Guðrún Dóra Petersen 1949-2013

gudrundorapeterenÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Guðrún Dóra Petersen

1949-2013

fv. kennari og starfsmanna- og innkaupasthóri hjá Hans Petersen

Útför (balför) frá Neskirkju fimmtudaginn 14. nóvember kl. 13.

Jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.

Hverjar eru væntingar okkar til lífsins? Byggja þær á ofurbjartsýni eða bölsýni eða hóflegri trú á hið góð og fagra með vitund um að óhjákvæmilegt sé að hafa í lífinu ívaf úr dekkri litum?

Lífið er í senn fyrirséð og óvænt. Það býður upp á undur og ævintýri þegar best lætur en sorg og trega á öðrum stundum. Eitt af því mikilvægasta í lífinu er að geta tjáð sig um það sem mætir okkur á hverjum tíma, að geta talað við einhvern um gleði okkar og sorgir. Orð eru máttug og orð gera hugsunina að veruleika. Orð eru til alls fyrst. Íslenskan á mörg fögur orð. Nú vitum við t.a.m. hvert fegursta orðið er skv. nýrri skoðanakönnun. LJÓSMÓÐIR er fegurst allra orða. Um það segir í skýringu sem fylgdi: „Tvö fallegustu hugtök veraldar sett í eitt.“

Ljós og móðir.

Allt sem við sjáum er endurskin ljóssins. Vísindamenn segja að ljósið hafi komið með Miklahvelli. Það vita þeir nú með tækjum og tólum geimvísindanna. En hugsaðu þér að skáldið sem ritaði sköpunarsögu Biblíunnar, það mikla og merkilega ljóð, fyrir þúsundum ára, sem NB er ekki náttúruvísindi heldur skáldverk, lofsöngur um höfund tilverunnar, vissi þetta sama er hann lét Guð mæla fram sköpunarverkið með mætti orða sinna: „„Verði ljós.“ Og það varð ljós.““

Í geimnum eru engin hljóð en þau óma á þessari undurfögru plánetu sem við byggjum, þeirri einu sem vitað er að hýsi vitsmunalíf. Hér heyrast hljóð og tónlist. Bítlarnir hefðu aldrei meikað það nema hér!

Við sem fæddumst um miðja öldina sem leið og vorum unglingar á þeim 5 árum sem liðu frá því þeir slógu í gegn og hættu, 1963-1968, [hér varð prestinum á því þeir hættu víst ekki fyrr en 1970!] urðum vitni að nýjum tímum, byltingu í hugsun og háttum ungu kynslóðarinnar sem nú nálgast eftirlaunaaldurinn. Við hin sömu höfum einnig upplifað mestu byltingu mannkynssögunnar, upplýsingabyltinguna, tölvu- og netvæðinguna, sem hefur gjörbreytt öllu og fært fólk nær en nokkru sinni fyrr. En um leið stíar tæknir okkur í sundur og veldur firringu. Þannig snýst allt hið góða í veröldinni. Allt byrjar vel en svo koma dekkri hliðarnar í ljós. Þannig var það líka í fyrrnefndri sköpunarsögu. Lífið byrjaði vel en svo fór það út af sporinu. Við förum öll af sporinu. Það kallar Biblían synd og á máli NT, grísku, er orðið HAMARTIA notað fyrir synd sem merkir að missa marks, eins og ör af streng sem hittir ekki markskífuna. Fyrsti bíllinn sem ég átti var þessu marki brenndur, hann var syndugur, hann var með hlaup í stýri sem stöðugt lét hann leita út í kant – og út af – ef ég greip ekki í taumana. Og þegar ég spila golf, kristilegustu íþrótt sem til er, þá nýt ég þess góða kerfis sem golfið býr yfir og sér í gegnum fingur sér við mig hvað varðar geigunina og klaufaskapinn. Kerfið er kallað forgjöf en er auðvitað ekkert annað en fyrirgefning.

Sagt hefur verið að mikilvægustu fjórar setningar, sem vert er að mæla fram áður en við kveðjum þetta líf – og reyndar hvenær sem er á lífsleiðinni – geymi þessi ellefu orð:

Viltu fyrirgefa mér?

Ég fyrirgef þér.

Þakka þér.

Ég elska þig.

Við lifum ekki án fyrirgefningar. Á undan henni kemur elskan sem er forsenda alls hins góða sem við kunnum og getum sýnt í þessu lífi. Og hvar lærðum við fyrst að elska og fyrirgefa? Var það ekki hjá mömmu? Ljós og líf, móðir, menntun, menning. Íslenskan notar orðið menning fyrir það sem aðrar þjóðir nefna kúltúr og vísa til ræktunar. Við vísum til mennskunnar og hins eina fullkomna manns, Krists. Við erum menningarlega og trúarlega tengd honum. Við lifum í samhengi. Erum aldrei ein. Og svo tilheyrum við hinu stóra samhengi alls sem er, erum eins og fiskurinn í sjónum, fuglinn í loftinu, barnið í móðurlífi, fullorðið fólk í heimi sem Guð elskar, heimi sem um leið er markaður af geiguninni sem nefnd var og mistökum okkar manna, en líka böli og þjáningu, sem við hvorki höfum valdið né ráðum við til fulls. Hrörnun og dauði hvers einstaklings hefst þegar ljósmóðirin leggur barnið við brjóst móður. Við deyjum öll.

Guð valdi að gefa okkur fjálsan vilja í stað þess að stýra okkur sem strengjabrúðum eða vélmennum með fjarstýringu. Þess vegna er lífið barningur og böl á köflum en einnig ævintýri og blessun. Skuggi fylgir þessari sköpun. Dauðinn nær okkur öllum í fyllingu tímans og leggur okkur að velli.

Samt er lífið dásamlegt. Við eigum ætíð von og hver dagur færir okkur ný tækifæri.

Bítillinn, Paul McCartney, sem er orðin sjötugur, sendi frá sér nýja plötu nú á dögunum er ber heitið New. Samnefnt titillag er grípandi fallegt eins og hans var von og vísa. Texti lagsins ber í sér visku um tilvist okkar, vonir og þrár. Hann er væntanlega ortur til nýrrar kærustu kappans en má að mínu viti og að breyttu breytanda túlkast í mun víðara samhengi eilífrar elsku. Þar segir m.a. – ég leyfi mér að flytja þetta á ensku – :

Don’t look at me
It’s way too soon to see
What’s gonna be, don’t look at me
All my life
I never knew what I could be
What I could do
Then we were new
oo-oo-oo-oo

Hér fullyrðir þessi frægi maður sem lifað hefur viðburðarríka ævi í gleði – og sorg – að hann hafi aldrei vitað hvað hann mundi verða eða hvað hann gæti gert en svo varð hann nýr, hann og hún, þau. Og við urðum líka ný og verðum stöðugt ný! Þannig er lífið, það gefur ætíð nýja von og á vegi okkar verður líka fólk sem gefur okkur eitthvað og þegar á móti blæs koma vinirnir bestu og styðja okkur.

You came along
And made my life a song
One lucky day you came along
Just in time
While I was searching for a rhyme
You came along
Then we were new
oo-oo-oo-oo

Bítlaspekin rímar við visku aldanna og hina kristnu lífssýn um að aldrei lokist sundin öll. Við verðum ný á hverjum morgni, hvern dag!

Við komum hér saman til að kveðja kæra konu sem er horfin frá okkur allt of snemma.

Guðrún Dóra fæddist í Reykjavík 26. desember 1949. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 6. nóvember 2013 eftir erfið veikindi. Foreldrar hennar voru Hans P. Petersen forstjóri, f. 9.10.1916 í Reykjavík d. 18.6.1977 og Ástríður Helga Petersen húsmóðir, f. 7.6.1919 í Kaupmannahöfn d. 26.10.1981.

Systir Guðrúnar Dóru er Hildur Petersen fv. framkvæmdastjóri Hans Petersen, f. 2.8.1955 í Reykjavík. Maki Halldór Kolbeinsson yfirlæknir á geðsviði Landspítalans f. 21.4.1955. Börn þeirra eru Helga Huld Halldórsdóttir Petersen læknakanditat f. 21.2.1984 og Kolbeinn Hans Halldórsson læknakanditat f. 23.12.1987.

Árið 1972 giftist Guðrún Dóra Kjartani Magnússyni lækni f. 7. september 1949. Foreldrar hans voru Magnús Guðlaugsson úrsmiður í Hafnarfirði og Lára Kristín Jónsdóttir frá Patreksfirði. Guðrún Dóra og Kjartan slitu samvistir árið 1990 en héldu alltaf vinaksap.

Þau eignuðust tvær dætur

Silju f. 4.3.1974, sambýlismaður Gísli Óskarsson og

Telmu f. 5.6.1977, sambýlismaður Óskar Alfreð Beck, þau eiga Maríu Ósk Beck f. 26.4.2002.

Síðar var Guðrún Dóra í sambúð með Gunnari Sigurðssyni um 12 ára skeið.

Hún naut góðs uppeldis og atlætis í æsku. Bernskuárin voru hamingjutími í faðmi fjölskyldu sem hafði nóg að gera í miðborginni en átti líka sínar góðu stundir í sumarhúsi í Fossvoginum og svo var líka dvalið í sveitinni í Húnavatnssýslu hjá Pálínu ömmusystur á bænum Auðkúlu þar sem hún hélt bú með syni sínum, Hannesi.

Guðrún Dóra var dugleg og iðin í námi, yfirveguð og hæglát, fáguð og falleg manneskja. Æskuheimilið var í Barmahlíð og þar bjó líka Þórir uppeldisbróðir mömmu hennar, kona hans Carla og fjölskylda, en sonur þeirra, Hugo, var jafnaldri Gunnu Dóru og alla tíð mikill vinur hennar og lést nú í haust (d.15. sept.), öllum harmdauði. Hann studdi hana í veikindum hennar og gaf henni góð ráð úr sjóði sinna fræða og dýrmætrar lífsreynslu. Blessuð sé minning hans og annarra ástvina sem horfnir eru.

Halldóra móðuramma bjó á heimilinu síðustu árin sín. Þetta voru góðir dagar og gott að búa með tveimur kynslóðum, góðu frændfólki og nágrönnum. Gunna Dóra bjó í Barmahlíðinni fyrstu 18 ár ævi sinnar en á því æviskeiði verða líklegar mestu framfarirnar og breytingarnar í lífi hvers einstaklings.

Leið Gunnu Dóru lá í Verzlunarskólann og frá þeim tíma man ég mest eftir henni sem einni fegurstu stelpu skólans með eilítið óræðan svip, – svona ögn eins og konan á frægasta málverki sögunnar.

Í Verzló kynntist hún Kjartani jafnaldra sínum og eignaðist líka góðar vinkonur sem héldu sambandi alla tíð, hittust reglulega í saumaklúbbi og ræddu málin stór og smá.

Gunna Dóra varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands árið 1970 og lauk Kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands tveimur árum síðar. Hún var kennari bæði við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og einnig við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Frá árinu 1985 til ársins 2000 vann hún hjá Hans Petersen við ýmis stjórnunarstörf, einnig stundaði hún nám við Myndlistarskóla Reykjavíkur.

Hvernig lýsir fólk Guðrúnu Dóru? Hún var dugleg, hlédræg, trú vinum sínum og trygg í alla staði. Hún var vönduð og samviskusöm. Hún var listræn í sér eins og móðir hennar og hafði yndi af listsköpun, naut þess að skoða listaverk, ferðast til útlanda og njóta þar menningar, lista og mannlífs.

Hún fór til Danmerkur ung að árum, einnig til Þýskalands og svo fór hún oftar en einu sinni með Hildi og fjölskyldu hennar til Frakklands og Ítalíu. Hún ferðaðist víða með dætrum sínum, fjölskyldu og vinkonum, bæði ytra og hér heima. Hún vildi gjarnan skoða fjarlæg lönd og framandi og fór m.a. til Kenýa og Brasilíu. Um tíma bjuggu hún, Kjartan og dæturnar í Danmörku þar sem hann lærði krabbameinslækningar og hún bætti við sig í uppeldisfræði og vann á leikskóla. Hún var náttúruunnandi alla tíð sem naut landsins okkar fagra og hafði yndi af að rækta garð, blóm og tré.

Hún teiknaði sem unglingur og fór á sýningar og tók upp pensilinn aftur þegar hún hætti að vinna upp úr 2000, sótti námskeið í myndlist og málaði sér og öðrum til gleði.

Hún var dætrum sínum frábær móðir og stóð með þeim í gengum þykkt og þunnt en þær greindust báðar með vöðvarýrnunarsjúkdóm um 1990 og í kjölfar þess kom í ljós að Gunna Dóra bar í sér sama sjúkdóm sem nú hefur lagt hana að velli.

Dæturnar minnast hennar sem góðrar og ástríkrar móður. „Hún vildi allt fyrir okkur gera“, segja þær, „fór með okkur til útlanda, bara fyrir okkur.“ Dótturdóttir hennar, María Ósk, veitti henni mikla gleði og hamingju og var augasteinn hennar. Hún ætlar nú að stíga fram og lesa lítið saknaðarljóð um ömmu sína.

Gjörðu svo vel, María Ósk.

Ljóð um ömmu

Þegar fyrirtækið Hans Petersen var selt árið 2000 hætti Gunna Dóra störfum en fyrir 10 árum eða svo fór að bera á sjúkdómnum hjá henni og fyrir 3-4 árum fór verulega að halla undan fæti. Síðustu misserin voru henni erfið en hún naut góðrar hjúkrunar í Boðaþingi og í Fossvogi og er öllum þeim sem að komu og hana heimsóttu þökkuð þjónusta og kærleikur í hennar garð.

Þegar hún varð sextug hélt hún veglega afmælisveislu sem hún skipulagði sjálf af sinni smekkvísi. Þar var glatt á hjalla og margs að minnast. Hún var jólabarn, fædd annan daga jóla, og þann dag hélt hún fjölskyldu sinni veislu árum saman og kom ætíð á óvart með frábærum réttum. Seinustu árin var hún hjá Hildi og Halldóri á jólum og naut kærleika þeirra og gestrisni. Þær voru nánar systur, Hildur og hún. Þegar yngri systirin fæddist fékk Guðrún Dóra að velja úr nokkrum nöfnum á litlu systur en sjálf bar hún nöfn bæði föður- og móðurömmu. Hún valdi orrustunafnið – Hildur! Og Hildur barðist með henni og fyrir hana til hinstu stundar ásamt fjölskyldu sinni og dætrum Gunnu Dóru, tengdasonum og dótturdóttur.

Og nú er hún horfin á vit þess ríkis og þeirrar tilveru sem hún var vígð til í heilagri skírn, með sigurtákni upprisunnar á enni og brjóst. Hún gekk grýttan veg hin síðustu árin. Kristur gekk sinn þjáningarveg forðum. Hann dó á krossi en reis upp frá dauðum og lifir! Hin ævafornu orð GT „Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða“, færa okkur almenna speki um örlög allra manna, hverrar trúar sem þeir eru. Kristnin ögrar þessum orðum og hringrás, bætir við og staðhæfir: „Af jörðu skaltu aftur upp rísa.“ Vítahringurinn er rofinn, við verðum ný! Við eigum von um nýtt líf án sjúkdóma, böls og þjáningar. Sú von hefur búið með mannkyni um aldir og árþúsund, von sem fékk vængi með hinum upprisna frelsara, bestu fyrirmynd sem mannkyn hefur eignast. Hann birtist fylgjendum sínum forðum daga og lifir að eilífu! Speki hans og von endurómar í orðum bítilsins:

Then we were new.

McCartney heldur svo áfram og segir:
We can do what we want
We can live as we choose
You see there’s no guarantee
We’ve got nothing to lose

Já, það er engu að tapa. Reiknimeistarar tryggingafélaga geta örugglega fundið það út að skynsamlegast sé að veðja á Guð í lífi og dauða. Það gerði franski heimspekingurinn Pascal með eftirminnilegri framsetningu um áhættumat á lífinu.

Svo höfum við enga tryggingu fyrir langlífi eða góðri heilsu en lífið er í hendi hins upprisna sem sagði:

„Sjá, ég geri alla hluti nýja.“

Then we were new.

Beatle og beatus, bítill og hinn blessaði, eiga báðir von og miðla henni til okkar.

Treystum voninni og væntum þess að allt verði í fyllingu tímans nýtt og aftur heilt.

Fegursta orð íslenskrar tungu er ljósmóðir og vísar til íslensku kvennanna sem færðu börn frá myrkri til ljóss í aldanna rás. Dauðanum er stundum líkt við nýja fæðingu frá myrkri til ljóss. Vill barnið sem fæðist fara til baka til sinna fyrri heimkynna? Nikódemus sá að það var ekki hægt (Jóh 3). Vilja þau sem hafa dáið og vaknað í birtu nýrrar tilveru snúa til baka? Líklega ekki. Þrátt fyrir að þetta líf sé á köflum ævintýri líkast og undursamlegt þegar allt leikur í lyndi og elskan ræður ríkjum þá verður því ekki lifað á ný, enginn getur spólað til baka og breytt staðreyndum, atvikum, ákvörðunum sínum eða örlögum. Lífið er þrátt fyrir allt fagurt og á sér marga staði og minningar eins og fram kemur í laginu In My Life af Rubber Soul plötunni sem Hildur systir kynntist ung í gegnum vegginn á milli herbergja þeirra Guðrúnar Dóru sem spilaði þá plötu nánast í gegnum výnilinn

All these places have their moments
With lovers and friends I still can recall
Some are dead and some are living
In my life I´ve loved them all

Við þökkum vináttu Guðrúnar Dóru, elsku hennar og trúfesti og kveðjum hana með djúpri virðingu og þökk, felum hana hinni nýju tilveru sem kristnin boðar.

Og texti lagsins margumrædda endar á þessum orðum:

Now we are new

– og nú er hún ný!

Guð blessi minningu Guðrúnar Dóru Petersen og Guð blessi þig.

Amen.

Sálmaskráin er hér og þú getur skoðað hvað var sungið:

SalmaskraB4 Guðrún Dóra Petersen.pdf

Hér geturðu heyrt lag Paul McCartney, New.

Ritningarlestrar við athöfnina:

Davíðssálmur 103:1-5

1Davíðssálmur.
2Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
4leysir líf þitt frá gröfinni,
krýnir þig náð og miskunn.
5Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn.

Opinberunarbókin 21:1-5a

Nýr himinn, ný jörð

1Og ég sá nýjan himin og nýja jörð því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið var ekki framar til.2Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum. 3Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. 4Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
5Sá sem í hásætinu sat sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja,“

Jóhannesarguðspjall 3.1-10 og 16-17

Jesús og Nikódemus

1Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, og átti sæti í öldungaráði Gyðinga. 2Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: „Rabbí, við vitum að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gert þessi tákn sem þú gerir nema Guð sé með honum.“
3Jesús svaraði honum: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki nema hann fæðist að nýju.“[1]

4Nikódemus segir við hann: „Hvernig getur maður fæðst þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“
5Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda. 6Það sem af manni fæðist er manns barn en það sem fæðist af anda Guðs er Guðs barn. 7Undrast eigi að ég segi við þig: Ykkur ber að fæðast að nýju. 8Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.“
9Þá spurði Nikódemus: „Hvernig má þetta verða?“
10Jesús svaraði honum: „Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist þetta ekki? [. . . ]

16Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. 17Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.