
Þann messudag bar að þessu sinni uppá 25. september. Dagurinn er mér kær enda merkisdagur í lífi mínu.
Til þess að halda upp á daginn fór ég í messu í morgun í Neskirkju. Þar messaði dr. Skúli Sigurður Ólafsson og Bjarni Jónatansson var organisti í forföllum Steingríms Þórhallssonar sem var veðurtepptur úti á landi, Rúnar Reynisson var kirkjuvörður.
Skúla mæltist vel að vanda og messaði falleg, sálmaval var gott og söngur og orgelleikur fagur. Kaffi og kex á Torginu eftir messu og gott spjall við safnaðarfólk.
Sjá meiri texta og svo vatnslitamyndir eftir þessi skil.
Þennan kirkjudag árið 1979 var ég sem sagt vígður djákni af herra Sigurbirni Einarssyni, biskupi og sama kirkjudag árið 1984 vígði herra Pétur Sigurgeirsson mig til prestsþjónustu. Liðin eru 43 ár og 38 ár frá þessum tveimur merkisviðburðum í lífi mínu og er ég ævinlega þakklátur vígslufeðrum mínum fyrir elskusemi þeirra, fyrirbænir og vináttu meðan þeirra naut við í þessu jafðlífi.
Að messu lokinni fór ég á mínum fótstigna raf-fáki upp í Höfuðstöðina í Ártúnsholti þar sem listaverk Hrafnhildar dóttur minnar eru til sýnis. og fylgdist með foreldrum og börnum í föndri og andlitsmálun og hjólaði svo þaðan og heim í miðbæinn. Góður og hressandi hjólatúr.
Hér eru nokkrar skissur sem ég páraði á leið minni um guðshús og hjólastíga Borgarinnar. Allar teiknaðar með sjálfblekungi og því engu hægt að breyta. Strokleður virkar víst ekki á blek!




