Helgi Már Arthursson 1951-2013

Helgi MárÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Helgi Már Arthursson

1951-2013

Útför frá Neskirkju

þriðjudaginn 2. júlí 2013 kl. 13

Jarðsett í Görðum á Álftanesi.

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan.

Sérstakar kveðjur sem bárust eru ekki á hljóðupptökunni en voru fluttar síðar í athföninni og er texti þeirra neðanmáls.

Fyrri hluti upptökunnar: Helgi Már Arthúrsson 1

Seinni hluti upptökunnar: Helgi Már Arthúrsson_Take_1

 

Friður Guðs sé með ykkur.

 

Nú bíðum við þess að bráðum komi

þessi broslausi dagur – og svo þetta högg.

Þegar líf okkar er að lokum aðeins

eitt lítið spor í morgundögg.

Þetta erindi úr ljóði eftir Matthías Johannessen varð Helga Má hugleikið eftir að hann varð fyrir reynslu sem breytti lífi hans.

Og nú hefur annað högg riðið yfir ykkur, ástvini hans, högg sem breytir öllu. Veröld ykkar verður aldrei söm.

Helgi Már ritaði löngu síðar um reynslu sína af því að fá hjartaáfall:

„Ég vissi ekki hvar ég var og vissi trauðla hvað hafði komið fyrir. Ég lá, slöngum vafinn og snúrum, í tjaldi, án þess að vita til þess að ég hefði farið í tjaldútilegu og alls ekki innan um fólk sem talaði tungum. Eina samband mitt við veruleikann var þétt hnýttur, og afskaplega fallegur blómvöndur, ekki stór, en fagmannlega gerður. Litbrigðin glöddu mig. Það var hvítt í honum og blátt, og rautt.“

Þetta er minning Helga þar sem hann hafði í höndum blómvönd forsetafrúarinnar heitinnar.

Og enn tala blómin smá og nú til okkar sem kveðjum þennan væna dreng og vitra, blómin hvít og blá, og rauð – og gul og í fleiri litum.

Helgi var í Finnlandi sem fjölmiðlamaður að fylgjast með forseta Íslands 1997 þegar hann fékk hjartaáfall. Hann var staddur í forsetahöllinni þar sem allur viðbúnaður var til staðar og sjúkrabíll á næsta leyti. En líklega lifði hann fyrir snarræði íslensks starfsfélaga síns, sem skynjaði hvað hafði gerst og kallaði eftir hjálp. Og aftur talar Helgi Már:

„Ég var of veikburða til að láta hjartaslagið fara í taugarnar á mér á meðan ég var að jafna mig í Finnlandi. Það var ekki fyrr en ég kom heim að það fór að renna upp fyrir mér að nú hefði það strik verið sett í reikning minn gagnvart Guði sem ég yrði að taka tillit til.“

Lífið var breytt en Helgi Már leit aldrei á sig sem sjúkling enda þótt hann hefði orðið fyrir þessari gríðarlegu reynslu og svo fengið blóðtappa, fyrst áratug síðar og oft þar á eftir. Hann átti alltaf lífið – og vonina.

Hann nefndi Guð og reikning sinn gangvart honum. Hvernig ætli bókhaldið sé á þeim bæ? Ég trúi því að þar sé meira strokað út en hér í heimi, afskrifað, fyrirgefið, gleymt en þó ekki á neinum skilanefndakjörum, held ég. Guð getur gleymt. Hann gleymir því sem hann vill gleyma en man allt annað. Hann gleymir því sem við biðjum hann að fyrirgefa okkur – og man það aldrei aftur enda þótt við getum ekki gleymt sumu.

En nú er ekki tími til að hugsa um það bókhald heldur réttlætisbókhaldið okkar. Þar er halli á öllu því okkur finnst það svo óréttlátt þegar slíkur maður sem Helgi Már er burtkallaður langt fyrir aldur fram.

Í svipnum hans sé ég æsku okkar

og eitthvað svo viðkvæman sumarstreng,

við skiljum vart þessi óblíðu örlög

sem ætla sér, vinur, þinn góða dreng. (MJ)

Og nú hefur það riðið yfir og við erum öll höggdofa af harmi.

En hver var hann þessi maður sem sagðist hafa fæðst fyrir norðan norðurpólinn?

Helgi Már fæddist á Ísafirði 19. febrúar 1951 og í húsi í Pólgötu 6 rétt fyrir norðan veitingahúsið Norðurpól sem þá var en ólst upp á Hlíðarveginu, var Hlíðarvegspúki eins og það heitir þar í bæ.

Helgi Már var sonur Arthurs Gestssonar, sem er látinn f. 12. janúar 1927, d. 6. september 2009 og Önnu Maríu Helgadóttur, sem kveður son sinn f. 15. september 1927. Systkini hans eru Elín Alma, f. 21. febrúar 1956 og Erlingur, f. 20. febrúar 1961. Helgi Már hlaut gott uppeldi góðra foreldra í öflugum bæ þar sem stór frændgarður bjó.

Eftirlifandi eiginkona Helga Más er Sigríður Árnadóttir, f. 24. maí 1960. Þeirra börn eru Gunnar Arthúr Helgason, f. 23. janúar 1994 og Elín Þóra Helgadóttir, f. 26. júlí 1996. Helgi Már átti fyrir þrjár dætur.

Önnu Maríu Helgadóttur, f. 1. nóvember 1971. Hún á dæturnar Rakel Gunhild og Sölku Rigmor með Boris Schiøler. Móðir Önnu Maríu er Brynja Birgisdóttir.

Rebekku Andrínudóttur Humphris, f. 26. janúar 1981 og er maki hennar Christopher David Humphris.

Söru Andrínudóttur, f. 14. apríl 1983. Maki hennar er Rasmus Poulsen og dóttir þeirra Petra Rebekka Rasmusardóttir. Móðir þeirra Rebekku og Söru er Andrína G. Jónsdóttir.

Ég man vel eftir þessu hávaxna og hugsi strák sem gekk oft framhjá heimili mínu á leið sinni til og frá skóla heima á Ísafirði. Hann var myndarlegur og fríður, klár í fótbolta og námsmaður góður. Hann var alla tíð brosmildur og ögn sposkur á svipinn fannst mér án þess að undir byggi neitt annað en gott en kannski eitthvað írónískt. Þetta var á tímum Bítlanna og hann 13 og ég 15. Þá var tveggja ára munur sem heil kynslóð væri á milli og svo var ég farinn úr bænum suður í nám þegar hann kom fram í blómajakkanum sem mamma hans saumaði með blúndum og öllu regalía Bítlanna og söng í hljómsveitinni Sie með þýskum rithætti.

Hann fór norður í Menntasólann á Akureyri eins og margir Ísfirðingar gerðu áður en Menntaskólinn var stofnaður þar í bæ og lauk stúdentsprófi frá MA árið 1971 og nam sálar- og bókmenntafræði við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla frá 1971-1978. Hann var kennari við Menntaskólann á Ísafirði 1978-1980. Hann var alla tíð mikill Ísfirðingur í sér og geymdi fjöllin og hamrabeltin í hjarta sér og bar þau öll með sér hvert sem hann fór eins og sannir synir og dætur Vestfjarða gera. Kjálkinn er alltaf með í farteskinu með sínum minningum um dómkirkjur í himinháum klettableltum, berjamó og erfiða fjallvegi. Helgi ritaði eitt sinn um vesturferð með Siggu og börnunum og sérstaklega um Þingmannaheiði með þessum orðum:

„Var heiðin sú martröð efnalítilla bifreiðaeigenda á liðinni öld, en að sama skapi ávísun á uppgrip bílaviðgerðarmanna á þeirri tíð. Þekkt minni úr þessum ferðum voru hljóðkútar úr öllum tegundum bifreiða sem lágu eins og fyrir tilviljun í vegkantinum á þessari leið, stundum tveir og þrír saman, rétt eins og menn hefðu ákveðið að skipta um kút úti í náttúrunni.“

Helgi Már sýndi það snemma að hann var einkar ritfær. Hann var vel lesinn og fróður um margt. Helgi Már hafði brennandi áhuga á þjóðfélagsmálum, sögu, ættfræði, bókmenntum og atburðum líðandi stundar. Í honum var strengur skálds og hann átti einkar létt með að ná utan um mál og koma þeim fyrir í læsilegum texta. Hann hélt dagbók árum saman og skrifaði margt gott og spakt.

Svo var hann alla tíð ögn stríðinn prakkari.

Börnin hans yngstu brostu þegar þau rifjuðu upp hvað hann hafði mikla gleði af að fylgjast með námi þeirra. „Ef pabbi var spuður, þá kom allt of mikið!“, sögðu þau.

Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu og vikublaðinu Nýju landi 1980 og 1981, sá um útgáfu, fræðslu- og upplýsingamál fyrir BSRB 1982-1986 og var ritstjóri BSRB tíðinda. Hann var blaðamaður og ritstjóri á Helgarpóstinum til 1988. Helgi Már var eftir það fréttamaður á Stöð 2 og síðar í Sjónvarpinu, þar sem hann var meðal annars þingfréttamaður. Að þeim tíma loknum hóf hann störf í heilbrigðisráðuneytinu árið 1998 og var upplýsingafulltrúi og síðar skrifstofustjóri þar til ársloka 2010 þegar velferðarráðuneytið var stofnað. Hann sat í stjórn Blaðamannafélags Íslands um árabil.

Æskustöðvarnar fyrir vestan voru honum afar kærar og saga forfeðra hans og mæðra var honum ávallt hugleikin. Hann var alla tíð mikill áhugamaður um ljósmyndun og eftir hann liggja þúsundir mynda en fáar af honum sjálfum.

Viðfangsefnin og áhugamálin sýna vel hversu vel Helgi var alla tíð tengdur við fólk og fjörð, sögu og menningu þessa lands. Hann var jarðbundinn en um leið himintengdur með tilfinningu fyrir samhengi hlutanna. Hann átti auðvelt með að greina hismið frá kjarnanum og sjá hvað skipti mestu. Hann elskaði lífið og þráði að lifa lengur en svo kom höggið.

Lífið er dýrmætt en það er svo stutt. Vakna ég á morgun? Verð ég hér eftir mánuð? Fagna ég næsta afmæli? Hvenær kemur höggið? Hvernig verð ég kvaddur, hvernig verðum við kvödd?

Við uxum úr grasi með glitrandi vonir

en gleymdum oftast að hyggja að því

að það er ekki sjálfsagt að sólin rísi

úr sæ hvern einasta dag eins og ný. (MJ)

Vinkona Helga frá námsárum hans í Danmörku, Lisbeth Nebelong, sem er orðin verðlaunarithöfundur og það að vissu marki fyrir atbeina Helga, hvatningu og ráð að sögn skáldkonunnar sjálfrar, sendi Sigríði fallegt bréf. Hún segir þar hvernig hún óf orðum og reynslu Helga og persónum úr fjölskyldu hans inn í eina skáldsagna sinna sem er í smíðum og koma mun út á næsta ári. Hún gerist í Færeyjum. Helgi fékk að sjá drög að sögunni er þau hittust í Köben í nóvember 2011. Lisbeth skrifar:

„En nú mun hann ekki lesa endi sögunnar, en innblástur hans, andi hans ef svo má segja, er þar með, og einnig bein tilvitnun – úr kafla sem hann skrifaði mér þegar ég varð fimmtug og ég nota um vináttusamband tveggja skáldsagnarpersóna, Eriks og Kára: „Í þrjátíu ár höfum við verið samferðafólk hvort í sínu landi.“

Hér eru vinir saman komnir, ástvinir og samferðafólk Helga Más. Hann er horfinn en við eigum minningarnar. Saga hans er ekki á enda því við höldum henni áfram með því að minnast hans og tala um hann. Þannig höldum við því áfram sem Guð hefur skapað. Við sköpum veruleikann með orðum okkar og athöfnum, sköpum þeim eilífð sem horfin eru með minningum okkar, orðum og sögum. Við og hann erum enn samferðafólk, hann í sinni vídd og tilveru og við hér í þessum heimi tímans og tregans, uns við söfnumst öll þar sem hann er nú, ég og þú, samferðafólk á sömu leið.

Og enn mælir skáldið:

Og veröldin kom eins og vorbjört nóttin

með vinalegt bros og gleði til þín,

og lífið kom einnig með ótal drauma

í óvænta franska heimsókn til mín. (MJ)

Lífið er dásamlegt þrátt fyrir allt og enda þótt sorgin gisti nú hug og hjarta er enn von um bjarta daga og góða í þjónustu við Guð og samferðafólk. Erfiðast við að kveðja þetta líf fyrir fólk á besta aldri er líklega að kveðja börnin og ástríkan maka. Sigríður hefur  staðið með manni sínumn í gegnum þykkt og þunnt ásamt börnum þeirra, systkinum og móður Helga. Þegar Sigga söðlaði um og fór í lögfræðinám sagið Helgi: „Ég sé um þig núna og svo sérð þú um mig.“ Þau orð rættust en þó með örðum hætti en ætlað var.

Sigríður skrifaði mér og sagði:

„Fyrst og síðast voru það börnin. Þau voru honum allt. Hann þráði svo að sjá þau vaxa úr grasi og komast til manns en óttaðist að hann fengi ekki að vera hjá okkur lengi.

Helgi vildi taka daginn snemma. Krakkarnir og ég hlógum dátt þegar hann sagði í fríum „nú tökum við daginn snemma“ en þá vildum við (kannski bara ég) einmitt sofa út og taka daginn seint. Hann tók daginn snemma þegar hann lagði upp í síðustu ferðina – allt of snemma.“

Þið, kæra Sigríður, Gunnar Arthúr og Elín Þóra og systurnar eigið lífið framundan með úrvinnslu úr missinum, með tárum og trega en líka brosi og hlátri yfir góðum minningum um einstakan eiginmann og föður. Þið munuð njóta stuðnings okkar allra og sérstaklega þeirra sem næstir standa. Og kæra, Anna, við skynjum öll að það er erfitt að sjá á eftir syni sínum. Við vitum öll að foreldrar eiga ekki að þurfa að kveðja börnin sín og ung börn ekki foreldri sitt. En vilji okkar ræður víst litlu þegar sjúkdómar herja sem mannfólki ræður ekki við með lærdómi og þrotlausri leit að lausnum.

„Hvað eigum vér þá að segja við þessu?“

sagði postulinn og bætti við:

Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?“

Já, við eigum allt með honum, eigum lífið og líka eilífðina sjálfa vegna þess að hann er þar, hann sem sagði:

„Ég lifi og þér munuð lifa.“

Í honum er vonin, honum sem ástvinur okkar var helgaður sem ómálga barn og vígður þeirri eilífð sem hann nú gistir og við munum gista með honum í fyllingu tímans.

Og jafnvel þótt lífið sé  bara „eitt lítið spor í morgundögg“ þá á það sér viðreisnarvon skv. orðum skáldsins Einars Benediktssonar:

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

Það stefnir á æðri leiðir.

Og svo að lokum skulum við halda í vonina sem lesa má úr orðum Lennons í okkar samhengi, núna, enda þótt þau hafði verið sögð af allt öðru tilefni og í allt öðru samhengi, orðin úr laginu sem Helgi Már hélt svo mikið upp á:

„I’m Only Sleeping“.

Guð blessi minningu Helga Más Arthúrssonar og Guð blessi þig. Amen.

– – –

Jarðsett í Görðum á Álftanesi.

Erfidrykkja áður en farið verður í garðinn.

Ræðan á vefnum.

– – –

Flytja þessar kveðjur eftir lagið I’m Only Sleeping og á undan Miskunnarbæn og Lofsögn Símeons.

Kveðjur frá:

Magnúsi Jóhannessyni í Tromsö og konu hans Ragnheiði Hermannsdóttur sem þakka góð kynni og samverustundir allt frá bernskudögum;

frá Jóhanni Páli Símonarsyni sem er á sjó og þakkar Helga góð ráð í baráttunni fyrir betra þjóðfélagi;

frá Vilbergi og Ágotu í Ungverjalandi sem þakka vináttu allt frá æskudögum á Ísafirði og samskipti í gengum tónlistarskólann Do-Re-Mi og allar myndirnar sem Helgi Már tók á tónleikum nemenda;

frá vinahjónum, Guðrúnu Theodórsdóttur og Kristjáni G. Björnssyuni, Guðrúnu og Didda, sem eru stödd í BNA.

Ljóðið

Minning um dreng 

sem fléttað var inn í minningarorðin er eftir Matthías Johannessen. Helgi Már skrifaði um reynslu sína eftir hjartaáfallið og sagði:

„Og tilfinningin sem smám saman kviknar í manni eftir áfallið, hvernig er hún? Hún er eins og djúpvitur Matthías:

Nú bíðum við þess að bráðum komi

þessi broslausi dagur – og svo þetta högg.

Þegar líf okkar er að lokum aðeins

eitt lítið spor í morgundögg.

Hér er ljóðið í heild:

MINNING UM DRENG

Í svipnum hans sé ég æsku okkar

og eitthvað svo viðkvæman sumarstreng,

við skiljum vart þessi óblíðu örlög

sem ætla sér, vinur, þinn góða dreng.

Við uxum úr grasi með glitrandi vonir

en gleymdum oftast að hyggja að því

að það er ekki sjálfsagt að sólin rísi

úr sæ hvern einasta dag eins og ný.

Og veröldin kom eins og vorbjört nóttin

með vinalegt bros og gleði til þín,

og lífið kom einnig með ótal drauma

í óvænta franska heimsókn til mín.

Nú bíðum við þess að bráðum komi

þessi broslausi dagur – og svo þetta högg.

Þegar líf okkar er að lokum aðeins

eitt lítið spor í morgundögg.

Tveggja bakka veður
Ljóðabók eftir Matthías Johannessen (1981)

Ritningarlestrar í athöfninni:

Jesaja 57.14-16

Friður veitist auðmjúkum

14Einhver segir:

Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,

ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.

15Því að svo segir hinn hái og upphafni

sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:

Ég bý á háum og helgum stað

en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda

til að glæða þrótt hinna lítillátu

og styrkja hjarta þjakaðra.

16Ég þreyti ekki deilur eilíflega

og reiðist ekki ævinlega,

annars mundi kjarkur þeirra bila frammi fyrir mér

og lífsandinn sem ég skapaði.

Upphaf Fjallræðu Jesú sem nefnd hefur verið stjórnarskrá Guðsríkisins:

1Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:

3„Sælir eru fátækir í anda

því að þeirra er himnaríki.

4Sælir eru syrgjendur

því að þeir munu huggaðir verða.

5Sælir eru hógværir

því að þeir munu jörðina erfa.

6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu

því að þeir munu saddir verða.

7Sælir eru miskunnsamir

því að þeim mun miskunnað verða.

8Sælir eru hjartahreinir

því að þeir munu Guð sjá.

9Sælir eru friðflytjendur

því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir

því að þeirra er himnaríki.

[. . . ]

Salt og ljós

13Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

14Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

Bæn við upphaf athafnar:

Ég veit ekki hvert þú ert að leiða mig.

Ég veit ekki einu sinni hvað næsta

klukkuslag færir mér, næsti dagur,

komandi vika.

Er ég leitast við að hafa opnar hendur

treysti ég þér að þú takir í hönd

mína og leiðir mig heim. Þökk sér þér

fyrir kærleika þinn. Amen.

(Henri Nouwen)

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.