Myndir af harðfiskhjalli Kitta ljúfs

Kristján Gíslason (1887-1963)

Kristján hét maður Gíslason (1887-1963) sem var vinur minn á bernskuárunum á Ísafirði. Hann var ljúfmenni og mikill húmoristi og þegar hann ávarpaði mig og aðra bætti hann oft við orðinu „ljúfur“ eða „ljúfurinn“. Hann var einn fárra fullorðinna sem spjallaði við okkur börnin og gaf sig að okkur með sínu ljúfa vimóti og skemmtilegum orðatiltækjum.

Hann þekkti foreldar mína og vissi að faðir minn rak verzlanir í bænum og þegar hann klappaði mér á kollinn, sem hann gerði gjarnan, sagði hann oftast: „Kaupmannsblóð í þér, ljúfurinn!“ Af þessu orðatiltæki var hann jafnan nefndur „Kitti ljúfur“.

Hann átti harðfiskhjall handan götunnar þar sem ég ólst upp í fjörunni við Fjarðarstræti sem liggur meðfram svonefndri Prestabugt.

Ég kom oft í heimsókn til hans og stundum tíndi ég sprek (eldivið) í fjörunni handa honum og fékk þá gjarnan harðfiskbita að launum, en ætíð með þeim orðum, að ég ætti ekki að berja fiskinn heldur naga hann óbarinn og svo bætti hann við: „Það er svo gott fyrir tennurnar, ljúfurinn.“

Hann eignaðist mörg börn og afkomendur og var kvæntur frænku minni, Margréti Jóhönnu Magnúsdóttur, frá Hjöllum í Skötufirði, en ég og börnin hans erum fjórmenningar í föðurætt mína. Þá voru Guðmundur Halldórsson, móðurafi minn og Kristján, fimmmenningar, en hér áður fyrr töldust fimmmenningar frændur og því fylgdi gagnkvæm skylda um stuðning í neyð og einnig hefnd á tímanum fyrir kristnitöku! Þá hefur mér hlotnast sá heiður að fá að jarðsyngja flest barna Kristjáns og Margrétar Jóhönnu.

Kristján var dugnaðarforkur og rammur að afli, mikill matmaður og dró hvergi af sér við fiskidrátt og svo hratt hreyfði hann hendurnar að skipsfélagar hans sögðust vart geta greint þær þegar hann dró færið!

Í dag 12. des. 2021, réðst ég í það að mála tvær vatnslitamyndir af hjallinum hans, eftir gamalli ljósmynd, og birti hér til viðbótar við að hafa líka sett þær inn á sérstakan vef ættingja minna í móðurætt og á FB-síðuna: Ísafjörður og Ísfirðingar.

Ég á bara ljúfar minningar af þessum skemmtilega manni, Kristjáni Gíslasyni, sem var bróðir þekkts Íslendings, er bar viðurnefnið, Gústi guðsmaður, og gerði út bát um áraraðir frá Siglufirði og það fyrir sjálfan Drottinn! Arðinn gaf hann til hjálparstarfs og trúboðs í Afríku.

Gjörðu svo vel, lúfurinn/ljúfan!

Hjallurinn hans Kitta ljúfs I
Hjallurinn hans Kitta ljúfs II

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.