ferðasaga í tíu köflum (I-X) til meginlands Evrópu með skipinu Norrænu sumarið 2024.
I. LAGT AF STAÐ Í LANGFERÐ
Út vil ek, sagði Snorri Sturluson í Noregi og vildi fara heim til Íslands. Þessari tilvitnun er hér snúið við og notuð um að fara utan, til útlanda. Stundum talar fólk um að fara erlendis, sem er ógerningur á réttri íslensku, því erlendis er staðaratviksorð og merkir að dvelja erlendis. Að fara til meginlands Evrópu er austurför. Nóg um það!
Hafin er ferð til meginlandsins, ekið austur til Seyðisfjarðar og þaðan siglt með Norrænu með 2ja tíma viðkomu í Þórshöfn og svo til Hirtshals í Danmörku og loks á malbiki til Póllands og þá til Tékklands og víðar. Í bakaleiðinni staldraði ég við í tæpa þrjá daga í Færeyjum og fór þar um vegi og göng, skoðaði bæi, sveitir og söfn.
Sagan verður sögð eftir því sem fram vindur og færi gefst til góðrar nettengingar.
6. maí: Ekið frá Reykjavík um Selfoss þar sem keypt var vindsæng í bílinn og pumpa. Þaðan í rólegheitum í Skál sem er í norðurkanti Skaftárhrauns. Gisti þar í góðu veðri í boði eigenda.

7. maí: Vaknaði í Skál og horfði yfir hraunið. Miklir skýjabakkar við ströndina en það sást í bláan himin ofar bólstrum. Og svo kom demba!
Í gærkvöldi var þessi teiknuð og lituð sem sýnir gömul útihús í ásnum við Skál, austan við bæjarhúsin. Þá sést vegslóðinn yfir ásinn og niður að brúnni yfir Skaftána. Vegurinn liggur svo beina leið suður að hliðinu við þjóðveginn en í dag mun ég aka í Heydali.

Nú er ég kominn í heimsókn til séra Arnaldar Bárðarsonar frænda míns og konu hans séra Ingibjargar sem vinnur að ýmsum verkefnum innan kirkjunnar á Austurlandi. Hjá þeim hitti ég tvo af fimm sonum þeirra. Þau hafa sterka köllun til að þjóna fólki á Austurlandi. Heydalir eru höfuðból þar sem er vítt milli hárra fjalla og hafið opið í austri sem ég stefni út á með því að aka til Seyðisfjarðar og sigla síðan þaðan til meginlandsins.
Margir merkisklerkar hafa setið staðinn og vert að geta séra Einars Sigurðssonar á 16. og 17. öld, sem kenndur var við staðinn Eydali/Heydali og orti jólasálminn fagra, Nóttin var sú ágæt ein. Sjá nánar hér:
https://is.m.wikipedia.org/wiki/Einar_Sigurðsson_í_Eydölum

8. maí: Þegar ég kvaddi og hélt sem leið lá norður með Austurlandi, dáðist ég svo að fjöllum og fjörðum að ég gleymdi göngum sem liggja milli Fáskrúðs- og Reyðarfjarðar en þræddi þess í stað hlykkjótta vegi um brattar skriður, en kom loks til Reyðarfjarðar og þaðan áfram í gegnum Egilsstaði og yfir Fjarðarheiði sem er mikill farartálmi. Sannfærðist á leið minni um nauðsyn þess að borað verði í gegnum fjöllin til að tenga Seyðisfjörð betur við landið og auðvelda þeim þúsundum sem ferðast árlega með Norrænu og auðvitað heimamönnum ferjustaðarins fagra. Ég spurði Færeying sem ég hitti (sjá síðar) hvernig landar hans hefðu farið að við gerð ganga. Hann sagði: Þið þurfið bara að byrja að bora og láta ekki deigan síga!
Meðan ég beið eftir ferjunni fór ég til sýslumanns að kjósa í forsetakosningunum. Þar var mér vel tekið og ekki síst meðal fyrrum samstarfsmanna stjúpsonar míns, Jóhanns Freys Aðalsteinssonar, sem gegndi embætti tollvarðar í bænum um árabil með sínum ljúfa hætti en starfar nú hjá EFTA í Genf.
Bílnum var komið fyrir á efsta dekki og ég skundaði í klefann í þessu glæsilega skipi Færeyinga. Skipið nötraði stafna á milli er það hélt úr höfn og út fjörðinn í logni og fegurð. Sjóndeildarhringurinn opnaðist meir og meir eftir því sem nær dró mynni fjarðarins.


Teiknað beint með penna og svo litað.
Þetta er ein margra hraðskissa sem ég geri í önnum daganna.
II. ÚT VIL EK – FÆREYJAR
Siglt var inn í nóttina og skipið vaggaði rólega og ég svaf sem barn í vöggu. Fór upp í salinn undir brú skipstjórans og sat þar og horfði út um stóra glugga á hafið sem virtist án upphafs og endis og teygði sig út um allt. En loks sást til lands. Færeyjar risu úr sæ og magnað var að sjá þær stækka meir og meir uns við sigldum inn fjörðinn á milli eyjanna og til Þórshafnar.

Var svo heppinn að hitta hann Arnstein, Færeying og verkfræðing, sem er fróður um land sitt og sögu og þekkir vel til á Íslandi. Hann er einum 10 árum eldri en ég og ótrúlega ern, minnugur og hress. Hann sagði mér margt um Færeyjar og tengsl sín við Ísland. Hann verður væntanlega ekki heima þegar ég mun stoppa í Færeyjum í tvo daga á bakaleiðinni, aka um og skoða land og þjóð, skissa og mála og heimsækja listasöfn en Færeyingar eiga marga frábæra listamenn.
9. maí: Gekk um götur miðbæjar Þórshafnar og dáðist að gömlu húsunum með torfþökum sínum og veggjum í skærum litum. Náði að skissa tvær myndir í miðbænum meðan við biðum brottfarar áfram til Danmerkur.


III. ÚT VIL EK – DANMÖRK
11. maí: Eftir landtöku í Hirtshals var haldið suður Jótland þar sem allt er orðið grænt og litríkt fyrir listræna takta vermandi vorsólar.

Yndislegt var að aka í land og inn í sumarlitina á Jótlandi, skærgrænir akrar skreyta landið og gulir repjuakrar. Ég þaut framhjá einum sveitabæ sem stóð í hæð og þar mynduðu húsin og akrarnir krosstákn. Það var fögur sjón sem síðar var gerð tilraun með að túlka.

Ferðinni var heitið til Sjálands að hitta dr. Guðmund Magnússon, fv. prófessor og háskólarektor sem einnig var formaður sóknarnefndar í Neskirkju fyrstu árin mín þar. Hann og kona hans, Lisa von Smalensee búa á Sjálandi við Ísafjörð – nema hvað! – og þar gisti ég eina nótt, naut gestrisni þeirra og góðs matar.
12. maí: Svefninn varð styttri en ætlað var, líklega vegna ferðaspennu og ég var vaknaður um kl. 4 og eftir nokkrar tilraunir við að sofna aftur, læddist ég út fyrir kl. 6 og lét mig hverfa. Sendi þeim kveðju síðar og skýrði skjóta brottför mína.
Leiðin lá þá til Gedser, syðst á Sjálandi en þar ók ég um borð í ferju til Rostock í Þýskalandi. Meðan ég beið ferjunnar, teiknaði ég mynd af litlu húsi við járnbrautarteina sem líklega er stöðvarhúsið við enda línunnar.

Hitti auðvitað Íslendinga um borð og átti gott spjall. Þar voru mæðgur á ferð með tvo hunda. Ég gerði tilraun að teikna stúlkuna sem sat við sína iðju í farsímanum eins og flestra ungmenna er siður og með heyrnartól um hálsinn meðan hundarnir fylgdust með.

IV. ÚT VIL EK – PÓLLAND – TAKA EITT
Við komuna til Rostock í Þýskalandi og þá tók ég strikið í átt til Varsjár til að hitta Örn jr. og sambýliskonu hans sem heitir Kasia. En ég varð að gista á leiðinni því svefninn sótti svo að mér við aksturinn.
13. maí: Þau búa í Varsjá og eiga hundinn Kókó sem ég reyndi að festa á pappír með þessum árangri. Örn starfar sem hugbúnaðarverkfræðingur og Kasia sinnir bókhaldsstörfum fyrir fyrirtæki.

V. ÚT VIL EK – TÉKKLAND
14. maí, þriðjudag, lögðum við feðgar upp í ferð til Tékklands en þangað áttum við erindi sem sagt verður frá síðar. Gistum á hóteli um nóttina í nágrenni Liberec og héldum svo til Prag sem er merk borg og áhugaverð.
15. maí: Mættum hjá Visu í Liberec og hittum og ræddum við hönnuði og framleiðendur innréttinga í húsbíla.
Ókum til Prag. Lögðum bílnum við ána VLTAVA/MOLDÁ og héldum inn á Gamla torg. Þar er mikið minnismerki um Jóhann Húss sem telst vera fyrsti siðbótarmaður sögunnar (https://en.wikipedia.org/wiki/Jan_Hus) og forgöngumaður Lúthers.
Húss var uppi heilli öld á undan honum. Hann var kaþólskur prestur sem hafði sitthvað að athuga við kirkjuguðfræði þess tíma, þ.e. hugmyndir um þjónustu kirkjunnar og hlutverk. Þá gagnrýndi hann „símoníu“ eða sölustarfsemi á sviði trúarinnar eins og Lúther síðar sem réðst gegn aflátssölunni og öllu dellumakeríi kaþólsku kirkjunnar á þeim tíma.
Loks lét Húss sig varða skilning á altarissakramentinu sem hann taldi ekki vera á réttu róli hjá páfans prelátum. Hann var tekinn af lífi fyrir skoðanir sínar 6. júlí 1415.

Fleira var að sjá í Prag og m.a. þessa styttu:

Við vörðum nokkrum tíma í miðborginni sem skrýdd er fjölda fagurra bygginga og svo skoðuðum við Karlsbrúna sem er einstök með sínum arkitektúr allt um kring og trúarleg listaverk á brúnni sjálfri.


Þá gistum við á tjaldstæðinu Herztog hjá virðulegri eldri frú sem rekur lítið svæði fyrir húsbíla með eldhúsi, baði og góðri aðstöðu. Þar fengum við rafmagn til að hita bílinn að næturlagi. Kláraði að lesa bók sem Eiríkur Örn Norðdahl skrifaði og ber heitið Náttúrulögmálin sem er listilega skrifuð, sprúðlandi skemmtileg, en söguþráðurinn brjálaður ef ekki snarbrjálaður. En þannig er skáldskapurinn. Honum eru engin takmörk sett. Lifi skáldskapurinn! Lifi málfrelsið!
Fengum okkur kvöldverð úti á klassísku veitingahúsi/krá. Þar var þéttsetinn bekkurinn og maturinn góður.
Eftir kirkjulistina skoðaði ég deild með verkum eftir súrrealista sem þekkjast af sínum fjarstæðukenndu verkum. Frakkinn Andé Breton er sagður upphafsmaður en hann vildi mála án uppstilltra fyrirmynda, mála drauma og fantasíur hugans. Þetta er mögnuð stefna sem opnar víddir við áhorf.
VI. ÚT VIL EK – PÓLLAND – TAKA TVÖ
16. maí: Á leiðinni til baka til Póllands heimsóttum við hina merku borg, Wroclaw eða Breslau á þýsku sem á sér langa sögu sem Össi las upp fyrir mig á leiðinni af síma sínum. Hún er mikil háskólaborg og þar eru um 160 þúsund nemar við háskólanám sem stendur og borgin skartar því að hafa menntað 9 Nóbelsverðlaunahafa í sinni sögu.

Fagrar byggingar blöstu hvarvetna við. Nazistar fóru illa með borgina á sínum tíma en Pólverjar hafa endurbyggt hana af smekkvísi og djúpu fegurðarskyni.

17. maí: Ókum til baka til Varsjár. Gisti á Ibiz hótelinu í 2 nætur en kom mér svo á tjaldstæðið Camping WOK sem er í um 20 mínútna akstri frá heimili Össa.
Í Póllandi eru margir svonefndir Mjólkur-barir sem eru veitingahús með heimilismat, einskonar míní Múlakaffi. Á einum slíkum fengum við okkur schabowy/schnitzel sem reyndist hið besta sinnar tegundar sem ég hef smakkað á ævinni.

Á Litla barnum hjá ömmu Jadzi er frábæran mat að fá.
18. maí: Laugardagur. Fór með unga fólkinu að skoða barnavagna og þar var sá rétti fundinn en þó ekki í réttum lit. Hann verður því keyptur á Netinu síðar í boði afa.
19. maí – hvítasunnudagur: Vaknaði snemma á Camping WOK og eftir sturtu og morgunverð ók ég til Össa og við fórum saman í kirkju í Lúthersku miðstöðinni í borginni, en þar hittist fólk sem tilheyrir söfnuði sem kallast Alþjóðlega kirkjan (International Church). Hitti þar Harry sem gegnir forstöðu en hann er kennari, spilar á hljómborð og flutti fína prédikun um hvítasunnuundrið, tungumálin, tjáningu fólks og samskipti á nótum kristinnar trúar. Gaman að hitta fólk frá ólíkum löndum og ýmsum litarhætti sem lofaði Guð saman í Varsjá, fólk með ólík móðurmál en skilning andans, sem sameinar og blessar og veitir lífsfyllingu og gleði þá sem trúin ein getur gefið.

Eftir hádegi heimsóttum við foreldra Kasiu, Pétur (Piotr) og Barböru sem bæði eru komin á efirlaun, hann sem kennari og hún eftir stjórnunarstarf í háskóla. Gott fólk og skemmtilegt. Þar fengum við dýrindis máltíð og hundarnir hittust, þ.e.a.s. tíkin Kókó og rakkinn Bossom sem er dálítið ráðríkur og frekur, en Kókó náði að hemja hann og láta hann vita hver réði í samskiptum!

Hús Péturs og Barböru fyrir austan Varsjá í Póllandi stendur í skógi og að baki húsinu stendur stór og gömul eik. Þau hafa byggt það sjálf og eru enn að. Húsið séð og teiknað frá tveimur hliðum.
Þá kemur hér ný mynd sem ég skissaði á hvítasunnudag meðan ég beið úti í morgunsólinni eftir syninum en ferðinni var heitið í guðsþjónustu í Lúthersku miðstöðinni í Varsjá.

Bílarnir kúra í skugga trjánna. Ljós og skuggar kallast á en dimman getur verið svalandi, veitir ró og hvílir augun, en svo getur dimman líka verið vond til lengdar. Við þekkjum það sem lifað höfum við vetrarskammdegi á landinu okkar fagra.
22. maí: Skrapp í miðborg Varsjár með Metro eða neðanjarðarlestinni. Kom út að baki Menningarhöllinni sem er gríðarleg „terta“ en nú hafa risið turnar kapitalismans úr gleri í nágrenninu sem skyggja á Höllina frá vissu sjónarhorni en eru áhugaverður bakgrunnur frá öðru horni séð.

Pólsk saga er mörkuð átökum. Þetta land sem er eins og ein samfelld slétta hefur verið sem krossgötur þar sem hinir og þessir hafa ruðst til hægri og vinstri, upp og niður, með látum og tekið völd, keisarar og nazistar, kommúnistar og nú er það kapitalið sem leiðir – og auðvitað Evrópusambandið með öllum sínum styrkjum og reglugerðum.
Fólkið er almennt kurteist í framkomu og vinalegt. Börn bjóða jafnvel góðan dag að fyrrabragði og enginn olnbogar sig áfram í frekju og stressi. Ég veit ekki hvort pólskir bílar eru með flautubúnað því ég hef ekki heyrt í bílflautum í hálfan mánuð.
23. maí: Hafði hugsað mér að fara niður í miðbæ og kíkja á söfn og myndlistarbúðir en spáð var mikilli rigningu. Sú spá gekk eftir og upp úr hádegi kom þrumuveður með steypiregni.
Þegar vökvun akra og borgartrjáa lauk – en hér hefur verið þurrt undanfarið – þá fór fólk á stjá og fuglar sungu í hverju tré.
Fór í bakarí í nágrenninu og fékk mér pizzu-sneið, appelsínusafa og ís, settist við borð fyrir utan og naut þess að vera í tærri og vökvaðri veröld eftir blessandi regnið.
Þá kom þar maður á hjóli með langa skúffu fremst sem í sátu tvö börn, drengur og stúlka, og biðu róleg meðan pabbi fór í bakaríið. Hann keypti án efa eitthvað sem þau langaði í.
Þessi mynd varð þá til í skyndi og ég rétt náði að skissa áður en pabbinn kom út og hélt áfram för. Svo litaði ég skissuna eftir á og hér er hún:

Börnin sem ég hef séð í borginni eru róleg, vel klædd, kurteis og fáguð. Greinilegt er að þau eru ekki orðin andlega næringarsljó af netvafri og neyslubrjálæði.
Grunnskólar í Póllandi eru góðir og skora hæst allra skóla í Evrópu á svonefndu PÍSA-prófi, koma næst á eftir Asíu-þjóðum, snillingunum í austri, meðan íslensk börn sleikja botninn.

Það er eitthvað að á Íslandi. Pólverjar eru kristin þjóð eins og við Íslendingar en heima virðist hafa hlaupið í þjóðina ofuræði gegn öllum traustum og gömlum gildum. Er það WOKE-isminn sem vinstrið keyrir svo hart áfram?
Textann hér fyrir neðan skrifaði ég á Facebook nýlega sem svar við færslu manns sem telur sig til vinstri en ég veit að á traustan gildagrunn:
„Manneðlið er samt til hægri og vinstri en hugmyndafræðin er ólík. Vinstrið er oft svo gildalaust og vill stundum lítið hafa að gera með kirkju og kristni.
Woke-isminn er ofurvakandi yfir öllum misfellum lífsins án þess að skilja að í Woke-istunum býr sama synduga manneskjan og í öllum öðrum. Í þeirra hópi verður til einskonar skynhelg vandlæting sem skilur ekki að þeir eru sama eðlis og allir aðrir en telja sig hins vegar öllum betri.
Ég virði þína afstöðu enda er hún með kristinn kompás sem býr því miður ekki í öllum sósíalistum.
Hægrið getur reynst gráðugt en í því býr framtak og áhættusækni, vogun sem stundum vinnur feitt en getur líka tapað svakalega. Þetta skilur vinstrið illa og búrókratar þess. Þeir virðast a.m.k. sumir vilja helst fá að vera í öruggri ró og næði og naga blýanta án þess nokkru sinni að voga einu eða neinu. Frumkvæðið hjá þeim mörgum er sem vannýtt auðlind og sköpunargáfan sem grafið gull.“

Bendi svo í leiðinni á nýlega grein mína:
Að sjóða frosk – á þessari slóð :
Að sjóða frosk

Froskur í vatni.
25. maí 2024: Laugardagur í Varsjá. Þá er náttúran búin að baða sig og orðin hrein og tær. Fuglar syngja í görðum og ástin er á ferð í ríki dýra og manna. Unga fókið streymdi í bæinn í gær. Sá það í neðanjarðarlestinni í gærkvöldi. Munur á fólki og fuglum er lítill þegar kemur að kvaki og skeytasendingum fiðurfjár og unga fólksins hvert til annars. Svona er lífið!
Í gær gengum við Össi sonur minn um borgina, fengum okkur kaffi í Gamla bænum, stöldruðum við í kirkju og fórum með bænir fyrir fólkinu okkar og vinum.
Þar sem ég sat við kaffidrykkju í Gamla bænum mátti sjá háa súlu með styttu af manni með kross og sverð. Sá hét Sigismund III og var kaþólskur konungur í Póllandi, kominn af ætt Vasa í Svíþjóð.


Þá kom lítill fugl að heilsa upp á Ernina tvo og bauð sjálfum sér til veislu. Hann Árni Árnason, vinur minn á FB, segir þennan fugl vera „gráspör, karlfugl, einkennisfugl borga og bæja í Evrópu. Duglegur lítill fugl.“
Sagði frá því hér að framan að við hefðum litið inn í kirkju og beðið. Bænin er merkilegt fyrirbrigði og börn mega alls ekki fara á mis við það að læra að biðja með mömmu og pabba, afa og ömmu. Bænin er lykill að himni Guðs.
Gefum séra Hallgrími Péturssyni orðið:
1 Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmislig.
Þá líf og sál er lúð og þjáð
lykill er hún að Drottins náð.
2 Andvana lík, til einskis neytt,
er að sjón, heyrn og máli sneytt,
svo er án bænar sálin snauð,
sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.
3 Vaktu, minn Jesú, vaktu’ í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.
Hallgrímur Pétursson Ps. 4
Bænalíf er undursamlegt. Kristin trú er tengslatrú sem sameinar Guð og mann. Hún er eins og ástarsamband. Engin hugmyndafræði gefur neitt í líkingu við það samband sem maðurinn getur átt við skapara sinn. Og Guð skilur allt, hann skilur mig og þig – og svo er aldrei á tali hjá honum.

Fyrr um daginn fór ég í Listasafn Póllands – Muzeum Narodowe – og þar var nú margt að sjá. Skoðaði fyrst deild með trúarlegum verkum, altarisbríkum, málverkum og líkneskjum. Þar voru fyrir nokkrir listnemar sem voru hver fyrir sig að mála hluta af stærra verki með frumlitum og svonefndri egg-tempera aðferð, en þá er egg notað sem bindiefni til að blanda í það litaduftinu. Orðið tempera vísar til þéttni sem næst með blöndun litarefnis og eggjahræru. Þessi aðferð er ævaforn og var þekkt meðal Egypta og Babýloníumanna, Grikkja, Krítverja og Kínverja en endurreisnarmálarar Evrópu máluðu sín miklu verk með þessari aðferð.
Fátt hefur eins mikil áhrif á mig og góð myndlist. Ég man er ég fyrir nokkrum árum sá Næturvaktina eftir Rembrandt í Amsterdam. Ég kom að verkinu, stóð kyrr og starði sem bergnuminn væri og tár byrjuðu að streyma niður vanga mér. Slík var upplifunin af því undri sem verkið er.

Eins man ég eftir að hafa horft á verk eftir Mark Rothko í New York og verkin heilluðu mig gjörsamlega. Það gerðist eitthvað í sálinni við að horfa á þau. Samt eru þau eiginlega bara stórir fletir í einum lit eða 2-3 litbrigðum af sama litastofni. Magnað!
Pólverjar eiga mikið safn málverka frá 19. öld og til dagsins í dag. Á safninu sá ég mörg stórkostleg verk.

Þá kom mér á óvart hve marga muni safnið á af egypskri list frá blómatíma Faróanna og einnig frá Grikklandi og víðar.
Þegar ég kom svo út í sólina að loknu rölti um safnið skissaði ég mynd af „Tertunni“ eða „Höll menningar og vísinda“ innan um turna kapitalismans.

Hér er önnur þar sem horft er í gagnstæða átt og sýnir turna við Poniatowski-brúna.

Við röltum í gegnum Gamla bæinn og niður að ánni Vislu sem rennur í gegnum Varsjá. Á þessum föstudagseftirmiðdegi var þar fjöldi fólks í 26 gráðu hita sem dreifðist meðfram bökkum fljótsins. Þar settumst við niður og nutum veitinga og ég skissaði mynd af Þjóðarleikvangi landsmanna, Stadion Narodowy sem er handan fljótsins við brú sem tengir bakka.

. . . meira seinna . . .
Og nú, eftir nokkurt hlé og annir við akstur og skort á góðu netsambandi, tek ég upp þráðinn á ný.
Gaman var að hitta Össa minn en hann og Kasia eiga von á barni í júlí. Við fórum því í verzlun og skoðuðum barnavagna handa dömunni og völdum einn flottan fjölnota grip. Vagninn skilaði sér svo með pósti daginn eftir að ég lagði af stað frá Varsjá. Kasia starfar hjá fyrirtæki í upplýsingaþjónustu og Össi sinnir ýmsum verkefnum sem hugbúnaðarverkfræðingur.
Við fórum út að borða eitt kvöldið í miðborginni.


Össi og Kasia buðu svo til pizza-veizlu 28. maí og sú var nú ekki af verra taginu, skal ég segja þér, lesandi minn. Drengurinn útbjó deigið með vísindalegri nákvæmni og svo kom að því að gera úr því pizzuna! Þar var sko ekki slegið af vísindum, þ.e. efnafræðilegum töktum og nákvæmni. Úr varð undurgóð máltíð, þrjár pizzur hver með sínu áleggi og kryddi. Aldrei smakkað annað eins fínerí, ekki einu sinni á Ítalíu! Og kröstið – maður lifandi!

Gott var að vera í Póllandi en síðasta daginn þar í sól og hita varð ég í fyrsta sinn fyrir því að fá svæsið gróðurofnæmi. Daginn eftir þegar ég hafði ekið yfir til Þýskalands fann ég sveitaapótek og keypti mér töflur sem slógu á fyrirbrigðið.
VII. ÚT VIL EK – HAMBORG
Þá var ferðinni heitið til Hamborgar að hitta Ástrós Ynju Þorsteinsdóttur og Svölu minnar. Hún stundar nám í læknisfræði í borginni. Miklir fagnaðarfundir hjá okkur.
Ég hafði beðið á tjaldstæði við fljótið Elbu í 2 daga á meðan hún kláraði próftörn. Þar teiknaði ég myndir og málaði:

Húsbíla-kampurinn heitir Stover Strand og er mjög vel útfærður með góðri þjónustu og aðstöðu í hvívetna.

Nágrannabíll í Stover Strand hverfinu og íbúi í skugga undir markísu.
Þá kom að því að ég fann heimili Ástrósar og fékk að leggja bílnum í bílastæðahúsinu hjá henni. Við tókum svo strætó í bæinn og gengum um hafnarsvæðið, sáum þar byggingar frá tímum Hansa-kaupmanna og skoðuðum svo Elfenfilharmonie-bygginguna sem segja má að sé Harpa þeirra Hamborgarmanna.
Stórkostleg bygging sem stendur á lóð við fljótið og innan um háhýsi, hafnarbakka og löndunarkrana í hundruða tali. Í Hamborg er gríðarlega stórt hafnarsvæði og magnað að sjá yfir það úr upphæðum byggingarinnar.
Á leiðinni þangað gengum við framhjá litlu húsi sem stendur á ármótum og er líklega gömul tollbúð. Ég staldraði við í 5 mínútur og skissaði. Litaði myndina svo síðar.

Já, en hvað keypti frúin í Hamborg?
Svo fundum við okkur veitingastað áður en regnið jókst og náðum í heimahöfn eða stað sem ber það nafn, Heimathafen. Þar fengum við okkur fisk með kartöflum og lauk og vatn að drekka. Meðan við biðum eftir afgreiðslu lék barþjónninn listir sínar fyrir kúnnana.

Á göngu um borgina var margt að sjá. Við komum við í Sankti Georgs-kirkjunni í Hamborg sem er evangelísk-lúthersk og gerðum þar bæn fyrir fólkinu okkar og héldum svo út á stræti borgarinnar.

Gengum framhjá lögreglustöð í gömlu húsi og afi skissaði í hvelli eina mynd sem hann málaði síðar.

VIII. ÚT VIL EK – AFTUR TIL DANMERKUR
Langþráð stefnumót við afastelpuna mína varði stutt því ég þurfti að koma mér áfram til Danmerkur og reiknaði með að það tæki mig a.m.k. 2 daga en ferðin gekk svo vel að ég náði til Árósa fyrir kvöldið en hafði gleymt að panta mér gistingu á tjaldstæði og þurfti því að leita að hóteli sem tók nokkurn tíma því víða var allt fullbókað.
Ég reyndi á booking.com og fann einn stað og reyndi að bóka en hélt að það hefði mistekist, en síðar um kvöldið fékk ég skilaboð um að ég væri kominn með gistingu og búinn að borga! Reyndist það vera í nýbyggingu sem er hönnuð fyrir stafræna innskráningu svo að mannshöndin kemur þar hvergi nærri. Það reyndist fínn díll og herbergið prýðilegt í alla staði.
Strax morguninn eftir, laugardaginn 1. júní, var ég mættur á bílastæði listasafnsins ARoS kl. 10 sem ég hef lengi þráð að skoða. Á þaki þess er stórt verk eftir Ólaf Elíasson, hringur með gleri í mismunandi litum sem myndar göng sem safngestir ganga um og sjá borgina. Margar sýningar voru í boði og gekk ég og skoðaði þær allar og kom svo við í verzlun safnsins.
Leyfi mér að geta þess að þar sýndi Hrafnhildur dóttir mín fyrir nokkru síðan en hér er frásögn safnins:
https://www.aros.dk/en/about/press-releases/shoplifter-hypernature/
Tíminn var naumur því ég átti eftir að aka til Hirtshals sem tekur um 2 tíma. Náði þangað um klukkutíma fyrir brottför, ók bílnum um borð og fann klefann minn í Norrænu á 6. dekki.
IX. ÚT VIL EK – AFTUR TIL FÆREYJA
Skipið nötraði er það lét úr höfn með sínum kröftugu og kjölföstu vélum. Kjölsogið er magnað að sjá.

Siglt var inn í nóttina og um moguninn var ég á gangi í skipinu og sá land á bakborða og rauk upp á dekk. Þar gaf að líta Hjaltland sem að hluta til var hulið þoku. Töluverður vindur á dekkinu og hiti ekki lægri en svo að ég gat staðið þar góða stund úlpulaus en í peysu.

Vitinn Muckle Flugga sást ógreinilega í mistrinu og ég teiknaði hann og málaði með hliðsjón af mynd.

Þórshöfn og Færeyjar tóku á móti okkur með þræsingi og skúrum. Tjaldstæðið í bænum fullbókað og því stefndi ég til Vestmanna sem er í um 45 mínútna akstursfjarlægð en þegar ég kom að göngum sem stytta eiga leiðina þá reyndust þau lokuð.
Kona stóð við göngin og tilkynnti um lokunina og sagði mér að aka til baka. Virtist það einfalt við fyrstu sýn en það tók mig nokkrar tilraunir og hjálp frá ungum manni að finna leiðina yfir fjöllin. Sú leið minnti mig á vestfirzkar heiðar, snarbrattar hlíðar, mjóir vegir og bugðóttir.
En um nóttina komst ég á áfangastað. Ætlaði aldrei að finna stæði með rafmagni en fann það þó að lokum eftir að tveir tjaldbúar bentu mér á stað. Þar kom ég bílnum fyrir, tengdi ofninn um borð við rafmagn og lagðist til svefns.
Vestmanna-kamping reka hjónin, Bjørg og Leivur á Rógvi. Þetta er þeirra tómstundagaman því Leivur hefur verið togaraskipstjóri og oft við veiðar m.a. við Grænland og þekkir vel til Íslands og hefur oft landað í Hafnarfirði eða komið þangað annarra erinda. Frábær hjón, lipur og hjálpleg við sína viðskiptavini. Færeyingar eru mjög líkir okkur Íslendingum þykir mér.
Mánudaginn 3. júní ók ég til Þórshafnar og hitti þar gamlan félaga, séra Heri Jógvan Joensen, sem er prestur í Vesturkirkjan í höfuðstaðnum. Hann er búinn að þjóna þar árum saman en var áður á Suðurey. Hann er frá nyrsta tanga eða eyju Færeyja og ætlar þangað á morgun til að bera á túnin, en þar gengur fé hans og systur hans sjálfala.

Heri er góður prestur og fróður, vinsæll maður, býr við góða kirkjusókn – og jarðsyngur marga Færeyinga! Við gátum því spjallað um margt. Við vorum samskipa í námi við HÍ í guðfræðideildinni á 9. áratugi liðinnar aldar. Heri er kvæntur íslenskri konu.
Kirkjan hans er nýleg, háreist og gnæfir yfir bæinn t.d. frá höfninni eins og sjá má á skissu minni framar í þessari ferðasögu. Þegar ég kvaddi hann skissaði ég eina af sjónarhóli aðaldyra kirkjunnar sem blasir við fólki sem kemur úr kirkju. Sú tók mig tvær mínútur að skissa og svo litaði ég hana seinna.

af dýrari gerðinni og auðvitað í eigu efnafólks.
Eftir fundinn með séra Heri ók ég sem leið lá ofan- og neðanjarðar til Klakksvíkur. Margt að sjá á þeirri leið. Færeyjar eru fallegar á að líta, fjöllin og firðirnir minna um margt á Vestfirði en húsin og yfirbragðið er annað. Á leiðinni til baka fór ég svo yfir fjallið milli Þórshafnar og Vestmanna og teiknaði 2 myndir.

Vegriðið ver farartæki og farþega sem eiga leið um brattar hlíðar.
Af tjaldstæði skipstjórans og konu hans er fögur hlíð og gróin. Þessi var skissuð á staðnum og lituð um leið að kvöldi 3. júní.

Í dag, þriðjudaginn 3. júní, stendur til að heimsækja listasöfn í Þórshöfn.
Ég bauð þýzkum hjónum, sem voru með takmarkaða olíu á bílnum vegna verkfallsins í Færeyjum, að koma með mér til Þórshafnar, en þangað er um 45 mínútna akstur. Joachim þáði boðið og við héldum yfri heiðina og gegnum göngin. Þegar þangað kom skildu leiðir, hann fór í göngutúr um bæinn, en ég á listasöfn. Það var dásamleg upplifun.
Þegar ég hafði skoðað Listasafn Færeyja fór ég á Þjóðminjasafnið og loks á Steinþrykkið sem er grafískt verkstæði við höfnina. Hitti þar finnskan listamann og þann sem rekur þrykkið og er dansk/sænskur. Gaman að sjá og skoða og einnig hönnunarbúðina við hliðina sem selur vörur eftir færeyska hönnuði.
Eigandinn þar sagði að ég þyrfti að sjá Koltinn frá vissu sjónarhorni og það gæti ég gert ef ég færi heiðina í stað þess að stytta mér leið um göngin. Við Joachim gerðum það, fundum staðinn þar sem hægt var að sjá Koltinn milli tveggja fjalla.
Niður í víkina var snarbrattur og hlykkjóttur vegur, eintómar zetur sem útrýmt hefur verið úr íslenskri tungu en reyndar ekki í vegakerfinu. Þennan stað hafa ýmsir bílaframleiðendur notað til að filma bílana sína á hlykkjóttum vegum og mögnuðu landslagi.
Ég lét vaða niður brekkuna og við tókum myndir á mörgum stöðum en þegar við vorum neðst við víkina kom gönguhópur í áttina til okkar. Ég ávarpaði hópinn á bjagaðri færeysku og spurði hvort þau væru heimafólk. Og þau svöurðu: Nei, við erum Íslendingar!
Þau horfðu á mig og sumir sögðu: Ég kannast nú við þig? Hvað heitirðu? Ég sagði til nafns og þá kom í ljós að margir könnuðust við kauða og ein kona sagði: Ég er dóttir hans Árna R. Árnasonar, (fv. alþingismanns) sem er ættaður frá Aðalvík. Ég svaraði að bragði: Þú ert frænka mín! – og tók utan um hana.
Þarna var á ferð hópurinn Krummafætur sem gengið hefur m.a. oft um Hornstrandir og víðar. Ég leit á skófatnaðinn og sagði: Enginn í krummafót!
Einstakt að hitta þau þarna í víkinni.
Joachim nefndi það á eftir að ef við hefðum ekki tafist í korter í Þórshöfn og ekki ekið niður sneyðingana að víkinni, hefðum við aldrei hitt þennan hóp Íslendinga. Er lífið ekki fullt af tilviljunum – eða eigum við að segja – fullt af undrum og ævintýrum – og því sem ég kalla handleiðslu æðri máttar?
Því miður tók ég engar myndir af hópnum enda fundurinn stuttur og svo gekk hann á með éljum. En minningin er góð og lifandi! En hér er skissa af þýskum hjónum sem urðu einhvers staðar á vegi mínum.

. . . meira síðar . . .
Ók um Vestmanna og skoðaði bæinn og skissaði mynd af kirkjunni. Hún var lokuð svo ég gat ekki skoðað inventar.

Fór frá Vestmanna uppúr hádegi og ók til Þórshafnar, kom mér fyrir í röðinni með öðru húsbílafólki og beið í rigningunni. Svo var lagt í’ann og siglt út til norðurs á milli eyjanna.
X. ÚT VIL EK – HEIM TIL ÍSLANDS

tengdar með jarðgöngum.
Fjöllin hjá Færeyingum eru sum sem margra gata blokkflautur.
Tignarlegt var að sjá hamarinn í fjarlægð og drangana tvo sem þar skaga upp úr sjónum. Nafnið á þessu náttúrufyrirbrigði er hér stafað uppá færeysku. Litavalið er skáldskapur höfundar.

Risin og kellingin.
Siglingin gekk vel og ég dottaði í bási á 5. dekki þar til við komum til lands. Mikið kuldakast hefur gengið yfir Ísland með snjókomu og norðan báli. Bændur hafa orðið fyrir búsifjum og fuglavarp víða orðið fyrir áföllum.
Þessi sakleysislega skissa hér fyrir neðan segir ekkert um veðrið en fjallatoppar eru hvítir. Heiðin var orðin auð þegar ég ók yfir hana. Kom við á Egilsstöðum, fékk mér í gogginn og kom mér svo fyrir á tjaldstæði og lagði mig í klukkutíma. Hélt að svo búnu suður, ók um Öxi og sleppti fjörðum og náði heim rétt fyrir miðnætti eftir eina 10 tíma akstur og oft í miklum hliðarvindi. Á einum stað á söndunum á Suðurlandi lá ónýtur, stór húsbíll á hliðinni fyrir utan veg.
Gott er heilum vagni heim að aka!

Og nú er ég kominn heim!
Dásamlegt að vera í eigin íbúð, ganga um gólf og hafa allt til alls. Ólíkt því sem gerist þegar maður er á faraldsfæti.
Þetta var einstök og eftirminnileg ferð og víða komið við.
Ekið var um Danmörku, Þýskaland, Pólland, Tékkland og Færeyjar.
Ég dvaldi lungann úr ferðinni í Póllandi hjá syni mínum Erni Bárði jr. og tengdadóttur sem heitir Kasia Koziarkiewicz.
Þakka Guði fyrir góða ferð og gefandi – og að koma heill heim!
Nokkrar myndir til viðbótar sem urðu til eftir afar jákvæða upplifun af Færeyjum enda þótt þar væri nær allt lamað vegna verkfalla og veðrið á N-Atlantshafinu í svalara lagi.






Esjan við heimkomu!
You must be logged in to post a comment.