Um skjálífi og skjána

Með síðustu grein minni í Kjarnanum, sem ber yfirskriftina – Incurvatus in se – sem merkir að vera kengboginn inn í sjálfan sig, lofaði ég að rita aðra um þau sem eru kengbogin inn í skjáinn.

Þú getur hlustað á upplestur greinarinna á tenglinum hér fyrir neðan:

Við erum mörg sem drögumst að skjánum. Alnetið geymir urmul upplýsinga og þangað er gott að leita. Við lesum þar efni fréttamiðla, horfum jafnvel á bíómyndir og þáttaraðir og hvað eina. Við leitum leiða í borgum heimsins og þurfum engin kort lengur, þau eru í símanum. Svona er nútíminn.

Mér finnst þessi tækni stórkostleg og skemmtileg í senn, en mikilvægt er að gæta þess að hverfa ekki algjörlega inn í skjáinn og missa um leið skyn á umhverfi sitt.

Ég hjóla mikið og fer 1/3 af öllum mínum ferðum um borg og bý á hjóli. Hjólastígar eru orðnir svo margir í borginni að til fyrirmyndar er. Sums staðar eru hjólastígar aðgreindir frá stígum fyrir gangandi en annars staðar ekki. Á hinum síðarnefndu og á göngugötum borgarinnar er fólk gjarnan á gangi eins og ætlast er til og mörg eru þau sem ganga þar með augun límd við skjáinn. Þau gefa sér ekki tíma til að staldra við og leita að því sem þau vanhagar um, heldur ganga gónandi á skjáinn. Og þeim bregður við þegar hjólabjöllunni er hringt og þá er undir hælinn lagt hvort þau hoppa til hægri eða vinstri. Skjáglápið getur nefnilega reynst slysagildra.

Sumir karlar sem aka um á sínum sjálfrennireiðum eru með augun á skjánum við akstur og jafnvel í bílum sem eru nýir og með handfrjálsum búnaði. Þá eru ungar og uppteknar konur engir eftirbátar karla og reynast því margar afar skæðar í skjánotkun við akstur.

Um þessa hegðun hefur verið smíðað karlkynsorðið skjáni, í fleirtölu skjánar. Því er nú svo farið að öll ný fyrirbrigði í heiminum þarfnast skilgreiningar og það eitt að gefa þeim nafn er í raun vísindalegur verknaður.

Adam var fyrsti vísindamaður veraldar því hann gaf öllu nafn (1. Mósebók 2.20) og aðgreindi hvert fyrirbrigði frá öðru. Og enda þótt Adam hafi ekki verið lengi í Paradís og í reynd verið rekinn úr þeim skóla, var hann alls enginn kjáni, en hann á þó marga ættingja í okkar samtíð sem kalla má skjána.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.