Þorsteinn Erlingsson 1962-2013

ThorsteinnErlingssonMinningaroð

Þorsteinn Erlingsson

1962-2013

leiðsögumaður og ritstjóri

Ræðuna er hægt að lesa

hér fyrir neðan.

Einnig er hægt að hlusta á hlóðupptöku

með því að smella á þríhyrninginn (Play)

sem birtist eftir næsta smell.

Friður Guðs sé með ykkur.

„Og ég sá nýjan himin og nýja jörð . . . “ (Op 21.1)

Ein sterkasta þrá sem býr í brjósti sérhvers manns er vonin um betri tíð, betri heim, nýjan himin og nýja jörð. Lífsverkefnin vísa oft til þessarar vonar, starfsval og köllun bera því oft vitni að undir býr vonin um að geta lagt lífinu lið.

Þorsteinn átti sínar vonir og þrár. Hann leitaðist við að sinna göfugum verkefnum. Ungan dreymdi hann um að verða læknir eins og pabbi. Hann varð stúdent frá Menntaksólanum í Hamrahlíð en starfaði legnst af sem leiðsögu- og blaðamaður.

Afi hans og nafni orti:

Við ættjörð sje hugur og heiti þitt fest.
Og hamíngja er til þess að vinna,
hún geymi það meðal þess gulls, sem er best,
og glæstustu nafnanna sinna.
Því heimkynnis lotníng með hjörtunum slær,
en heimsfrægð er köld, hversu vítt sem hún nær.

Ættjörðin var Þorsteini hugleikin. Hann unni landinu og naut þess að starfa sem leiðsögumaður. Í því starfi kynntist hann mörgum og gat með sínu hlýja viðmóti opnað augu ferðamanna fyrir fegurð landsins og töfrum, gæðum þess og gjöfum.

Þorsteinn fæddist í Reykavík 20. september 1962 og var því á 51. aldursári er hann lést 15. júlí s.l.

Foreldrar hans voru Erlingur Þorsteinsson, háls, nef- og eyrnalæknir og Þórdís Todda Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og húsmóðir.

Systir Þorsteins er Guðrún Kristín sem séð hefur á eftir bæði ástkærum foreldrum og bróður á örfáum árum. Hennar sorg og missir er mikill. Maður Guðrúnar Kristínar er Baldur Ármann Steinarsson. Börn þeirra eru tvíburarnir Þórdís Todda og Steinar Berg f. 1997.

Börn Þorsteins eru tvö, Erlingur Þorsteinsson sem hann á með Berglindi Ósk Sigurðardóttur en þau bjuggu sama í nokkur ár og Kristín sem hann á með Erle Enneveer frá Eistlandi en mæðgurnar búa þar og senda sína bestu kveðjur. Þorsteinn og Erle bjuggu saman í nokkur ár. Erlingur yngri býr með Thelmu Björk Guðbjörnsdóttur.

Hálfsystir Þorsteins var Ásthildur Erna  f. 17. mars 1938, d. 22. nóv. 1993, dóttir Erlings af fyrra hjónabandi með Huldu Ólafsdóttur Davíðsson.

Þorsteinn ólst upp við ástríki og öryggi á menningarheimili en víst var pabbi oft upptekinn vegna mikillar vinnu en hann var frumkvöðull í sinni grein og afkastaði gríðarmiklu á sinni löngu starfsævi. Erlingur var eiginlega heil stofnu út af fyrir sig og sinnti lækningum á við heila deild á sjúkrahúsi. Mér er sagt að í dag vinni læknir í hans fagi 3-4 aðgerðir á dag en til samanburðar má geta þess að eitt sinn er Erlingur var í Vestmannaeyjum tók hann kirtla úr 30 börnum fyrir hádegi! Í sjúkraskrám hans voru 55 þúsund nöfn!

Þorsteinn var einstaklega blíður maður og elskulegur í viðkynningu, hár og myndarlegur, bjartur yfirlitum og góðlegur á svip. Hann átti mörg áhugamál, hafði næmt auga fyrir fegurð lands og tók margar fágætar myndir og vann til veðlauna sem slíkur. Á forsíðu blaðs Félags leisögumanna sem ég hef undir höndum er mynd af hinum fagra fugli, lundanum, þar sem hann stendur virðulegur en í haffletinum speglast geislabaugar sem myndavél Þorsteins fangaði svo fagmannlega.

Ást hans á landinu var honum í blóð borin og ljóðin hans afa kyntu undir þeim eldi. Þorsteinn var mörg sumur í sveit. Hann var oft á Bíldsfelli hjá móðurbróður sínum, Þorvaldi og Friðmeyju konu hans og á Syðri-Reykjum í Biskupstungum hjá Ingibjörgu eða Imbu frænku. Þá var hann á Kálfhóli á Skeiðum og svo vann hann ungur í sumarvinnu við Írafossvirkjun.

Suðurlandið með sínu skarti var honum alla tíð hugleikið, blómlegar sveitir, fossar og ár, jöklar og tindar, saga og menning. Allt var það honum hjartfólgið. Hann skrifaði margar greinar um landið og ferðamennsku og svo skrifaði hann greinar um allt milli himins og jarðar í blöð og tímarit. Um árabil skrifaði hann fyrir Sam-útgáfuna og senda eigendur útgáfunnar, hjónin, Þórarinn Jón Magnússon og Oddfríður Steindórsdóttir, sínar bestu kveðjur til ykkar með þakklæti fyrir vináttu Þorsteins, skrif hans og samskipti öll. Þau eru stödd í Noregi.

Einnig kveðja frá Birni Axelssyni fv. mági Þorsteins sem býr á Kanaríeyjum.

Svo er hér önnur vinarkveðja með þessum orðum:

„Elsku þorsteinn. Hjarta thitt var gull. Ég fullyrði að aldrei vissi ég betri mennveru. Og mér thykir svo leitt að geta ekki verið þarna nyrðra til að kveðja thig með virtum. Við klarum okkar verkefni saman hinum megin Almaettid geymir thig. Thinn vinur glumur baldvins“ [stafrétt tilvitnun eftir SMS-skilaboðum]

Í ljóðinu sem fyrr var vitnað til kemur fram að afi hans og nafni taldi heimsfrægðina kalda. Víst er að kalt getur verið á toppnum og svo má ekki gleyma því að frægt fólk er bara venjulegt fólk eins og við. Þorsteinn kynntist mörgu frægu fólki sem leiðsögumaður og einnig fór hann í ferðir til útlanda og tók viðtöl við frægt fólk. Hann vann t.a.m. tvo þætti á sínum tíma sem sýndir voru á Stöð 2 um kvikmyndahátíðina í Cannes. Sumt af þessu fræga fólki kom til Íslands og þá kom fyrir að Þorsteinn fékk upphringingu t.d. frá John Travolta eða Hinrik danaprinsi en þeir hittust af tilviljun í flugvél þar sem prinsinn sat í almennu farþegarými og þeir lentu í sömu sætaröð. Þeir tóku tal sem endaði með því að Þorsteinn bauð honum í laxveiði. Mynd af þeim saman þar sem þeir eru í kláfferju yfir Norðurá prýðir sálmaskrána.

Þorsteinn hafði áhuga á fallegum bílum og átti nokkra eðalvagna og flutti inn sjálfur handa sjálfum sér og öðrum, Porche, Jagúar og fleiri tryllitæki.

Bestu stundirnar átti hann jafnan í Grafningi við útiveru og laxveiði í Soginu en í Grafningi áttu foreldrar hans sumarhúsið Bjarkarhlíð sem var sælureitur fjölskyldunnar og hann erfði að þeim látnum.

Þorsteinn gekk í Frímúrararegluna eins og faðir hans og var bróðir í St. Jóhannesarstúkunni Glitni og hafði náð IX. gráðu í starfi Reglunnar sem er mannræktearfélag sem starfar á kristnum grunni. Hann fékk mikið út úr því starfi og hugmyndafræði þess enda trúaður maður að upplagi sem fór reglulega með bænir fyrir sér og sínu fólki. Frímúrarabræður hans standa heiðursvörð hér í dag og munu bera kistu hans úr kirkju að athöfn lokinn en henni verður komið fyrir úti á kirkjuhlaðinu og þar munum við votta honum virðingu með því að signa yfir í sumarblíðunni. Að bálför lokinni verður duftker hans jarðsett í gröf foreldra hans og móðurömmu hér í Fossvogsgarði.

Föðurafi Þorsteins og nafni orti margt um náttúru og fugla sem voru hans helgidómar eins og reyndar náttúran öll. Hér er eitt af hans ljóðum sem ber yfirskriftina Athvarfið:

Ef ég á eitthvað önugt heima
og eitthvað, sem ég þarf að gleyma,
þá kem ég hingað hvert eitt sinn,
að heyra fagra sönginn þinn.

Og ég tek vor með ástarómi
og yl úr þínum hlýja rómi,
ef illur stormur úti hvín
og andar köldu á blómin mín.

Og þegar öllu er um mig lokað
og ekkert getur hliðum þokað,
þá á ég víðan unaðs heim,
sem opnast fyrir rómi þeim.

Hvar er athvarf að finna í völtum heimi?

Kristin trú boðar alltumlykjandi kærleika Guðs. Hann er hinn hæsti höfuðsmiður himins og jarðar hvers alsjáandi auga sér allt og geymir í hendi sinni. Þegar „öllu er um mig lokað“ á ég þá von að hann leiði mig eins og hann hefur leitt mig um lífsins veg. Hin kristna von um betra líf í þessum heimi nær einnig út yfir gröf og dauða. Vonin um ríki Guðs tekur við af voninni um betri heim. Ríki Guðs byggir á sannleika og réttlæti sem eru einmitt einkunnarorð stúkunnar sem hann tilheyrði. Í bæninni Faðir vor biðjum við um að ríki Guðs komi og vilji hans verði. Þess vegna er kristin trú og von afl og hreyfing til að umbreyta heiminum til hins betra.

Leiðsögumaður, ritsjóri, læknir, hjúrkrunarfræðingur, lögfræðingur, viðskiptafræðingur, móðir, faðir, verkamaður, þingmaður, ráðherra, ruslahirðir, prestur, bílstjóri, bóndi og einnig þau sem enga atvinnu hafa, litla sem enga heilsu eiga, eru hömluð á einn eða annan hátt, öll erum við kölluð til að vinna að eflingu hins góða í þessu lífi í hinni sælu von um betri heim og bjartari og að lokum í von um upprisu og eilíft líf.

Við kveðjum Þorstein Erlingsson með virðingu og þökk og biðjum honum góðrar heimkomu í himni Guðs.

Blessuð sé minning hans og Guð blessi þig.

Amen.

Erfi á Grand Hotel.

Ræða á vefnum.

Postulleg keðja.

Ritningarlestrar við athöfnina:

Opinberun Jóhannesar 21.1-7

Jóhannesarguðspjall 1.1-14

Ein athugasemd við “Þorsteinn Erlingsson 1962-2013

  1. Ég var beðin um að koma kveðjunni frá Glúmi orðrétt til skila og áframsendi hana til þín Örn, daginn fyrir jarðarförina. Kveðjan hljóðar svo: “ Elsku Þorsteinn. Hjarta þitt var gull. Ég fullyrði að aldrei vissi ég betri mannveru. Og mér þykir svo leitt að geta ekki verið þarna nyrðra til að kveðja þig með virktum. Við klárum okkar verkefni sama hinu megin. Almættið geymi þig. Þinn vinur Glúmur Baldvins.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.