Skoðanaleysi og pólitík

Þekkir þú einhvern sem hefur engar skoðanir? Þekkir þú einhvern sem ekki er pólitískur?

Hvað merkir orðið pólitík? Hvaðan er það komið? Orðið kemur úr grísku. Orðið er polis sem merkir borg og pólitík er þá það sem varðar borgarana, fólkið, velferð þess og kjör.

Ef einhver er ekki pólitískur, þ.e. lætur sig engu varða almannahag, hefur engar skoðanir á því hvernig lífinu skal lifað og hvernig skilgreina ber „líf með reisn“ og hvernig styðja ber allt gott sem stefnir lífinu til þess sem við köllum mannsæmandi líf, þá er hann í raun einhverskonar dauðyfli sem í orðabók er skilgreint með orðunum: hræ, letiblóð, rola, skussi.

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við HÍ, var talinn of pólitískur til að gegna ritstjórastarfi hagfræðitímarits í norrænu samstarfi, dæmdur fyrir skoðanir sínar af fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni.

Háskólaprófessorar geta að mínu viti ekki verið ópólitískir, geta ekki verið skoðanalausir um málefni þess samfélags sem þeir lifa og hrærast í, en þeir geta vissulega verið óflokksbundnir.

Ég hef mínar pólitísku hugmyndir um lífið og tilveruna og þær eru mótaðar af kristinn trú, af Jesú Kristi og þeirri hefð sem hann spratt úr. Ég er fv. sóknarprestur með skoðanir sem kristinn maður og þær læt ég í ljósi og túlka út frá kristinni kenningu og guðfræði og hugmyndum kristninnar um réttlæti. Ég ólst upp á heimili foreldra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn á dögum kalda stríðsins en voru þó farin að efast á efri árum sínum um heilindi flokksins eftir að hann varð fyrir því sem ég kalla erfðabreytingu, gerðist erfðavilltur eftir gervifrjóvgun með erfðavísum úr öfgafullri nýfrjálshyggju.

Ég var sjálfur hallur undir skoðanir flokksins fyrir þetta tímabil enda ekki um margt að velja á tímum kulnunar milli austurs og vesturs.

En svo þroskast maður og breytist og kemst að því að það er í raun ómögulegt fyrir kristinn mann að vera langt til hægri eða vinstri. Ég vil frelsi í viðskiptum en frelsi með ábyrgð því taumlaust frelsi er bara bjálfagangur. Og ég vil samhjálp og félagslega ábyrgð samfélagsins því við verðum að hafa í heiðri vísustu gildi veraldar: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluðu þér og þeim gera.“ Þessi hugsun Jesú hvetur til aðgerða, hún er próaktíf. Gullna reglan finnst líka innan annarra trúarbragða en þar er hún hlutlaus eða passíf: Allt sem þér viljið ekki að aðrir geri yður, skuluð þér ekki gera. Mikill munur er á þessum tveimur útgáfum því Kristur hafnar hlutleysi.

Manstu þegar nýfrjálshyggjan tók völdin og klúðraði öllu? Ég sagði ítrekað í ræðu og riti fyrir Hrun að það kynni ekki góðri lukku að stýra að gefa markaðinn frjálsan og hafa eftirlitið veikt. Meðan markaðurinn varð eins og óður unglingur á tryllitæki, var eftirlitskerfið eins og ungabarn í bleyju, reglurnar fáar og enginn til að stöðva skrímslið. Og því fór sem fór. Reyndar skrifaði ég smásöguna Íslensk fjallasala h.f. á nýársdag 1. janúar 1989 sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. apríl sama ár. Hún fjallaði um sölu Esjunnar sem sökk síðan og Ísland tapað öllum sínum fjármunum og virðingu. Hún var rituð 9 árum fyrir Hrun og rættist því miður en Esjan er enn á sínum stað sem betur fer.

Höfundur á enn til eintök af bókinni ef lesendur hafa áhuga

Ég hef mínar pólitísku skoðanir og er alls ekki skoðanalaus maður enda eru slíkir dauðyfli í mínum augum og svo djúpt tók Dante Aligheri, í árinni, höfundur hins stórbrotna kvæðis, Guðdómleg gleðileikurinn, að skoðanalausir mönnum væri ætlaður alveg sérstakur staður dýpst í helvíti.

Prófessor Svanur Kristjánsson, stjórnmálafræðingur,vinur minn og sveitungi, benti mér á þessa meintu skoðun Dantes. Ég hef lesið verkið á íslensku og leitað logandi ljósi að tilvitnun í Dante um dauðyflin umræddu en ekki fundið. Í orðræðu um hið sama hafa ekki lakari menn en forsetarnir, John F. Kennedy, Theodor Roosevelt, prestarnir séra John A. Hutton og dr. Martin Luther King jr. og fleiri sagt Dante hafa talað um slíka af lítilli hrifningu svo ekki sé nú dýpra í árinni tekið.

Ég hef ekki enn fundið tilvitnun stórskáldsins en mun leggja það á mig að lesa hana aftur upp á 500 síður plús til að geta staðsett slíka lufsur í þrískiptri handanveru Dantes enda þótt ég deili ekki kaþólskum miðaldahugmyndum hans um Hreinsunareldinn, Helvíti og Paradís. Hins vegar er ég ekki fjarri þeirri skoðun að þessi þrískipting sé ekki tópológisk, þ.e. staðfræðileg, heldur sálræn og geti því átt sér „stað“ í sálarlífi allra manna, fyrr og nú.

Dante lauk sínu stórbrotna verki rétt fyrir dauða sinn árið 1321. Verkið er talið vera ein helsta perla ítalskra bókmennta. Verkið þýddi Erlingur E. Halldórsson á íslensku og kom það út á vegum Máls og menningar árið 2010.

Dante var uppi á tíma ekki fjarri Snorra Sturlusyni og höfundi Njálu og fleiri öndvegis höfunda okkar. Merkilegt er til þess að hugsa að þessir kristnu höfundar sem tamið höfðu sér hina kristnu sagna- og ritunarhefði skyldu koma saman slíkum meistaraverkum sem enn vekja undrun og aðdáun um 800 árum eftir ritun verkanna. Þeir áttu sumt sameignlegt og annað ekki en skoðanaleysinu deildu þeir ekki.

Hver vill skoðanalausan þingmann, ráðherra, forseta? Hver vill skoðanalausan prófessor, rithöfund, prest?

Til er fólk sem heldur að það eigi sér hlutlausan lífsgrundvöll. Ég vil sérstaklega beina orðum mínum til þeirra sem halda slíkt og segja: Hlutlaus lífsgrundvöllur eða lífsskoðun er ekki til fremur en ferkantaður hringur eða hringlaga ferningur. Slíkt er staðleysa, oxymoron, og telst til refhvarfa í retorikk eða mælskulist.

Nú er svo komið á Íslandi að kristinn prestur má t.d. ekki heimsækja skóla til að tala og fræða um sinn lífsgrundvöll en það mega margir aðrir gera og prédika sinn lífsgrundvöll eða túlkun á eigin lífi og aðstæðum. Sumt skólafólk virðist vaða í oxymoron-villu og gerir sér ekki grein fyrir því að allir hafa lífsskoðanir.

Fjölmiðlar vilja helst ekki tala við presta nema fréttamenn hafi þefað upp eitthvað misjafnt í einhverjum söfnuði eða Þjóðkirkjunni og á sumum fréttastofum sumra fjölmiðla hafa komið sér fyrir menn sem stunda beinar árásir á ÞK og komu sér fyrir í því augnamið einu að geta skaðað ímynd Þjóðkirkjunnar. Og þá spyr ég: Hvar er ritstjórnarstefna og gildagrunnur viðkomandi fjölmiðils?

Hvaða skoðanir á að banna í skólum, fjölmiðlum og í hinu opinbera rými – og hverjar á að leyfa?

Svarið er einfalt: Leyfum fölbreytileikanum að blómstra.

En snúum okkur að lokum aftur að Þorvaldi Gylfasyni og Bjarna Benediktssyni. Sterkasti leikur sitjandi fjármálaráðherra hefði verið að fagna skipan Þorvaldar í ritsjórastöðu hins norræna tímarits um hagfræði og leyfa síðan skoðunum að takast þar á á akademískan og pólitískan hátt, því hvorugt verðu aðskilið frá hinu. Þá hefði ráðherran getað sannað sig vitran og stóran – þannig eiga valdamenn einmitt að reyna að lifa – en Bjarni situr nú uppi með að vera talinn margfalt minni en hingað til.