Boðflennur

https://kjarninn.is/skodun/2020-07-23-bodflennur/

Boðflennur

Athugasemd mín er ekki við einstakar greinar sem Alþingi er að föndra með, ekki bætur sem ríkisstjórnin, í samráði við formenn flokka eða fulltrúa þeirra, ætlar að sauma á gatslitna flík, ekki á neitt efnislegt frá ykkar hendi, því það sem þið ætlist fyrir, er vart sæmandi þjóðþingi í lýðræðislegu réttarríki.

Athugasemd mín er í formi hugvekju, metafóru, líkingamáls, hvatningar, ögrunar, brýningar.

Í þessu sambandi er holt að rifja upp orð þess manns sem haft hefur meiri áhrif á vestræna hugsun en nokkur annar og sagði:

„Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir vínið belgina og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“ (Markúsarguðspjall 2.21-22)

Til er nýtt vín á nýjum belgjum, sem þið fúlsið við í siðlausu brölti, þar sem þið hegðið ykkur eins og boðflennur, er æða upp á svið, á tónleikum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, ryðja sviðið og þykjast geta flutt verkið sjálf eða lagfært verkið á nótnablöðunum.

Þið hegðið ykkur því miður eins og ókurteisir dónar, alþingismenn, þegar sum ykkar ætlið að vanvirða lýðræðið með reigðum haus.

Á meðan lagerast nýja vínið vel á nýju belgjunum og verður bara betra og betra með hverjum deginum sem líður.

Ég bjó í Noregi í 5 ár (2014-2019) og starfaði þar sem sóknarprestur. Í höfuðkirkjunni í fv. prestakalli mínu stendur Neskirkja, vegleg krosskirkja úr steini. Elstu hlutar hennar eru frá því um 1250. Á vegg við innganginn í kirkjugarðinn er emeleraður skjöldur sem minnir á að árið 1814 var kirkjan kjörstaður í héraði þegar þjóðin valdi sér fulltrúa á stjórnlagaþing um land allt. Í kirkjuskipinu er skjal sem tjáir hverjir valdir voru. Þetta val, sem fór fram í höfuðkirkjum um allan Noreg, lagði grunninn að því verki sem unnið var á Eiðsvelli árið 1814 þegar Norðmenn eignuðust stjórnarskrá sína, sem enn er við lýði og er meðal elstu slíkra í heiminum. Í fyrra heimsótti ég Eiðsvöll og fékk einkaleiðsögn um bygginguna með sínum mörgu munum og minjum. Eftirminnileg var sú heimsókn og fræðandi.

Ferlið sem Norðmenn stóðu fyrir var í mínum augum heilagt, í þeim skilningi, að það var í samræmi við lög og réttlætishugsjónir. Allir póstar samfélagsins, sem þá var að móta lýðræðishefð sína í frumdráttum, virtu ferlið og vönduðu sig í hvívetna. Ferlið hér heima var líka heilagt í mínum huga, gert af elsku og virðingu fyrir lýðræðinu, með hag lands og þjóðar að leiðarljósi.

Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna til stjórnlagaþings ógilda á sínum tíma og á eintómum hugsanlegum, mögulegum ágöllum, á einhverju ímynduðum tilfellum sem ef til vill hefði getað gerst, og setti fram tilgátur um einhverjar uppdiktaðar aðstæður. Þá þjónaði rétturinn óvinum þessa ferlis, andskotum lýðræðisins, sem siguður sínum sendisveinum, stuttbuxnadrengjum úr æfingabúðum valdnýðslunnar, til að panta ógildingu. Og pöntunin var samþykkt og afgreidd í hlýðni við vald, sem ráðið hefur skipan dómara í meir en mannsaldur. Ég bæti því við og fullyrði að allar kosningar, sem haldnar hafa verið í landinu frá stofnun lýðveldissins, mætti úrskurða ólögmætar út frá sömu tilgátum og hýpótesum, sem svonefndur hæstiréttur setti fram og fabúleraði um. Hæstiréttur gegnisfelldi þar með sjálfan sig og varð að aumum smárétti í mínum augum og margra annarra landsmanna.

En forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafði vit og kjark og sá við óvinum málsins og skipaði auðvitað þau sem þjóðin kaus í stjórnlagaráð, einstaklinga sem ekki voru valdir af flokkslistum, ekki af pakkatilboðum, heldur einstaklinga sem unnu vinnu sína í sátt og á skömmum tíma og skiluðu af sér heilsteyptri stjórnarskrá í umboði þjóðar sinnar, sem hlotið hefur lof um veröld víða, einkum virtra sérfræðinga í stjórnlagarétti.

Og meirihluti Alþingismanna undanfarin 9 ár hefur lagt kollhúfur og látið sér fátt um finnast.

Alþingi hefur ekki verið kosið til þess verkefnis að semja nýja stjórnarskrá eða lagfæra gatslitna flík frá því seint á þar seinustu öld, sem bætt var og stöguð árið 1944, en þó með brýningu leiðandi manna á Alþingi þess tíma, um að skrifa nýja hið snarasta – nýtt fat án bóta, nýtt vín á nýjum belgjum.

En Alþingi hefur ekki umboð þjóðar sinnar til þess verks. Það er vegna þess að Alþingi er samansett af listakjörnum fulltrúm pólitískra flokka, gæslumönnum sérhagsmuna, sem oft gleyma almannahagsmunum. Alþingismenn geta ekki samið stjórnarskrá, því af þeirra hendi getur bara komið moð af hugmyndum úr einhverri illa leikinni refskák, sem tefld er af sérhagsmunafólki, sem sumt hvert er veðsett upp í hársrætur vegna loforða í héraði og liggur sumt marflatt og auðmjúkt frammi fyrir hinum voldugu og ríku, sem stjórna á bak við tjöldin með bitlingum sínum og peningum og vanvirða þar með lýðræðið sem er heilagt. Alþingi hefur nefnilega í sér inngróinn ómöguleika, einskonar genetískan galla, sem gerir það ófært um að semja heila stjórnarskrá.

En Alþingi er hins vegar falið að afgreiða tillögu stjórnlagaráðs án þess að raska því verulega, sem til þess kjörnir fulltrúar hafa samið og samþykkt einróma.

Enginn kaus ykkur til stjórnlagaþings eða stjórnlagaráðs, enginn hefur gefið ykkur umboð til að vanvirða þær tillögur sem þjóðin samþykkti í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012, og er enn óafgreidd af Alþingi, 8 árum síðar. Þið voruð kosin til þess, af þjóðinni, að afgreiða vilja þjóðarinnar, sem er uppspretta valdsins og er yfir ykkur öllum. Vilji þjóðarinnar er sá að gagna út frá tillögu stjórnlagaráðs. Yfirgnæfandi meirihluti samþykkti til að mynda greinina um auðlindir í þjóðareigu eða 83%.

Óvinir lýðræðisins tönnluðust á að kjörsókn hefði ekki verið næg en enginn þeirra vill vísa í skoðanakannarnir sem gerða voru um svipað leiti og sýndu sömu niðurstöðu. Það skipti því engu hvort kjörsókn var 48,9%, eins og raunin varð á, eða 95%. Niðurstaðan hefði orðið sú saman. Nei, andskotar lýðræðisins trúa bara á skoðanakannanir sem passa þeim sjálfum. Verum minnug þess að Brexit var samþykkt með rétt rúmlega 50% atkvæða og sú niðurstaða stendur sem stafur á helgri bók lýðræðisins þar í landi.

Undir yfirlýsingu og vilja 83ja prósenta þjóðarinnar um auðlindir í þjóðareign, búum við enn við það, að örfáir einstaklingar dansa með fjöregg þjóðarinnar, fiskinn í hafinu. Þeir arðræna þjóðina í skjóli Alþingis. Innan útgerðarfyrirtækjanna, með auðlindina í sínum höndum fyrir smánarverð og bókfærða sem eign – sem heitir þýfi á mannamáli – hafa margir hagnast og sumir farið offari hér heima og úti í hinum stóra heimi. Sumir úr þessum hópi hinna skæðustu útgerðarmanna, ganga enn lausir, þrátt fyrir grunsemdir um mikið misferli og jafnvel alvarlega glæpi. Hagfræðingur nokkur, hefur sannfærst um það af rannsóknum sínum almennt talað, eftir því sem mér er tjáð, að á bak við allan mikinn, uppsafnaðan auð, sé ætíð glæpur í lestinni.

Um þetta hefur Alþingi staðið dyggan vörð. Þjóðþingið er í mínum augum orið að þjófþingi eins og ég hef áður sagt með þessu nýyrði úr eigin smiðju. Meðan Alþingi vindur ekki ofan af þjófnaðinum en kýs að taka þátt í honum með aðgerðarleysi dafnar órétturinn eins og púkinn á fjósbitanum. Aðgerðarleysið má túlka sem glæp gagnvart þjóðinni. Glæpir dafna best þegar gott fólk aðhefst lítið sem ekkert til að gæta réttar og réttlætis.

Alþingismenn! Nú hvet ég ykkur til góðra verka, að hegða ykkur ekki eins og boðflennur í hátíðarsal lýðræðisins, undir skafheiðum himni réttlætissólar skaparans, sem er uppspretta alls hins góða, fagra og fullkomna, uppspretta allra hugmynda okkar um lýðræði og réttlæti, jafnrétti og kærleika.

Öll þessu hugtök eru heilög í mínum huga og þjóðþing, sem standa vill undir nafni, má ekki ganga í berhögg við það sem er heilagt og algilt í alheimi og býr í raun djúpt í hjarta hverrar manneskju.

Guð gefi að ykkur lánist að vita hvað til ykkar friðar heyrir.

Örn Bárður Jónsson