Helga Þóra Th. Kjartansdóttir 1945-2014

helgathoraÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Helga Þóra Thoroddsen Kjartansdóttir

1945-2014

skurðhjúkrunarfræðingur

Útför (bálför) frá Neskirkju, 18. mars 2014 kl. 15.00.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Sálmaskráin og ritningarlestrar eru neðanmáls.

Friður Guðs sé með ykkur öllum

Hvernig munduð þið lýsa henni Helgu Þóru, spurði ég fólkið hennar og svarið lét ekki á sér standa: „Engin lognmolla.“

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund

og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,

en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur

og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

 

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,

þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,

og neistann upp blæs þú og bálar upp loga

og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.

Hún fæddist og óst upp á Patreksfirði og þekkti hvernig stormurinn gat ýft upp fjörðinn í vetrarveðrum en hún þekkti líka sumarlognið yndislega þegar fjöllin tignarleg speglast í haffletinum. Suðurfirðir Vestfjarðarkjálkans hafa á sér annan blæ en firðirnir að norðan verðu. Ég man þegar ég fór fyrst um Suðurfirðina og varð ljóst hvað það er sem greinir þá frá hinum. Það er birtan, liturinn í sjónum sem kemur af skelinni, hvítum sandinum í botninum sem sumstaðar nær hátt upp í hlíðar eins og í Patreksfirði t.a.m. í kringum Sauðlauksdal. Sólgulur skeljasandurinn gerir það að verkum að þegar ljósið fellur á hafflötinn glóir sjórinn túrkisblár í fjörðunum.

Ljósið í djúpinu.

Allt líf er undir ljósinu komið.

Meira að segja þorskurinn ber í sér lit sólar og gefur af sér ljósmeti – lýsi. Ljósið býr í djúpinu og ljósið býr í okkur. Við lifum vegna þess að ljósið skín. Við erum börn ljóssins. Faðir Helgu Þóru dró þann gula úr djúpinu. Hann var skipstjóri sem sótti sjóinn stíft, sigldi oft með aflan til útlanda og kom heim hlaðinn gjöfum handa konu sinni og börnum. Þetta voru dýrðardagar í fögrum firði þar sem unnt var að leika sér frjáls í fjöru og fjalli. Og Helga naut þess að vera til. Hún var elst systkina sinna. Þau ólust upp á listrænu heimili. Mamma og pabbi bæði skáldmælt og ortu um börnin sín og samferðafólkið. Pabbi var hagur á tré og bein, skar út muni, málaði og orti. Mamma lék á sviði, söng og spilaði á píanó.

Helga Þóra Thoroddsen Kjartansdóttir hét hún fullu nafni. Hún fæddist á Patreksfirði 26. mars 1945, dóttir hjónanna Hrefnu Sigurðardóttur, f. 21. maí 1920 Dýrfirðings og Kjartans Th. Ingimundarsonar skipstjóra og Barðstrendings, f. 25. ágúst 1923, d. 18. febrúar 2008

Helga Þóra átti fjögur systkini,

Hrein Hrafnkel, f. 1946,

J. Jens, f. 1951,

dreng, f. 1955, d. 1955 og

Þórunni, f. 1956.

Helga Þóra ólst upp á Patreksfirði og lauk grunnskólanámi við héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði. Ung að árum starfaði hún sem símamær við símstöðina á Patreksfirði. Á þeim tíma sátu stelpurnar á símanum við stórt skiptiborð og handtengdu fólk saman með snúrum. -Miðstöð, góðan dag, var svarað þegar fólk hringdi og bað um númer sem símamærin tengdi svo við. Heimilissímar voru margir á stærð við volduga skjalatösku og hver gat á ímyndað sér þá að símar yrðu í vasa hvers manns í framtíðinni, símar sem geta nánast allt? Tæknin er mikil en hún dugar ekki í öllum stormum lífsins. Og Veðurstofan varar við stormi í dag og í símanum er hægt að fylgjast með veðrinu í gegnum gervitungl!

„Þér eruð ljós heimsins“, sagði Jesús. Við erum börn ljóssins og eigum að lýsa. „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“

Hvernig lætur maður ljós sitt lýsa? Með því að vinna verk sín af alúð og velja sér göfugt starf. Það gerði Helga Þóra. Hún helgaði sig hjúkrun.

Í mars 1968 brautskráðist Helga Þóra frá Hjúkrunarskóla Íslands og tveimur árum síðar lauk hún námi sem skurðhjúkrunarfræðingur. Að námi loknu starfaði hún alla ævi sem hjúkrunarfræðingur og skurðhjúkrunarfræðingur, á Landakoti og Landspítalanum og á sjúkrahúsunum í Keflavík, á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Á árinu 1986 fór Helga Þóra ásamt teymi frá LSH til Svíþjóðar og aflaði sér sérþekkingar sem skurðhjúkrunarfræðingur í hjartaskurðaðgerðum. Í framhaldi af því tók hún þátt í að innleiða hjartaskurðaðgerðir hér á landi. Þá setti hún upp skurðstofuaðstöðuna þegar Skurðstofa Reykjavíkur tók til starfa árið 1990 og var deildarstjóri þar í 3 ár.

Hún hafði flutt til Reykjavíkur með fjölskyldun sinni 1962, þá 17 ára.

Helga Þóra giftist árið 1967 Guðmundi Kristjánssyni, f. 20. febrúar 1946. Foreldrar hans voru hjónin Úrsúla Beate Guðmundsson, f. Piernay (frb píer-nei) og Kristján Pétur Guðmundsson. Helga Þóra og Guðmundur skildu árið 1987. Þau eignuðust 3 börn:

Kristján Pétur, f. 24. ágúst 1967, d. 23. febrúar 2012,

Hrefnu, f. 10. september 1971. Dóttir hennar og Ottó Tynes er Tinna, f. 28. maí 2005.

Kjartan, f. 29. júlí 1975. Eiginkona hans er Emilía Gunnarsdóttir. Börn þeirra eru Melkorka, f. 30. júlí 2001, Hrafn, f. 12. ágúst 2004 og Haukur Orri, f. 31. mars 2011.

„Engin lognmolla“, sögðu þau. Helga var alltaf að. Hún var hrókur alls fagnaðar, vinsæl samstarfskona, glaðleg og hress, fagurkeri og listræn í sér, alltaf vel til höfð og mikil skvísa í sér. Þau segja að hún hafi alltaf verið með skærbleikt gloss, meira að segja undir skurðstofugrímunni og svo vildi hún hafa háværa og fjöruga tónlist á fullu meðan aðgerðir fóru fram.

Hvar sem hún bjó þá var heimili hennar fagurlega skreytt og skipulagt. Hún hafði í sér þetta svonefnda feng-sui þótt enginn hefði heyrt um það eða vissi að slíkt væri til á árum áður. Helga var fagurkeri og ef börnin eða vinir komu í heimsókn þá var ekki eldað neitt hversdagslegt heldur var það þríréttað og svo voru servíettur, kerti og allt í stíl dagsins. Hún var stöðugt að kaupa gjafir handa fólkinu sínu og kom aldrei í heimsókn án þess að hafa eitthvað smálegt meðferðis þó ekki væri nema sérvíettubúnt. Og þegar henni fannst vanta ýmislegt smálegt til að fegra deildina sem hún vann á nýlega þá fór hún í IKEA og keypti á eigin kostnað það sem henni fannst vanta til að gera umhverfið bærilegra.

Hún var mikill húmoristi og gat hlegið sig máttlausa og þegar hún sagði sögur, oft af sjálfri sér, gat hún stundum varla klárað þær fyrir hlátri. Hún var kvik og snögg upp á lagið og gat reddað sér í ótal aðstæðum eins og þegar hún var tekin fyrir of hraðan akstur í ágúst og tókst að blikkka lögreglumannin og snúa sig út úr málinu á staðnum. Hún var hispurslaus í hegðun og háttum og stundum ögraði hún fólki aðeins til að prófa viðbrögðin. Hins vegar gerði hún ekki flugu mein, hafði ríka réttlætiskennd og varð reið ef t.a.m. börnin hennar urðu fyrir órétti. Hún elskaði börnin sín og þegar hún mætti í partý með „holl-systrum“ sínum hafði hún jafnan meðferðis bunka af myndum af þeim til að sýna hollinu.

Líf hennar var engin lognmolla og ekki heldur neinn dans á rósum. Hún glímdi við ólguna í sálu sinni alla tíð og stormarnir hið innra leiddu hana oft í erfiðar aðstæður. Svo varð hún fyrir mikill sorg þegar hún missti frumburðinn sinn, Kristján Pétur, fyrir réttum 2 árum. Hann hafi barist árum saman við erfiðan sjúkdóm, sálarstorma og fíkn. Það var erfið reynsla. Aldrei gaf hún Kristján Pétur upp á bátinn, móðurhjartað sló ætíð í brjósti hennar og umhyggjan fyrir honum var óskipt til hinsta dags. Enginn verður nokkurri sinni samur eftir að hafa misst barnið sitt.

En hvað veldur því að sumir lifa meir í stormum en logni? Er það sjálfvalið eða er það upplagið?

Ég vitnaði fyrr í ljóðið Storm eftir Hannes Hafstein. Hvað olli því að hann var þessi baráttumaður sem glímdi við lífið og ekki síst við sinn innri mann, fíkn og önnur feikn? Bjó það í erfðavísum hans? Var karakter hans meitlaður sem í stein frá getnaði til grafar?

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber

og birtandi, andhreinn um jörðina fer;

þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur

og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

 

Og þegar þú sigrandi´ um foldina fer,

þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér.

Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,

ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.

 

Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð,

með ólgandi blóði þér söng minn ég býð.

Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;

hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.

 

„Engin lognmolla.“ Helga Þóra var kona stormsins og hún fékk hann í fangið aftur og aftur uns hún mætti því veðri sem hún varð að lúta í lægra haldi fyrir.

Helga Þóra lést á Grensásdeild Landspítala, mánudaginn 10. mars sl. eftir hetjulega baráttu við erfið veikindi. Aðgerðin sem átti að létta henni lífið varð þrautaganga í storminum stóra.

Kjartan faðir Helgu orti til hennar afmælisljóð árið 2001:

Nú hækkar sól á lofti dag frá degi

og dapurleikinn hverfur burt frá mér.

Mín ósk er sú að sólin okkar megi,

skína líka í garðinum hjá þér.

 

Og ef svo er þá máttu með mér gleðjast,

og mæta nýjum degi hress og frjáls.

En hafðu vopn þín tilbúin að verjast,

og vonglöð láttu sverfa nú til stáls.

 

Þegar upp er staðið eftir slaginn,

þú stendur frjáls með pálma í hendi þér.

Og brjóst þitt fullt af birtu allan daginn,

þá blómstrar rós í garðinum hjá mér.

 

Hér er ort um gleði lífs og glímu líka, um að njóta góðra daga en þurfa einnig að berjast og skylmast við erfið öfl. Í ljóðinu eru upprisustef, vísun til þess að sigra og standa með pálma í hendi. Pálmagrein er fornt sigurtákn eins og lárviðarsveigurinn er líka tákn um kórónuna sem minnst var á við fermingu okkar flestra:

„Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ (Op Jh 2.10b)

 

Og mamma sem öldruð kveður dóttur sína hér í dag orti eitt sinn um vonina:

 

Vonin vopnið okkar er,

vonin vakir yfir þér.

Vonin vermir ár og síð,

vonin varir alla tíð.

 

Vonin er máttugt vopn sem sigrar allt. Við lifum ekki án vonar. Trúin og vonin eru systur, eiginlega tvíburasystur séu orð Hebreabréfsins höfð í huga en versið er eina skilgreining í Biblíunni allri á trúnni sem slíkri:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Helga Þóra er horfin af þessu lífi fyrir aldur fram. Hún hefði getað átt góða daga en þá kom kallið. Hún streyttist á móti eins og henni var í blóð borið, barðist meðan kraftar leyfðu en varð að lúta því valdi sem enginn megnar að snúa niður – nema einn. Hún átti trú í hjarta sér og þegar ég vitjaði hennar á Landspítalanum og Grensásdeildinni og las í eyra hennar fyrirheit hinnar helgu bókar þá lauk hún alltaf upp augum og hlustaði grannt og hreyfði jafnvel fingur. Djúp sálarinnar skynjaði það sem mestu skiptir og víðast og dýpst nær.

Nú er fastan þegar píslarsaga Jesú er rifjuðu upp í kirkjun landsins og í útvarpi.

Með sínum dauða’ hann deyddi
dauðann og sigur vann,
makt hans og afli eyddi,
ekkert mig skaða kann,
þó leggist lík í jörðu,
lifir mín sála frí,
hún mætir aldrei hörðu
himneskri sælu í.

Hér er slegið á strengi sigurs og vonar sem býr í Jesú Kristi sem breytti tilverunni úr dal dauðans í grænar himins grundir þar sem næðis má njóta að lokinni lífsbaráttu.

Sterkustu kraftar tilverunnar eru ekki stormur og bál, heldur eru þeir allt aðrir – öfl sem ekkert fær brotið á bak aftur – eða með orðum postulans.

„En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (I Kor 13.13).

Helga Þóra er kvödd af fólki sem elskaði hana og virti sem manneskju með kostum sínum og göllum, erfðavísum og úrvinnsluháttum. Þannig erum við öll, hvert með sínum hætti, kostum og kynjum. Hún er kvödd af þakklátu fólki og allt sem var gott og allt sem var sárt er lagt í hendur hins almáttka og miskunnsama Guðs. Fortíðinni verður aldrei breytt eða eins og kona nokkur sagði sem orðið hafði fyrir erfiðri reynslu: Ég varð frjáls þegar mér loksins tókst að gefa upp alla von um breytta fortíð. Sama hugsun kemur fram í æðruleysisbæninni góðu sem hékk á veggnum yfir dánarbeði Helgu Þóru:

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Hann sem sigraði alla storma og megnaði að kyrra bæði vind og sjó, hann tekur á móti henni, hann sem snart hana forðum á enni og brjóst með sigurtákni upprisunnar.

Við kveðjum Helgu Þóru Thoroddsen Kjartansdóttur með virðingu og þökk.

Blessuð sé minning hennar og Guð blessi þig. Amen.

Kveðjur:

Frá Kjartani Loftssyni og Davíð Jenssyni, systkinasonum Helgu Þóru og þeirra fjölskyldum í Svíþjóð;

frá Ragnhildi Magnúsdóttur, frænku Helgu og Jóhanni Steinssyni sem eru í útlöndum;

frá samstarfsfólki og vinum Kjartans og Emilíu í Lúxemborg sem senda kveðjur sínar og fjölskyldna sinna;

frá Sjöfn Hjálmarsdóttur og Sigurjóni Arnlaugssyni sem eru á Flórída;

frá Egilínu Guðmundsdóttur, æskuvinkonu, sem nú býr í Stykkishólmi og komst ekki vegna lasleika;

frá samstarfsfólki á Landakoti og

frá samstarfsfólki á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja en í kveðjunni segir:

„Minning um yndislega konu lifir í hjörtum okkar, því okkur þótti óskaplega vænt um hana, hún snerti okkur öll á einn eða annan hátt.“

Tilkynningar:

Bálför – ekki hefðbundin líkfylgd.

Signt yfir í forkirkju.

Standandi erfi í safnaðarheimilinu.

Ræðan birt á ornbardur.com

Postulleg blessun:

Guð vonarinnar . . .

Helga Þóra Th sálmaskrá ný

Ritningarlestrar:

Sálmur 130

1Helgigönguljóð.
Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.
3Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?
4En hjá þér er fyrirgefning
svo að menn óttist þig.
5Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.
6Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.
7Ó, Ísrael, bíð þú Drottins
því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.
8Hann mun leysa Ísrael
frá öllum misgjörðum hans.

Jóhannes 14.1-6

1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.