Messa sunnudagsins í Neskirkju í dag, 6. október, var tileinkuð gróðri jarðar og gjöfum Guðs og auglýst sem Grósku- og uppskerumessa og stóð vel undir nafni hvað það varðar.
Steingrímur Þórhallsson, organisti, er mikill ræktunarmaður og sinnir þeirri iðju í tveim vogum, öðrum kenndum við kópa en hinum seli. Já, hann er selvænn maður, norðlenskur að uppruna og á ítalska konu, Pamelu deSensi, flautuleikara og tónlistarkennara. Þau lögðu til efni í máltíðina, súpu og pastarétt, sem sóknarbörnum var boðið til eftir messu.
Messan minnti mig á hefð sem ég kynntist í Noregi. Ég bjó á tveim stöðum og í báðum tilfellum í landbúnaðarhéraði og þar snerist lífið um gróanda og gjafir jarðar. Høsttakkefest heitir messudagurinn þar þegar afurðirnar eru færðar inn í kirkjuna og Guði færðar þakkir.
Við lifum af ávexti jarðar eða eins og skáldið minnir okkur á í Passíusálmum sínum (1:11.v.):
Þurfamaður ert þú, mín sál,
þiggur af drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt.
Fyrir það honum þakka skalt.
Í þessu sambandi má minna á frábært ritverk eftir norska Nóbelsskáldið, Knut Hamsun, Gróður jarðar, sem lýsir lífi manns sem kemur að skógivöxnu landi, þýfðu og grýttu, rýmir það og ryður, brýtur undir sig og yrkir með blóði, svita og tárum. Magnað verk!

Grænkal í vasa og kertaljósbirta, Biblían – allt í geislum sólar
Á undan messunni var örþing og þar ræddu þau, séra Halldór Reynisson og Guðbjörg Gissurardóttir, umhverfismál.
Guðbjörg er framkvæmdastýra Í boði náttúrunnar og nefndi innlegg sitt, Á grænni vegferð í lífi og starfi. Halldór hefur unnið á sviði umhverfismála á vegum Þjóðkirkjunnar undanfarin ár og nefndi innlegg sitt: Loftslagsváin, er 68 kynslóðin að gera eitthvað?
Sum okkar, sem á hlýddu, erum einmitt af þeirri kynslóð og gott var að vekja okkur til umhugsunar um verk okkar og framlag til umhverfismála og ábyrgð. Hann ræddi og matvæli, fæðuskort, framræsingu mýrlendis og sagði m.a. að ríkasta eitt prósent mannkyns hefði skilið eftir sig dýpsta kolefnissporið. Það er skelfilegt að heyra. Þá ræddi hann bók eftir Bill Gates, How to Avoid a Climate Disaster og kom víða við í sínu athyglisverða spjalli.
Þá steig Guðbjörg á stokk. Hún lærði myndlist og grafíska hönnun hér heima og í New York og sagði frá útvarpsþáttum, sem hún gerði ásamt manni sínum fyrir nokkrum árum og gekk í þrjú sumur á RÚV. Hún ræddi sjálfbærni, matjurtarækt, flokkun sorps og sýndi tímarit, sem hún hefur gefið út um umhverfis- og loftslagsmál, Lifum betur – eitt blað í einu. Þá sagði hún frá ömmu sinni sem var nýtin og skynsöm í matargerð og meðferð hráefnis og afganga. Guðbjörg hefur gefið út matreiðslubók.

ekki passamyndir af ræðumönnum!
Þakkir flyt ég hér fyrir vekjandi spjall þeirra beggja, sem leiddi okkur inn í helgidóminn, til messunnar, þar sem grænkálsbrúskar fylltu blómavasa á altarinu og við kórþrep var borð, hlaðið gjöfum jarðar. Söfnuðinum gafst tækifæri til að bæta á borðið, en þau skilaboð hafa líklega ekki skilað sér, nema til einnar konu, sem gekk fram og lagði sinn skerf á borðið. Minnti ögn á þekkta frásögn í Nýja testamentinu um dreng nokkurn, nafnlausan en heimsfrægan!
Í messunni leiddi Steingrímur kór sinn í flutningi söngs. Val sálma speglaði vel þema messunnar. Séra Adda Steina fór ásamt leiðtogum með börnin fram í barnastarfið í byrjun messu, en séra Skúli sá um þjónustuna í kirkjuskipinu. Þegar að prédikun kom fór hann að vanda á kostum og ræddi umhverfismálin í víðu samhengi eða öllu heldur hinu stærsta! Ræðuna er hægt að lesa hér:
http://tru.is/kirkjan/tru.is/grein/?itemid=2d784f16-ea83-ef11-9bba-005056bc238c
Góður var þessi morgunn í Neskirkju og kirkjusókn prýðileg.
Organistinn
Í liðinni viku, þ.e. s.l. miðvikudag, lék Steingrímur verk eftir Bach og sagði frá þeim. Hann lék fimum fingrum – og fótum jafnfimum – og á rauðum skóm!
Hann mun flytja fleiri verk næstu miðvikudaga í hádegi. Fylgist með Neskirkju á Fébókinni.

Steingrimur lék Bach með tilþrifum s.l. miðvikudag og mun halda áfram næstu vikur í hádeginu í miðri viku
You must be logged in to post a comment.