Auðmýkt og lítillæti – Humilitatis
Prédikun við messu í Neskirkju sunnudaginn 12. október 2014 – 17. sd. e. trinitatis
Textar dagsins eru hér.
Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan. Einhver innskot eru í ræðunni sem ekki eru í textanum.
Bæn . . .
Heilsan . . .
Velkomin í ræktina!
Hefurðu litið á kirkjuna sem þjálfunarstöð í mannrækt?
Ertu komin/n í ræktina? Ef við skoðum eðli messunnar þá er fólgið í henni að eiga samfélag við Guð um verkefnin á lífsveginum og samfélag við samferðafólkið. Guð talar til okkar í visku aldanna.
Í lexíunni erum við minnt á að viskan sé dýrmætari en gull og skynsemin betri en silfur. Sagt er að dramb sé falli næst og hroki viti á hrun. Ég ætla samt ekki að tala við ykkur um hrunið. Postulinn ræðir um lítillæti og hógværð og sama gerir Jesús í guðspjallinu. Hér er talað til allra, hárra sem lágra. Án efa hefur það átt sér stað á vissum stöðum og tímum að kirkjan eða í það minnsta einstakir prestar hafi misnotað vald sitt og beitt slíkum textum um auðmýkt og lítillæti til að halda fólki niðri og gera það auðsveipið og hlýðið yfirvöldum eða þeim sjálfum. Syndin er lævís og lipur, segir á einum stað og víst er að fagnaðarerindinu hefur verið og verður ætíð misbeitt í einhverri mynd á öllum tímum. En hinu má aldrei gleyma að fagnaðarerindið er hreint og tært af hendi Guðs og það á erindi við alla, hvar í stétt sem menn standa og það ber í sér í senn áminningu og uppörvun, leiðbeiningu og hvatningu – til allra! Forðum daga áður en þrælahald var aflagt gátu þrællinn og húsbóndinn sótt sömu messu og heyrt sömu prédikun um ríki Guðs og himinn hans enda þótt hinn ytri heimur utan kirkjuhússins hafi ekki endurspeglað hina kristnu von sem skyldi. Og samtíð okkar gerir það ekki heldur enda þótt við getum vissulega fagnað sigrum og framförum á mörgum sviðum á liðnu árum og áratugum. Heimur verslandi fer, er stundum sagt en ég held nú að honum fari fremur fram en hitt. Margt hefur orðið til batnaðar í mannlífinu á minni ævi. Við erum komin mun lengra í átt til réttlætis á mörgum sviðum en áður var og má í því sambandi benda á sókn að marki jöfnuðar karla og kvenna. Margir hópar hafa fengið rödd og mál og geta nú tjáð sig opið og fengið að vera eins og þeim eru lagið að vera. Að vísu er enn beitt ofbeldi og morð framin í heimi hér og sríðsvélarnar rymja áfram. En í því svartnætti lýsa skær ljós eins og pakistönsku konunnar Malölu Yousafzai og indverjans Kailash Satyarti sem bæði hlutu friðarverðlaun Nóbels 2014 fyrir einstakt hugrekki og baráttuþrek í þágu samferðafólks síns.
Ein manneskja getur með hugrekki sínu og réttlætiskennd áorkað miklu. En gerist slíkt með hógværð? Þarf fólk ekki að sýna af sér að vera stærilátt og hnakkakerrt til að geta ögrað ógnandi öflum og andstöðu sem á stundum beitir vopnum til þess að þagga niður í rödd skynseminnar og elskunnar? Vissulega þarf að sýna ákveðni og festu andspænis órétti og lygi. Auðmjúk manneskja getur vissulega verið föst fyrir og ákveðin. Auðmjúkur maður getur borið höfuð sitt hátt og sýnt hugrekki. Auðmýkt er ekki það sama og undirlægjuáttur eða aumingjaskapur. Auðmjúkur er sá sem veit sig vera minni en hið æðsta, veit sig vera agnar ögn í ógnarstórri tilverunni en veit að hann á bakhjarl í hinum hæsta, í rættlætinu sjálfu og sannleikanum. Hann hugsar ekki hærra um sig en hugsa ber en veit nákvæmlega hvar hann stendur og hvað hann megnar. Þess vegna kenndi Jesús í upphafi Fjallræðunnar: „Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.“ Það merkir að vera lítillátur, hógvær, að vita sig vera þurfamann Guðs. Andans fátækt vísar ekki til menntunar eða þekkingar heldu þess að vera fátækur og vita sig eiga Guð að vini í öllu lífi. Hann sagði líka: „Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.“
Við eigum að vera hógvær segir frelsarinn og lítillækka okkur. Andspænis þeirri kröfu kunnum við að spyrja: En er það nú ekki of langt gegnið, Jesús, að krefja okkur um lítillækkun? Orðið auðmýkt og lítillækkun eru skyld latneska orðinu humilitatis en það er komið af humus sem merkir jörð. Maðurinn er af jörðu kominn. Hann er mold og hverfur aftur til moldar. Við erum því sama eðlis og allt annað líf, maðkur og mús, fiskur og fugl, gras og strá, vatn og villisvín. „Hold er mold hverju sem það klæðist“, sagði séra Hallgrímur. Við eigum að kannast við eðli okkar, muna hver við erum í þessum heimi. Við erum af jörðu, en eigum okkur himneskan uppruna.
En þá kunna einhver ykkar að spyrja: Hvers vegna er Guði svona mikið í mun við höldum okkur á mottunni gagnvart sér? Vill hann bara drottna yfir okkur og beygja í duftið?
Spurningin sem af þessu sprettur er: Hver er forsendan fyrir því að við beygjum okkur undir vilja Guðs?
Forsendan leynist í pistli dagsins þar sem segir: „Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.“
Guð er faðir. Hann er æðstur. Hann er faðir allra. Honum má ennfremur líkja við móður. Guð er sagður vera yfir öllum en það er ekki í drottnunarskyni heldur segir postulinn að hann sé með öllum og í öllum. Hér er vísað til þess að Guð hinn hæsti hefur lítillækkað sig og gerst einn af okkur í Jesú Kristi og hann fyrir anda sinn er með okkur öllum og í okkur öllum. Hinn hæsti hefur lítillækkað sig algjörlega í Jesú Kristi og dáið á krossi. Það heitir kenosis á grísku, læging á íslensku.
Páll postuli ritaði til Filippímanna og sagði m.a.:
5Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. 6 Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. 7 Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. 8 Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. 9 Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra,10 til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu 11 og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.
(Fil 2.5-11)
Fyrirmynd okkar er Kristur og hann sá þjálfari til góðra verka og lífs sem heimurinn þarfnast nú sem fyrr. Við erum í ræktinni hjá honum og hann býður okkur að vera með sér og hlusta á visku sína og elsku. Hann býður einnig til veislu. Við erum hér í veislusal og þiggjum einfalda og hógværa máltíð af borði Drottins. Veislur skapa tengsl og vináttu. Við sem ættum að sitja yst við útidyr er boðið til sætis eins og í dæmisögu dagsins þar sem húsbóndinn segir: „Vinur, flyt þig hærra upp! [. . . ] Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“
Hann kallar okkur innar og nær sér. Þar vill hann hafa okkur börnin sín. Þar finnum við frið og fögnuð sem heimurinn á ekki í sjálfum sér og megnar ekki frá okkur að taka.
Dýrð sé Guði, föður og synir og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.