+Grétar Sveinn Þorsteinsson 1986-2014

Grétar SveinnÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Grétar Sveinn Þorsteinsson

1986-2014

Sjávargrund 12b, Garðabæ

Útför (bálför) frá Neskirkju fimmtudaginn 14. ágúst 2014 kl. 15.

Jarðsett verður í Sóllandi í Fossvogi að bálför lokinni.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Einhver innskot eru á hljóðupptökunni sem ekki eru í textanun.

Friður Guðs sé með ykkur.

Hann var hrókur alls fagnaðar, gestrisin og gamansamur.

Þegar hann talaði þá var hann ör og hendurnar voru á fljúgandi ferð og stundum þegar samtal við vin var komið út og suður þá spurði hann allt í einu: „Hvar byrjuðum við? Af hverju erum við komnir hingað?“

Og nú spyr ég: Af hverju erum við komin hingað? Hvers vegna þurfum við að standa í þessum erfiðu sporum og kveðja 28 ára gamlan mann sem horfinn er í skyndi eftir að sjúkdómur tók hann allt of snemma? Af hverju? Svarið er hugsanlega ekki til. Við vitum ekki hvers vegna dauðinn vitjar fólks í blóma lífsins. En við verðum að lifa með því og takast á við sársaukann. Sú vinna getur skilað okkur þroska og innsæi ef rétt er á spilum haldið. Við kveðjum hér góðan dreng sem vildi öllum vel en átti enn eftir að fóta sig fullkomlega á lífsveginum. Hann var hugsandi ungur maður en lífið var svo spennandi og fjölbreytilegt að það var alls ekki auðvelt að skjóta rótum.

Dauðinn er andstyggilegur þegar hann mætir okkur með þessum hætti. Ég segi þetta viljandi til að fegra ekki dauðann eða glorifísera hann. Heilbrigð, kristin trú, tignar ekki dauðann. Hún lítur á hann sem óvin. En Kristur lagði dauðann að velli með sigri sínum á krossi eftir þjáningu og mótlæti. Í upprisu hans felst vonin andspænis dauðanum. Dauðinn er ekki lausn í þessu tilfelli en í Kristi fær hann þó nýja vídd og inntak. Dauði ungs manns markar ekki eilíf endalok heldur eilíft líf í Kristi.

Hvernig lifir maður áfram? Látnir lifa í minningum ástvina og Grétar mun lengi lifa í huga ykkar og hjarta.

„Mannorðið lifir þótt maðurinn deyi.“ Þessi orð valdi Grétar og ritaði í útskriftarbók Garðaskóla þegar hann lauk grunnskólaprófi. Sama hugsun er til mörgum málsháttum og líklega er sá þekktasti úr Hávamálum í Gestaþætti (vísa 76):

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Við kveðjum hér í dag góðan dreng sem minnst er fyrir gleði og elskusemi, hlýtt bros og einstakt faðmlag. Orðstír hans mun lifa í hjörtum þeirra sem hann þekktu og nutu elsku hans og vináttu. Horfnir ástvinir lifa í hugum eftirlifenda en þeir lifa miklu lengur í huga Guðs sem engu gleymir nema því sem hann kýs að gleyma, man allt sem hann vill muna, enda er hugur hans óendanlegur og gígabætin ómælanleg.

Lífið er vettvangur þroska í átökum við verkefni þess. Ég man að mér fannst á margan hátt flókið að vera unglingur og ungur maður. Hætturnar voru margar og eru reyndar enn og þær eru um leið fleiri og flárri nú á dögum en um leið eru tækifærin til hins góða jafnvel enn fleiri en forðum. Lífið er áskorun og lífið er undursamlegt, en það er líka hættulegt. Við eigum að mæta lífinu með bjartsýni en um leið af varkárni. Þessi tvíhyggja í hegðun kemur víða fram í spekiritum eins og t.a.m. í Prédikaranum í GT sem er merkilegt bókmenntaverk. Þar segir um æskuna:

Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni

og láttu liggja vel á þér unglingsár þín

og breyttu eins og hjartað leiðir þig

og eins og augun girnast

en vita skaltu að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.

Vísaðu gremju burt frá hjarta þínu

og láttu ekki böl koma nærri líkama þínum

því að æska og morgunroði lífsins eru hverful. (Préd 11.9-10)

Sama varkárni kemur fyrir í Gestaþætti Hávamála þar sem rætt er um hegðun gests í húsi gestgjafa, um mannasiði og siðferði:

Gáttir allar

áður gangi fram

um skoðast skyli,

um skyggnast skyli,

því að óvíst er að vita

hvar óvinir

sitja á fleti fyrir.

Grétar var glaður ungur maður og hann gekk til móts við lífið af ákefð. Vinir hans bera honum fagurt vitni. Hann var glaðbeittur og hress, stuðbolti og ærslabelgur. Ég hef heyrt marga tala um einstakt faðmlagið hans og Margrét amma rifjaði það upp að seinustu orðin sem hann sagði við hana voru: „Ég elska þig amma!“ Þau orð eru fjársjóður hennar og ástvina hans, ásamt fögrum minningum um góðan dreng.

Grétar Sveinn fæddist 14. júlí 1986. Foreldra hans eru:

Þorsteinn Egilson, f. 8. apríl 1957, byggingartæknifræðingur, deildarstjóri framkvæmda og eigna í eignadeild Landsbankans og

Eygló Ólafsdóttir, f. 29. janúar 1957, bókari hjá Motus.

Systur hans eru:

Bára Þorsteinsdóttir, f. 22. maí 1981., viðskiftafræðingur, þjónustufulltrúi fyrirtækja í fyrirtækjamiðstöð Landsbankans.

Brynja Þorsteinsdóttir, f. 6. desember 1994, nemi í Fjölbrautarskóla Garðabæjar.

Dóttir Báru er Ástrós Thelma Davíðsdóttir, f. 27. júní 2006.

Föðuramma Grétars er Margrét Þorvaldsdóttir, f. 1. október 1922 sem býr í sama húsi og fjölskyldan.

Grétar gekk í Flataskóla og síðan í Garðaskóla.

Hann æfði handbolta á þessum árum í yngri flokkum og einnig æfði hann borðtennis.

Hann varð stúdent frá Fjölbrautarskóla Garðabæjar 2010 af myndlistarbraut og hlaut verðlaun fyrir lokaverkefni sitt.

Þá stundaði hann nám í margmiðlun í Tækniskólanum í 3 annir, en lauk ekki námi þar.

Fastur liður í tilverunni voru matarboð ömmu hans Margrétar á aðfangadagskvöld.  Svenni, Gauja og Tóta voru ávallt þar og stundum fleiri. Oft var fólki sem fjölskyldan hafði tengsl við boðið í mat ef þannig stóð á hjá þeim að þau áttu ekki í önnur hús að venda.

Bústaður í eigu fjölskyldunnar á Þingvöllum var Grétari kær. Oft kom hann og hjálpaði við eitt og annað og síðast að steypa undirstöður og smíða sólpalla við bústaðinn. Afi og amma Grétars áttu upphaflega bústaðinn og landið sem hann stendur á og svo byggðu föðursystkinin nýjan bústað á landinu.

Þegar Grétar var á ellefta eða tólfta aldursári bauð Sveinbjörn frændi hans honum með sér til Spánar. Einn daginn skelltu þeir sér í vatnagarð. Þegar þangað var komið var drengurinn ekki lengi að koma sér í kynni við hóp útskriftarnema úr framhaldsskóla sem þarna var staddur og fékk að fljóta með þeim í tækin þar hann var of ungur til að fara einn í þau. Eftir að hafa eitt dagparti í leiktækjunum með útskriftarnemunum skiluðu þau dregnum til Svenna með þakklæti fyrir félagsskapinn sem þeir hefðu notið í ríkum mæli. Þetta lýsir honum vel. Þá fór öll fjölskyldan tvisvar í ferð til Spánar og var Svenni með í för í þeim báðum og Gauja frænka hans og Þórunn dóttir hennar í seinni ferðinni.

Iðulega kom Svenni frændi í kvöldmat á sunnudögum og að loknum kvöldverði fóru Grétar og pabbi hans og frændi oft í kvikmyndahús að sjá einhverja mynd sem Grétar valdi. Þetta gerðu þeir reglulega meðan hann var í FG og á stundum eftir það.

Margrét föðuramma hans er úr Hrísey. Frændfólk Grétars að norðan er hér í dag og fylgir honum til grafar. Einnig frændi hans frá Noregi sem var nýfarinn út en kom aftur með hjálp vina.

Hér kveður hann margmenni og margir eru fjarverandi og komust ekki en senda kveðjur sínar.

Ottó Magnússon, Guðrún Gísladóttir og börn sem eru stödd í Flórída biðja fyrir kveðju.

Hanna, Jói og fjölskylda biðja fyrir kveðju, en þau eru stödd í Bandaríkjunum.

Júlíus Jakobsson biður einnig fyrir kveðju og systir hans, Jóhanna Dagmar og sonur hennar, Jökull Ingi, senda innilegar samúðarkveðjur frá Svíþjóð.

Hildur Dröfn, Leifur Már og Klara Lind á Eskifirði senda sínar bestu kveðjur. Hugur þeirra allra er hjá fjölskyldunni sem þau segja að hafi ávallt reynst sér ákaflega vel.

Og svo bíður hundurinn Brúnó heima sem skynjar meir en margur heldur. Hann og Grétar áttu margar stundir saman.

Grétari var margt til lista lagt. Hann teiknaði og málaði og hafði næmt auga fyrir ljósmyndun. Hann var einstaklega blíður og brosmildur. Hann lifði hratt en líka hægt því hann tók sér oft langan tíma í verkefni og fannst ekkert liggja á. Hann var afar hjálpsamur og gestrisinn. „Ég hef aldrei heyrt hann segja nei“, sagði vinur. Vinir hans máttu ætíð gista hjá honum ef þeir áttu ekki í önnur hús að venda eða áttu erfitt heima. Hann gerði sig líka gestkominn hjá vinum sínum og kom ætíð með sitt góða skap og gleði. Hann var opinn fyrir mörgu og pældi mikið í lífinu og tilverunni, las hitt og þetta um heimspeki og trúarbrögð, hafði áhuga á hugleiðslu og kynnti sér andleg mál en skorti kannski staðfestu til að ná tökum á þeim málum. Vinur hans sagði: „Hann var með fullkomið hjarta en veikan huga.“

Ég sat með nokkrum vinum hans og hlustaði á þau tala um hann og hlægja innilega af tilsvörum hans og háttum. Hann þorði að vera hann sjálfur eins og t.d. þegar vinirnir voru á útihátíð á Flúðum um verslunarmannahelgina 2012. Þegar fólkið í lopapeysunum vaknaði og kíkti út úr tjaldinu sat hann þar spariklæddur í fínu jakkafötunum sínum og sagði: „Maður er auðvitað klæddur á viðeigandi hátt á hátíðum.“

Grétar var bjartur yfirlitum, myndarlegur ungur maður með mikið ljós í brosi sínu og svip. Hann var sannkallaður ljósleiðari í lífi fjölskyldu og vina.

Fjölskyldan þakkar vinum sínum og fjölskyldu fyrir ómetanlegan stuðning og þakkar sérstaklega fyrir heimsóknir og fallegar kveðjur á liðnum dögum.

Hvar byrjuðum við? Af hverju erum við komin hingað?

Já, hvers vegna er lífið eins og það er? Það er leyndardómur. Ótal breytur valda því að við erum í þessum aðstæðum, ótal breytur og svo líka hið óvænta og ófyrirséða, hið óskiljanlega og furðulega. Við erum hér og þurfum að halda áfram að lifa, lifa fallega í anda orða Hans sem fegurst hefur talað á jörðu, í anda Krists sem færði okkur boðaskapinn um kærleiksríkan Guð en ekki dæmandi og reiðan Guð, um Guð sem föður og móður, sem finnur til og elskar allt.

Hvar byrjuðum við? Af hverju erum við komin hingað?

Þessar spurningar eru gildar og í anda Grétars en svo má líka spyrja:

Hvar byrjar allt? Hvert stefnir lífið?

Allt á uppruna sinn í Guði, eins og segir í upphafi Jóhannesarguðpsjalls:

„Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.“ (Jh 1.1-4)

Kristur, Guð á himnum, maður á jörðu, skapaði allt. Hann er „frumglæðir ljóssins“, eins og forfaðir Grétar orðar það í jólasálminum fagra.

Og postulinn Páll sagði er hann vitnaði í eitt af skáldum grikkja:

„Í honum lifum, hrærumst og erum við.“ (Post 17.28)

Guð er allstaðar og við komumst ekki út úr hafi elsku hans. Við erum eins og fiskarnir í hafinu sem rennur um tálkn þeirra. Fiskurinn í hafinu og hafið í fiskinum. Til er rúmfræðileg túlkun á Guði sem ég held mikið uppá og er svona:

„Guð er hringur hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.“

Við erum í Guði og Guð í okkur.

En er þetta svona einfalt? Kannski ekki alveg svona einfalt eins og fram kemur í sögu sem „sögð [er] af helgum manni sem boðinn var til lærðra mann og spurði upp úr eins manns hljóði: „Hvar býr Guð?“ Þeir hlógu og sögðu: „Hvernig spyrðu? Er ekki öll veröldin full af Guðs dýrð?“ En hann svaraði sjálfum sér: „Guð býr þar sem honum er boðið inn!“ (Bænabók K.Sbj.)

Kristur er fjársjóður speki og visku, „lifandi brunnur hins andlega seims.“

Gestrisni var Grétari í blóð borin og nú erum við hvött til að sýna gestrisni gagnvart öllum og ekki síðst gagnvart Guði. Bjóðum honum inn í sorgarhús okkar, ræðum við hann, biðjum til hans, grátum með honum, þiggjum huggun hans styrk og von. Þannig komumst við áfram, þannig getum við tekist á við daginn og komandi daga.

Lífið heldur áfram og það er í hendi Guðs.

Við kveðjum Grétar Svein í þeirri trú og biðjum honum blessunar um eilífð. Guð blessi minningu hans og blessi hann okkur öll á lífsveginum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum ands. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Tilkynningar:

Bálför – jarðsett síðar í Görðum.

Kistan borin út og signt yfir á kirkjuhlaðinu.

Erfi í safnaðarheimilinu. Verum glöð yfir því að eiga lífið!

Minningarorðin verða birt: ornbardur.com

Postulleg kveðja: Guð vonarinnar . . .

Ritningarlestrar:

Kærleikur Guðs í Kristi Jesú – Rómverjabréfið 8. kafli:
31Hvað eigum við þá að segja við þessu? Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 36Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
37Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Vegurinn, sannleikurinn, lífið – Jóhannesarguðspjall 14. kafli:
1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.