Grein um samtímann
Örn Bárður Jónsson
Hér er hljóðskrá ef þú vilt hlusta á upplestur höfundar sem tekur sextán og hálfa mínútu.
Að sjóða frosk
Maður nokkur ætlaði að elda frosk sem hann hafði keypt lifandi og setti hann út í heitt vatn, en froskurinn stökk uppúr pottinum og kom sér undan. Í annarri tilraun setti hann froskinn í ylvolgt vatn og hitað upp, a-f-a-r-h-æ-g-t. Og viti menn! Froskurinn uggði ekki að sér!
Þessi saga kemur upp í huga mér þegar ég rýni í samtímann.

Mótmælanna vegna
Hugmyndir kenndar við MeToo (ÉgLíka) og Woke (Vakandi), fara mikinn í heiminum um þessar mundir. MeToo byltingin hefur vakið okkur til vitundar um kynferðislega misbeitingu og er það vel. Orðið Woke er komið úr ensku og vísar til þess að “vera vakandi fyrir kynþáttamisrétti og mismunun” af hvaða tagi sem er. Við eigum að gæta hvert annars.
Hins vegar, þegar fólk hefur fátt annað við að fást en að hóta öðrum með vísifingurinn á lofti í tíma og ótíma, oft í ímynduðum og misskildum mannkærleika, þá hugsa ég: Hvernig væri að þau skoðuðu hönd sína sem bendir með vísifingri og veiti því athygli að þrír fingur vísa að brjósti þess er bendir?

Rétturinn til að mótmæla er mikilvægur og tjáningarfrelsið einnig. Sjálfur hef ég staðið á torgum og mótmælt órétti, haldið ræður þar og einnig af prédikunarstóli. Við eigum að standa gegn mismunun og hver kyns ofbeldi en í viðleitni okkar til að rétta hlut fólks megum við ekki valda öðrum órétti í leiðinni. Þá er nú til lítils unnið. Mikilvægt er einnig að veita stjórnvöldum aðhald þegar þau fara á svig við helg gildi eins og sannleika og réttlæti, miskunn og trúfesti – en lokaorðið í þessari setningu merkir hvorki trúarofstæki né ofsatrú af neinu tagi, heldur felur það í sér trúnað við það sem er heilagt.
Hægelduð samtíð
Alnetið og tæknin, sem það byggir á, er dásamlegt fyrirbrigði, en getur líka leikið okkur grátt. Höggormur kemur ætíð inn í hverja Paradís og brenglar hið góða. Um það snýst sagan fræga í Biblíunni sem enn útskýrir vanda samtímans betur en flest annað.
Fólk flykkist út á götur og torg til að mótmæla og svo lætur það gamminn geysa á samfélagsmiðlum. Þeir miðlar bera þess því miður oft vott, að vera speglar sjálfhverfrar kynslóðar, sem er einkum upptekin af að rýna í eigin nafla.
Margir mótmælendur sækja fram af innri þrá og kærleika, en einn helsti dragbítur kærleikans er að honum hættir svo við meðvirkni og þá verður engin framför, engin lækning, og elskan snýst að lokum upp í andhverfu sína.
Samfélagsmiðlar hafa mikið vald yfir þeim er þar dvelja langdvölum. Áhrif auglýsinga og áróðurs eru sem flóðbylgja. Það þarf gott og þungt akkeri til að standast allan þennan flaum og láta sig ekki fljóta sofandi að feigðarósi. Þetta er ekki í fyrsta sinn í sögunni sem ein eða önnur hugmyndafræði hægeldar fólk eins og froska.
Skoðum nokkrar stefnur sem eru misróttækar. Sumar eru stórhættulegar, meðan aðrar eru mildari en samt eins og sýking sem getur valdið alvarlegum sjúkdómi og dauða ef engum vörnum er beitt.
Fasismi
Bertrand Russel, (1872-1970) var breskur heimspekingur, rök- og stærðfræðingur, sagnfræðingur, rithöfundur, þjóðfélagsgagnrýnandi, pólitískur aktivisti og Nóbelsverðlaunahafi. Hvað viltu meira? Hann hafði þetta að segja er hann var spurður um aðferðafræði fasismans:
“Fyrst heilla þeir hálfvitana og setja svo múl á menntamenn.”

Marserandi fasisminn á Ítalíu á liðinni öld
og mest gekk svo á í Þýskalandi Hitlers.
Stutt er síðan fasisminn brýndi klærnar í Evrópu og setti álfuna alla á annan endann, myrti fólk í hrönnum og beitti markvissri hugmyndafræði og aðferð til að útrýmt Gyðingum.
Sósíalismi
Antonio Francesco Gramsci, (1891-1937) var Ítali, marxískur heimspekingur, málfræðingur, blaðamaður, rithöfundur og stjórnmálamaður. Hann hafði þetta að segja um sinn eigin átrúnað:
“Sósíalismi er einmitt sú trú sem verður að yfirgnæfa kristnina … í hinni nýju skipan mun sósíalisminn sigra með því að taka yfir menninguna, fyrst með því að gegnsýra skóla, háskóla, kirkjur og fjölmiðla og breyta þannig vitund samfélagsins.”

Marxismi
Í ljósi skilgreininganna tveggja hér að framan, setti ég saman þessa formúlu um marxismann sem birtist stöðugt í nýjum fötum og með nýjar strípur í hárinu:
„Fyrst gengisfellir Marxisminn hin helgu gildi svo hægeldar hann hin grunnhyggnu og maukar þau.“ (höf.)

Grunnhugmynd marxismans er tvíhyggja, annars vegar er kúgari og hins vegar fórnarlamb. Með gleraugum sínum sér hann ætíð þessa sömu mynd og bendir á hinn vonda og illa sem kúgar hinn góða og varnarlausa. Með þessum gleraugum verður veröldin að vígvelli í stað þess að vera vettvangur fjölbreytni þar sem fólk nýtur frelsis og er hvatt til að sýna frumkvæði og taka eigin mál í sínar hendur, stíga út úr aðstæðum sínum og rísa upp.
Postulinn Páll ritaði Efesusmönnum og sagði m.a.:
Vakna þú sem sefur
og rís upp frá dauðum
og þá mun Kristur lýsa þér.
(Ef 5.14)
Því er haldið fram að marxísk hugmyndafræði, hægelduð í ofnum evrópskra háskóla á liðinni öld, gegnsýri nú háskóla heimsins, einkum hugvísindi og þá alveg sérstaklega félagsvísindi.
Heilu hjarðirnar streyma nú út úr háskólum með masters ritgerðir (nei, þetta er ekki ritvilla, masters þykir fínna en meistari á sveitalegri íslensku). Konur eru þar í meirihluta. Sérhæfingin í háskólunum er orðin svo mikið svona sér og svo firna djúp að þau sem grafa álút eftir fjársjóðum fræða sinnan í skurðum akademíunnar, sjá ekki hvað aðrir grafarar eru að fást við í hinum skurðunum. Og þess vegna verða til skammsýnir fræðingar og rörsýnir ráðgjafar, sem horft hafa niður fyrir sig í skurðbotna um árabil og fylla svo ráðuneyti og arðsugufyrirtæki á markaði græðginnar með fræðum sem eru rýr sem skyndibiti. Munum máltækið: Sér grefur gröf þótt grafi.
Húmanismi
er stefna sem vert er að minna á, því hann er af sumum fræðimönnum skilgreindur sem “kristin villutrú” sem merkir að húmanisminn tekur bestu bitana úr kristninni, en hafnar Guði í Kristi. Ef það mikilvægasta er strikað út úr formúlunni, verður útkoman auðvitað röng og stefnan fær villu í einkunn. Húmanisminn er mannmiðlæg stefna sem trúir á manninn, eins og nafnið gefur til kynna – manninn sem er alls ekki gallalaus eins og við þekkjum öll á eigin skinni.

Kommúnisminn er sama marki brenndur og marxisminn og honun var miskunnarlaust beitt í Sovétríkjunum, sem enduðu með því að tortíma sjálfum sér.
Sósíalisminn er mildari og ekki eins hættulegur, einskonar Winston Light, sem drepur hægar en ekta Camel, eins og smókerinn orðaði það. Margir sósíalistar skilgreina sig kristna og tilheyra kirkjunni, en Gramsci hafði sína framtíðarsýn um að sósíalisminn tæki yfir hlutverk kirkjunnar eins og fram kemur í tilvitnuninni í hann hér að framan.
Fasisminn eins og hann birtist í nazisma Þriðja ríkisins í Þýskalandi, sótti hugmyndafræði sína í heiðni, einkum í norræna goðafræði og tók þaðan hugmyndina um mátt hins sterka og réttinn til að fara með hinn veika eða óæskilega að vild sinni og jafnvel tortíma honum. Nazisminn hafði það að markmiði sínu að þurrka út gyðingdóm – og Nota Bene! – einnig kristna trú.
Rómaríki á sínum tíma, var ekki ólíkt hvað varðar valdbeitingu hins sterka og réttinn til að kúga hinn veika og valdalausa. En kristin trú sigraði Rómaveldi að lokum með mannúðarstefnu sinni og kærleikanum sem sigrar allt.
Stefnur og straumar sem byggja á mannmiðlægri hugsun, hafa margar reynst heiminum dýrkeyptar. Sagan sýnir að veraldleg, mannmiðlæg hugmyndafræði, veldur gjarnan misrétti og oft hreinum hryllingi. Manneskjan er beggja handa járn, hún er syndug, sem merkir að í henni er brotalöm og henni hættir til að geiga og missa marks en orðið synd í Nýja testamentinu er hamartia á grísku sem merkir geigun.
Kapitalisminn er fyrirferðarmikil stefna í samtímanum. Hann heldur á lofti frelsi einstaklingsins til orðs og æðis og er á varðbergi og oft beinlínis alfarið á móti samvinnu og félagslegum lausnum. Frjálshyggjan tókst á loft á Íslandi fyrir um aldarfjórðungi. Ungu upparnir gáfu bensínið í botn eins og ökumenn á sportbíl, meðan eftirlistskerfið var enn á vöggustofu. Bankarnir sem voru í miklu risi fyrir frjálsa fallið, keyptu upp bestu starfsmenn bankaeftilitsins til að lama það og ríkisstjórnin dansaði í kringum gullkálfinn. Esjan var “seld” í smásögu árið 1999 og olli jarðskjálfta í Stjórnarráðinu. Samviskan og syndavitundin var því ekki alveg dofin í kerfinu.
Kollsteypur hafa orðið í sögunni og þær eru ætíð handan við hornið og þeim þarf því að verjast á hverjum tíma með heilbrigðum leiðum sem byggja á traustum grunni.
Við erum öll sama marki brennd og þurfum því hjálp úr handanverunni sjálfri, hjálp Guðs, sem er utan hins skapaða heims, utana sólkerfa og svarthola alheimsins. Einmitt þess vegna fann Gagarín engan Guð í geimnum, því hann er ekki hluti hins skapaða alheims. Hann er utar og ofar. En um leið er hann „yfir og allt um kring“ – er í senn handanverandi og hérverandi, transcendent og immanent og finnst í „brjóstkirkju“ þinni ef þú leitar þar í kyrrð og bæn.
Moð
Án trúar á Guð verða margar stefnur að einhvers konar gutli. Islam t.a.m. á rætur að hluta til í villukenningum frávilltra kristinna manna sem urðu viðskila við kirkjuna á 4. öld og héldu áfram með sitt afbrigði trúar fyrir botni Miðjararhafs og í Litlu-Asíu. Islam er hrærigrautur ólíkra hugmynda og telur sig geta komið guðsríkinu á með handafli og ofbeldi í stað kærleika og frjálsrar hugsunar.
Hygmyndafræði sem fólk aðhyllist og byggir líf sitt á, telst til lífsgrundvallar, sem þar með verður ígildi trúar. Lífssýn einstaklings er hans trú, enda þótt sú trú beinist ekki að Guði. Trúleysi er ein tegund átrúnaðar.

Trú, von og kærleikur
Sagan ber því glöggt vitni að hugsun sú sem myndar gildagrunn vestrænna samfélaga á rætur í kenningum Krists. Vitundin um rætur menningar okkar er að dofna vegna áhrifa dellukenninga sem hafa mengað hugi allt of margra í hinum vestræna heimi. Framtíðin er alls ekki björt, nema þessari þróun verði snúið við, sem slævt hefur fólk og gert það rótlaust og vegvillt. Gleymum því aldrei að Vesturlönd eru alfarið ávöxtur kristninnar.
Páll postuli ritaði fámennum söfnuði kristinna í bréfi sínu til Rómverja.
„Rómverjabréfið er sendibréf, eins konar umburðarbréf sem Páll postuli sendi hinum kristna söfnuði í höfuðborg rómverska ríkisins er hann var á leið þangað veturin 57-58.“ (Biblíans. 2007, s. 187)
Í bréfinu er að finna þessi ráð:
“Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.” (Róm 12.2)

Fylgni, hinna fátæku og valdalausu kristnu, við kærleiksboðskap Krists, sigraði Rómaveldi að lokum og lagði grunninn að Vestrænu lýðræði og mannréttindum. Sú vegferð tók margar aldir og miklar rökræður, þar sem margir komu að og fórnuðu lífi og limum fyrir. Þetta fólk lifði og dó í anda þessara mögnuðu orða Krists:
“Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.” (Matt 7.12)
Forðumst froska heilkennið og látum ekki blekkjast af þessa heims dellumakeríi sem í guðleysi sínu veður reyk og etur moð.
(Teikningar höfundar eru flestar gerðar eftir hugmyndum af Netinu)
You must be logged in to post a comment.