Hvenær tókstu seinast próf?

Messa 26. feb. 2023 1. sd. í föstu í Laugarneskirkju

Talaði út frá punktum en gleymdi að ýta á upptökutakkann í símanum en endurflutti ræðuna eftir minni þegar heim var komið og hér er hún. Hljóp í skarðið fyrir vin minn og kollega, séra Jón Ragnarsson sem hefur leyst þar af um nokkurt skeið en lauk störfum um þessar mundir og er þar með farinn á eftirlaun.

Textar dagsins voru um freistingar og próf og ég las þá í byrjun upptökunnar svo samhengið skiljist betur.

Mörg tengjum við freistinguna við söguna af Adam og Evu í Eden þar sem tré stóð og af ávexti þess máttu þau ekki eta. Það var ávöxtur en ekki epli en myndlistin hefur gefið okkur eplið sem tákn. Hvað sem því líður þá erum við prófuð hvern dag í vali okkar, alla daga er okkar freistað, alla daga tökum við próf og föllum. En Guð elskar okkur samt. Hann elskar breyskar manneskjur eins og mig og þig.

Heim til Afríku!

eftir Örn Bárð Jónsson

Flestar ljósmyndirnar tók ég sjálfur nema þær sem ég get um sérstakletga að eigi sér annan uppruna. Skissurnar teiknaði ég með bleki og litaði svo með vatnslitum.

YFIRSKRIFT þessarar ferðasögu kann að hljóma villandi: „Heim til Afríku“ en undarleg var hún, tilfinningin sem fylgdi því að standa á sléttum Kenýu, í þjóðgarðinum Masai Mara og finna í eigin sál og sinni, þessa sérstöku, tilvistarlegu upplifun:

HÉR Á LÍFIÐ HEIMA,

HÉÐAN ER TEGUNDIN MAÐUR, HOMO SAPIENS, KOMINN!

HÉÐAN ER ÉG!!!

HÉÐAN ERT ÞÚ!!!

Frjálslega farið með stærðir og form með þessari teikningu.
Gríraffi og ljón í Afríku, lundi og lamb á Íslandi.

Afríka er ógnarstór

ætíð skín þar sólin.

Umlykur Ísland saltur sjór

oftast snjór um jólin.

Að fara þar um og sjá villt dýr á sínum heimavelli í bókstaflegum skilningi er stórkostleg upplifun.

Ég hafði slegist í för með dr. Kjartani Jónssyni, fv. sóknarpresti í Tjarnarprestakalli í Hafnarfirði. Hann var á sínum yngri árum kristniboði í Pokot-héraði í N-Kenýu í 12 ár, ásamt konu sinni, Valdísi Magnúsdóttur, en þau komu heim fyrir tæpum 30 árum.

Við vorum 8 sem fylltum hópinn sem hann leiddi um slóðir íslensks kristniboðs í Pokot. Í hópnum voru prestar og leikmenn, konur og karlar.

Snöggsoðin skissa af einstaklingum í hópnum sem beðnir eru að taka viljann fyrir verkið.

Við flugum til London 9. janúar, gistum þar eina nótt og héldum svo áfram með British Airlines á vængjum breiðþotu sem tekur hátt á 4. hundrað manns. Flugið til Nairobi tók um 8 stundir en tímamunur er aðeins 3 tímar því höfuðborgin er ekki lengra í austri en sem nemur 3 stundum á tímabeltinu.

Að sitja í 8 tíma á sama stað krefst verkefna: að lesa í bók, teikna, tala við sessunautinn og svo er afar mikilvægt, sérstaklega fyrir fullorðna, að standa upp á klukkustundar fresti og ganga um til að fyrirbyggja að blóðtappar myndist í fótleggjum.

Í höfuðborginni Nairobi var margt að skoða við upphaf ferðar og lok

Við komum okkur fyrir á Scripture Mission Conference Center, skoðuðum höfuðborgina fyrsta daginn, heimsóttum m.a. merkilegan stað þar sem einstæðar mæður vinna við að gera perlur úr leir, lita og glerja og setja þær saman í hálsfestar, armbönd og annað skart. Þær hafa launaða vinnu. Listsköpun þeirra er einkar fögur og svo hafa þær eignast nýtt líf fyrir mátt trúarinnar og kærleiksþjónustu kirkjunnar fólks.

Perlur mótaðar úr leir, gataðar, málaðar, glerjaðar og svo brenndar.
Litrík listsköpun kvennanna heillaði okkur öll.
Tekjur af sölu starfsins stendur undir launakostnaði starfsfólks og rekstri.

Borgin Nairobi er fjölmenn en yfir fólkinu, þar og líka til sveita, meðfram þjóðvegum og hvar sem við komum, var einhver sérstök reisn, rólegheit í fasi og hreyfingum.

Tignarlegir gíraffar mættu okkur í garðinum sem við heimsóttum í höfiuðborginni. Þar eru göngubrýr í réttri hæð svo gestir geti verið í „talfæri“ við hálslanga viðmælendur og gefið þeim gott í gogginn.

Öll börn vilja nammi!

Haldið af stað norður til Pokot og yfir miðbaug

Fimmtudaginn 12. janúar lögðum við upp frá Nairobi og ókum norður til Pokot. Sú ferð tók um 11 tíma og við áðum einu sinni á Midland Hotel í Nakuru og neyttum góðs matar og nýttum okkur salernisaðstæður.

Gróður á lóð hótelsins þar sem við snæddum og vísa um vatnskerfið á salernum þess.

Við komum til Kapengúría um kvöldið og komum okkur fyrir í tveimur húsum.

Annað húsanna sem við gistum í í Kapengúría. Veðrið var indælt, hiti á daginn 23-32 gráður en svalt um nætur 12-14 gráður. Gróskumikið umhverfi og tær stjörnumhiminn að næturlagi.

Við heimsóttum safn um stjórnmálasögu og skoðuðum þar hefðbundin íveruhús fólks til sveita, hringlaga kofa og einnig sáum við fangaklefa þar sem forystumenn í stjórnarandstöðu voru í haldi á tímum Breta. Þar var klefi merktur Jomo Kenyatta sem síðar varð forseti.

Klassískur kofi.
Klefadyr Kenyatta
Klefinn, þægindalaus, með myndum og fróðleik um fangann.

Biskupsstofa og höfuðstöðvar Lúthersku kirkjunnar í Pokot

Föstudaginn 13. janúar mættum við í miðstöð Lúthersku kirkjunnar á sömu lóð og hittum þar ritara biskupsdæmisins, Paul að nafni. Hann sagði frá starfinu á sinni skrifstofu sem þætti nú varla boðleg heima á Fróni. Í umdæmi hans starfa prestar, djáknar og prédikarar, samtals um 140 manns.

Paul, ritari biskupsdæmisins og aðstoðarmaður hans, tóku á móti okkur fyrsta daginn í Kapengúría

Heimsóknir í söfnuði á skraufþurrum svæðum og öðrum iðjagrænum

Næstu daga heimsóttum við ýmsa söfnuði í héraðinu og hittum heimafólk sem alls staðar tók okkur opnum örmum og af stakri gestrisni, bauð uppá einfaldan mat, hænsnakjöt í soði ásamt ugaly sem er réttur gerður úr maís. Til er spariútgáfa af sama rétti úr hirsi sem við fengum einnig að smakka á. Við fengum sama réttinn á öllum stöðum ásamt vatni á flöskum og sætum gosdrykkjum. Þau gáfu það besta sem þau áttu. Boðið var uppá handþvott fyrir matinn. Innfæddur kom með vaskafat með sápu og annar vatn í könnu til að skola hendur að þvotti loknum. Handhægt og einfalt og án allra pípulagna.

Hænsnakjöt, ugali og gosdrykkir.
Gestrisni var hvarvetna sýnd af hálfu heimamanna.
Skyndiskissur af fólki við dagleg störf.

Þrekvirki SÍK og Lúthersku kirkjunnar í Kenýu

Samband íslenskra kristniboðsfélaga, SÍK, hefur unnið þrekvirki í Kenýu. Þar hafa starfað margir kristniboðar og nefna má hjónin Skúla Svavarsson og Kjellrúnu, Ragnar Gunnarsson og Hrönn Sigurðardóttur og svo okkar mann, Kjartan Jónsson og konu hans Valdísi Magnúsdóttur.

Kjartani var alls staðar fagnað sem höfðingja og hann talaði til fólks í kirkjunum á reiprennandi swahili. Fólk hrópaði: Kjartan, Kjartan og fagnaði honum innilega. Hann hitti unga menn sem voru orðnir prédikarar eða prestar og hann hafði skírt sem börn.

Kjartan talar swahili og heimamaður túlkar á mállýsku.
Konur syngja og eru ráðandi í tónlist innan margra safnaða.

Hér koma upplýsingar um starf í biskupsdæmi Evangelical Lutheran Church of Kenya í NV-biskupsdæmi en það er rekið m.a. með stuðningi frá Noregi og Íslandi.

Stofnaðir hafa verið 306 söfnuðir og þar starfa:

78 prestar

27 djáknar

37 prédikarar

Byggðir hafa verið 150 grunnskólar og

34 framhaldsskólar.

Flestir safnaðanna byrjuðu undir tré þar sem kristniboðinn hitti nokkra áheyrendur og sagði frá Jesú Kristi. Aftur og aftur heimsótti kristniboðinn hópinn undir sama trénu, ók oftast á skellinöðru margra kílómetra leið eftir holóttum vegum í steikjandi hita til að hitta fólk sem vildi heyra gleðitíðindin um Jesú frá Nazaret.

Noregur og Ísland hafa hjálpast að við fjármögnun starfsins.

Gleði skein úr augum fólksins, ljósið eina sem lýst hefur upp sálirnar og gefið þeim nýja sýn á lífið, nýtt líf í Jesú Kristi.
Litríkur klæðnaður, listfengi og reisn yfir fólki.

Nú hafa verið byggð mörg kirkjuhús og við fengum að sjá nokkur þeirra og hitta þar syngjandi fólk sem geislaði af gleði yfir því að hafa öðlast trú og nýja lífssýn með ferskum viðmiðum og lífsmáta sem byggir á kærleika Guðs. Sú upplifun var hrífandi og við, Íslendingarnir, sungum saman á hverjum stað, sunnudagaskólasöngva eins og sönginn um elsku Guðs sem er svo há og djúp og breið að enginn kemst út úr henni og ennfremur sönginn góða, Daginn í dag . . . gerði Drottinn Guð.

Sungið var yfir okkur á hverjum stað og við sungum söngva fyrir þau úr barnastarfinu heima.
Gleðin og fegurðin skein úr augum þessa drengs sem naut þess að hafa hattinn minn á höfði sér.
Snætt í þröngu rými en fyrir utan var fólk að störfum í skugga trjánna.
Ugali, ljóst og dökkt, kók, kjúklingur og grænmeti.

Lútherska kirkjan í Kenýu hefur byggt um 100 grunnskóla og 20 framhaldsskóla og þar af hefur SÍK safnað fyrir 16 grunnskólum og 12 framhaldsskólum. Eins og fyrr segir eru söfnuðurnir orðnir 288 og flestir eiga þeir sína kirkjubyggingu. Við skoðuðum m.a. tvær kirkjur sem gefnar hafa verið hvor fyrir sig af tvennum íslenskum hjónum.

Þessi kirkja var gefin af íslenskum prestshjónum
og tekur hún lílega 6-700 manns.

Á kvöldin í Kapengúría, þar sem við gistum í tveimur húsum, hittumst við og höfðum andakt hvert kvöld, lásum hugvekju úr bók eftir séra Karl Sigurbjörnsson, biskup, báðum saman og rifjuðum upp það sem bar fyrir augu þann daginn og horfðum fram til næsta dags. Kvöldin voru myrk við miðbaug og himinninn stjörnum prýddur.

Heimamenn tala og fagna Kjartani og hópnum
og hann ávarpar safnaðarfólkið.

Við höfðum flest tekið með okkur fatnað að heiman til að skilja eftir og í Pokot glöddust margir yfir góðum gjöfum. Þakklætið skein úr augum og í sumum tilfellum steig fólk dans í gleði sinni.

Í Propoi og víðar störfuðu Skúli Svavarsson og Kjellrún, Ragnar Gunnarsson og Hrönn og Kjartan og Valdís. Á prédikunarstólinn í Propoi eru rituð þessi orð á swahili:
„Ea nchi, nchi, nchi, lisikie neno la bwana.“
„Land, land, land. heyr orð Drottins.“ (Jeremía 22.29)
Konur fengu föt hjá íslenska hjópnum og dönsuðu af gleði.

Við fórum á sunnudegi og skoðuðum stað þar sem kristniboðarnir íslensku höfðu fyrst hitt fólk í skugga trés. Seinna reis kirkja á staðnum. Við komum á annan stað, hátt uppi í fjöllum og þar var kirkja. Aldraður maður sem hafði lagt mikið til kirkjustarfsins bjó þar á góðri landareign. Hann hefði viljað verða prestur en það var ekki leyft þar sem hann á 3 konur og 30 börn. En hann var einn af stólpum safnaðarins og hafði komið öllum sínum börnum til mennta. Einn son missti hann ungan og Kjartan jarðsöng hann. Það voru fagnaðarfundir þegar þeir hittust, Kjartan og öldungurinn.

Sá gamli með hljóðbókarbiblíu til að hlusta á orð Drottins,
enda orðinn sjóndapur.
Fjöllin í landi öldungsins.

Á Flekkuvöllum í þjóðgarðinum MASAI MARA

Nú var komið að því að halda til næsta áfangastaðar sem sagt var frá í byrjun þessarar greinar, Masai Mara. Við vöknuðum eldsnemma og lögðum af stað um kl. 5, því bílstjórarnir vildu komast sem allra lengst fram eftir vegi, áður en umferðin væri farin að þyngjast.

Áð á ferðamannastað á leiðinni til Masai Mara þar sem hægt var að kaupa kaffi og eitthvað í gogginn, skoða handverk og minjagripi.

Við komum aftur við á Midland Hotel og snæddum þar morgunverð uppúr kl. 7 og héldum svo áfram í þéttri umferð sem bílstjórarnir okkar Betúel og Tom þræddu af öryggi og snilld.

Nöfn þeirra eins og meirihluta Kenýumanna eru biblíunöfn en á Veraldarvefnum kemur fram að 85% Kenýumanna séu kristnir og um 10% tilheyri islam.

Betúel merkir hús Drottins. Bet merkir hús eins og í, Bet-lehem, hús og brauð, brauðhús. Tom er stytting á nafni postulans Tómasar sem kallaður hefur verið efasemdarmaðurinn sbr. frásögn Jóhannesar postula í Nýja testamentinu (Jóh. 20).

Betúel öruggur við rattið.

Við náðum til Masai Mara þjóðgarðsins fyrir sólsetur og vorum svo heppin að sjá fílahjarðir, gíraffa, ljón og fleiri dýr áður en kvölda tók.

Teiknað í hristingi í bíl á ójöfnum vegi innan Masai Mara.

Þá skráðum við okkur inn á Figtree-hótelið sem er falið í runnum og samanstendur af stökum húsum sem tengjast með steinlögðum göngustígum. Við gistum í svonefndum T-herbergjum en þau eru blanda af tjaldi og hlöðnum veggjum. Framhliðin er úr dúk og rennilás lokar innganginum og við áminnt um að loka vel á eftir okkur, því þjófóttir apar ættu það til að gera sig heimakomna. Í herbergi mínu voru tvær lokrekkjur með flugnaneti allt um kring, önnur tvöföld en hin fyrir einn. Skápar voru við skilrúmið milli stofu og baðherbergis, gólf lögð viðarparketi en flísum í baðherbergi. Sturtuklefi góður og snotur baðherbergisinnrétting úr dökkum viði.

Figtree „hótelið“ er hulið trjágróðri þar sem það stendur við bugðuna í fljótinu.

Matsalurinn var innaf móttökunni og þar fengum við kvöldverð fyrsta daginn en þann næsta morgunverð og nesti til dagsins og svo kvöldverð að loknum viðburðaríkum degi á sléttunum.

Masai-kona þjónaði hópnum til borðs.
Hópur Masai-fólks fór kyrjandi um salinn.

Masai Mara heitir þjóðgarðurinn, sléttan mikla, í Kenýu sem tengist öðrum og enn stærri þjóðgarði í Tanzaníu sem heitir Serengeti. Þessar slóðir í Afríku eru mörgum kunnar af einstökum sjónvarpsþáttum Davids Attenborough.

Mara merkir doppur, dílar, flekkir og því gaf ég svæðinu íslenska nafnið Flekkuvellir.

FLEKKUVELLIR – Mynd af Veraldarvefnum.

Ég stóð á landamærunum með annan fótinn í Kenýu en hinn í Tanzaníu, en án vegabréfsáritunar fyrir síðarnefnda landið. Dýrin þurfa hins vegar engin vegabréf og fara því óhindrað á milli þessara svæða og ég heyrði talað um að mörg dýr komi gjarnan að sunnan og norður til Masai Mara til að bera.

Með annan fótinn í Masai Mara í Kenýu en hinn í Serengeti í Tanzaníu.

Masai er heiti á svæði og þjóðflokki fólks sem er hávaxið og vel á sig komið. Masai-menn geta gengið og hlaupið svo tímum skiptir. Sagt er að þeir geti hlaupið uppi gazellur og önnur fótfrá og spretthörð dýr. Þeir bara hlaupa og hlaupa þar til dýrið gefst upp. Við höfum oft séð þessa afrísku hlaupara í íþróttafréttum sem sigrað hafa mörg Maraþonhlaup. Þeir klæðast gjarnan litríkum fatnaði og sýna atferli sem felst í hoppum og stökkum þar sem þeir líkja eftir atferli sumra dýra.

Hér er einn litskúðugur Masai-maður sem við hittum í Nairobi. Hann og vinur hans tóku sérstakkt hopp sem þeir hafa gaman af að sýna.

Eitt sinn keypti ég mér skó sem heita MBT – Masai Barefoot Technology – og eru með einskonar veltisóla sem gerir manni göngu auðveldari og mýkri á steinlögðum strætum heimsins.

Orðið Mara merkir dílar, flekkir eða doppur og vísar til þess að sléttan er alsett trjábrúskum og svo ber mikið á stökum akasíutrjám á hæðum og ásum sem setja sterkan svip á landslagið.

Vatnslitamynd af akasíutré í Masai Mara.

Masai Mara mætti því kalla Flekkuvelli Masæja. Nafnorðið flekkir er til í mörgum myndum í máli okkar, flekkuburkni, flekkusótt, flekkudýr svo örfá dæmi séu tekin.

Við vorum í tveimur bílum af Toyota gerð, búnum torfærudekkjum og opnanlegu þaki. Unnt var að standa í bílunum í kyrrstöðu og horfa yfir sléttuna og til dýranna. Magnað var að sjá ljónin sem spígsporuðu á milli bílanna og blettatígur sem smaug um og sýndi sínar tignarlegu og fimu hreyfingar.

Talað er um hin 5 stóru dýr (The Big Five), sem vert er að skoða en þau eru: ljón, hlébarði, svartur nashyrningur, fíll og afrískur vísundur. Við sáum fjögur af þessum dýrum, en ekki nashyrninginn, en að auki flóðhesta, krókódíla, gazellur, hýenur, sjakala, hrægamma og mörg fleiri.

Strúturinn er stór, skreflangur og hraðskreiður.
Sebrahestar á beit.
Blettatígurinn (cheetah) er tignarlegur. Hann er hraðskreiðastur allra landdýra og getur náð 80-130 km hraða á klst. Hér horfir hann í linsuna hjá mér og spyr kannski: Hvað ert þú að gera hér?
Fílahjarðir sáum við nokkrar. Móðirin fer fyrir hópnum og stýrir honum en karldýrið fylgir í humátt á eftir.
Ljónynjan hvílir sig en hún þarf 5 kg af kjöti á 3ja daga fresti en karlljónið 7 kg. Hún sér um veiðarnar.
Hýenur og hrægammar hreinsa af beinum bráðar ljónanna.
Stór antilópa, blesbok eða blesbuck.
Náði þessum galhoppandi gíraffa með taglið í tignarlegri sveiflu.
Eitt hinna óteljandi akasíutrjáa á sléttunni miklu.
Setið fyrir á mynd á hárri hæð þar sem við snæddum nesti.
Á öruggum stað, fjarri ljónum og öðrum rándýrum, snæddum við nesti frá Figtree-hótelinu og urðum að gæta þess að skilja ekki neitt ætt
eftir okkur eða rusl.
Salernisaðstaðan var úti í náttúrunni á bak við runna
þar sem engin ljón voru í veginum.

Aftur í Nairobi

Þegar við komum aftur til Nairobi fórum við og skoðuðum miðborgina, stjórnarbyggingar og eitt háhýsi þar sem gat að líta vítt og breitt um borgina.

Innan um stjórnsýslubyggingar. Við fórum upp í turninn háa og horfðum vítt og breitt yfir borgina sem hvarf þó í mystur fjarskans.
Markaðstorg séð af þaki háhýsis.
Frá miðborg Nairobi.
Jomo Kenyatta (um 1897 – 22. ágúst 1978) barðist gegn yfirráðum Breta og varð forsætisráðherra Kenýu 1963 og forseti 1964
og sat allt til dauðadags 1978.

Karen Blixen safnið

Danski rithöfundurinn, Karen Blixen, bjó um árabil í Kenýu. Hún átti merkilega ævi og við heimsóttum húsið sem hún bjó í ásamt sænska baróninum, Blixen, sem reyndar var sjaldan heima ef marka má kvikmyndina Out of Africa.

Hús Karenar Blixen.

Ung kona, Therese, sem stundar nám í ferðamálafræði, var leiðsögumaður okkar um safnið, en þar mátti ekki taka myndir innandyra. Ég notaði því tækifærið og skissaði myndir. Saga Karenar Blixen er merkileg enda lifði hún óvenjulegu lífi um sína daga.

Therese sýndi okkur safn Karenar Blixen.

Úr Wikipediu:

„Barónsfrú Karen von Blixen-Finecke (17. apríl 18857. september 1962) (fædd Karen Christentze Dinesen) var danskur rithöfundur. Hún skrifaði margar bækur undir eiginnafni sínu, Karen Blixen, en einnig undir dulnefninu Isak Dinesen. Hún skrifaði bækur sínar hvortveggja á dönsku og ensku. Þekktust er hún fyrir bók sína Jörð í Afríku (Out of Africa) sem segir frá árum hennar í Kenía sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1952.“

Pokabuxur og stígvél sem Robert Redford mun hafa klæðst í myndinni Out of Africa, en aðalhlutverkið var í höndum Maryl Streep.

Þjóðminjar. Mannfræði. Slöngur og skriðdýr.

Sum okkar náðu því að heimsækja Þjóðminjasafnið og skoða þar sögu lands og þjóðar og ennfremur safn með eiturslöngum og skriðdýrum og svo Mannfræðisafnið þar sem gat að líta leifar af mönnum sem voru uppi á ólíkum tímaskeiðum, fyrir 2.5 milljón árum, 1.9 m.á., 1.5 m.á. og höfuðkúpu apa sem uppi var fyrir 18 m.á! Tíminn er flókið fyrirbæri og ógerningur fyrir okkar smáa heilabú, þótt háþróað sé, að skilja slíkar stærðir út frá okkar skammæru ævi.

Þjóðminjasafnið í Nairobi.
Beinagrind fornmanns.

Ævintýri er óhætt að kalla það að hafa fengið að heimsækja þessa merku og ógnarstóru álfu sem Afríka er. Þaðan hafa borist menningarstraumar um heiminn, bæði í myndlist og tónlist. Þekktustu dæmin eru sálmar fólksins af afrískum uppruna sem flutt voru til Ameríku, sem áður voru kallaðir negrasálmar og svo blúsinn, djassinn, rokkið og rappið svo aðeins nokkur dæmi um tónlistarstefnur séu nefnd. Afríka er vagga okkar allra eftir því sem vísindin telja og enn fremur vagga mikilvægra menningarstrauma.

Hjartað slær í brjósti sérhvers manns, karls og konu.
Um alla jörð slær taktur sem hrífur hjörtun.
Tónlist er hvergi til í alheiminum nema á okkar undursamlegu jörð.
Taktur Afríku er sérstakur og hefur haft gríðarleg áhrif á heimstónlistina. Myndina fann ég á Vefnum.

Matarmenning

Kjartan vissi hvert hann átti að fara með okkur til að borða áður en við kvöddum Nairobi. Hann valdi Carnivour – Kjötætuna, en þar er stærsta grill sem ég hef séð. Kjötið er grillað á löngum teinum sem síðan eru bornir um salinn með steikinni á. Þjónninn stingur oddi teinsins á disk gestsins og sker með stórri sveðju þunnar sneiðar.

Grillað á fjölda teina enda kjötið af ýmsum skepnum og gestirnir margir.
Hér er skorið á disk fararstjórans sem situr reiðubúinn með áhöld sín
meðan Ágúst horfir á með eftirvæntingu.
Bitar af krókódíl og strúti eru hér á diski ásamt uxaeista og fleiru.

En lífið er ekki bara kjöt og bein, sinar og taugar, heldur koma fleiri víddir við sögu þegar allt er brotið til mergjar. Postulinn Páll segir okkur vera líkama og sál en svo bætir hann við andanum er hann segir: „En sjálfur friðarins Guð helgi yður algerlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists.“ (1. Þess. 5.23)

Mynd fengin að láni af Veraldarvefnum.

Líkami og vitsmunir (sálin) eru eitt, en svo er það andinn sem er skaparans, léður um tíma, uns hann snýr aftur til hans er skóp hann og allt annað sem til er í þessari veröld sem er stærri og meiri en vitsmunir okkar geta umfaðmað og skilið.

Afríka er ógnarstór. Eitt sinn sá ég landakort þar sem búið var að raða inn í Afríku öðrum löndum. Þar komust fyrir öll Bandaríki Norður Ameríku, Kína, Indland, A-Evrópa, Portúgal, Spánn, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Sviss, Bretland og Japan. Afríka er stór álfa og merkileg, bæði hvað varðar land og fólk.

Kort af Vefnum sem sýnir mörg lönd veraldar mátuð innan Afríku.

Ég mun ekki gleyma þeirri kennd að finnast Masai Mara vera heimkynni allra manna, staðurinn þar sem dýrin leika við „hvurn sinn fingur“ og mannfólkið á uppruna sinn og lífið sínar dýpstu rætur.

Homo Habilis – hinn handlagni maður.

Ógleymanleg heimsókn var senn á enda. Okkar beið langt flug til London með Boeing 777 sem tekur hátt í 400 manns. Fimm úr hópnum fóru heim degi á undan okkur þremur, sr. Bryndísi Valbjarnardóttur, sr. Jóni Ragnarssyni og mér. Við þrjú þurftum að fara 4-sinnum í vopnaleit áður en við fengum að fara um borð en vorum þó ekkert grunsamlegri en aðrir farþegar sem sættu sömu leit. Flogið var um nóttina og lent um kl. 8 að morgni. Flugið með Icelandair fór í loftið uppúr kl. 12 og við vorum komin heim tveimur og hálfum tíma síðar, sæl og þreytt, þriðjudaginn 23. janúar þegar 50 ár voru liðin frá gosinu í Heimaey.

Farþegar bíða þess að komast um borð.
Kona talar í síma á Masai Coffee á Jomo Kenyatta flugvellinum.

Brátt var ferðin á enda. Biðin á flugvellinum í Nairobi leið hjá með fjórum vopnaleitum, biðröðum og setum. Ferð sem tók flestum öðrum ferðum vítt og breitt um heiminn fram mun ekki úr minni hverfa meðan atgervi helst óskert.

Stórfenglegt var að heimsækja, Afríku, móður mannlífs á jörð.

Heillandi var að koma heim –

– heim til Afríku.

Sæstrengur til Suðurnesja!

Íbúar í Vogum á Vatnsleysuströnd vilja ekki loftlínu í gegnum Vogana og rafstrengsmálin þ.a.l. í algjörum hnút því Landsnet vill ekki fara með hana í jörð. Innviðaráðherra tjáði sig í tíufréttum Sjónvarpsins 3. janúar 2023 og sagði brýnt að finna lausn í deilunni.

Ég legg til að höggvið verði á Gordíonshnútinn með því að leggja sæstreng til Suðurnesja.

Þar með verður landi ekki raskað í Hvassahrauni, á Strandaheiði og víðar. Um leið verður komist hjá því að taka áhættu vegna eldgosa og hraunrennslis sem kynni að skaða bæði loft- og jarðstrengi í bráð og lengd.

Kostnaður kann að verða meiri en sjónmengun verður forðað og miklu jarðraski líka.

Og svo lýkur þar með 20 ára deilu um málið.

Er þetta ekki lausnin?

Þegar stjörnur fall´á storð

Nýárskveðja 2023 – Gleðilegt nýtt ár og þakka liðið.

Þankar á tímamótum. Hér er birt þýðing á „negrasálmi“ sem ég þýddi í gær, gamlársdag 2022 og tók svo upp söng minn á honum ásamt hugvekju um mannlíf um áramót og einnig á þeim tímamótum sem hinst verða á jörðu.

Mynd af Veraldarvefnum

Hér fyrir neðan er hljóðskrá með söng mínum og hugvekju

Lesa meira