Gatan mín, Sólgata. Í húsinu nr. 8 sem stendur á horni Sólgötu og Fjarðarstrætis, fæddist ég og ólst upp. Undraveröld allt um kring, sjór og fjöll, bryggjur og bátar, allar kynslóðir saman í bæ sem var og er einskonar míkrókosmos, smækkuð mynd af umheiminum, með verslunargötu à la meginland Evrópu.

Í bænum voru a.m.k. 4 bakarí þegar ég var strákur, 2 úrsmiðir, 2 silfursmiðir, 2 klæðskeraverkstæði, 2 eða 3 skósmiðir og svo annarskonar iðnaðarmenn af öllu tagi, 2 rækjuverksmiðjur, 2 stór frystihús, 2 skipasmíðastöðvar, smábændur inni í firði og svo inn um allt Djúp, höfn og bæjarbryggja, þar sem strandferðaskipin lögðust að og báturinn sem sótti fólk út í Catalina-flugbátinn áður en flugvöllurinn var opnaður. Undraveröld sem hefur fylgt mér alla tíð. Bærinn býr í hjarta mínu, fjöllin og fjörðurinn, fólkið og húsin, hljóð náttúrunnar, sjó- og mófuglar, vélahljóð bátanna sem sigldu inn eða út lygnan fjörðinn. Fólk í göngutúrum, spariklætt, meðfram spegilsléttum Pollinum á sumarkvöldum. Skólarnir með nesti fyrir lífið og söng ljóða- og ættjarðarsöngva. Gamla kirkjan, Hjálpræðisherinn og Salem, skátaheimilið og bíóið í Alþýðuhúsinu, verslanir af öllu tagi, verkstæði og smiðjur. Og yfir öllu himinninn sjálfur, heiðblár á sumrin en með dansandi norðurljósum á vetrarkvöldum með grænum og fjólubláum litum sem sveifluðust um himinhvolfið eins og risastórt leikhústjald sem bylgjaðist eins og hið dumbrauða fyrir sviði Alþýðuhússins en bara milljónsinnum stærra og fallegra. Sólgatan er 100 metrar að lengd og gott að mæla vegalengdir í Sólgötum. Ég syndi t.d. oft 2 Sólgötur eða jafnvel 3-4. Fyrir sunnan götuna blasir Kubburinn við en fyrir norðan, handan Djúpsins, blasir við sjálf Snæfjallaströndin.