Fimmtándi sunnudagur eftir þrenningarhátíð og tvöfalt vígsluafmæli

Við Ægisíðu

Þann messudag bar að þessu sinni uppá 25. september. Dagurinn er mér kær enda merkisdagur í lífi mínu.

Til þess að halda upp á daginn fór ég í messu í morgun í Neskirkju. Þar messaði dr. Skúli Sigurður Ólafsson og Bjarni Jónatansson var organisti í forföllum Steingríms Þórhallssonar sem var veðurtepptur úti á landi, Rúnar Reynisson var kirkjuvörður.

Skúla mæltist vel að vanda og messaði falleg, sálmaval var gott og söngur og orgelleikur fagur. Kaffi og kex á Torginu eftir messu og gott spjall við safnaðarfólk.

Sjá meiri texta og svo vatnslitamyndir eftir þessi skil.

Þennan kirkjudag árið 1979 var ég sem sagt vígður djákni af herra Sigurbirni Einarssyni, biskupi og sama kirkjudag árið 1984 vígði herra Pétur Sigurgeirsson mig til prestsþjónustu. Liðin eru 43 ár og 38 ár frá þessum tveimur merkisviðburðum í lífi mínu og er ég ævinlega þakklátur vígslufeðrum mínum fyrir elskusemi þeirra, fyrirbænir og vináttu meðan þeirra naut við í þessu jafðlífi.

Að messu lokinni fór ég á mínum fótstigna raf-fáki upp í Höfuðstöðina í Ártúnsholti þar sem listaverk Hrafnhildar dóttur minnar eru til sýnis. og fylgdist með foreldrum og börnum í föndri og andlitsmálun og hjólaði svo þaðan og heim í miðbæinn. Góður og hressandi hjólatúr.

Hér eru nokkrar skissur sem ég páraði á leið minni um guðshús og hjólastíga Borgarinnar. Allar teiknaðar með sjálfblekungi og því engu hægt að breyta. Strokleður virkar víst ekki á blek!

Dr. Skúli les lexíu dagsins um Abraham. Svo kom pistillinn seinna og loks guðspjallið þar sem Jesús talar um að hafa ekki áhyggjur og um Guð og mammón, fugla himinsins og fleira fallegt. Fyrirgefðu mér svipinn á þér, Skúli kær, ég sat á aftasta bekk og var því mjög lang í burtu!
Feðgar og tveir aðrir strákar fyrir framan mig í Neskirkju, sem allir þrír ætla að fermast ásamt mörgum öðrum börnum.
Húsið Garðar, grásleppuskúrar, Lambhóll og harðfiskhjallurinn við Ægisíðu.
Smáhlutir á borði í Höfuðstöðinni og stúlkuandlit.
Göngu- og hjólabrú yfir ósa Elliðaáa á Geirsnefi.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.