Eitt merkasta og eftirminnilegasta hús bernsku minnar á Ísafirði var Hjallur Kristjáns Gíslasonar (1887-1963) sem kallaður var Kitti ljúfur. Hann var ljúfmenni og eini fullorðni maðurinn í hverfinu sem gaf sig að okkur börnum svo nokkru næmi og var vinur okkar, talaði við okkur með sínum skemmtilega hætti, notaði sérkennilegt orðfæri og gaf fólki nöfn og gantaðist við alla. Þar með er ekki gert lítið úr öðru fólki í hverfinu sem var upp til hópa sómafólk og elskulegt og samskiptin við þau hin bestu, en Kristján skar sig úr.
Ég kom oft í heimsókn til hans í Hjallinn og fékk harðfiskstrengsli í laun ef ég gerði viðvik fyrir hann. Hann vildi ekki að ég berði fiskinn á stóra steininum með sleggjunni hans, heldur átti ég að borða hann óbarinn: „Það er svo gott fyrir tennurnar, ljúfurinn“ sagði hann.
Ég var nýfermdur þegar hann lést og hefði svo gjarnan viljað þekkja hann framundir tvítugt því þá hefði ég munað meir um hann og skilið hann betur.
Hann og Margrét Jóhanna Magnúsdóttir (1899-1979) bjuggu í Sólgötunni eins og mín fjölskylda og eignuðust 8 börn. Vinskapur var með móður minni og dætrum þeirra. Ég er skyldur Margréti í föðurætt mína.
Seinna varð ég svo prestur og varð þess heiðurs aðnjótandi að þjóna við útför fimm af börnum þeirra hjóna.
En hér kemur teikning af Hjallinum:

Myndina teiknaði ég fríhendis í gær, sunnudaginn 6. mars 2022, eftir svart/hvítri ljósmynd Kristjáns Leóssonar. Tvíburasynir hans eru báðir á myndinni, Leó heitinn og Kristján Pétur, en hinn síðarnefndi komst einn inn á teikninguna. Að baki honum er óþekktur karl.
Kristinn, æskuvinur minn, Hrólfsson, minnti mig á að Kitti hefði sagt að við mættum ekki kasta grjóti í hrafninn og ekki í sjóinn. Hann bar mikla virðingu fyrir náttúrinni. Eitt sinn sagði hann við Kristinn: „Heyrðu hljóðið í fuglinum, nú rignir í dag.“ Og viti menn það kom rigning þegar leið á daginn. Ég man ekki hvaða fuglstegund þetta var sem Kristinn nefndi en Kitti talaði um að fuglarnir hefðu ætíð leiðbeint sjómönnum á mið og aftur heim. Þetta er dæmi um að lifa í og af náttúrinni, finna sig hluta hennar enda erum við af jörðu eins og fuglarnir og allt líf. Ég teiknaði því tvo hrafna á þak Hjallsins og tvo á flugi.
Þvottur blaktir á snúrum á Kambinum og 2 bátar hvíla á hlunnum, annar hulinn að hluta til með segli. Að baki seglinu og fyrir framan innganginn í hjallinn var lítið steypt plan. Ég man þegar Kitti fékk hákarl til að verka, skar hann niður í stykki á planinu og setti í tunnur sem hann svo gróf niður í fjörukambinum. Hjörtur sonur hans var á þeim tíma á Ísborginni og hefur án efa séð til þess að pabbi fékk hákarlinn á góðum kjörum.
Þá man ég einnig er hann eitt sinn gróf hákarlinn upp úr kösinni og gaf mér að smakka. Ætli ég hafi ekki veri 6-7 ára og át skyrhákarlinn af bestu lyst. Um nóttina spjó ég sem múkki enda barnsmaginn ekki vanur hákarli í stórum skömmtum og svo hafði ég kyngt lostætinu án brennivíns enda undir lögaldri!