Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Vinur minn Þorsteinn Haraldsson, sem lést 1. nóvember s.l., hefði orðið 75 ára í dag, 2. desember 2024.

Viltu lesa og/eða hlusta? Smelltu þá á spila hér fyrir neðan:

Árið 1969 vorum við nýútskrifaðir úr Verzlunarskóla Íslands og ætluðum að halda uppá tvítugsafmælið hans um kvöldið. Það gekk eftir en fyrr um daginn fæddist fyrsta barn mitt og Ragnheiðar Jónasdóttur, Hrafnhildur Arnardóttir, nú myndlistarkona sem kallar sig Shoplifter. Ég heimsótti móður og barn fyrr um daginn og svo áttum við vinirnir saman gott kvöld að hætti tvítugra sveina.

En nú er annar tími í veröldinni og mörg ár liðin af viðburðaríkri ævi okkar beggja.

Haustbirta á Patreksfirði (ÖBJ 4.11.24 kl. 11)

15. október 2024:

Ég fer í heimsókn austur í Hest þar sem Lára og Þorsteinn eru flestum stundum í fögru heilsárshúsi.

Haustið hefur tekið við af kaldasta sumri í manna minnum.

Í Hesti er kyrrt og fagurt, gróðurinn tekinn að búa sig undir kaldari tíð.

Þorsteinn glímir enn við veikindi sín af fádæma hugrekki og æðruleysi. Enginn vissi hve lengi stríðið mundi standa en hann átti þá eftir 17 daga í heimi tímans.

Rjúpnahópur ropar við hvítstofna bjarkir með gulnuðu laufi í kyrru haustveðri og örfáum plúsgráðum.

Hefðin segir að ropandi rjúpur viti á vætutíð. Sú þjóðtrú gekk eftir.

Þá skutust þessir þankar á skjá:

Rjúpan drjúgum ropar,

á regn það veit,

svalast sumra hopar,

í hverri sveit.

Hvernig viðr’í vetur,

veit enginn mann,

kunna kann það betur

kóng’í himnarann.

Í Hesti hart er barizt,

helgi beitt og töflum,

krankleik og krabba varizt,

kærleikans með öflum.

Himinsboð og bænir,

besta svíun veita.

Hans nú vitjar Hænir

himna, meður sveita*.

Nú er mánuður liðinn frá andláti vinar míns og ég bíð enn eftir símtali kl. 9:30 að morgni – eða ætla sjálfur að fara að hringja – en þá man ég að hann Steini minn er farinn og gistir nú handanveruna sem taka mun á móti okkur öllum í fyllingu tímans.

*Hænir er konungsnafn úr norrænni goðafræði en hér notað um hinn Kristna Guð, Hæni himna, sem kemur meður eða með sínum hersveitum.

Kveður rjúpa, kólnar sær,
komið haust.
Fagur fugl, vinur kær,
finnur naust.
(ÖBJ 27.11.24)

Guð geymi vin minn, Þorstein Haraldsson, og blessi og leiði fólkið hans sem enn gistir þessa tilvist tímans.

Hér er tengill á líkræðu mína yfir Þorsteini sem flutt var í Neskirkju 11.11.24. Þú getur bæði lesið og hlustað:

+Þorsteinn Haraldsson 1949-2024

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons