+Sólrún Heiðarrós Hannibalsdóttir 1917-2014

SolrunÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Sólrún Heiðarrós Hannibalsdóttir

1907-2014

verslunarkona

Útför frá Neskirkju þrd. 7. október 2014 kl. 13

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

Sálmaskráin, grafskriftin, er neðanmáls.

Viltu hlusta á ræðuna og/eða lesa? Hún er fyrir neðan næstu smellu.

Friður . . .

„Landið var fagurt og frítt: og fannhvítir jöklanna tindar“. Svo kvað Jónas Hallgrímsson og dásamaði fegurð landsins. Víst er fegurðin mikil en náttúrukraftarnir eru líka ógnar öflugir og skæðir. Nú berst gasmengun um landið og ekki í fyrsta sinn. Móðuharðindin eru kennd við móðuna sem kom af eldgosinu sem nánast lagði landið í rúst undir lok 18. aldar. Vísindamenn telja að ef Íslendingum hefði fjölgað frá landnámi með sama hætti og Norðmönnum þá ættum við að vera 850 þúsund en erum ekki nema rúmlega 300 þúsund. Íslensk náttúra hefur að því er talið er tekið hlutfallslega fleira fólk vegna eldsumbrota, veðurfars, sjávarháska,, sjúkdóma og plága en Evrópuþjóðirnar allar saman hafa misst í öllum sínum styrjöldum s.l. þúsund ár. Séu þessar niðurstöður réttar þá blasir það við að hér býr þrautseigt fólk.

Ég rek þetta hér í byrjun til að benda á harða lífsbaráttu genginna kynslóða í þessu fagra en erfiða landi.

Sólrún var fædd í Önundarfirði en faðir hennar er sagður hafa verið bóndi í Betaníukoti og að Kotum. Hún var næst yngst 10 barna hjónanna Guðrúnar Sveinsdóttur frá Vífilsmýrum í Önundarfirði og Hannibals Hálfdánarsonar frá Gelti í Súgandafirði. Systkinin eru nú öll látin. Þau voru í aldursröð:

Helga Soffía 1901-1901,

Hálfdán 1903-1981,

Hansína 1905-1995,

Kristín 1907-2003,

Aðalheiður 1909-1994,

Bóas 1912-1977,

Sveinfríður 1913-1998,

Brynjólfur 1915-1963,

Sólrún Heiðarrós 1917-2014 og

Óskar 1919-1985.

Öll komust þessi börn á legg nema frumburðurinn sem lést á fyrsta ári. Það systkinanna sem dó yngst dó 48 ára en það þeirra sem lifði lengst og varð 97 ára er kvatt hér í dag. Hún hlaut nafnið Sólrún Heiðarrós, fædd  að vori 2. apríl 1917 en þá var stutt í frostaveturinn mikla og spænsku veikina 1918 en það ár hlutum við fullveldi. Svona var nú lífsbaráttan þá og hefur verið um aldir. Hún átti sterka stofna að og mikið hefur móðir hennar lagt af mörkum með því að fæða 10 börn á 18 árum og faðir hennar að fæða þau öll. Svo er fólk að væla í samtíðinni.

Rúna ólst upp í Kotum og fór að heiman um tvítugt og þá til Ísafjarðar þar sem hún vann við veitingarþjónustu. Þaðan lá leiðin til Reykjavíkur. Þar vann hún við verslun sem hún keypti síðar af kaupmanninum og rak um árabil en verslunin var að Freyjugötu  26 og síðar við Freyjugötu 1 rétt við Óðinstorg og hét Glasgowbúðin.

Árið 1946 fluttu foreldrar hennar suður og hélt hún heimili með þeim og bræðrum sínum, Bóasi og Óskari þar til hinn síðarnefndi stofnaði sitt heimili. Fjölskyldan bjó fyrst að Bergstaðarstræti 14 en byggði síðar hús í Kópavogi að Hlégerði 14. Guðrún móðir Sólrúnar lést 1955 en Hannibal 1958. Ég fletti þeim upp í Íslendingabók til gamans og komst að raun um að langafi minn í ætt móðurafa míns og Hannibal voru þremenningar. [Innskot á hljóðupptöku] Nánari skoðun leiddi í ljós að Guðrún og Hannibal voru systrabörn. 

Rúna var sterk kona, örlát og hjálpsöm, hún var líka stjórnsöm og ákveðin, engin rola – að sögn frænka hennar, sem ég ræddi við – og eldheit sjáflstæðismanneskja alla tíð. Hún var kát og glöð í góðra vina hópi og þá ekki hvað síst með fjölskyldu sinni. Þegar foreldrar hennar féllu frá varð sú breyting á að Bóas seldi húsið og rekstur verslunar hennar bar sig ekki lengur en í kjölfar þess bjó hún á ýmsum stöðum í Reykjavík. Um nokkurra ára skeið átti hún við vanheilsu að stríða og fékk þá inni í Hátúni 10a þar sem hún bjó í bjartri og fallegri íbúð frá 1972-2006 þegar hún flutti á Elli- og hjúkrunarheimilið Grund. Eftir að hún flutti í Hátúnið fór hún að vinna við Kópavogshæli en varð fyrir því að detta og brjóta sig illa á úlnlið. Hún hætti í kjölfarið en starfaði síðar sem húsvörður í Hátúninu og naut þess að stússa og stjórna og styðja fólk í húsinu sem þurfti sérstakrar aðstoðar við. Hún komst smátt og smátt út úr eigin veikindum og naut lífsins, ferðaðist víða, hlustaði á tónlist, fór á kaffihús, spilaði bridge og tók þátt í félagslífi af ýmsu tagi.

Hún kom oft til Ísafjarðar þar sem Aðalheiður systir bjó og dvaldi í sumarhúsi hennar og fjölskyldu hennar í Tunguskógi en þar bjuggu margir Ísfirðingar á sumrin. Þar vildi hún gjarnan hafa ungu frænkurnar hjá sér og ekki spillti það nú gleðinni ef hægt var að kíkja á ball á Ísafirði og taka smá snúning. Lóð sumarhússins lá að garði Símson ljósmyndara sem var mikill skógræktarfrömuður á Ísafirði og eftirminnilegur maður. Ég man þegar hann fyllti litla sendibílinn af krökkum og ók inní Skóg í garðvinnu. Einhverju sinni kom maður að máli við Símson og efaðist um að honum mundi takast að koma upp þessum hríslum sem hann var að gróðursetja. Þá sagði Símson við hann: Tú verd bara koma aftur eftir hundra år og sjá treene.

Sólrún var félagi í Ferðafélagi Íslands og fór vítt og breitt um landið á þeirra vegum en vinahópur hennar hafði aðgang að fjallabíl sem bar þau yfir jökulár í fjallasali og fegurð.  Hún fór einnig til útlanda, til Danmerkur, Hollands, Þýskalands, Frakklands og Spánar.

Hún naut þess að hlusta á góða tónlist, einkum létta klassík en líka dægurtónlist.

Hún hafði lengi selt vefnaðar-, hannyrðarvöru og fatnað og vissi hvað hún vildi sjálf í þeim efnum, var pjöttuð, segja frænkurnar og hefði heldur látið sig hafa það að deyja úr kulda en setja upp herðasjal sem henni fannst ekki smart. Hún hélt sinni reisn til hinstu stundar, var orðinn ögn gleymin en þekkti ætíð frændfólkið sitt og spurði gjarnan um hagi þeirra og barna þeirra.

Hún lést södd lífdaga á Grund 25. september s.l. 97 ára að aldri og er hér kvödd af frænd- og samferðafólki með virðingu og þökk.

Konan með sín fögru nöfn sem vísa til vors og sumars lifði vel og lengi. Sólrún vísar til leyndardóms sólarinnar sem gefur öllu líf og Heiðarrós til smáblóms sem nær að blómstra og gleðja fólk á köldum heiðum og hálendi þessa fagra lands. Við sem höfum farið um hálendið og séð smáblóm á mel, titrandi í köldum vindi, höfum fengið að skynja mátt lífsins í erfiðum aðstæðum. Lífið er ótrúlega seigt eins og sannaðist á foreldrum hennar og systkinum sem nú eru öll horfin. Með Rúnu er horfin heil kynslóð og þið frændfólkið, afmomendur systkinanna frá Betaníu, eruð svo lánsöm að eiga enn lífið og tilheyra þessari kynslóð sem er sú eina í veraldarsögunni sem ekki hefur dáið, eins og skáldið Tómas Guðmundsson benti á. Við eigum lífið.

Kveðjur hafa borist frá Báru, Heiðari, Steina og fjölskyldu í Svíþjóð; frá Guðrúnu og Bernharði í Dýrafirði; Málfríði og fjölskyldu í Danmörku; Bryndísi og fjölskyldu í Noregi og Árnýju Ásgeirsdóttur.

Nafnið Betanía er komið úr hebresku og við þekkjum það bæði úr GT og Nýja testamentinu en þar bjuggu systkinin Marta, María og Lasarus. Betanía merkir hús söngva og sorgar en líka kot eða hús fátækra. Lífið er bland af þessu tvennu, söngvum gleði og sorgar. Systkinin í Betaníu forðum daga fengu að upplifa mikil undur af hendi frelsarans. Hann vakti Lasarus upp frá dauðum. Gróðurinn sem nú liggur í dvala í okkar kalda landi, heiðarrósirnar sem bíða með fræ sín í mold og lauflaus trén munu lifna aftur í vor og gleðja augu og sálir. Lífið heldur áfram. Sú er hin kristna von.

Guð blessi minningu Sólrúnar Heiðarrósar Hannibalsdóttur og blessi hann líka þig og allt þitt fólk.

Amen.

Jarðsett í Gufunesi.

Erfi í safnaðarheimilinu.

Líkfylgd að henni lokinni.

Ræðan á vefnum.

Postulleg kveðja:

Guð vonarinnar . . .

Sálmaskrá Sólrún Heiðdís Hannibalsdóttir

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.