Manuel Arjona Cejudo 1948-2014

manuelÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Manuel Arjona Cejudo

hamskeri

Hjálmholti 3, Reykjavík

 

Útför frá Neskirkju fimmtudaginn 10. apríl 2014 kl. 13

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

Ritningarlestrar og sálmaskrá með myndum er neðanmáls.

Viltu hlusta og/eða lesa? Smelltu á þríhyrninginn hér i framhaldinu:

 

Gracia y paz a vosotros, de Dios nuestro Padre y del Señor Jesucristo.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Nú er fólkið í Herrera í óða önn að undirbúa næstu viku sem við köllum kyrruviku eða dymbilviku en á Spáni heitir hún semana santa helgavika, þegar síðustu daga Jesú Krists er minnst, daganna fyrir krossfestinguna. Að vera í Andalúsíu í þeirri viku og taka þátt í skrúðgöngunum þar sem hvert þorp og bær fleytir sínum hjólapramma um göturnar og fólkið gengur í fylkingu á eftir og ber helgimyndir og líkneski er heillandi upplifun. Hinir fornu, kristnu, kaþólsku siðir, eiga sér djúpar rætur í menningu og hjörtum Spánverja.

Manuel kom úr þessum jarðvegi. Hann ólst upp í Herrera sem er bær nærri Sevilla í Adalúsíu en Sevilla er fögur borg sem á sér merka sögu og menningarverðmæti af ýmsu tagi.

Manuel Arjona Cejudo fæddist 1.október 1948. Hann lést á heimili sínu 30.mars sl. langt fyrir aldru fram.

Foreldrar hans voru Pedro Arjona Diaz og Dolores Cejudo Benjumea, en þau eru bæði látin. Manuel var annar í röð fjögurra systkyna sem eru José, Maria og Dolores, en þau eru búsett á Spáni og senda kveðjur sínar hingað er þau minnast og sakna góðs bróður.

Margt hefur breyst á Spáni frá því Manuel var ungur. Og margt hefur breyst í Evrópu á sama tíma. Hann ólst upp á tímum einræðisstjórnar Francos sem réð öllu frá því í kjölfar borgarastríðsins sem hófst 1936. Foreldrar Manuels lifðu góðu og friðsælu lífi. Mörgum finnst tíminn líða með öðrum hætti á Spáni en víða annarsstaðar. Mannlífið er í skorðum og til skamms tíma tíðkaðist löng miðdegishvíld eða siesta.

Á sjöunda áratugi liðinnar aldar hófst bylting sem átti eftir að breyta miklu í Evrópu og víða um heim, bylting unga fólksins sem hristi af sér viðjar og viðhorf fyrri tíma. Fólk sem þá var á unglingsárum heillaðist af leiðtogum byltingarinnar sem voru einkum fjórir strákar frá borginni Liverpool á Englandi og kölluðu sig The Beatles. Árið 1975 hvarf Franco af sjónarsviðinu en þá var Manuel farinn á vit ævintýra og búinn að yfirgefa Spán. Hann kom til Íslands 1972 en þá hafði hann lært hamskurð heima á Spáni í Barcelona. Faðir hans rak verslun í Herrera og seldi nýlenduvörur, efni til hannyrða og fleira, var svona hinn hefðbundni kaupmaður á horninu, en Manuel vildi ekki leggja það fyrir sig þó faðir hans ætlaði honum það. Hugur hans leitaði annað. Hann vann fyrst um sinn eftir komuna hingað hjá Íslenska dýrasafninu, svo í Kassagerðinni um tíma, þá hjá Náttúrufræðistofnun í 10 ár uns hann opnaði sitt eigið verkstæði.

Ísland heillaði þennan glæsilega og blóðheita Andalúsíumann en það var ástin sem festi hann hér í norðrinu. Þau kynntust þegar hann var nýkominn til að vinna hér í nokkra mánuði, Anna Sóley Sveinsdóttir og hann og það var ást við fyrstu sýn. Gesturinn frá Herrera, dökkur á brún og brá og hið ljósa man undan bláhimni sumars og norðuljósatrafi vetrarins í landi norðursins urðu hjón 12. maí 1973. Yfirbragð þeirra og menningararfur var ólíkur en hjörtun slógu í takt. Þau eignuðust eina dóttur, Katrínu Völu Arjona f.1976. Eiginmaður hennar er Ingólfur Jóhannesson f.1976 og eiga þau þrjú börn: Hilmi Arjona Ingólfsson f.2001, Róbert Arjona Ingólfsson f.2006 og Tinnu Arjona Ingólfsdóttur f.2009.

Honum leið vel á Íslandi og heillaðist af landi og þjóð. Þau fóru víða til að skoða landið og margar ferðir fóru þau til Spánar. Katrín var eitt sinn hjá ömmu og afa í nokkra mánuði og naut þess að kynnast ættfólki sínu ytra. Hér heima bjuggu þau lengi vel í Gnoðavogi en síðast í Hjálmholti. Þau eignuðust sumarhús á Þingvöllum og nutu þar lífsins í faðmi fegurðar og kyrrðar.

Manuel eignaðist marga góða vini hér heima í gegnum starf sitt sem hann vann af mikilli fagmennsku. Hann var veiðimaður af lífi og sál og fór margar skemmtilegar ferðir um fjöll og firnindi til að elta bráð. Margar sögur eru til úr þessum ferðum sem fjölskyldan rifjar gjarnan upp. Ekki voru græjurnar í fyrstu ferðunum neitt í líkingu við það sem menn hafa núna í sínum höndum. Ein frægasta ferðin var farin á gömlum rússajeppa og sætin aftur í voru heybaggar. Brjóstbirtan var ekki fjarri og gamanið tók á sig margar myndir. Hann ólst upp við að vín væri hluti af daglegu lífi en faðir hans sem var kaupmaður átti skika þar sem víðviðurinn óx og stundum þótti þeim bræðrum súrt, Manolo og Pepe, að þurfa að gæta vínviðarins löngum stundu meða önnur börnin léku sér en sitja þurfti yfir þrúgunum svo þær hyrfu ekki af stilkum sínum fyrir uppsekruna. Löngu seinna lagði hann áfengið á hilluna og smakkaði það ekki síðustu 20 árin.

Manuel gekk í Frímúrararegluna árið 2004 og hafði náð 8. stigi þar er hann lést. Hann taldi að kynni sín af Reglunni væri eitt það besta sem hefði hent sig á ævinni. Þar eignaðist hann marga góða vini og naut þess út í ystu æsar að taka þátt í uppbyggjandi starfi Reglunnar sem snýst um mannrækt á kristnum grunni. Hann var í St. Jóhannesarstúkunni Gimli og standa bræður hans heiðursvörð hér í dag og bera kistu hans úr kirkju í minningu góðs bróður og vinar. Þeir héldu vel utan um hann í veikindum hans, heimsóttu hann og studdu með vináttu sinni og kærleika.

Manuel greindist með krabbamein fyrir 10 árum og fór þá í geislameðferð og allt gekk vel til ársins 2010 en þá tók meinið sig upp aftur og ágerðist tvö síðustu árin. Hann var á spítala í vetur en kom heim á gamlársdag og lá banaleguna heima og kvaddi þetta líf umvafinn elsku eiginkonu, dóttur, tengdasonar og barnabarna síðustu dagana og stundirnar. Hann var alla tíð æðrulaus og kvartaði aldrei þrátt fyrir margskonar óþægindi svo sem sondu og hálsventil sem hann þurfti að tala í gegnum með sérstökum hætti. Hann var aldrei pirraður, segir fjölskyldan, en æðrulaus til hinstu stundar.

Hann var vinur vina sinna, orðvar og orðheldinn. En hann var ekki skaplaus, hafði ákveðnar skoðanir á öllu, gat verið þrjóskur og stífur en ætíð sanngjarn. Í augun fjölskyldunnar var hann léttlyndur maður og gamansamur að eðlisfari en græskulaus. Hann gat reiðst svo að á honum sauð en það hvarf sem dögg fyrir sólu. Hann var vel að sér um margt, las og fræddist um menn og málefni. Eftir að Anna gaf honum iPad átti hann auðveldara með að fylgjast með fréttum hér heima og á Spáni. Hann var umhyggjusamur og lét sig varða hag annarra. Háttvís var hann og aldrei glannalegur í tali eða framkomu en hreinskilinn og heiðarlegur í hvívetna. Hann var duglegur og vinnusamur og vann sín verk af alúð og fagmennsku.

Fjölskylan var ætíð í fyrsta sæti. Eiginkonan, dóttirin, tengdasonurinn og barnabörnin voru hans auður og uppspretta gleði og hamingju og svo bar hann mikla umhyggju fyrir tengdamóður sinni, Valgerði og hún fyrir honum.

Manuel náði góðum tökum á íslensku en eins og alkunna er þá er sumt líkt í framburði í spænsku og íslensku. Fjölskyldan skyldi hann vel en stundum þurftu ókunnugir að sperra eyrun við fyrstu setningarnar. Við þekkjum það flest hvað það er í raun erfitt að ná tökum á öðru tungumáli og stundum færum við yfir á annað tungumál orðtök og hugmyndir sem ganga upp í okkar máli en ekki hinu. Af einu dæmi sögðu þau mér, fjölskylda hans, en það var þegar Manuel var að horfa á spretthlaupara í sjónvarpinu og sagði að það væri engin furða að hann hefði sigrað því hann væri með svo sterka afturfætur!

Minningarnar eru margar og mörg atvikin sem vekja gleði og kalla fram bros og hlýju. Og þannig eigum við að minnast, með því að brosa og gráta.

Manuel er farinn á vit nýrrar tilveru og þá er gott að rifja upp orð um hina kristnu von sem birtist m.a. í þessum orðum: Ekkert líf án dauða, enginn dauði án lífs.

Ég rakst á þessa hugvekju í enskri bók á dögunum og sneri henni á íslensku:

Enginn undirbúningur er til fyrir dauðann nema sá að opna fyrir núinu. Ef þú ert hér og nú – þá muntu einnig verða þar.

– Stephen Levine

„Hvernig vil ég að dauði minn verði?“ er erfið spurning, sem við héldum að við spyrðum ekki næstum því strax. En þrátt fyrir það erum við hér og spurningin stendur.

Fyrir okkur flestum er svarið næsta auðvelt. Þegar við deyjum, viljum við vera viðstödd með fullri meðvitund um allt sem kann að henda næst.

Því er það líklega best að byrja að æfa sig núna. Við getum reynt að vera nálæg á hverju andartaki með fullri meðvitund í núinu.

Þetta krefst æfingar. Mörg okkar þekkja hvernig það er að fara í gegnum lífið að hálfu dauð, dofin af alkóhóli, öðrum vímuefnum, sykri, áhyggjum, ótta. Við þekktum ekki annað. En nú eigum við val. Við getum valið að lifa fyllilega hér, hreint og klárt. Við getum valið að vera lifandi, ekki dofin

– – –

Hjálpaðu mér að vera hér og nú, fyllilega lifandi, að vera þróttmikill og vakandi.

 

Síðustu veiðiferðina fór Manuel í haust og lét ekkert stöðva sig. Hreindýraveiðin var honum sem ævintýri. Að stoppa upp hreindýr og önnur stór dýr var honum áskorun. Eitt sinn stoppaði hann upp ljón fyrir sjálfan listamanninn, Salvador Dali.

„Hreindýr (fræðiheiti: Rangifer tarandus) eru hjartardýr sem finna má víða á norðurhveli jarðar. Þau eru einstaklega vel aðlöguð að lifa af kulda og snjóþyngsli að vetrarlagi. Andstætt öllum öðrum hjartardýrum bera bæði kynin horn. Kvenkyns hreindýr nefnist simla (eða hreinkýr), og karlkyns hreindýr nefnist hreinn (eða hreintarfur).“

Hjartardýr þykja fögur og tígulleg að sjá. Í evrópskum helgisögnum birtast minni um hjörtinn sem kriststákn og öll þekkjum við myndina af jólasveininum sem ferðast um á vagni sem hreindýr fara fyrir.  Og fyrirmynd jólasveinsins er einn af dýrlingum kaþólsku kirkjunnar, heilagur Nikulás.

Framundan er semana santa – kyrravika – vikan þegar hinn kristni heimur minnist krossfestingar Jesú og fórnardauða. Svo koma páskar, mesta hátíð kristninnar, hátíð lífsins, hátíð sigurs og eilífs lífs. Manolo þekkti siði síns heimabæjar og héraðs, þegar fólkið túlkaði atburði kyrruviku með helgimyndum, skrúðgöngum og látbragði af ýmsu tagi. Hann var messudrengur í æsku. Móðir hans var kirkjurækin og mótaði börnin sín í anda hinnar kristnu vonar. Hann átti þá trú í hjarta sér að lífið væri í hendi Guðs. Nafnið Manuel er af hebreska orðinu Immanuel sem merkir Guð er með oss. Fyrir sumu fólki er trúin fjarstæðukennd eins og verk eftir Salvador Dali og ég skal viðurkenna að trúin er einmitt þannig í mörgum greinum en það er ekki síst það sem gerir hana svo heillandi. Hún verður ekki aðeins skilin með rökhugsun heilans heldur þarf hjartað til svo að trúin fái merkingu og nái að dafna í jarðvegi sálarinnar.

Nú er Manuel farinn í sína hinstu för. Í hugvekjunni sem ég vitnaði til hér að framan segir:

Ef þú ert hér og nú – þá muntu einnig verða þar.

Og þar verður hann sem dó á krossi og reis upp frá dauðum, hann sem Jóhannes postuli kallaði „ljónið af Júda“.

Já, hann fékkst við ljónið hér en ljónið af Júda mun mæta honum þar.

Í kirkjum um allan Spán og hvarvetna á Íslandi og víða í hinum kristna heimi verður þess minnst næsta sunnudag að Kristur hóf innreið sína í Jerúsalem. Hann kom hógvær og gekk sinn þjáningarveg. Hann er með okkur í þjáningum og sorgum lífsins, fylgir okkur sem sá er þekkir allt og skilur allt. Hann er upprisinn. Hann er hér í anda sínum og hann er þar sem Manuel er núna, „ljónið af Júda“ – Kristur sigurvegarinn.

Guð blessi minningu Manuels Arjona Cejudo og Guð blessi þig.

Gloria a Dios, el Padre y el Hijo y el Espíritu Santo.

Amen.

 

Tilkynningar:

Ég flyt ykkur kveðjur frá Hilmari Helgasyni og konu hans Rögnu sem eru í Póllandi og gátu ekki fylgt honum til grafar en voru við kistulagningu hans og frá Guðgeiri Helgasyni og Þóreyju Gunnþórsdóttur í Grindavík sem ekki komust heldur til útfararinnar.

Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði. Líkfyld þangað.

Erfidrykkja í Safnaðaheimili Neskirkju.

Ræðan birt á vefsíðunni: ornbardur.com

Postulleg kveðja:

Guð vonarinnar fylli yður öllum föguði og friði í trúnni. Svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

 

Ritningarlestrara

Op Jóh 5: 

Fyrsti lestur:
1Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. 2Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: „Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?“ 3En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana. 4Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana. 5En einn af öldungunum segir við mig: „Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö.”

 

Annar lestur:

Op Jóh 7:

9Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum. 10Og þeir hrópa hárri röddu:

Hjálpræðið heyrir til Guði vorum,

sem í hásætinu situr, og lambinu.

11Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð 12og sögðu:

Amen, lofgjörðin og dýrðin,

viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

13Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?“

14Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“

Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins. 15Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá. 16Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti. 17Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.”

 

Guðspjall:

Jóh 14.1-6

 

Vegurinn, sannleikurinn, lífið

1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“

5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“

6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Manuel sálmaskrá copy

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.