Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Bergljót Halldórsdóttir
1938-2022

Útför (bálför) frá Fríkirkjunni í Rvk.
þriðjudaginn 19. apríl 2022
Sálmaskráin er neðanmáls og kveðjur sem bárust voru fluttar eftir blessun og eru ekki með á hljóðupptökunni.
Ég gef mér það að þið séuð sammála mér um að heimurinn þarfnist friðar og sáttargjörðar. Og þá er ég ekki aðeins að tala um fjarveru stríðsátaka heldur sáttargjörð sem felst í meiri jöfnuði og samkennd meðal fólks.
Í gærkvöld var frábær þáttur á RÚV um 4 konur af erlendu bergi brotnar sem hingað hafa leitað og sezt hér að. Fagur vitnisburður um góðar manneskjur sem lagt hafa landi og þjóð lið með kröftum sínum og kærleika.
Sáttargjörð. Um hana sagði postulinn Páll fyrir tæpum 2000 árum:
„Því að það var Guð sem í Kristi sætti heiminn við sig er hann tilreiknaði mönnum ekki afbrot þeirra og fól mér að boða orð sáttargjörðarinnar.“ (II. Kor 5.19)
Páll postuli sá hlutverk sitt í að boða sáttargjörð milli manna og Guðs og tjáði það með þessum orðum sínum í II. Kórintubréfi.
Heimurinn er ætíð í þörf fyrir sáttargjörð. Nú geysar stríð í Úkraínu þar sem nágrannaþjóð ræðst með offorsi og hatri að heimamönnum sem verjast hetjulega. Sáttaumleitanir hafa ekki enn borið árangur en vonin um frið og sættir lifir með einstaklingum og þjóðum sem finna til með þjáðum.
En sáttargjörð varðar ekki einungis þjóðir þar sem menn berast á banaspjót heldur líka þau sem orðið hafa ósátt á lífsveginum. Við höfum fylgst með umræðunnin um hegðun ráðherra nokkurs gagnvart konu sem hann talaði til niðrandi orðum. Þau hafa sem betur fer hizt og sæzt og það felur í sér sáttargjörð.
Að biðjast fyrirgefningar og leita sátta er einskonar réttarfarslegur gjörningur. Sá sem finnur sig sekan og biðst fyrirgefningar getur þegið hana eða verið hafnað. Sá sem er fórnarlambið situr í raun í dómarasæti og getur sektað með því að neita að fyrirgefa eða fyrirgefið og þar með náðað viðkomandi, fellt síknudóm.
Og það er einmitt það sem Guð auðsýnir okkur mannfólkinu, hann tilreikna okkur ekki afbrot okkar, eins og postulinn orðar það, en hvetur okkur til að leita sátta.
Í dag er þriðji í páskum sem er stærsta hátíð kristninnar og sú sem allt starf hennar hvílir á. Upprisan er grundvallaratriði í kristinni trú, vonin um eilífðina. Á krossi mætast tveir ásar, lóðréttur og láréttur. Á krossi Jesú Krists mætast heimur og himinn, synd og fyrirgefning, dauði og líf, hatur og elska. Krossinn leysir okkur og frelsar í Kristi.
Við erum komin saman hér til að kveðja Bergljótu Halldórsdóttur. Hún var Reykjavíkurmær í húð og hár eins og sagt er.
Hún fæddist 15. febrúar 1938 á æskuheimili sínu að Barónsstíg 78.
Hún lést að Hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi þann 1. apríl 2022.
Foreldrar hennar voru Halldór Símonarson stýrimaður f. 9. júlí 1897 – 25. nóv. 1986 og Óla Guðrún Magnúsdóttir sem var Kvennaskólagengin f. 23. mars 1916 – 18. júlí 2000.
Bergljót eða Bebba eins og hún var ávallt kölluð var miðdóttir foreldra sinna.
Systur hennar eru tvær,
Margrét f. 25. jan. 1937 og
Ásdís f. 17. júlí 1940.
Bergljót giftist Leifi Ísleifssyni, kaupmanni, 10. september 1955.
Leifur var fæddur 23. maí 1934 og lést 19. mars 2021.
Foreldrar Leifs voru þau Ísleifur Jónsson f. 1899, d. 1980 og Svanlaug Bjarnadóttir f. 1905, d 1981.
Þau eignuðust 5 syni þá
Halldór f. 22. febrúar 1955,
Grétar f. 14. sept. 1957,
Trausta f. 18. okt. 1959,
Ísleif f. 20. apríl 1965 og
Lárus f. 6. nóv. 1970.
Halldór á með fyrri eiginkonu sinni Ingibjörgu Ólafsdóttur f. 1958 dæturnar Bergljótu Björk f. 1977, Söru Lovísu f. 1984 og Katrínu Rut f. 1994. Bergljót Björk er gift Ingólfi Stangeland f. 1968 og eiga þau synina Hilmi Viktor f. 2005 og Valtý Karl f. 2010. Sara Lovísa er gift Gísla Páli Sigurðssyni f. 1983 og eiga þau dæturnar Thelmu Hrönn f. 2009 og Heiði Karen f. 2012.
Grétar er kvæntur Önnu Lindu Aðalgeirsdóttur f. 1954. Grétar á með fyrri eiginkonu sinni Jónu Sæmundsdóttur f. 1958 börnin Sóleyju f. 1980, Leif f. 1985 og Sigurveigu f. 1988. Sóley átti með fyrrum eiginmann sínum Eduardo Miguel Ruiz f. 1980 synina Erik f. 2009 og Thómas f. 2012. Leifur er kvæntur Láru Sif Christiansen f. 1988 og eiga þau soninn Loga Rafn f. 2020.
Trausti er kvæntur Guðbjörgu Jónsdóttur f. 1959 og eiga þau synina Jón Árna f. 1984, Bjarka f. 1989 og Bergþór f. 1994. Jón Árni er í sambúð með Maríu Finnsdóttur f. 1986 og eiga þau Baltasar Magna f. 2014 og Laufeyju Björgu f. 2018. Bjarki er í sambúð með Stefaníu Karlsdóttur f. 1990 og eiga þau dæturnar Eldeyju Björt f. 2012 og Sögu Sóldísi f. 2015.
Ísleifur er kvæntur Gróu Ásgeirsdóttur f. 1985
Lárus er kvæntur Arnfríði Nikulásdóttur Mathiesen f. 1980 og eiga þau börnin Ísleif Jón f. 2005, Sigurð Erni f. 2008 og Arneyju Fjólu f. 2015.
Bergljót gekk í Austurbæjarskóla og Gagnfræðaskóla Austurbæjar og var húsmóðir fyrst og fremst allt sitt líf er sá fyrir stórri fjölskyldu auk þess að passa mörg barnabörn sín. Bergljót var listræn í sér og mikil hannyrðakona. Bergljót var mikill göngugarpur og unni góðum og heilbrigðum mat sem margir hafa notið.
Ég bað syni og tengdadætur sem ég hitti að nefna það sem þeim væri efst í huga að Bergljótu genginni.
Ekki stóð á svörum.
Hún var teinrétt og viðurleg, ætíð vel klædd, listræn hannyrðakona sem prjónaði, saumaði og teiknaði. Hún hugsaði alla tíð mikið um heilsu sína, stundaði líkamsrækt, borðaði hollan mat og gaf Leifi og strákunum það sama, góðan mat, grænt meðlæti og holl brauð. Hún var dálítil skvísa í sér og þegar efnahagur þeirra hjóna vænkaðist ögn valdi hún sér gjarnan merkjavöru.
Hún var greind og klár, rökföst og róleg í fasi. Mamma var alltaf heima, sögðu þeir, og gaf okkur öryggi og athygli.
Hún þjónaði strákunum alla daga, klæddi þá í hversdags- og íþróttaföt eftir því hver dagskráin var og í spariföt á sunnudögum og sendi þá í barnastarf kirkjunnar. Allnokkur ár eru á milli þeirra þriggja elstu og hinna tveggja yngstu. Ég segi gjarnar við systkinahópa að engin tvö systkin eigi í raun nákvæmlega sömu foreldra. Bebba og Leifur voru á allt öðrum stað í lífinu þegar Halldór fæddist en þegar Lárus kom til. Þroski foreldra breytist, efnahagur, aðstæður og svo breytist þjóðfélagið. Svo eru engir tveir eins, hafa ólíka skapgerð og þroskast hver á sinn hát. Strákarnir voru farnir að heiman fyrir tvítugt en stundum heyrist pískrað um að það teljist afrek ef unga fólkið nú til dags sé farið að heiman fyrir fertugt!
Nú eru tímarnir breyttir. Konur hafa fengið meira frelsi og möguleika og er það vel, en börn nútímans hafa misst hina heimavinnandi mömmu og fengið leikskóla í stað foreldra. Bæði kerfin hafa sína kosti og galla, trúi ég. Svo gætti hún allra barnabarnanna um tíma meðan þau biðu eftir plássi á leikskóla og hafði mikla gleði af.
Þau hjónin bjuggu fyrst á Barónstíg 78, svo á Neshaganum og loks í Haðalandi 1 og þar naut Bebba þess að stundað garðrækt. Þá má ekki gleyma sumarbústaðnum sem var þeirra sameiginlega áhugamál. Í fjölskyldunni var töluðu barnabörnin um að fara í Afasveit sem er í Dalabyggð, í Reykjadal í Hrunamannahreppi en Afasveit fékk líka hið húmoristíska nafn, Leifsstöð.
Hún var útivistarkona og göngugarpur og þau Leifur nutu þess að fara saman í góðan göngutúr flesta daga meðan heilsan leyfði.
Bebba var kát og létt manneskja, frændrækin og almennileg við samferðafólk sitt.
Hún var sóldýrkandi og á köldum en sólríkum vordögum sat hún í dyrunum í skjóli og naut geislanna.
Þau höfðu yndi af að feraðst og fóru árlega í sólina þegar á leið og efnahagur vænkaðist. Leifur fór líka í margar vinnuferðir fyrir fyrirtækið sem kennt er við föður hans, Ísleif Jónsson, en þar vann hann alla sína starfsævi.
Eftir breytingaraldurinn fór að halla ögn undan fæti hjá henni og hún glímdi við verki í hálsi og baki. Hún dró sig smám saman inn í skel. Hún var reglumanneskja, smakkaði á rauðvíni með mat, reykti ekki. Hún sat sjaldan kyrr og var ætíð virk og kvik á fæti. En svo fór minnið að dvína og minnisglöp fóru vaxandi. Hún hafði ætíð haft ánægju af að leysa krossgátur en hún réð síður við þá iðju þegar minnið var farið að gefa sig.
Myndirnar í sálmaskránni tjá lífsferlið, innilegur koss á unglingsárum, en þau kynntust er hún var 16 ára og önnur þar sem þau eru falleg saman á góðri stund, loks saman með göngugrindur, og hún í útivist á sínum bestu árum og svo passamynd á forsíðu og loks handtök þeirra er hún kvaddi Leif.
Árð 2020 áttu þau 65 ára brúðkaupsafmæli og höfðu þá verið saman frá því hún var 16 ára og gengið saman í gegnum súrt og sætt.
Hún naut umhyggju á hjúkrunarheimilum hin síðari misserin. Hún var á Vífilsstöðum um tíma og strákarnir og tengdadæturnar tvær sem ég hitti, sögðu hana hafa þeyzt þar um á hjólastólnum eins og sjálfur Speedy Gonzales væri. Hún var eftir þetta á hjúkrunarheimili á vegum Hrafnistu við Sléttuveg þar sem hún lést.
„Hún er svo ótrúlega seig“, sagði hjúkrunarfræðingur við Lindu, tengdadóttur hennar, skömmu áður en Bergljót kvaddi.
Margs er að minnast. Þið, kæru bræður, eruð í þeim sérstöku sporum að hafa kvatt bæði pabba og mömmu. Nú eruð þið í komnir í fremsta vagninn ef svo má að orði komast. Það verða skil í lífi fólks þegar báir foreldrar hafa verið kvaddir.
Vonandi eigið þið mörg ár framundan og megi þið finna leiðir til að efla hamingju og gleði ykkar á meðal og njóta þess að lifa í samfélagi við Guð og menn í sátt og samlyndi.
Við kveðjum Bergljótu Halldórsdóttur og þökkum fyrir líf hennar og allt það góða sem hún gaf af sér til ástvina og samferðafólks – til lífsins.
Nú stefnir hún sjálf til þess lífs sem Guð býr henni í trúnnin á upprisu og gleði himinsins.
Blessuð sé minning, Bergljótar Halldórsdóttur og megi Guð blessa þig og leiða á lífsveginum þar til kallið hans kemur. Amen.


Kveðjur:
Mágur Bergljótar, Jón Ísleifsson, sendir samúðarkveðjur til ástvina en hann átti ekki heimangengt.
Þá hefur borist kveðja frá Jonna frænda og fjölskyldu sem eru úti á landi en biðja fyrir samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.
Ásgeir Sigurður, mágur Lárusar, þakkar fyrir allt sem Berljót og Leifur gerðu fyrir hann og biður fyrir kveðjur til ykkar, en hann býr í Færeyjum.