Meira vín?

brudkaupid i KaanaÖrn Bárður Jónsson

Meira vín?

Prédikun í Neskirkju

sunnudaginn 19. janúar 2014 kl. 11

2. sd. e. trinitatis

Brúðkaupið í Kana

Þú getur hlustað á og lesið ræðuna hér fyrir neðan. Textar dagsins eru neðanmáls.

 

Friður Guðs sé með ykkur.

Hann er 11 ára, sendill í kjörbúð föður síns, sem starfar sjálfur sem útsölustóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem er í þarnæsta húsi við kjörbúðina. Síminn hringir í búðinn á Ísafirði og það er pabbi sem biður strák að koma með kerruna yfir í Ríkið. Þar hleður hann á kerruna hundrað vínflöskum eða svo sem allar eru vandlega pakkaðar inn í pappaumbúðir og merktar kaupendum víðsvegar á Vestfjörðum sem pantað hafa dropann í póstkröfu. Þetta er í flestum tilfellum sterkt vín, brennivín eða ákavíti, bitter eða hvannarót, whiský eða koníak en líka púrtvín eða sherry þ.e. þessar styrktu víntegundir. Fáir panta rauðvín og hvítvín enda allt of mikil fyrirhöfn að panta slíkt gutl í póstkröfu um þveran kjálkann sem skorinn er af fjörðum og varðaður háum fjallgörðum. Magn og styrkur skiptir mestu. Í sumum pökkum eru 2 flöskur, öðrum 3, enn öðrum 4 eða 5 o.s.frv. Þegar pakkarnir eru komnir á vagninn lyftir strákur undir kjálkana á kerrunni og ýtir hlassinu á undan sér. Það gutlar í farminum – glogg, glogg, glogg. Senn líður að hádegi og allir sem framhjá ganga eða aka vita að farmur vagnsins er erfitsóttur og rándýr vökvi í handhægum pakkningum. En enginn stekkur á strák til að yfirbuga hann og stela farminum. Varningurinn kemst ósnortinn á pósthúsið og endar í höndum kaupenda sem beðið hafa pöntunar sinnar í nokkra daga.

Og hér stendur sendillinn og er enn við sömu iðju að koma sendingum til fólks og nú er það allt annað vín sem er á vagni hans, nýtt vín á nýjum belgjum og allt annars eðlis en forðum daga í firði ísa.

Brúðkaup var haldið og fjölda gesta boðið. Venjan var víst sú að fólk hafði með sér vínföng sem ekki voru keypt í póstkröfu og ekki höfð í glerflöskum og þaðan af síður með merki framleiðanda. Þá voru snobbmiðar óþekktir og fígúrulegar greinar í blöðum um vín. Fólk kom með vínið að heiman, sitt eigið vín, sem lét það gerjast í skinnbelgjum. Á þeim dögum var ekkert til sem fólk gat drukkið nema vatn úr brunnum og svo safi úr vínþrúgum sem hægt var að pressa og geyma með því að láta gerjast. Vínandinn virkaði sem rotvörn þegar hann steig upp að vissu marki. Vín á þessum dögum var allt annað fyrirbrigði en nú á tímum. Þá var ekki hægt að kaupa Kók eða Pepsí, Trópí eða Svala – og jóladrykkurinn íslenski, Egils-appelsín-og-malt í óljósri, starnfræðilegri framtíð. Vatn var dýrmætt forðum og mikil fyrirhöfn fólgin í því daglega að sækja það í brunninn og bera heim. Aðrir drykkir voru ekki til á þeim árum en vatn og vín.

Eitthvað fór úrskeiðið í veislunni því vínið kláraðist. Það mætti halda að einhverjir þyrstir Íslendingar hefðu verið meðal veislugesta en þeir eru þekktir fyrir mikinn þorsta einkum þar sem vín er í boði ókeypis. Skýringin kann þó frekar að liggja í því að Jesús og lærisveinarnir hafi komið án þess að hafa með sér vínföng enda fátækir menn sem stunduðu stopula vinnu en flökkuðu um með farandprédikaranum til að fræðast og heyra meir um hið nýja líf sem hann boðaði. Kannski voru þeir eins og þyrstir Íslendingar í fimmtugsafmælisboði þar sem gengið var um og skenkt óspart í glösin?

Hún er furðuleg þessi saga Jóhannesar guðspjallamanns sem ritaði sitt stórmerka guðspjall af innsæi og djúpri guðfræði. Hann var vandvirkur og vitur rithöfundur sem hafði góðar heimildir m.a. frá Maríu sem tók hann að sér sem son að beiðni Jesú er hann háði sitt dauðastríð á krossinum. Jóhannes var einskonar fyrirmynd hins kristna manns, „lærisveinninn sem Jesús elskaði“. Jóhannes greinir einn guðspjallamanna frá brúðkaupinu í Kana og segir Jesú hafa unnið þar sitt fyrsta kraftaverk.

Nú er auðvelt að hafa þá afstöðu að láta það ekki vefjast fyrir sér að maður sem sjálfur er Guð á jörðu hafi getað breytt nokkrum lítrum af vatni í vín. Guði er vissulega ekkert um megn. En er það kjarni sögunnar? Eru önnur og dýpri tákn í henni?

Það vekur athygli að María er á staðnum en Jesú og lærisveinunum var einnig boðið. María fer að skipta sér af málum og bendir á vínskortinn. Kannski var hún að snupra lærisveinahópinn fyrir að hafa ekki komið með vín með sér eins og aðrir gerðu. Jesús virðist taka þessu hálf höstuglega í fyrstu því hann svarar Maríu og segir: „Hvað viltu mér kona?“ Við fyrstu sýn er eins og Jesús áminni hana eða slái á hendur henni en þetta eru ekki alveg óþekkt viðbrögð í sögum Biblíunnar bæði í GT og NT. Þetta kanna að vera stílbragð Jóhannesar. En hvað sem því líður þá er annað sem er vert að athuga í sögunni og það eru vatnskerin öll.

„Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.“

Hver mælir var um 40 lítrar þannig að 2-3 ker taka um 100 lítra. Olíutunna eins og við þekkjum tekur um 200 lítra.

Við þekkjum framgang sögunnar. Kerin eru sem sagt tóm því Jesús lætur fylla þau vatni og býður svo að ausið verði af þeim. Og viti menn! Komið er nýtt vín handa mannskapnum og miklu betra en það sem áður var í boði.

Hvað sem líður afstöðu okkar til kraftaverka almennt talað þá er hér án efa dýpri merking á ferðinni en sú að Jesús hafi, á þeim tíma þegar ekki var hægt að hlaupa í Ríkið og kaupa meira vín, töfrað fram nokkra lítra af víni.

Jóhannes geymdi þessa kraftaverkasögu og notaði í stórbrotnu listaverki sínu. Með henni er hann án efa að beina sjónum lesenda að því að Jesús hafi í raun verið holdtekja Guðs á jörðu eins og hann segir beinum orðum í sínum prólógus.

Fyrir mér er auðvelt að trúa á kraftaverk persónu sem er í senn Guð og maður eins og kristin guðfræði hefur ætíð haldið fram.

Kraftaverkasögur af Jesú snúast flestar um að lækna fólk, reisa upp beygða og knosaða, þau sem voru fyrirlitin og dæmd af fólki götunnar.

Kirkjan hefur á öllum öldum verið í frarabroddi í þjónustu við manneskjuna eins og t.a.m. hér á landi með því að hefja fyrst formlega hjúkrun á stofnunum þ.e. utan heimila, í klaustrunum. Kirkjan hóf skólastarf í landinu og hún hefur með starfi sínu nú á tímum sýnt frumkvæði og elsku sína til samfélagsins með því t.d. að hafa á sínum snærum fangaprest, heyrnleysingjaprest, prest fatlaðra og prest útlendinga. Hún hefur á vissum sviðum rutt brautina í mannréttindum enda þótt hún hafi verið mistæk á öðrum sviðum og full sein á sér t.a.m. að margra áliti í umræðunni um málefni samkynhneigðra. En í þeim efnum er hún þó komin lengar en flestar aðrar kirkjur í veröldinni. Kirkjur eru oftast svifaseinar og það er gott í sjálfu sér að gleypa ekki tíðarandann hverju sinni í óðagoti en slæmt á hina röndina að þekkja ekki sinn vitjunartíma. Á öllum öldum tekur það tíma að moka skafla fordóma og gamalla viðhorfa sem ekki standast rýni réttlátra augna og sannleiksástar.

Kirkjan er ekki fullkomið mannlegt samfélag fremur en annar félagsskapur fólks. Íslenskt þjóðfélag er ekki fullkomið þótt kristið sé v.þ.a. við erum breyskar manneskjur.

Francis páfi sem nú ræður í Róm var snupraður fyrir að vera talinn marxisti. Hann neitaði því en sagðis þekkja marga slíka sem væru ágætis manneskjur. Hann var líka fyrstur páfa að tala jákvætt um samkynhneigða og sagði: „Hver er ég að dæma þá?“ Það eru tímamóta orð úr munni páfa.

Heiminn skortir ekki vínföng. Jesús kom ekki kominn í þennan heim til að redda veislum og vínbirgðum. Hann rekur ekki heimsóknarþjónustu í þeim efnum og verður ekki pantaður eins og pítsa.

Hann kom til að frelsa fólk undan lögmálinu og því sem þjakar manninn á hverri tíð og leggur honum byrðar á herðar. Svo eru það byrðar eigin gjörða sem þjaka marga sem eiga erfitt með að fyrirgefa sjálfum sér og eða öðrum. Okkur er svo hætt á hverri tíð að taka afstöðu lögmálsins til hluta í lífinu í stað þess að horfa á þá með augum elsku og fyrirgefningar. Undan slíku þjakandi lögmálslífi þarf að frelsa okkur.

Í sögunni merku frá Kana er aðalpersóna sem kom til að breyta öllum viðmiðum. Hreinsunarkerin skv. lögmáli Gyðinga og athafnir tengdar þeim voru ekki lengur skylda því í kerin var komið nýtt vín, tákn gleði og frelsis.

Nú má enginn misskilja mín orð svo, að Jesús hafi boðað meiri drykkju og taumleysi. Hann þekkti vel orðin úr GT:

„Horfðu ekki á vínið, hve rautt það er,

hvernig það glóir í bikarnum og rennur ljúflega niður.

Að síðustu bítur það sem höggormur

og spýtir eitri sem naðra.

Augu þín munu sjá kynlega hluti

og munnur þinn mæla fáránleika.

Þú verður eins og sá sem liggur í úthafinu miðju,

eins og sá er liggur efst uppi á siglutré.

„Þeir slógu mig, ég kenndi ekki til,

þeir börðu mig, ég varð þess ekki var.

Þegar ég vakna af víninu fæ ég mér meira.“

Okv 23.31-35

Alkóhólismi var ekki óþekktur á dögum GT en þessi texti er líklega um 3 þúsund ára gamall og svo er líka til textinn um Nóa sem datt í það og beraði sig öðrum til hneykslunar. Já, margt getur gerst í ölæði. Lokaorðin í texta Orðskviðanna eru orð alkans sem fær sér aftur í tána daginn eftir. Það minnir mig á orð kollega míns sem jarðsöng háaldraðan mann sem var dálítið fyrir vín og sagði um hann:

„Honum þótti sopinn góður en aldrei drakk hann daginn eftir en stundum daginn áður.“

Alkóhólismi er alvarlegt mein á Íslandi í dag. Hvern einasta sunnudagsmorgun og marga aðra morgna eru fréttir í fjölmiðlum um fólk sem hefur hrasað á hálu svelli í samfylgd Bakkusar sem engan styður. Flestir glæpir hér á landi eru framdir undir áhrifum áfengis eða anarra vímugjafa. Áfengi er eitur sem slíkt þegar þess er neytt í of miklum mæli. Sumir geta notað það í hófi en aðrir alls ekki. Hinir síðarnefndu vegna þess að þeir eru alkóhólistar. Hér á landi er margt gott í boði fyrir alkóhólista, gott vatn, góðir drykkir af ýmsu tagi og svo leið hjálpar og meðferðar sem tekur fram þeim úrræðum sem í boði eru í heiminum. Svo er almenningur einnig mun lengra komin í því að viðurkenna alkóhólisma sem sjúkdóm og hefur minni fordóma gangvart þeim er af honum þjást en almennt gerist í heiminum.

Maðurinn er viðsjárverð vera sem snýr gjarnan upp á veruleikann og finnur sér afsakanir til allskonar hegðunar. Sagan um brúðkaupið í Kana hefur orðið mörgum manninum átylla til að afsaka of mikla drykku sína. Kollega minn einn gaukaði að mér þessari vísu í vikunni sem leið en mundi ekki nafn höfundar:

Saklaust telur sálin mín

að syndga ef ég er þyrstur,

því sá sem breytti vatni í vín,

varst þú sjálfur, Kristur.

Nei, sagan um brúðkaupið fræga er ekki um reddingu á vínskorti þá eða nú. Hún er um gleðina, um frelsið, um fagnaðarerindið sem gerir lögmálið skiljanlegt og fær manninum í hendur lífsspeki til að komast af uppréttur í viðsjárverðum heimi.

Jesús ögraði samtíð sinni og kom stöðugt á óvart. Hann er merkasta persóna mannkynssögunnar og sú eina sem vert er að hafa að altækri fyrirmynd.

Nú er í tísku að sparka í þessa fyrirmynd. Þeim fjölgar sem sækja í eftirlíkingar af kirkjulegum athöfnum í nafni trúleysis eða heiðindóms. Þeim fjölgar sem vanvirða heitin sem unnin voru við skírnina þegar lífsvegurinn var markaður. Ísland verður ekki betra samfélag á heiðnum, guðlausum grunni. Tilraun um slíkt þjóðskipulag var reynd í tvígang á liðinni öld í Evrópu og líka í Asíu en með skelfilegum árangri. Það görótta vín var sett á gamla belgi sem sprungu. En hið nýja vín sem Kristur færir heiminum mun áfram gleðja og frelsa fólk undan hindurvitnum og hégiljum heiðindómsins. Kristnir menn í Róm forðum daga voru ofsóttir fyrir guðleysi, fyrir það að hafna guðagalleríi herraþjóðarinnar en trúa á einn Guð. Fyrir það létu mörg trúsystkin okkar lífið fyrr á öldum.

Hvað viljum við leggja í sölurnar fyrir kristið þjóðfélag, opið og frjálst, fordómalaust og elskuríkt? Hvað þurfum við að gera?

Við þurfum að drekka meira – ekki af skaðlegu áfengi – heldur meira af því heilnæma og nýja víni sem fagnaðarerindi Krists er.

Hugmyndafræði frelsarans er sú merkasta sem flutt hefur verið. Bergjum af bikar hennar og við munum finna hamingju og þjóðfélagið njóta blessunar.

Enn er sendill á ferð. Á vagni hans er gnótt vínfanga en ekki eins og forðum daga heldur er það hið nýja vín sem í boði er.

Jóhannes ritaði auk guðspjalls síns og þriggja bréfa í NT, Opinberunarbókina, þá miklu gátu og þar segir m.a.:

„Sá sem í hásætinu sat sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja,“ og hann segir: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ Og hann sagði við mig: „Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. Sá er sigrar mun erfa þetta og ég mun vera hans Guð og hann mun vera mitt barn.“ (Op 21.5-7)

Njótum veislu himinsins og bergjum ótæpilega á gjöfum Guðs.

Þeirra gjafa má njóta bæði daginn eftir og daginn áður!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verðu um aldir alda. Amen.

Textar dagsins.

Ein athugasemd við “Meira vín?

  1. „Hún hefur á vissum sviðum rutt brautina í mannréttindum enda þótt hún hafi verið mistæk á öðrum sviðum og full sein á sér t.a.m. að margra áliti í umræðunni um málefni samkynhneigðra. “

    Og málefnum trúfrelsis. Og málfrelsis. Og eitthvað fleira sem enginn nennir að hafa tölu á.

    „Þeim fjölgar sem sækja í eftirlíkingar af kirkjulegum athöfnum í nafni trúleysis eða heiðindóms.“

    Fyndið. Ætlarðu í alvörunni að halda því fram að athafnir Abrahams-trúarbragðanna séu ekki afbakaðar vígslur og siðir úr heiðni og enn eldri trúarbrögðum? Heldurðu í alvörunni að gyðingar hafi fundið upp blessun við fæðingu, manndómsvígslu við kynþroska, það að gefa saman maka eða að kveðja hina framliðnu?
    Neanderdalsmenn gætu vel hafa haft þetta allt saman. Þeir eru pííínu eldri en samfélög Biblíunnar.

    „Þeim fjölgar sem vanvirða heitin sem unnin voru við skírnina þegar lífsvegurinn var markaður. “

    Hvaða heit vann ég við skírn? Ég var tveggja vikna gamall. Hafði ég skilning á miklu öðru en „sofa-orga-borða“?

    „Ísland verður ekki betra samfélag á heiðnum, guðlausum grunni. “

    Er heiðnin núna guðlaus? Jahá. Ég þarf að kíkja aftur í trúarbragðafræðina.

    „Tilraun um slíkt þjóðskipulag var reynd í tvígang á liðinni öld í Evrópu og líka í Asíu en með skelfilegum árangri. “

    Máttur guðleysis er mikill ef ríkin hrundu út af honum einum en ekki efnahagslegum þrenginum og ofbeldi. Gæti ég ekki allt eins kennt kristni um Þýskaland á fyrri helming 20. aldar, svo ekki sé minnst á miðaldirnar? Heldurðu í alvörunni að kristnin komist út úr þeirri umræðu jafn óspjölluð og Guðsmóðirin?

    „En hið nýja vín sem Kristur færir heiminum mun áfram gleðja og frelsa fólk undan hindurvitnum og hégiljum heiðindómsins. “

    AAAHAHAHAHAHAHAHA!!! Því fljúgandi gyðinga uppvakningur sem er sinn eigin pabbi og var í mörg þúsund ára fýlu út í mannkynið vegna þess að amma þeirra borðaði ávöxt er miklu raunverulegri heldur en eitthvað heiðið/Spinozis kjaftæði!

    „Hvað viljum við leggja í sölurnar fyrir kristið þjóðfélag, opið og frjálst, fordómalaust og elskuríkt? Hvað þurfum við að gera?“

    Viltu í alvörunni vita það? Í alvöru alvöru?
    Ókei.
    Þið klerkarnir megið hætta að ljúga og vera óheiðarlegir.

    Sjáum hvernig okkur gengur svo þaðan af.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.