Elías Valdimar Ágústsson
1932-2013
frá Bolungavík og Ísafirði
Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan.
Hljóðupptakan er einnig þar og hægt er að hlusta
með því að smella á þríhyrninginn eða Play-takkanna.
Friður sé með ykkur.
Hann hefur alltaf verið að flytja
allt sitt líf,
það er honum eins
og að skipta um skyrtu
og ef honum dettur í hug
að fara eitthvað á morgun
fer ég með honum.
(Úr viðtali Guðrúnar Guðlaugsdóttur við Regínu í Mbl 22. janúar 2006)
Með þessum orðum í viðtali sem tekið var við Regínu og birtist í Morgunblaðinu fyrir 7 árum er Elíasi lýst með orðum skáldsins Jóhanns Hjálmarssonar í ljóðabókinni Frá Umsvölum. Hann er farinn í sína hinstu ferð í nýrri skyrtu en nú fer hún ekki með honum. Hún fer seinna og það gerum við líka sem hér erum saman í dag.
Lífið er ferðalag. Við fæðumst aðeins einu sinni og lifum einu lífi á þessari jörð en það líf getur verið sem mörg líf. Og svo er það hitt að lífið að kristnum skilningi er eilíft. Það á sér upphaf en varir að eilífu. Ferðalagið er rétt að byrja!
Elías Valdimar f. 17. nóvember 1932 í Bolungarvík. Hann flutti 7 ára gamall til Ísafjarðar og ólst þar upp í iðandi mannlífi og öflugum bæ.
Foreldrar hans voru Valgerður Kristjánsdóttir f. 21. nóvember 1900 í Súðavík – d. 29. maí 1963 og Sigurður Ágúst Elíasson f. 28. ágúst 1895 á Sandeyri við Djúp – d. 13. sept. 1969.
Systkini Elíasar:
Unnur f. 29.maí 1921 á Ísafirði, lést í Æðey 1. maí 1924,
Rannveig Guðríður f. 22. apríl 1925 á Ísafirði lézt 2. ágúst 1996,
Helga Kristín f. 05. okt. 1928 í Æðey, búsett í Kópavogi,
Guðrún f. 27. júlí 1929 í Bolungarvík lézt 13. júní 2008,
Steinunn Olga f. 29. júlí 1935 í Bolungarvík búsett í Eyjafirði,
Guðmundur f. 2. febrúar 1939 í Bolungarvík lézt 5. júní 2004,
Ágerður f. 12. ágúst 1941 á Ísafirði búsett í Reykjavík og
Auður f. 18. júní 1944 á Ísafirði. Búsett í Reykjavík.
Texti Regnínu:
Elías fluttist 7 ára með foreldrum sínum frá Bolungarvík til Ísafjarðar þar átti hann heima þar til fjölskyldan flutti til Akureyrar þegar hann var 15 ára. Á Akureyri fór hann fljótt að vinna. Vann í verzlunum Kaupfélags Eyfirðinga við Hamarsstíg og í Glerárþorpi. Hann var ötull meðlimur í Svifflugfélagi Akureyrar. Hann var seinna með einkaflugmannspróf bæði í Ástralíu og Texas. Frá Akureyri fer hann til Aarhus Dekoratörskole í Damörku 1953 þar sem hann útskrifaðist með UG í auglýsinga- og skiltagerð. Vann hann um tíma við þá iðju hjá Thorkild Hansen Damekonfektion Kaupmannahöfn. Þegar Elías flytur frá Danmörku var fjölskylda hans flutt til Reykjavíkur. Fljótlega fór hann til New York á vegum American Scandinavian Foundation, dvaldi þar leyfilegt ár og var lærlingur í framhaldsnámi í sama fagi og í Danmörku; þá hjá stórverzlun Ohrbach´s í New Jersey. Snemma árs 1956 gerist hann verzlunarstjóri hjá Silla & Valda á Laugavegi 82. Meðan hann vann hjá S&V hittust Regína og Elli þ. e. í október 1956. Nokkru síðar vann Elli við bústörf hjá ömmusystkinum sínum í Æðey. Kvæntist Regínu, 3. júlí 1957 sem var þá hjúkrunarnemi á Sjúkrahúsi Ísafjarðar. Um áramótin 57- 58 lauk nematíma Regínu á Ísafirði, fluttust þau þá aftur suður. Elli fór þá að vinna sem aðstoðarmaður veðurfræðinga (plottari) á Veðurstofu Íslands á Keflavíkurflugvelli. Regína útskrifast frá Hjúkrunarskóla Íslands í lok maí 1959. Þá var ferðinni heitið til Seyðisfjarðar. Regína sem yfirhjúkrunarkona á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar og Elías réðist til Kaupfélags Austfjarða. Nokkru síðar opnar Elli eigin verzlun á Seyðisfirði en samkeppnin við Kaupfélagið var ekki auðveld og opnaði hann Ellabúð; verzlanir í Reykjavík; þ.e. í Gnoðarvogi og Blönduhlíð; síðar í Selási. Baráttan við Íhaldið í Reykjavík varð honum um megn. Er það fróðleg saga. Elli og Regína sviku bæði Framsóknarflokkinn og fengu vænlega að súpa seyðið af því. Í október 1962 fórum Elli og Regína til Parísar og voru þar í mánuð áður en haldið var til Algeirsborgar. Þá var Ásgerður systir hans (Guðmundur bróðir einnig) við nám í Austur- Þýskalandi og giftist Ásgerður manni frá Alsír. Elli og Regína fengu fljótt vinnu þar hjá Bandarískri hjálparstofnun sem rak sjúkrahús suður af Algeirsborg. Elías sá um lager þ.e. innkaup á lyfjum og tækjum til útbýtingar á mismunandi sjúkradeildir. Regína á barnadeild. Þegar heim kom var flutt aftur til Seyðisfjarðar vann Elli þá í Útvegsbanka Íslands útibúi. Suður er flutt 1965. Elli í Útvegsbanka Ísl. og skömmu síðar deildarstjóri í skódeild SÍS í Austurstræti. Á þessum árum var ein kreppan enn á Íslandi svo slegið var til að gerast innflytjendur til Vestur-Ástralíu. Þar var gott og gaman en frekar einangrað svo ekið var til Sydney; þá er komið árið 1971. Í Sydney var haldið til í kommúnu sem var algengt á þessum tíma og bæði voru í góðri vinnu. Auglýst var eftir hjúkrunarfræðingum til Texas BNA. Regína fékk stöðu eins og skot vegna ofurmeðmæla frá Alsír. Snemma árs 1972 farið til Texas. Elli passaði búgarð hjá jarðeiganda sem fékk styrk fyrir að rækta ekki neitt. Okkur var farið að langa heim til Íslands. Komum við heim um það leyti sem gaus í Vestmannaeyjum. Elli fór þá að vinna hjá Innkaupadeild Loftleiða, líkaði vel en var sagt upp við sameiningu flugfélaganna. Árið 1975 vorum við á grásleppuveiðum á Langanesi. Fluttum um síðan til Kópaskers í ágúst 1976. Flutt var af illri nauðsyn með Loka bezta vininn þar sem hundahald var bannað í Reykjavík. Á Kópaskeri var dvalið tvö dásamleg ár. Elli gerðist vörubílstjóri á Þrótti í nokkur ár. Síðan vann hann hjá Skeljungi þar til hann missti heilsuna vegna hjartáfalls 1996. Eftir þetta náði hann ekki heilsu. Flutti af heimilinu 1999 og bjó í Hátúni 10B þar til yfir lauk. Alltaf héldum við okkar sambandi. Hann kom heim iðulega um helgar og við mörg tækifæri öllum til ánægju.
Niðurlag
Og nú er hann horfinn úr þessu jarðlífi, þessi maður sem lifði sínu lífi og hafði kjark til að láta hjartað ráða. Kannski var í honum útþrá og rótleysi. Og ég spyr: Var rótleysi í fólkinu sem hingað kom á landnámsöld? Er rótleysi í þeim sem færa sig um set og reyna fyrir sér á öðrum stöðum? Er að rótleysi að breyta til eða er það leið lífsins til að breyta heiminum? Líf Ella var viðburðarríkt og það var aldrei leiðinlegt í kringu um hann, segir Regína.
Kveðjur
Elli var sjarmerandi maður sem hafi hæfileika til að hlusta á aðra og setja sig í spor annarra. Hann tranaði sér ekki fram en var hreinn og beinn í samskiptum. Lífi þeirra Regínu var ekki ætíð dans á rósum. Oft var tekist á en alltaf náður sættir. Heimili þeirra var opið gestum og gangandi. Líf þeirra var um margt óvenjulegt. Hún vann lengst af vaktavinnu og barnleysið gaf þeim tækifæri til að lifa á faraldsfæti. Einhver kallaði þau fystur hippana en þau voru þó alltaf borgaraleg í sér, unnu sín störf og voru því aldrei hreinræktaðir bóhemar. Á hátíðum var Elli gjarnan einn heima því Regína var á vöktum. Hann vökvaði lífsbómið alla tíð og stundum um of. En alltaf stóð hann sig enda prinsippmaður. Hann var hagleiksmaður og allt lék í höndum hans, heiðarlegur og hreinlyndur. Hann var alltaf Ísfirðingur í sér og þar gengu þau í hjónaband. Í fyrrnefndu ljóði Jóhanns Hjálmarssonar segir:
Regína sýnir mér mynd
af henni og Ella á Ísafirði
þegar þau voru gefin saman.
Elli tíndi blóm handa henni í Lystigarðinum;
á vörum hans Æðeyjarbros
sem hefur fylgt honum um heiminn
og hjálpað honum
við að vera hann sjálfur,
týnast ekki inn í blóm myrkursins
Í Alsír,
Sydney
eða Texas
eða í Kína.
Og Regína segir í sínum minningum:
„Beztu árin fólust í að pakka niður í tvær ferðatöskur og fara burtu.“
Og nú er búið að pakka. Elli er búinn að pakka. Hann er farinn en eftir sitjum við og bíðum brottfarardags sem nálgast. Lífinu hér lýkur í fyllingu tímans, þessu dásamlega lífi sem kryddað er ýmsum viðfangsefnum. Og lífið lætur okkur oftar en ekki hafa dagana ögn á fótinn. Þannig eflumst við og styrkjumst.
Sálmaskáldið hebreska spyr: „Hvert get ég farið frá anda þínum, og hvert flúið frá augliti þínu?“ (Sl 139.7) Er til einhver tilvera utan hins almáttka sem lýst hefur verið með rúmfræðilegri formúlu sem er svona: Guð er hringur, hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.
Hvar sem við erum, hvert sem við förum, þar er hann sem öllu ræður.
Við kveðjum góðan dreng sem er samferðafólki sínu eftirminnilegur og var að sumra áliti eiginlega of góður fyrir þennan heim. Nú bíður hans önnur tilvist, í annarri vídd.
Far heill og ver Guði geymdur.
Blessuð sé minning Elíasar Valdimars Ágústssonar og Guð blessi þig.
Amen.
Forspil
Bæn
Á hendur fel
Ritningarlestur Sálmur 139
Lífið hún sá í ljóma þeim e. Pál Ólafsson Lag: Ingi T
Guðspjall Matt 5.1-16
Hærra minn Guð – Almennur söngur
Minningarorð
Ave María – Kaldalóns – eins
Bænir og Faðir vor
510 og 511 Nú legg á augun aftur / Ég fel í forsjá þína.
Moldun
Blómstrið 1., 10. og 13. vers
Blessun
Eftirspil
Einsöngvari: Einar Clausen
Organisti: Krystina Kola