Minningarorð
Ólafur Kristófer Guðmundsson
1960-2014
framkvæmdastjóri hjá Ölgerðinni
Lindasmára 4, Kópavogi
Útför frá Hallgrímskirkju föstudaginn 21. febrúar 2014 kl. 13
Þú getur hlustað á og lesið ræðuna hér fyrir neðan. Einhver innskot kunna að vera á hljóðupptökunni sem ekki eru í textanum. Sálmaskráin með myndum er neðst.
Friður Guðs sé með okkur.
Ef þið munduð strekkja stóran borða utan á Ölgerðina og setja á hann lýsingu á Óla, hvaða orð munduð þið láta standa þar? Þessa spurningu lagði ég fyrir fólkið hans og svarið lét ekki á sér standa. Hann Óli var FJÖLSKYLDUMAÐUR.
Fólkið hans var í fyrirrúmi alla tíð. Hann elskaði konu sína og börn, tengdabörn og barnabörn, systkini sín og frænfólk og fólk almennt talað. Hann fékk að reyna það á eigin skinni hvað fjölskyldan er mikilvæg þegar hann var drengur. Mamma hans veiktist er hann var 6 ára og var á spítala þar til hún dó en þá var Óli 12 ára og pabba missti hann 18 ára. Þetta voru erfiðir tímar og hann mundi þegar hann var einn með pabba enda langyngstur systkina sinna og þau farin að heiman fyrir löngu. Pabbi var einnig með skerta heilsu frá því löngu áður þegar elstu systkinin voru ung. Heimsóknir með pabba á sjúkrahúsið voru daglegt brauð og svo fór Óli oft einn með strætó til að heimsækja mömmu og varð að manna sig upp í að hringja bjöllunni á réttri stoppistöðu til að fara úr vagninum og ganga inn í stóra húsið þar sem mamma lá. Vonin bjó í brjósti hans um að hún næði heilsu og kæmi heim en sú von brást. Það bregðast margar vonir í lífinu. En þegar hann var orðinn stór og búinn að stofna sína eigin fjölskyldu þá vissi hann að hver dagur var gjöf og aldrei að vita hvenær kallið kæmi. Og nú hefur fjölskyldan hans Óla orðið fyrir þeim harmi að missa hann svo óvænt og óskiljanlega á besta aldri – 53 ára gamlan. Þetta er ekki réttlátt, þetta er óréttlátt, segjum við reið og sár í gegnum sorgartárin. En því er til að svara að lífið hefur hvorki lofað okkur langlífi né lausn undan þjáningum og sjúkdómum. Lífið er óvissuferð og mestu skiptir að njóta ferðarinnar hvern dag, hvers áfanga og muna að fjölskyldan er það dýrmætasta sem við eigum í lífinu.
Hann hét Ólafur Kristófer og skrifaði sig oft Ólaf Kr. sem var í senn stytting á nafninu og vísum í hið eina sanna KR í Vesturbænum. Hann fæddist í Reykjavík 21. apríl 1960.
Foreldrar hans voru Kristín Davíðsdóttir, f. 29.3. 1916, d. 7.4. 1972, og Guðmundur Pétur Ólafsson, f. 3.10. 1911, d. 23.7. 1979. Ólafur var yngstur fimm systkina:
Davíð Kristján, f. 20.12. 1938, d. 20.9. 2009.
Björgólfur, f. 2.1. 1941.
Sigríður, f. 28.9. 1945 og
Björg, f. 1.10. 1949.
Þau voru alla tíð samheldin systkinin og héldu vel utan um Óla eftir að foreldrar þeirra létust. Óli ólst upp í Vesturbænum og lauk grunnskólaprófi frá Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Hann horfði á skipin sigla um sundin blá og tók stefnuna á sjómennskuna og fór í Stýrimannaskólann og útskrifaðist þaðan árið 1983. Eftir það var hann á millilandaskipum sem háseti og stýrimaður, fyrst hjá skipadeild Sambandsins og síðar hjá Hafskip. Hann hætti sjómennsku árið 1986 en þá hafði ástin komið inn í líf hans. Hann kynntist yndislegri konu úr Vestmannaeyjum 1984. Hún heitir Guðný, f. 2.3. 1963, dóttir Guðlaugar Einarsdóttur, f. 1939 og Helga Guðnasonar, f. 1937. Svo komu börnin, fyrstu tvö, hvort á sínu árinu og það þriðja síðar.
Börn Ólafs og Guðnýjar eru:
Guðmundur Pétur, f. 10.5. 1985, sambýliskona hans er Bjarney Anna Bjarnadóttir, f. 1984, dóttir þeirra Emma Guðný, f. 2013.
Rakel Ýr, f. 3.12. 1986, sambýlismaður hennar er Lloyd Hans McFetridge, f. 1980, sonur þeirra Hinrik Pétur, f. 2011.
Yngst systkinanna er Helga Kristín, f. 10.1. 1994.
Árið 1987 urðu skil í lífi hans en þá fór hann í áfengismeðferð. Hann hafði verið góður félagi á sjónum og duglegur til allra verka og tók þátt í ævintýrum með strákunum eins og gengur en þegar hann drakk þá varð hann oft reiður og æstur enda hafði lífið verið honum nokkuð mótdrægt í æsku. Hann var bitur og sár yfir hlutskipti sínu en það breyttist allt í kjölfar meðferðarinnar og úrvinnslu hans á atvikum lífsins og svo var Guðný honum einstök eiginkona, stoð og stytta.
[Innskot um meðferðarúrræði á Íslandi]
Þegar hann kom í land sneri sér að verslunarstörfum, vann fyrst hjá Nýjabæ/Hagkaupum á Seltjarnarnesi. Árið 1988 réð hann sig sem sölumann hjá heildversluninni Daníel Ólafsson eða Danól, sem síðar sameinaðist Ölgerðinni þar sem hann starfaði síðastliðin 26 ár, síðast sem meðeigandi og einn af framkvæmdastjórum félagsins.
Hann fór víða um land sem sölumaður og þegar hann kom í bæi og þorp úti á landi þá var það hans fyrsta verk að kaupa staðarblaðið og lesa það upp til agna. Þá var hann orðinn vel undirbúinn fyrir verk dagsins. Hann ræddi við kallana og kellingarnar í búðunum og vissi allt um lífið í bænum og þeim fannst hann vera þeirra maður og þau eiga í honum hvert bein. Hann hafði mjög góða hæfileika til að tengjast fólki og halda uppi samræðum. Ef Óli hitti tvo þá þekkti hann þrjá, heyrði ég sagt um hann. Oft kom hann heim með hrúgur af vettlingum og húfum sem búðarkonur vítt og breitt um landið gáfu honum á ferðum hans sem vildu gleðja þenna góða sölumann og börnin hans.
Hann var stríðinn og uppátækjasamur og lék sér stundum að því að vera á öndverðri skoðun við fólk bara til að æsa mannskapinn dálítið upp. Margir fengu að kenna á símaati sem hann beitt stundum í galsa og gríni.
Hann hafði sterkar skoðanir á ýmsum málu. Hann var t.d. ekki yfir sig hrifinn af sérkeyptum bílnúmerum en sagðist þó alveg vita hvað hann mundi setja á sinn bíl ef hann fengi sér eitt slík. Hann mundi setja á það DANÓLI. Hann var danól-maður í gegn og ef hann hitti vini sína í kjörbúð þá átti hann það til að tína upp úr körfunni vörur keppinautanna og segja: Nei, þú kaupi ekki þetta!
Hann gaf sig ætíð að fólki og þegar hann gekk um ganga og sali Ölgerðarinnar þá tók hann starfsmenn tali og spurði um hagi þeirra, börnin þeirra, fjölskylduna. Þannig var hann, áhugasmur um málefni annarra, góður yfirmaður og vinur vina sinna.
Guðný talar um hann sem klettinn sinn. Hann var vakinn og sofinn yfir velferð hennar og barnanna. Heimili þeirra er í Kópavogi og þar ólust börnin upp og tóku þátt í íþróttum eins og vera ber og Óli varð mikill stuðningsmaður Blikanna enda þótt KR-hjartað tæki aldrei nein feilslög. Hann var umsjónarmaður fótboltaliða barnanna en meðan þau voru á mestu gelgjunni vildu þau helst ekki sjá pabba öskrandi á hliðarlínunni og mátti hann helst ekki koma á leiki hjá þeim. En núna er þetta allt í sjóði mininganna um stórkostlegan pabba sem elskaði þau.
Hann vildi jafnan hafa allt í röð og reglu, borða á réttum tímum og svo vildi hann alltaf hafa einhvern hjá sér heima. Kannski var það vegna bernskunnar. Ef Guðný fór í saumaklúbb bauð hann sjálfum sér í heimsókn hjá börnunum til að vera ekki einn. Fyrstu hjúskaparárin þeirra gekk hann aldrei með lykil. Hann vissi að Guðný væri heima með börnin.
Hann kom gjarnan með prufur heim úr vinnunni og leyfði þeim að smakka, og jafnvel líka hundamatinn og svo þorði varla nokkur maður í ættinni að kaupa annað en Pepsi og Kristal því annað val var svik við Óla og hans meiningar sem ætíð voru sterkar.
Hann fór oft í ferðalög með fjölskyldunni en ætlaði þó aldrei að fá sér tjaldvagn, hjólhýsi, hvað þá hund. Hann varð að gleypa það allt ofan í sig. Óli var ör og virkur alla tíð en róaðist með aldrinum.
Börnin hans fóru í Vatanskóg og Vindáshlíð í sumarbúðir KFUM&K og lærðu þar margt gott um Guð og heim og eitt sinn fóru hann og sonurinn á feðgahelgi í Vatnaskógi. Hann var ræktarsamur við minningu foreldra sinna, fór með fjölskyldunni að gröf þeirra á afmælisdögum og um hátíðir.
Þegar hann varð fimmtugur hélt fjölskyldan honum veislu í Golfskála Odds sem tókst með miklum ágætum en aldrei fór Óli í golf. Hann taldi það of mikinn tímaþjóf fyrir fjölskyldumann.
Heima fyrir var hann lítið að boða sína edrúmennsku eða gefa börnunum fyrirmæli um þeirra líf. Þau máttu lifa sínu lífi og hafa gert það og komist vel af.
Hann ræktaði vel sambandið við systkin sín og auðvelt er að skynja samheldni þeirra og elsku til hvers annars. Það er aðdáunarvert og kom einkar vel fram í gær þegar hann var kistulagður. Þar var ein stór fjölskylda sem grét góðan mann.
Þegar börnin voru í útlöndum sem skiptnemar eða við nám fóru Guðný og hann í heimsókn. Börnin fundu hvað þau þroskuðust við það að fara að heiman og hafa ekki mömmu og pabba í næsta herbergi og þurfa að skiptast á bréfum og tölvupósti. En það var samt hring í pabba ef rafmagnið fór af í útlöndum. Þau fundu þau hvað pabbi bar mikla umhyggju fyrir þeim. Hann talaði gjarnan við vini barna sinna og þau fundu hvað hann hafði mikinn áhuga á lífi þeirra.
Guðnýju og Óla hlakkaði til að vera tvö ein, ferðast og njóta daganna og ætluðu til Spánar í vor, búin að panta ferðina. En svo gerðist það sem breytir öllu. Ólafur varð bráðkvaddur heima. Hann hafði komið heim fimmtudaginn 13. febrúar með brjóstsviða, var þreyttur og ætlaði að leggja sig. Guðný dreif sig í ræktina en kom svo að honum látnum þegar hún sneri til baka. Það var erfið reynsla og sár. Hvernig dettur nokkrum manni í huga að síkvikur og vinnusamur maður á besta aldri sé burtkallaður í blóma lífsins? En þannig er það nú með dauðann. Hann kemur stundum óvænt eins og segir í versinu um blómið:
á snöggu augabragði
af skorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði –
líf mannlegt endar skjótt.
Lífið er óvissuferð. Kim Larsen, sem Óli hélt mikið uppá, söng um De smukke unge mennsker, um börnin sem fljúga burt eins og fuglar. Börnin hans Óla eru orðin stór og þeirra bíður að stofna fjölskyldu og verða ný eining í ættar- og lífssögu. Lífið heldur áfram með sínum skyldum, fjöl-skyldum. Orðið fjölskylda minnir á að við erum aldrei ein, enginn er eyland. Við tilheyrum fólkinu okkar og höfum skyldur við það.
Kristin trú starfar í þessum fjölskylduanda. Hún er ekki flókið safn kenninga, boð og bönn, reglur og fyrirmæli, heldur snýst hún um það sem fjölskyldur fást við, að elska og þjóna. Jólasagan er saga fjölskyldu og umhyggju. Saga Jesú þegar hann var orðinn fullorðinn er saga manns sem átti sína uppruna fjölskyldu og marga góða vini. Hann lifði fyrir fókið sitt, vini sína og dó fyrir þá. En dauðinn átti ekki síðasta orðið yfir honum. Og dauðinn mun ekki heldur eiga síðasta orðið yfir Ólafi Kristófer Guðmundssyni. Millinafnið hans, Kirstófer, er fornt. Einn karl á Snæfellsnesi bar það í manntalinu 1703. Ættir Óla koma úr Flatey, Hellisandi og Patreksfirði og svæðinu þar um kring. Nafnið er komið úr grísku Kristóphoros og merkir „sá sem ber Krist“ eða ber honum vitni. Nafnið Ólafur er fornnorrænt og merkir í senn „forfaðir“ og „afkomandi“ og vísar þar með til þess að vera hlekkur í keðju ættar og fjölskyldu. Við erum öll hlekkir í keðju kynslóðanna og flest erum við helguð Kristi í heilagri skírn, merkt honum, frátekin handa honum og vígð himni hans og eilífðinni sjálfri. Það er gott að rækta með sér þá von og trú að lífið sé allt í einu stóru samhengi.
Við tilheyrum fjölskyldu Guðs á jörðu. Guð er í senn sem besti faðir og móðir og Jesús, hver er hann, hann er „Jesú bróðir besti“. Við tilheyrum fjölskyldu hans í lífi og dauða. Sú er von okkar og huggun á þessari sorgarstundu sem þó er ekki bara sorgarstund heldur um leið þakkarhátíð fyrir góðan dreng og skemmtilegan, duglegan og vandaðan sem við kveðjum með virðingu og þökk.
Blessuð sé minning Ólafs Kirstófers Guðmundssonar og Guð blessi fjölskyldu hans og vini og okkur öll sem enn erum á lífsveginum. Verum glöð í voninni, eins og postulinn sagði og þolinmóð í andstreymi lífsins. Lífið heldur áfram og það er og verður í hendi Guðs því við erum fjölskyldan hans.
Amen.
Ég flyt ykkur sérstakar kveðjur frá fjarstöddum vinum:
frá Ólöfu Októsdóttur og Einari Kristinssyni, fyrrverandi eigendum Danól og Ölgerðarinnar, með innilegri þökk til Óla fyrir frábært samstarf og vinskap alla tíð, en þau eru í útlöndum;
frá Ásgeiri Magnússyni samstarfsfélaga og fjölskyldu hans sem stödd er erlendis með kærri þökk til Óla fyrir 24 ára samstarf og vinskap hjá Danól og Ölgerðinni og innilegar samúðar kveðjur til fjölskyldunnar allrar með ósk um að hin hæsti vaki yfir ykkur öllum;
einig frá Pete Schyma tengiliði hjá Burtons fyrirtækinu sem segir: kæra fjölskylda innilegar samúðarkveðjur, ég mun sakna Ólafs og minnast hans sem góðs félaga og samstarfsmanns síðustu árin;
frá Andra Steini Guðjónssyni, frænda hans, sem er í Kaupmannahöfn;
og loks frá frá Guðrúnu Eyjólfsdóttur, frænku Óla og Snjólfi Ólafssyni manni hennar og fjölskyldu þeirra sem eru stödd á Ítalíu.
Tilkynningar:
Líkfylgd – jarðsett í Kópavogskirkjugarði.
Erfi á Hotel Nordica.
Ræðan birt á ornbardur.com
Postulleg kveðja:
Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.