhjá Guði sem allt sér og veit. Job rökræðir við Guð og biður hann um að sýna manninum miskunn og náð er hann segir:

Hafi ævidagar hans [þ.e. mannsins] verið ákvarðaðir
og tala mánaða hans ákveðin af þér,
hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir,
líttu þá af honum svo að hann fái hvíld
og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður. (Job 14.6)

Gimme a break!

Hér heyrist bæn hins þjáða manns sem ber umhyggju fyrir samferðamönnum sínum. Guð gef mér grið, er bæn sem margir biðja í erfiðum aðstæðum lífsins með þessum orðum eða öðrum. Þau eru mörg sem þjást og finna til, berjast við erfiða sjúkdóma án þess að fá lækningu. Svo eru það þau mörgu sem syrgja og sakna og spyrja: Hvers vegna, Guð?

Fólk mætir örlögum sínum dag hvern á margvíslegan hátt, gengur á vegg í allskonar skilningi, áttar sig á eigin mistökum og dansi á hálum ís eða fær sjúk-dóm eða dóma. Hugaðu um samsetningu orðsins sjúk-dómur.

Svo er það hitt sem postulanum er hugleikið í pistli sínum og það er endalok heimsins. Menn töldu í október 1962 að hætta væri á heimsendi þegar sovéskum kjarnorkuflaugum á Kúbu var beint að Bandarísku landi. Kennedy og Krúsjoff tókust á en mönnum tókst að bægja hættunni frá. Kenndy var skotinn en Krúsjoff dó úr hjartaáfalli 1971 eftir tárvot eftirlaunaár og líf í stöðugum ótta um örlög sín og sinna.

Á föstudaginn var voru 50 ár liðin frá því að Kennedy féll fyrir kúlum morðingja. Hann mætti skapadægri sínu, dómi sjúks morðingja. Ég man þegar mamma sagði mér tíðindin árið 1963 og við sátum lömuð með heimsbyggðinni norður undir heimskautsbaugi um kvöldmatarleitið í nóvembermyrkrinu meðan snjóflyksurnar breiddu hvít klæði yfir bæinn.

Goðsögnin um forsetann er svo lífsseig að veruleikinn haggar henni ekki, segja sagnfræðingar nú. Hvar er sannleikurinn, spyrjum við?

Dómur sögunnar kemur þó í ýmsum myndum hvort sem við trúum honum eða ekki. Dómur sögunnar á eftir að koma fram um örlagaríkustu málefni þjóðar okkar á síðastliðnum árum. Hver er sinnar gæfu smiður, segir í máltækinu og við sem þjóð smíðum okkar gæfu og ógæfu í senn. Fræðimenn skoða og rannsaka. Páll Skúlason fv. háskólarektor ritar grein í Skírni um þróun háskólakennslu í landinu og spyr hvort hún sé á réttri leið. Merkileg grein eftir sóknarbarn og messuþjón hér í Neskirkju, dr. Svan Kristjánsson, stjórnmálafærðing, birtist í nýjasta hefti Skírnis (Haust 2013) þar sem hann rekur aðdragandann að setningu laga um stjórnun fiskveiða áirð 1990 þar sem „gjafakvótinn“ svonefndi var lögfestur. Líkur eru leiddar að því að þar með hafi ferlið byrjað sem leiddi til Hrunsins og einnig að stjórnarskráin okkar sem sett var til bráðabirgða árið 1944 veiti okkur ekki nægjanlega vernd fyrir hagsmunasæknum lénsherrum og sérhagsmunaseggjum.

Dómur sögunnar mun falla í fyllingu tímans og hið rétta koma í ljós hvort sem söngur svansins er hárréttur eða ekki.

Mun heimurinn farast? Hittir loftsteinn jörðina eða bíða hennar þau örlög að sogast inn í svarthol geimsins? Merkilegt hvað menn höfðu mikið vit fyrr á öldum til að sjá fyrir sér að frumefnin mundu leysast í sundur og allt það, sáu í hugskoti sínu það sem vísindamenn samtímans sjá nú með ærinni fyrirhöfn og rannsóknum.

Heimurinn ferst en trúin segir að lífið sé þó og veðri ætíð í hendi Guðs:

Guð er Guð, þótt veröld væri eigi,
verður Guð, þótt allt á jörðu deyi.
Þótt farist heimur
sem hjóm og eimur,
mun heilagt streyma
nýtt líf um geim, Guðs á degi. (Sb 11.2)

Hvað verður nú um Jackie og börnin? var spurt forðum eins og það skipti einhverju í hinni stóru atburðarrás sögunnar.

Hvað verðu um okkur?

Þótt djöflum fyllist veröld víð,
þeim vinnst ei oss að hrella,
því Jesús vor oss veikum lýð
er vörn og hjálparhella.

Við erum í hendi Guðs og Jóhannes postuli setur tryggingarskilmálana fram með skýrum hætti í guðspjalli dagsins. Lausnin er ekki handan grafar og dauða, hún er ekki þar heldur HÉR OG NÚ! Hann boðar það sem á máli guðfæðinnar heitir realíseruð eskatalógía, en orðið ta eskata á grísku merki hið hinsta og eskatalógía þar með „fræðin um hinstu örlög og hinstu tíma“. Heimsendir, dómurinn á sér stað hér og nú, og dómur Guðs yfir þeim sem trúa er dómur miskunnar og náðar. Heyrum orð postulans og hvað hann segir nákvæmlega:

„Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.“

Hvað merkja þessi orð?

Þau snúast um að heyra.

En heyra hvað?

Heyra orð Jesú.

Og þau snúast um að að trúa.

Trúa hverju?

Trúa honum sem sendi Jesú.

Og hvað fær sá sem heyrir og trúir?

Hann fær eilíft líf.

Og hvað felst í því?

Jú, hann fær það sem hjartað þráir, það sem innsta hugsun og dýpsta von mannsins getur óskað sér: fullkomið líf.

Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum í þessum heimi þar sem stöðugt er verið að dæma og flokka fólk:

Sá sem heyrir og trúir „. . . kemur ekki til dóms. . . “

Hann þarf ekki að mæta þótt allur heimurinn bendi á hann og segi hann sekan.

Sá sem heyrir og trúir, er ekki bara laus undan hinsta dómi „heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.“

Realíseruð eskatalógía – hið hinsta hér og nú – segir að lífið, sem við væntum, sé þegar komið. Við erum þegar í eilífðinni. Hún er hér, í brjósti okkar og hjarta, okkar sem höfum heyrt og trúum á Krist. Hann býr hið innra og hann kemur til okkar í brauði og víni hinnar himnseku veislu sem reidd er fram hér og í öðrum kirkjum „svo á jörðu sem á himni.“

En dómurinn verður haldinn því Guð „hefur veitt honum [Kristi] vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur.“

En sá sem heyrir og trúir á hann hefur besta verjandann og fær því ekki dóm á sig, kemur reyndar ekki fyrir dóminn!

Textar um hverfult líf mannsins, um heimsendi og bráðnun frumefna, um að sumir þurfi ekki að koma fyrir hinsta dóm. Þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga, eins og reifari eftir Arnald eða Yrsu, með fullkomnu plotti í lokinn.

Getur verið að lífið í Kristi sé eins og vísindaskáldsaga, eins og reifari, líf á hálum ís sem ekki endar eins og skepnan deyr heldur á allt annan hátt en nokkur manneskja gat ímyndað sér frá örófi alda þar til Jóhannes mælti fram lausn gátunnar?

Jóhannesarlykillinn!

Getur verið að hann sé lausnin að gátunni?

Getur það verið?

Á ég að trúa því?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Textar dagsins eru hér.

Ein athugasemd við “Gimme a Break – Jóhannesarlykillinn

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.