Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art ,

Dauðinn er endalok – en ekki endirinn

Viltu lesa? Textinn er hér fyrir neðan.

Viltu hlusta og lesa um leið? Hljóðupptakan er fyrir neðan myndina:

Mynd fengin að láni á Veraldarvefnum.

Dauðinn er endalok – en ekki endirinn

Við deyjum öll – líkami okkar mætir mærum sínum. En von kristinnar trúar er sú að dauðinn sé ekki endirinn. Handan jarðneskrar reynslu okkar er líf!

Í textum Biblíunnar er okkur boðuð vissan um þetta.

Þegar Jesús hitti Maríu eftir dauða Lasarusar fullvissar Jesús hana og segir:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ (sjá nánar hér: Jóhannes 11:17-27).

Og síðar, í frásögn Jóhannesar af síðustu kvöldmáltíðinni, segir Jesús við lærisveina sína:

„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4 Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5 Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6 Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. 7 Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann“ (Jóhannes 14:1-7).

Kristin trú boðar þann vitnisburð sjónarvotta, sem vitnað er til í Nýja testamentinu, að líkamlegur dauði opni leið til nýs lífs í návist Guðs. Við getum treyst á sögu sem er stærri og meiri, því Jesús hefur gengið í gegnum hana á undan okkur.

Dauði og upprisa Krists

Guðspjöllin fjögur í Nýja testamentinu eru öll með það á tæru að Jesús hafi raunverulega dáið. Hann dó líkamlegum dauða og eftir það var lík hans lagt í innsiglaða steingröf. Og öll fjögur guðspjöllin segja frá upprisu hans, fyrsta vitnið var María Magdalena, síðan lærisveinar hans. Með upprisu Krists var máttur dauðans sigraður og fyrir trú erum við viss um að við munum líka taka þátt í upprisulífi Krists (Rómverjabréfið 5:12-22). Við munum vera með honum í húsi föðurins. [sjá nánar neðanmáls]

Þjáning er hluti af lífinu

Í 1. Mósebók höfum við mynd af heimi sem skapaður er góður, án þjáningar eða sársauka, en við lifum núna í heimi þar sem þjáning er hluti af lífinu. Kristnir menn eru ekki undanþegnir – eins og allir aðrir erum við háð hörmungum, sjúkdómum og dauða. Páll talar um að líkami okkar sé eins og leirkrúsir eða jarðneskar tjaldbúðir (2. Korintubréf 4. og 5. kafli). Í senn erum við viðkvæm og ekki varanleg. Hvernig ættum við að bregðast við þegar við þjáumst af sjúkdómum eða sorg? Við getum einbeitt okkur að þjáningunni, leyft okkur að sigrast á sársauka hennar og örvæntingu.

En kristin trú kallar okkur til að líta upp, horfa til Jesú (Hebreabréfið 12:2,3), til hinnar eilífu vonar, sem bíður okkar, og missa ekki móðinn (2. Korintubréf 4:16-18). Ekkert getur aðskilið okkur frá kærleika Guðs (Rómverjabréfið 8:31-39), ekki einu sinni sársauki sorgar og missis. Guð er með okkur, elskar okkur, gengur með okkur í miðri þjáningunni (Davíðssálmur 22 og 23).

Vonin um nýjan himin og jörð

Sýn Jóhannesar í Opinberunarbókinni vísar okkur í átt að nýjum himni og nýrri jörð Guðs, þar sem dauði og sorg, grátur og sársauki verða ekki framar til (Opinberunarbókin 21:1-4). Ringulreið, sorg og jafnvel reiði, sem við finnum fyrir í sorginni, verða ekki hluti af nýju lífi okkar í himneskri návist Guðs.

Mitt í sorginni getur okkur liðið eins og við séum komin aftur að krossinum, samt sem áður gefur kristin trú okkur von og fullvissu um að þetta sé ekki endirinn. Fyrir milligöngu Jesú lofar Guð okkur lífi umfram jarðneska reynslu.

—–

Móðir horfir úr glugga á efstu hæð t.v. – út í kirkjugarð,
að leiði sonar og annarra ástvina.
Vatnslitamynd af bernskuheimili mínu á Ísafirði, máluð 2023.

Viðbót þýðanda:

Hér er texti úr bréfi Páls postula til trúsystkina hans í Róm sem hann skrifaði á leið sinni til Rómar „veturinn 57-58“, rúmum 20 árum eftir krossfestingu og upprisu Krists. Páll hét áður Sál og ofsótti fylgjendur Jesú, en snerist svo hugur. Hann segir þetta um þjáningar og dauða:

Kærleikur Guðs í Kristi Jesú

31 Hvað eigum við þá að segja við þessu? Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35 Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists?[ Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 36 Það er eins og ritað er:

Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn og við metin sem sláturfé.


37 Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38 Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39 hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Túlkun þess að Kristur hafi yfirgefið gröf sína og birzt fólki.
Mynd af Veraldarvefnum.

Greinina fann ég og þýddi eftir að haf lesið hana á vef Church of England, Ensku biskupakirkjunnar. Ég lengdi suma tilvitnaða texta úr Biblíunni sem sóttir voru á vef Biblíufélagsins, biblian.is

– – – –

Tengill á ensku greinina: https://www.churchofengland.org/christian-thinking-grief-bereavement-and-loss

Tilvísun í ártöl um Pál og Rómverjabréfið er úr skýringartexta framan við bréfið í aldamótaútgáfu Biblíunnar frá HÍB og JPV útgáfu.

Rómverjabréfið 5.12-22 (tilvísunin í enska textanum í greininni er í Róm 15.12-22 sem stenst ekki heldur hlýtur það að vera 5.12-22 en þar segir:

Adam og Kristur

12 Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir. 13 Víst var syndin í heiminum áður en lögmálið kom til en synd verður ekki metin til sektar ef ekkert er lögmál. 14 Samt ríkti dauðinn frá Adam til Móse, einnig yfir þeim sem höfðu ekki syndgað á sömu lund og Adam en hann er fyrirmyndan Krists sem koma átti.
15 En náðargjöf Guðs og falli Adams verður ekki jafnað saman. Einn maður féll og við það dóu allir, en einn maður, Jesús Kristur, er sú náðargjöf Guðs sem allir skulu njóta ómælt. 16 Og ekki verður þeirri gjöf jafnað til þess sem leiddi af synd hins eina manns. Því að dómurinn vegna þess sem hinn eini hafði gert varð sektardómur yfir öllum en náðargjöfin er sýknudómur handa öllum sem brutu. 17 Ef misgjörð hins eina manns leiddi til þess að dauðinn tók völd með þeim eina manni, hve miklu fremur munu nú þeir sem þiggja hina ómælanlegu gjöf náðar og sýknunar fá líf og ríki vegna hins eina, Jesú Krists. 
18 Allir urðu sekir vegna afbrots eins. Svo verða allir sýknir og öðlast líf sakir þess fullkomna verks sem einn vann. 19 Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina. 
20 Hér við bættist svo lögmálið til þess að afbrotin yrðu sýnilegri. En að sama skapi sem syndin óx varð náðin ríkulegri. 21 Eins og syndin ríkti með dauðanum á náðin að ríkja með réttlætinu og leiða til eilífs lífs í Jesú Kristi, Drottni vorum.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons
,