Minningarorð
Ása Björgvinsdóttir
1928-2013
fv. húsmóðir og læknaritari
frá Fáskrúðsfirði
Útför (bálför í kyrrþey) frá Fossvogskapellu
þriðjudaginn 19. nóv. 2013 kl. 13
Jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði að lokinni bálför.
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.
Við heyrðum áðan sálminn, Fögur er foldin. Landið er fagurt og frítt. Náttúran hefur sterk áhrif á okkur. Fjöllin eru tignarleg á Austfjörðum með hamrabeltin há. Fáskrúðsfjörður er fagur. Stillurnar í firðinum skapa kyrrð og frið í sálu og sinni. Eyjan Skrúður vakir fyrir fjarðarmynni, gróin og græn, dulúðúg í fjarskanum með sínar þjóðsögur og ævintýri. Austfirðir hafa aðra töfra en firðir á öðrum stöðum landsins. Kona ein af Vestfjörðum sem ég þekkti og nú er látin flutti fullorðin til Austfjarða og sá þá í fyrsta sinn á ævinni sólina rísa úr sæ. Þá táraðist hún af gleði. Fyrtu 50 æviár sín hafði hún aldrei séð slíkt undur. Ísland býr yfir fjölbreytileika og fágætri fegurð.
Líf fólks í fjörðum landsins er ólíkt lífi í dölum og inn til landsins. Skip koma og fara. Austfirðirnir eru næstir meginlandi Evrópu og þangað komu skip frá útlöndum í gegnum aldirnar. Frakkar lögðu margir leið sína til Fáskrúðsfjarðar og þar eru enn frönsk áhrif. Að alast upp þar á vel stæðu heimili taldist til forréttinda.
Ása Björgvinsdóttir fæddist að Ási í Fáskrúðsfirði 25. júlí 1928. Hún lést á hjúkrunarheiminu Sóltúni föstudaginn 15. nóvember s.l. Foreldrar hennar voru hjónin Oddný Jóhanna Sveinsdóttir (f. 3.10. 1897 d. 2.8. 1977) og Björgvin Þorsteinsson (f. 19.10. 1889 d. 11.2. 1964) kaupmaður, til heimilis að Ási í Fáskrúðsfirði. Ása var yngst í hópi fjögurra systra, sem voru kenndar við Ás.
Systur Ásu voru:
1) Gunnþóra (f. 11.11. 1916, d.12.2. 2006) gift Óskari Björnssyni.
2) Ragnheiður (f. 6.3. 1921, d. 7.11. 2007), hún var búsett í Englandi, gift Richard Lee.
3) Valborg (f. 16.3. 1925, d. 1.2.1996) gift Baldri Björnssyni.
Þær eru allar látnar og einnig eiginmenn þeirra.
Tvö börn Ragnheiðar systur Ásu voru ættleidd og ólust upp í Ási hjá ömmu sinni og afa, þau: Oddný f. 25.2.1940 og Björgvin f.7.11.1945.
Ása átti góða bernsku og bjó við öryggi og elsku. Hún var góðum gáfum gædd og átti auðvelt með að læra. Ung að árum fór hún suður og settist í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi. Hún bjó fyrst hjá systur sinni en leigði svo herbergi á Bergsstaðastræti. Það þótti nú fínt í þá daga að fá að fara suður og læra hagnýtt nám. Hún fór til Englands eftir verslunarprófið og lærði hraðritun við Pitman skólann en sir Isaac Pitman sem uppi var á 19. öld. var upphafsmaður að shorthand eins það heitir á ensku en sú aðferð er enn víða notuð af riturum. Hún hafði áhuga á tungumálum, lærði dönsku, þýsku og ensku. Hún vann síðar utan heimilis eftir að hún giftist og eignaðist dæturnar. Hún starfaði hjá Axminster sem var teppagerð og hjá Félagi íslenskra prentara en lengst af sem læknaritari á augndeild Landakotsspítala.
Þann 30. des. 1949 giftist Ása Ásgeiri Samúelssyni frá Akureyri (f. 29.08 1926, d.1.ágúst 1995). Ásgeir starfaði í 45 ár hjá Flugfélagi Íslands, lengst af sem yfirflugvirki.
Ása og Ásgeir eignuðust þrjár dætur. Þær eru:
1) Björg Ásgeirsdóttir (f. 21.05.1951), gift George White. Börn þeirra eru 1) Anna White gift Benedikt Sveinssyni og eiga þau þrjú börn. 2) Samúel Ásgeir White kvæntur Ölmu Olsen og eiga þau tvö börn. Samúel á einnig dóttur úr fyrra sambandi. 3) Katrín White.
2) Svava Oddný Ásgeirsdóttir (f. 24.04.1954), gift Tryggva Aðalbjarnarsyni. Börn þeirra eru 1) Aðalbjörn Tryggvason, í sambúð með Söru Eleonoru Makocka. 2) Ása Björg Tryggvadóttir gift Helga Ingólfi Eysteinssyni og eiga þau tvö börn. 3) Tryggvi Þór Tryggvason.
3) Ásdís Ásgeirsdóttir (f. 22.07.1962), gift Valdimar Jónssyni. Börn þeirra eru: 1) Margrét Valdimarsdóttir. 2) Ása Valdimarsdóttir 3) Auður Valdimarsdóttir.
Ása og Ásgeir héldu heimili á Sogavegi 80 og í Brúnarlandi 11 þar til Ásgeir lést en þá flutti Ása í Aðalland 1 og bjó þar þangað til hún flutti á hjúkrunarheimilið Sóltún haustið 2011 þar sem hún lést.
Hún var trúföst kona. Að vera trúfastur er að vera tryggur og trausts verður. Nú er uppi stundum sá misskilningur að trúfesti vísi til þess að vera fastur fyrir í trúmálum en sú er ekki merking orðins. Hins vegar er um skyldleika að ræða því trúfesti sem traust er grunnþáttur í trú sem í grunninn felst í því að treysta.
Hún var traustsins verð. Sagan sem Jesús sagði um talenturnar er saga um trúfesti, um traust, tryggð og trúmennsku. Sagan er um mann sem ætlar í ferðalag og fær þrem mönnum fé sitt eða talentur til varðveislu og ávöxtunar. Tveim ferst það vel úr hendi en þeim þriðja ekki. Við þá sem gerðu rétt sagði húsbóndinn í sögunni:
„Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“ (Matt 25.21)
Ása var góðum gáfum gædd. Hún átti margar talentur og ávaxtaði þær með sínum hætti en hún var ekkert að trana sér fram eða fyrir að vera úti um allt. Hún var hógvær að eðlisfari og hugsaði fyrst og síðast um að vera manni sínum og dætrum allt. Hún hefði getað náð langt enda í senn glæsileg og hæfileikarík en eins og Jesús sagði:
„Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ (Matt 16.26)
Hér komum við að því sem mestu skiptir og það er að vera sjálfum okkur trú og lifa þannig að við getum mætt örlögum okkar af æðruleysi og í þeirri vissu að við njótum ætíð velvildar Guðs og elsku.
Ása var löngum ánægð með lífið og naut þess að vera til, að eiga góðan og glæsilega mann, vera húsmóðir í góðu hverfi og eiga þrjár myndarlegar dætur. Það var ríkidæmi. Ásgeir var aldeilis myndarlegur í áhafnarfrakkanum og með kaskeitið þegar hann var í fluginu og lífið blasti við þeim. Hann var oft í burtu vegna starfa sinna og dvaldi t.a.m. í 6 vikur í senn í Grænlandi meðan hann flaug þangað. Þau gátu ferðast víða og skoðað heiminn.
Hún var alla tíð ánægð með dæturnar og tengdist þeirri yngstu sérstökum böndum eins og algengt er með móður og yngstu dóttur. Barnabörnin voru henni allt. Fjölskylda hennar er mikið kvennaríki, hún yngst 4 systra og móðir 3 dætra. En svo fóru að koma strákar í hópinn enda ekki vanþörf á. Hún á 20 afkomendur og fréttir herma að sá 21. sé á leiðinni. Brúnalandið var lengi vel fasti punkturinn í lífi baranbarnanna. Þeim þótti gott að vera hjá ömmu sem ætíð var róleg og skammaðist aldrei í þeim, var yfirveguð og róleg og hafði góð áhrif á ungviðið.
Ása var flink í fimleikum á sínum yngri árum og svo lék hún golf með Ásgeiri um árabil en hún var svo hógvær og mikil prívatmanneskja að hún átti ekki auðvelt með að tengjast og eignast nýja golffélaga eftir að hann féll frá en lék oft með ýmsu fólki en gætti þess ætíð að vera ekki uppáþrengjandi. Hún naut þess að vera úti og fá að ganga um grænar grundir á íþróttaskóm og í sportklæðum. Ég veit ekki hvort þið hafið heyrt um kenningu mína um golfið sem kristilegustu íþrótt í heimi. En kenningin er sú að golf sé eina íþrótt veraldar sem komi til móts við klaufaskap og getuleysi í íþróttinni og geri öllum kleift að leika saman hver sem getan er. Til að þetta sé mögulegt hafa kylfingar kerfi sem nefnist forgjöf en ætti í raun að heita fyrirgefning. Okkur sem leikum eru fyrirgefin svo og svo mörg högg eftir getu eða getuleysi. Og nú spyr ég kylfinga sem hér kunna að vera: Hvað ert þú með í fyrirgegningu?
Ása var vandvirk í sínum verkum. Dæturnar rifja upp að hún kenndi þeim margt í sambandi við heimilishald og lagði þeim lífsreglurnar varðandi háttsemi og fágun í framkomu. Hún var sjálf fáguð í hegðun og háttum og kunni allar helstu siðareglur. Hún leyfði dætrunum að blómstra og verða það sem hugur þeirra stóð til. Dæturnar nutu góðs uppeldis í Sogamýrinni og Bústaðahverfinu, fóru í KFUK og á aðrar samkomur barna í hverfinu, lærðu heiðarleika, trúfesti og tryggð.
Ása var glæsileg kona, ætíð vel til höfð og hélt því fram á síðustu daga. Hún tók meira að segja eftir því hvernig dæturnar voru klæddar þegar þær komu í heimsókn í Sóltún jafnvel þótt margt annað væri henni hulið. Hún átti 80 góð ár en svo hallaði undan fæti er hún varð fyrir heilabilun. Hún hætti að keyra bíl 82 ára og það þótti henni mikil frelsisskerðing. Eftir það var hún í 2 ár heima en flutti þá í Sóltún og dvaldi þar til dauðadags. Minni hennar og áttun var skert og það gerði henni erfitt fyrir. Hún lokaðist inni í sínum heimi og skyldi ekki hvar hún var eða hvers vegna hún væri á þessu framandi heimili. Það var erfitt fyrir dæturnar og ástvinina að horfa upp á þessa glæsilegu konu missa áttir. Þau hafa í raun verið að syrgja hana undanfarin ár. Það hlýtur að vera erfitt fyrir fólk sem ætíð hefur haft stjórn á lífi sínu að missa tökin á flestu sem áður lék í höndunum. Hún naut góðrar umhyggju í Sóltúni sem hér er þakkað fyrir og svo komu dæturnar reglulega og tengdasynirnir sem hún hafði ætíð dálæti á og þeir á henni. Barnabörnin heimsóttu ömmu og fjölskyldan öll var hjá henni meira og minna síðustu dagana sem hún lifði.
Þær sögðu mér sögu móður sinnar, dæturnar þrjár. Rifjuðu upp það sem mestu skipti, það sem einkenndi mömmu og það sem hún stóð fyrir.
Við skiljum heiminn í gegnum sögur, sögur af fólki, bæði af staðreyndum um fólk og líka öðru sem er á sviði hins skáldlega.
Saga Ásu hefur verið sögð í mjög stuttu máli hér og nú. Þið sem hana þekktuð eigið um hana margar minningar. Svo er hinn alvitri hugur Guðs sem geymir allt og varðveitir. Við hverfum aldrei úr huga hans jafnvel þótt við gleymumst hér á jörðu þegar allir verða horfnir sem nú þekkja okkur.
Við erum í hendi hans í líf og í dauða. Lærum að lifa í þeirri vitund sem gefur í senn frið og öryggi. Lífið er óvissuferð en utan um það allt er faðmur Guðs sem skilur allt og veit allt. Hann er eins og fjöllin fyrir Austan, traustur og sterkur, veitir skjól og öryggi. Sálmaskáldið kallaði hann „sólnanna sól“. Hann er að baki öllum sólum og að baki þeirri sól sem rís úr hafi fyrir Austan. Altari flestra kirkna snýr í austur, í átt til upprisu sólar og vísar þar með á táknrænan hátt til upprisu Krists og dagsbrúnar nýrrar tilverur.
Við kveðjum góða konu og felum hana himni Guðs, elsku hans og miskunn. Geymi hana nú ljósið eilífa. Guð blessi minningu Ásu Björgvinsdóttur og Guð blessi okkur sem enn erum á lífsveginum. Njótum daganna og lifum lífinu lifandi og í þökk og gleði.
Dýrð sé Guði, föður og synir og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.
Amen.